laugardagur, febrúar 28, 2004

Hinn glæsilegi sirkus þar sem má m.a. greina fjöllistakonuna Aljonu munda glösin

Frumsýning í kvöld! Nú kemur loksins í ljós hvort allt streð undanfarinna vikna hafi verið erfiðisins virði. Það eins gott að þið hlæið! Samt frekar með okkur en að okkur. Er núna stödd úti á nesi hjá foreldrunum en er á leið heim áður en haldið er upp í leikhús að sminka liðið (sem ég er einhverra hluta vegna lent í á síðustu stundu.) Er markvisst í því að hlífa hægri fæti sem má ekki við miklu meira en veit samt fyrir víst að þegar ég kem á sviðið gleymast allir verkir (verkir smerkir!) og adrenalínið tekur völdin. Bara ekki óska mér fótbrots - ein tá var alveg nóg.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Varð að ræna þessari mynd af bloggi mágkonunnar:

Mættur vel lesinn í tíma

Sjaldan fellur eplið ...
Alveg er það merkilegt hvað góður nætursvefn getur gert fyrir vellíðan, geðheilsu og afkastagetu heilans. Er ný og og endurbætt manneskja þrátt fyrir leikæfingu dauðans í gær (5 tímar!) Það sem bjargaði miklu var að mestur tíminn fór í skipulagninu á skiptingu en leikritið sjálft (þrátt fyrir smá klikk sem birtast alltaf á elleftu stundu) er farið að renna ansi ljúflega niður. Maður stendur sig skyndilega að því að hlæja aftur að bröndurum sem hættu að vera fyndnir um miðjan janúar. Smink og hárkollur gera allt í einu gæfumuninn upp á lúkkið og fjandans búningarnir eru svo til tilbúnir. Komi þessi frumsýning bara!

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Saltkjötið fór vel í maga og baunirnar voru alveg látnar vera. Skyldum sprengidagsins hefur verið gert skil. Bolludagurinn var líka heiðraður á viðeigandi hátt og tókst mér að torga alls þremur bollum í gær. Ég er afskaplega stolt af sjálfri mér fyrir að fylgju rótgrónum íslenskum hefðum þetta vel. Nú er bara spurning með öskudaginn. Einn starfsmaður á afmæli í dag og bauð vinnufélögunum upp á bakkelsi og meððí í morgun. Var þessu tekið fagnandi og lundin létt þar sem við röðuðum fríum veitingunum í okkur (allt sem er óskeypis bragaðst best.) Í slíkri rúnstykkisvímu varð mér það á að stinga upp á því að við - þessi litla stofnum - skyldum heiðra öskudaginn með því að trítla upp á hæðina fyrir ofan okkur og syngja fyrir starfsmenn þeirrar stofnunar og biðja um nammi. Þóttist ég nú afskaplega fyndin. En ekki nógu fyndin því vel - alltof vel - var tekið í hugmyndinga og fólk byrjaði að leggja drög að því að láta hana gerast. Kannski er það þess vegna sem ég er að vonast eftir flensu. Er tilbúin að fórna öllum leikæfingum sem eftir eru til að forða þá niðurlægingu.

Talandi um - líður nú að frumsýningu. Eins og alltaf er venjan fá aðstandendur sýningarinnar 2 frímiða sem þeir geta notað til að bjóða fólki á frumsýningu (eða einhverja aðra sýningu.) Nú man ég bara ekki hvort ég var búin að lofa einhverju miða á þessa frumsýningu og þarf því að fá að vita eftirfarandi:

1. Er einhver sem telur sig eiga frátekinn miða hjá mér?

2. Hver vill mæta á frumsýningu?

Fyrir þá sem ekki vita er Sirkus átakanlega raunsæisverk um baráttu íslensku þjóðarinnar við að fóta sig í efnahagslífinu í kjölfar sjálfstæðis. Við munum m.a. syngja harmaljóð um rassgatíbalatúkall. Tárin munu flæða.
Bah - leikhúslífið tekur á. Ég er ekki alveg nógu vön svona keyrslu og veit ekki almennilega hvort ég hef rétt á að kvarta eður ei. Vældi soldið á æfingunni í gær út af smámunum og hef vonandi fengið alla þá útrás fyrir þá þörf sem ég hef rétt á. Er núna að spá í hvort ég sé að verða veik - líður óeðlilega tuskulega svona annan hvern dag - en það er sennilega bara þreyta í bland við ótta/óskhyggju. Var með einhver bjartsýnisplön um að fara í sund í hádeginu en það er sennilega ekki mjög gáfulegt í þessu skítakulda sem er úti núna.

Hef grun um að saltkjöt og baunir séu allra meina bót og ætla að skreppa upp núna og sannreyna þá tilgátu.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Talandi um geðveilur. Hið ágætast dæmi um það gekk inn á skrifstofuna rétt fyrir hádegi. Það kom hingað rytjuleg eldri kona og var að leita að Lyfjastofnun: "Fasteignir ríkissjóðs?!" gargaði hún á mig í ásökunartón "þetta á að vera Lyfjastofnun!" Ég íhugaði alvarlega á að biðjast afsökunar á því að vera til. Við fræddum hana á því að Lyfjastofnun hefði flutt fyrir ca. 2 árum upp á Höfða. Hún var nú ekki alveg að kaupa það vegna þessa að Lyfjastofnun hafði verið í þessu húsi og allir flutningar augljóslega persónuleg árás á hana en lét þó loks sannfærast. Fram að þessu hafði hún nú bara verið sérvitur. Þegar þarna var hins vegar komið við sögu greip hún tækifærið - komin með þessa líka fínu áheyrendur - og bunaði yfir okkur einhverju því besta tilviljanakennda ranti sem sögur fara af. Vissuð þið að þetta land er að fara fandans til? Ójá. Og börn eru að deyja. Og hjúkrunarfólk vinnur ekki vinnuna sína og fullt af öðrum hlutum sem eru eða eru ekki að í þessum heimi. Það var hins vegar ekki einn óreyttur og óslitinn þráður í þessari bunu og ekki gat ég heyrt að neitt af því hefði á nokkurn hátt með starfsemi þessara tveggja stofnana að gera eða þá staðreynd að þær skiptu stundum um aðsetur. Fyrir eitthvað kraftavert uppgötvaði hún furðufljótt hvernig ýta átti á takkann til að opna hurðina (eitthvað sem fullfrískt fólk á yfirleitt í talsverður erfiðleikum með í fyrsta skipti) og var ennþá að bölsótast út í heiminn þegar hún gekk út. Ef hún finnur einhvern tímann hina raunverulegu Lyfjastofnun dauðlangar mig til að vera fluga þar á vegg :)

miðvikudagur, febrúar 18, 2004




You're Loosely Based!

by Storey Clayton

While most people haven't heard of you, you're a really good and
interesting person. Rather clever and witty, you crack a lot of jokes about the world
around you. You do have a serious side, however, where your interest covers the homeless
and the inequalities of society. You're good at bringing people together, but they keep
asking you what your name means.



Take the Book Quiz
at the Blue Pyramid.



Mikið líður mér bókmenntafræðilega núna.

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Heimili mitt er orðið heilbrigðisvandamál. Það kom að því.

Við fengum s.s. heimsókn frá fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins í gær. Ég var ekki heima en þessi góða kona talaði við Siggu Láru sem var bara rétt nýbúin að jafna sig á handrukkurunum. Nágrannarnir höfðu kvartað undan draslinu í bílastæðinu sem tilheyrir efri hæðinni og skyldi engan undra. Það er eiginlega ekki hægt að að lýsa því - þeir sem hafa ekki kíkt í heimsókn til mín undanfarinn mánuð verða að renna við og líta á ósköpin áður en það verður um seinan. Ég var oft búin að pirrast undan draslinu en það gerist allt svo hægt hjá þessu fólki sem er með endalausar birgðir af afsökunum. En nú eru yfirvöld komin í málið og kannski verður garðurinn einhvern tímann jafn vistlegur og hann var einu sinn:

Hreinn og fallegur garður að sumarlagi Ca. 1978

Ég spurði einn samstarfsmann um það hvernig þetta heilbrigðisferli gengi fyrir sig og hann sagði að hún (konan á efri hæðinni) yrði einfaldlega bögguð fast og illa þangað til hún hlýddi. Það gæti hins vegar tekið óralangan tíma. Sem örþrifaráð mundi borgin svo láta fjarlægja draslið á kostnað eiganda en það gerðist ekki fyrr en allar aðrar leiðir hefðu verið kannaðar. Ég hef bara mestar áhyggjur af því að einhver reyni að eigna mér eitthvað af hrúgunni.

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Vel heppnað nornapartý yfirstaðið.

Mikið drukkið, mikið skrafað, mikið gaman.

Aftur! Aftur!

föstudagur, febrúar 13, 2004

Sum netfyrirbæri er mér alveg fyrirmunað að skilja. Nú eru allir og hundurinn hans að blogga og er það hið fínasta mál. Sumir blogga vel aðrir illa, skemmtilega, leiðinlega - vottever. En hvað er það sem fær fólk til að blogga fyrir frægt fólk? Að hafa fyrir því að setja upp slíkt fyrirbæri og finna upp á misskemmtilegum færslum sem eiga að vera í anda persónunnar sem hefur að sjálfsögðu enga hugmynd að einhver hefur gerst svo hugulsamur. Ég skil næstum því þegar þetta er gert fyrir skáldsagnapersónur - það er ákveðin fan fiction sköpun í því - en hvers vegna í rauðglóandi andsskotanum er til blogg fyrir hina litlu, ófrægari, systur Britney - Jamie Lynn Spears?! Ef þú ætlar að stunda þessa iðju finndu þér verðugt viðfangsefni - ekki eyða ævi og púðri í krakkaorm sem hefur unnið sér það eitt til frægðar að deila DNA með poppstjörnu! Siggalára var í gær að ræða um ósanngjarna fordóma hjá sjálfri sér og vil ég nota þetta tækifæri til að koma út úr skápnum með það að ég er með brjálaða fordóma gagnvart fólki sem býr til sögur um frægt fólk sér og (væntanlega) öðrum til skemmtunnar. Því hún Jamie Lynn er ekkert einsdæmi. Það morar allt í svona bloggum (sérstaklega á Live Journal) og í reynd er afskaplega lítið af fjölmiðlagjörnu fólki sem hefur getu eða nennu til að blogga sjálft. Einu undantekningarnar frá þessari reglu - eftir því sem ég best veit - eru Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Wil Wheaton fyrrum Star Trek undrabarn sem blogga bæði af miklum móð. Hver hefur í alvöru gaman af þessu og hvers vegna? Mér er fyrirmunað að skilja þetta. Þarna er um framsetningu á lífi alvöru fólks að ræða - framsetningu sem er fullkomlega ósönn og lituð af hvaða viðhorfum sem höfundur kann að hafa. Til að gera eftirlíkingu sem "besta" er passað að hvergi (nema kannski einhvers staðar vel falið með míkróstöfum) komi fram að ekki sé um hina eftirsóttu veru að ræða og svo er auðvitað fullt af fólki sem fellur fyrir þessu.

Það sem ég skil svo ekki heldur er hvers vegna þetta fer allt svona óskaplega mikið í taugarnar á mér.
Sjaldan er ein báran stök. Nú þegar lítur út fyrir að táin mín sé ekki eins alvarlega sködduð og í fyrstu leit út - hugsanlega bara brákuð eða tognuð - er allt útlit fyrir að ég sé að fá einhverja flensuna. Líður a.m.k. mjög funky sem þýðir annað hvort að ég eigi miður skemmtilega daga framundan eða að ég sé svona eftir mig eftir Dúndurfrétta tónleikana í gær. Því síðara til stuðnings er sú staðreynd að það suðar ennþá fyrir eyrunum á mér. Eru ekki svona mikil og mörg desibel af Pink Floyd og Led Zeppelin hreinlega heiluspillandi fyrir gamlar kerlingar? Hef í öllu falli ákveðið að hafa hægt um mig næsta sólarhringinn og miðað við hvað morgundagurinn verður annasamur er mér sennilega hollast að halda mig heima við í kvöld og hreyfa hvorki legg né lið. Sem þýðir engin sumarbústaðarferð og engir Hraun tónleikar í Hveragerði. Þannig er a.m.k. staðan þessa stundina.

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

"Tá á steini" eftir Ástu Gísladóttur

(Manneskja staulast inn á sviðið. Henni er augljóslega illt í hægri fætinum og á erfitt með að stíga niður.)

Manneskja: Ó vei ó nei ó mig auma! Ekki aftur, ekki enn á ný! Örlög hafa mig leikið grimmt! Karmað er ónýtt sem ofþurrkuð ullarpeysa. Nú mun ég aldrei giftast! (Ávarpar áhorfendur) Hver hérna inni hefur á ferðalagi sínu í gegnum þennan táradal misst jafnvægi á þrautargöngunni og slegið hinum viðkvæmu neðanhnjáafingrum utan í harða fyrirstöðu svo af hlaust ótvírætt táarbeinbrot?

(Skimar yfir salinn)

Manneskja: Hmm, hélt það yrðu fleiri. En hver hefur storkað hinum illa guði Pediomos með því að vanvirða helgidóm hans tvisar með öðru tábroti?

(Ekkert heyrist nema gnauðið í vindinum og smellir er daggardropar drjúpa á berg)

Manneskja: Enginn? Kommonn það hlýtur að vera einhver. Þú herra - sem lítur flóttalega undan - býrð án ef yfir vandræðalegum tábrotssögum. Það þýðir ekki að fela skömm þína undir pilsfaldi konu þinnar. En þrisvar? Það var svo djöfulli vont í þriðja skiptið.

(Alger þögn. Hýena skellihlær í fjarska)

Manneska (ofur lágt): Þannig að það hefur víst enginn annar brotið fjórar mismunandi tær við fjögur mismunandi tækifæri um ævina?

(Pínleg þögn)

Manneskja (við engan sérstakann): Var það eitthvað sem ég sagði? Eitthvað sem ég gerði?

(Manneskjan snýr með erfiðismunum við og tekur til við að skakklappast út af sviðinu. Þegar hún er næstum því kominn út af heyrast guðirnir skella upp úr allir sem einn.)

Pediomos: Hí á þig!

The End

Takk fyrir - er farin með stykkið á næstu einþáttungahátíð þar sem ég mun leikstýra ásamt því að leika aðahlutverkið.

(hugsanlega hægt að flytja allt leikritið án áhrifshljóða með "Waltzinblack" með The Stranglers sem eina undirspilið)

miðvikudagur, febrúar 11, 2004

Vera með





what decade does your personality live in?


quiz brought to you by lady interference, ltd



Vikurnar fjúka framhjá á ógnarhraða. Ég veit það fyrir víst að þessi var rétt að byrja og strax kominn miðvikudagur svo grillir í helgina framundan. Enda engin smá helgi: Hugleikur mun loksins (líklega) flytja sinn Sirkus í Tjarnabíó og við getum farið að æfa í réttu rými og Hin Mikla Nornasamkunda 2004 verður haldin á laugardagskvöldið á nýstroknu heimili okkar sambýliskvennanna Siggu Láru. Gaman gaman.

föstudagur, febrúar 06, 2004

Mér varð það víst á í gær hérna á blogginu að kalla Siggu Láru sambýliskonu mína . Þetta fór mikið fyrir brjóstið á móður minni sem tilkynnti mér í morgun að fólk "gæti misskilið". Því þótt Sigga Lára sá kona og við búum saman er hún auðvitað alls ekki sambýliskona mín í "þeirri" merkingur orðiðs. Og guð og allar velviljaðar æðri vættir forði ókunnugu fólki frá því að draga svona hrapalega rangar ályktanir vegna notkunnar á einu orði.

Ef satt skal segja vissi ég nákvæmlega hvað ég var að gera þegar ég notaði þetta orð - ég gerði mér grein fyrir að einhverjir gætu mögulega misskilið og á ég að segja ykkur svolíðið sjokkerandi? Mér er svo hjartanlega sama. Næst - þegar og ef - einhver telur mig vera "sambýliskonu" og jafnvel eiga "sambýliskonu" ætla ég að segja: "Ég þakka hólið en því miður er það ekki rétt." Ef svo mikið.

Já og strákormurinn ætlar að taka herbergið eftir allt saman.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Ég minntist á það við nokkra aðila í vinnunni að hinar stanslausu boranir vegna lyftuframkvæmdanna gerðu mig líkamlega veika. Ég var farin að finna fyrir mikilli ógleði eftir því sem leið á vinnudaginn og skorti á einbeitingu og gat ekki betur fundið en að hinum hávaðamiklu borunum væri um að kenna. Aldrei þessu vant hef ég ekki heyrt í einum einasta bor í dag. Nú veit ég ekki hvort um tilviljun er að ræða eða hvort einhver hafi virkilega tekið mark á kvörtunum mínum en svo mikið er víst að mér líður margfallt betur. Engin ógleði og ég get einbeitt mér að því sem ég þarf að gera. Jafnvel bloggað. Ég vil fastlega meina að hávaðamegnun sé orsök alls sem hefur angrað mig undanfarna mánuði. Sambýliskona mín var með einhverjar kenningar um að hún hefði svona svæfandi áhrif á fólkið í kringum sig sem er auðvitað firra. Við erum að tala um ömurleg vinnuskilyrði í bland við of lítinn svefn og ekki orð um það meir.

Hvað leigjendaævintýri mín varðar er ég laus við litla dópistann en ekki kominn með nýjan í staðinn. Leigjanda þ.e.a.s. - hef engin not fyrir dópista á þessari stundu. Strákurinn sem hefur gengið á eftir mér með skráargöt í augunum vegna herbergisins núna í þrjár vikur kom loks í gær og kíkti á dýrðina. Og varð fyrir vonbrigðum. Ég á ekki von á að hann taki herbergið. Þannig að ... þekkir einhver einhvern? Sakar ekki að spyrja.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Það ku vera nóg að gera í febrúar. Niðurtalning hefur hafist:

25 dagar í frumsýningu (D-Day)
20 dagar í Bolludag (namm!)
13 dagar í heilsutjekk og fitmælingu í boði vinnunnar (joy)
11 dagar í fyrsta nornafundinn í háa herrans tíð (jibbí)
6 dagar í næsta Survivor þátt (roðn)
5 dagar í að Svandís komi heim (jibbí)
2 dagar í fyrsta rennsli (jamm)
1 dagur í næsta Angel þátt (roðn)
1 klst. og 8 mínútur þangað til ég get farið heim og tékkað á því hvort leigjandaómyndin sé ekki örugglega búin að bakka sér og búslóð út úr herberginu og horfin á vit hér eftir algjörlega óþekktra ævintýra. Fari hún í friði. (halelúja)