fimmtudagur, mars 29, 2007

Ég er farin að halda að mitt eðlilega hvíldarástand sé að vera tábrotin vælandi yfir ýmsum krankleikum.

En ekki í dag - guðssélukka.

Ég hef ekkert minnst á alla menninguna sem sprettur út um allt þessa dagana. Hún er ekki svo lítil eða ómerkileg.

Fyrst verður auðvitað að telja Epli og eikur hjá Hugleik. Bráðfjörug, fyndin og vel unnin sýning sem engum ætti að leiðast á (þó að krakkar hafi sennilega takmarkað gaman af henni þar sem mikil áhersla er á hnyttinn texta.)

Svo er síðasta sýning á Systur Angelicu og Gianni Schicchi eftir Puccini í flutningi Óperustúdíósins í Óperunni í kvöld. Tvær mjög ólíkar og afar skemmtilegar uppsetningar á stuttum verkum með færustu nemum tónlistarskólanna.

Ég var annars búin að plana að kíkja á hvað hinn orðmargi heimspekingu Slavoj Žižek hefði að segja í fyrirlestri sínum á morgun en var boðuð í auka píanótíma á sama tíma sem ég hef ekki samvisku í að sleppa. Það er kannski nóg að lesa bækurnar hans - hann verður stanslaust úr einu í annað í þeim - það er hvort eð er soldið eins og hlusta á fyrirlestur. Mér er alveg sama.

Pirr - eins og konan sagði.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Hérna er ferðasagan - í öllu sínu (litla) veldi. Ég hef hvorki orku né nennu til að skrifa hana aftur.

Ég er ennþá frekar máttlaus og utan við mig. Man ekkert stundinni lengur og geng á veggi. Matarleysi hefur svona gífurleg áhrif á heilastarfsemina. Gott að vita það. Note to self: Aldrei ráða anorexíusjúkling í flóknari vinnu en að blikka augum. Hmm... útskýrir módelbransann...

Rafgeymirinn í bílnum mínum gaf endanlega upp öndina 10 mínútum fyrir óperuna í gær (ég komst samt þökk sé hjálpsamri nágrannakonu - og það var mjög gaman) og af því að ég virðist hafa klárað allt uppsafnað karma í Barcelona laskaði ég auðvitað á mér tá rétt áður en ég lagði af stað fótgangandi í vinnuna í morgun. Ég er vonandi óbrotin en það er skemmtilegt frá því að segja að þessi sama tá var brotin frekar ósnyrtilega fyrir sléttum 20 árum.

Semsagt - ég kom nöldrandi frá útlöndum og sér ekki fyrir endann á.

En - hey - ég er með fullt af tolli og enga leið til að torga sjálf.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Vinna + skóli keppast við að drekkja mér þessa dagana. Ásamt öllu hinu. Og hvernig stafar maður aftur "sjálfsskaparvíti?"

Ég ætla ekki að velta mér of mikið upp úr því heldur einblína á Barcelonaförina sem hefst eftir tvo daga. Það er spáð rigningu. Jibbíjei.

Mér finnst ég alltaf hafa glutrað niður félagslífinu á slíkum tímum en þegar vandlega er skoðað er það nú ekki svo slæmt. Aðal hasarinn um helgina fólst reyndar í því að horfa á vídeó með Auði-sem-á-að-eiga-eftir-tvær-vikur og Ragga á laugardagskvöldið. Þvílíkt bóhemalíf sem ég lifi. Ég ætlaði að vísu að kíkja á Nönnu og co. tromma með glæsibrag á sunnudaginn en veðjaði því miður á ranga verslunarkeðju.

The Prestige reyndist vera ágætist mynd sem pirraði okkur mjög sökum þess hversu ruglingsleg hún var. Ég veit að trixið við hana var það myndin sjálf átti að funkera sem n.k. prestige* en hún klikkaði í undirbúningum. Í stað þessa að fela spotta- og kanínuleg plottin með því að sveipa þau hversdagsleika - innan myndmáls kvikmyndarinnar (eins og var t.d. gert í myndum á borð við The Sixth Sense og The Others) - var stuðst við hraðar klippingar og ruglingsleg stökk í tíma. Það fékk mann hins vegar bara til að leita eftir því sem var verið að fela. Það er kannski gallinn við að gera myndir um töframenn - sérstaklega þar sem plottið á að koma á óvart - væntingarnar verða óklífanlegar.

Hrós dagsins fær Augað í Kringlunni fyrir að gera við gleraugun mín á mettíma og endurgjaldslaust eftir að ég steig á þau í gær og braut. Þau eru nú betri en áður en ég braut þau. Ef aðeins fleiri fyrirtæki byðu upp á slíka þjónustu. T.d. Toyota umboðið.

__________________________________
* kalla eftir góðri þýðingu - það er s.s. galdurinn sjálfur - sá tímapunktur í atriðinu þegar þú lítur á sessunautinn og segir "hvernig í fjandanum fór hann að þessu?"

þriðjudagur, mars 20, 2007

þriðjudagur, mars 13, 2007

Ekki veik í dag. Sennilega hafa ljóðmælin mín í gær virkað sem hressilegur galdur og hrakið pestina vælandi á brott. Ég ætti augljóslega að yrkja oftar.

Allir eru rasandi yfir dökkhærði Eiríks Haukssonar í nýja myndbandinu. Mér er nokk sama hvernig hann greiðir sér en þetta nýja myndband vekur með mér spurningar um ímynd Íslands. Ójá. Júróvisjónmyndbandið hefur alltaf fúnkerða sem auglýsing heillar þjóðar á sérstæðu sinni og hæfileikum. Það væri verðugt verkefni fyrir hæfan bókmenntafræðing (*hóst*) að setjast niður og greina þessar ímyndarauglýsingar síðustu 20 ára. Frá glaðlegum goshverum Gleðibankans til hins drungalega og dökkhærða ljótleika hins alíslenska nútíma sem Eiki (í gegnum Gunnar Björn) býður upp á. Eða eins og segir í ensku útgáfunni:

I'll let the music play
while love lies softly bleeding.
In heavy hands on shadowlands.
As thunder clouds roll in
sunset is receding.
No summer wine - no Valentine.
A tiger trapped inside a cage.
An actor on an empty stage.
Come see the show!
Rock ‘n' roll can heal your soul
when broken hearts lose all control.


T.S. Eliot hefði verið stoltur - og sennilega slegist við Ezra Pound um heiðurinn að fá að vegsama þessa smíð.

mánudagur, mars 12, 2007

Blundar ekki í öllum lítið ljóðskáld? Ég á eitt slíkt. Samanrekið, bólugrafið kríli sem býr á bakvið hægra eyrað þar sem það hámar í sig ruslfæði og sefur yfir sjónvarpinu. Sem er ástæðan fyrir svona afrakstri:

Ó mig auma

Alla tíð hef ég hafið að leiðarljósi hina sönnu mannamöntru
Uppsprettu hreysti og æskublóma
í sefjandi munstri hins brúna og bleika.

Lygin afhjúpuð og fortíðartöfrar tættir:

Ég fæ engan kraft úr kókómjólk.




Ég ætti víst að þakka fyrir að vera að veikjast núna frekar en eftir 10 daga - í flugvél á leið til Barcelona. Ég er ennþá nokkuð hraust - einkenninn öll á byrjunarstigi. Hins vegar er ég ekki þekkt fyrir að reyna að fremja ljóðlist heil heilsu - þannig að þróunin er uggandi.

föstudagur, mars 09, 2007

Föstudagskvöld á Sirkus...

Play Station 3 er víst svaka græja sem allir ásælast "meira að segja konur því hún er svo flott."

Ásgeir Kolbeinsson er hetjan mín.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Mig langar í ... frostpinna!

Þ.e. líkaminn kallar á frostpinna en mig grunar að það sé hausinn sem er eitthvað að mistúlka þörf fyrir sól og sælu á þennan hátt. Birtu og hitastig er farið að minna á vor og eftirvænting eftir sumri samfara því.

Þið vitið þetta kannski ekki um mig en ég er sveitastúlka í eðli mínu. Mér hefur tekist að sveipa um mig hinum ýmsum þæginum borgarlífsing og reynt að láta þau koma í staðinn en innst inni langar mig mest af öllu að rölta út á Hjálparflöt með berjatínuna eða klifra upp á nærliggjandi hól og virða fyrir mér sveitina í þægilegri sumargolu.



Auðvitað gæti þetta bara verið vegna þess að ég sé fyrir mér alltof mikið innilíf í nánustu framtíð. Skólasetan minnkar ekkert fyrr en nær dregur maí og nú á ég að taka stigspróf á píanó þannig að æfingarnar verða að aukast að sama skapi. Svo er það Bingó-aðstoðin sem ég er búin að lofa mér í. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég læt freistast á sumrin til að taka þátt í sprelli á vegum Leikfélagsins Sýnir. Útiveran kallar.

Á meðan á þessu öllu stendur er algjörlega útilokað að 25 snaróðir hestar gætu dregið mig út í garð til að dytta að. Maður verður að hafa einhverjar þversagnir í sínu lífi.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík halda úti dagskrá sem samanstendur af erlendum þjóðlögum í Norræna húsinu laugardaginn 3. mars kl. 14. Undirrituð ætlar að syngja eitt lag útsett af ofurhommanum Benjamin Britten.

Í guðanna bænum myndið einfalda röð við innganginn og ekki ryðjast framfyrir.
Litli bróðir á afmæli í dag - til hamingju! Hann þykist vera þrítugur en mér finnst hann ekki hafa elst um dag frá því að þessi mynd var tekin:



Ég skal viðurkenna að ég hef elst eitthvað aðeins. En hef alltaf verið jafn skelfilega gott módel.

Eins sólrríkur og þessi dagur er annars byrjað hann ekki vel því bíllinn minn vildi ekki í gang í morgun. Ég lét blindast af birtunni og sá ekkert því til fyrirstöðu að labba í vinnunna - í sex stiga frosti. Ég hafði þó vit á því að setja trefil yfir blautt hárið. Er fyrst núna að finna fyrir lærunum á ný.

Nú þarf ég einhvern veginn að finna út hvernig ég get púslað saman plönum dagsins bíllaus. Það er hádegistími með undirleik og kontrapunktur eftir vinnu - sem ég á eftir að læra fyrir - og kvöldmatur hjá foreldrunum. Það er sök sér með hádegistímann en eitthvað lítið á ég eftir að ná að læra fyrir kontrapunkt og svo þarf ég að stinga af úr tíma mun fyrr en ég ætlaði til að komast í mat kl. 7 og þá er varla að það taki því að mæta.

Nema ég finni einhvern til að gefa bílgarminum start. Ég á sjálf glansandi fína startkapla.

Viðbót: Nanna var svo elskuleg að bjóða fram aðstoð sína og start í bílinn en mér tókst að redda því í hádeginu og fékk Önnu samstarfskonu í lið með mér.