miðvikudagur, maí 13, 2009

Þá er bara komið að því. Síðasti atriðið á dagskrá. Tónheyrn, píanópróf, söngpróf og mastersritgerð í höfn og aðeins frumsýningin eftir. Næsta föstudag. Ca. 20 vansvefta leikarar og 7 hljóðfæraleikarar stíga á stokk og flytja (endur)frumsaminn söngleik eftir hugleikskri uppskrift. Sjá nánar hér.

HUGLEIKUR FRUMSÝNIR Ó, ÞÚ AFTUR
Hugleikur frumsýnir "Ó, þú aftur" eftir Ingibjörgu Hjartardóttur, Sigrúnu Óskarsdóttir og Unni Guttormsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins föstudaginn 15. maí kl. 20.

Að hugleikskum sið leikur tónlist stórt hlutverk í sýningunni, en höfundar hennar eru Ljótu hálfvitarnir Þorgeir Tryggvason, Eggert Hilmarsson, Sævar Sigurgeirsson og Oddur Bjarni Þorkelsson.



Klassísk ástarsaga
Um er að ræða klassíska ástarsögu sem byggir á persónum og stefjum úr "Pilti og stúlku" eftir Jón Thoroddsen. Ungu elskendurnir Sigríður og Indriði verða ástfangin í sveitinni og einsetja sér að hittast í borginni að lokinni sláturtíð. Það gengur hins vegar ekki áreynslulaust fyrir sig, því þegar til borgarinnar er komið er svo ótal margt sem glepur, s.s. fjöldamótmæli, vængstífðir hrafnar, framandi skemmtistaðir, kynleg grös og alls kyns ólifnaður. Auk þess hefur önnur sveitastúlka, Gróa, augastað á Indriða og gerir allt til þess að koma í veg fyrir að ástfangna parið nái saman. Í örvæntingu sinni heldur Sigríður til Danmerkur til að hjúkra gömlum íslenskum presti meðan Indriði fer á sjóinn þess fullviss að hann finni aldrei stúlkuna sína aftur.

Miðasalan er í höndum Þjóðleikhússins á vefnum: www.leikhusid.is og í síma: 551-1200.

Sýningarplan:
1. Frumsýning föstudaginn 15. maí kl. 20 - UPPSELT
2. sýning sunnudaginn 17. maí kl. 20
3. sýning miðvikudaginn 20. maí kl. 20
4. sýning föstudaginn 22. maí kl. 20
5. sýning sunnudaginn 24. maí kl. 20
6. sýning miðvikudaginn 27. maí kl. 20
7. sýning fimmtudaginn 28. maí kl. 20
8. sýning föstudaginn 29. maí kl. 20 - LOKASÝNING