fimmtudagur, júlí 28, 2005

Mmm... búin að vera í fríi alla þessa viku og er rétt svo núna að komast upp á lagið. Ég þarf alltaf smá aðlögunartíma þegar ég fer í frí. Get ekki bara hrokkið úr einum í gír annan. Eða öllu heldur: úr fjórða gír og í park úti á kanti með slökkt á vélinni og tvö dekk úti í móa.

Framkvæmdagleðin hefur eitthvað staðið á sér og kenni ég öllu um sem er ekki ég. Var í allan gærdag að slá garðinn og raka. Var í mest basli við að koma slátturvélinni í gang og þurfti að taka mér langa og góða pásu eftir að hafa slegið garðinn áður en ég gat rakað. Ekki skil ég hvernig maður plægði í gegnum heilu hektarana í unglingavinnunni í den og það fyrir hádegi. Annars hef ég verið að hanga soldið með honum bróðursyni mínum. Við skelltum okkur í Kringluleiðangur og sund á mánudaginn og fórum og fengum okkur ís ásamt eldri systur hans í dag. Á morgun er planið að gera eitthvað skemmtilegt líka.

En þegar ég er ekki að passa börn og fara hamförum við viðhald heimilisins er ég fullkomlega laus og liðug og til í hvað sem er (ef einhver skyldi lesa þetta sem er ekki staddur/stödd úti á landi, erlendis eða í barnabasli.)

Ég rakst á söngkennarann síðustu helgi uppi bústaðnum hennar (öll fjölskyldan fór á flakk um innsveitir suðurlands og endaði þar.) Hún tilkynnti mér að ég gæti fengið píanó að láni næstu þrjú árin þar sem einhver nemandi hennar er að fara úr landi. Pabbi verður örugglega feginn að fá hljómborðið sitt til baka þótt ég verði víst að viðurkenna að ég er ekkert ofboðslega dugleg að pota í það. Því veldur sennilega sami kvilli og kom í veg fyrir að ég æfði mig heima þegar pabbi hans Lofts reyndi eftir bestu getu að kenna mér á píanó í barnæsku. Reyndar á ég frekar erfitt með að æfa lögin sem söngkennarinn lét mig hafa einmitt vegna þess að hvað píanógetu mína varðar sökka ég feitt!

Svo ég sletti.

Kann að hitta á réttar nótur og þekkja mismunandi dúra og molla og lengra nær það ekki. Lýsi hérmeð eftir undirleikara - eða bara einhverjum sem kanna að spila með báðum höndum í einum - sem er til í fara yfir lögin ca. einu sinni svo ég nái laglínunni. Öðrum kosti held ég áfram að nota það sem afsökun. Ahemm...

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Ég ætlaði að fara að barma mér yfir því að þurfa að kúldrast inni í vinnunni á svona sólríkum sumardegi en mundi þá að ég er svo gott sem minn eigin herra þessa dagana og get bara tekið frí ef mér sýnist.

Þannig að; adios! Ég ætla í sund.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Þá vitum við það.
Hér eftir tekur því ekki að fara í ræktina og stunda holla lífshætti.
Hætta að drekka/reykja/dópa/éta/dánlóda/spara/slúðra/svindla undan skatti. Aðeins eitt ár til að velja einhverjar æðrir vættir í eitt skipti fyrir öll og trúa af öllum lífs og sálar kröftum. Gamli karlinn með skiltið sem heldur sig samviskusamlega á horni Langholtsvegar og Holtavegar hafði rétt fyrir sér. Heimsendir er víst virkilega í nánd.

Ég tek það fram að ég er aðeins að koma skilaboðunum á framfæri þótt augljóslega hafi ég fundið þetta á mér eins og sést á titli þessa bloggs.

Ritað á vegg á Rauðarárstíg:

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Tel mig hafa bjargða uppfærslu Vesturports á Woyzeck eftir Georg Buchner svo og leikárinu eins og það leggur sig þegar ég stal ekki handriti sem einn leikari sýningarinnar skildi eftir á borði við Serrano í Kringlunni. Í staðinn lét ég starfsmann hafa það ásamt glæsilegum bíllyklum sem lágu þarna líka og bað að geyma. Handritið sjálft var kyrfileg merkt "trúnaðarmál" og þótt ég skilji ekki alveg hvernig þýtt leikrit geti talist trúnaðarmál finnst mér líklegt að DV hefði borgar fúlgur fyrir bara vegna merkingarinnar.

Mér finnst fullmikið að ætlast til einhvers konar verðlauna afhendingar og mundi alveg sætta mig við boðskort á frumsýningu.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Ég er *svona* nálægt því að geyma bara alla peningana mína undir koddanum. Það er ekki hægt að treysta fyrirtækjum fyrir fjármálum. Hér væri alveg kjörið tækifæri fyrir mig að ranta soldið um samskipti mín við KB banka* en staðreyndin er sú að þegar fjármál fara til fjandans á svo stórbrotin hátt eru alla jafnan mörg fyrirtæki sem koma að verki. T.d. bankinn sem var seinn að biðja launagreiðendur að leggja inn á nýjan reikning, launagreiðendur sem gera ekki eins og þeim er sagt, búðareigendurnir sem renna kortum í gegn og biðja aldrei um heimild og svo við sauðirnir með plastmiðana okkar sem höfum ekki hugmynd um hvernig allt virkar.

Spunkhildur stakk upp á vöruskiptum og sjálfsþurftabúskap og sýnist mér það framtíðin. Hef hugsað mér að rækta kartöflur, rabbabara og sólber í bakgarðinum og bjóða á hagstæðum kjörum þeim lánadrottnum sem banka upp á.

______________________
* Launin mín voru ekki lögð inn á nýja reikninginn en debit kortið virkaði samt í viku á engri innistæðu og hvarflaði ekki að mér að þau væru einhvers staðar annars staðar þar sem fyrrnefndur Kb banki var búinn að taka af mér gamla debit kortið.

Talaði reyndar við bankann eftir að ég skrifaði þessa færslu og það er búið að redda fjármálunum þannig að ekki get ég kvartað undan þjónustunni.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Víííí!

Hróðmar prófdómari (sem ég er mikið að spá í að giftast og fæða börn) skildi eftir skilaboð á talhólfinu mínu og sagði að ég hefði fengið átta. Ég náði fjandans hljómfræði prófinu!! Reyndar bara rétt svo og hann sagði að ég væri með "um átta" sem ég veit ekki alveg hvað þýðir.* Ætli endanlega tala fari ekki eftir lundarfari prófdómara? Ég veit bara að klukkan hálf ellefu í gærkvöldi - þegar ég hafði setið sveitt í prófinu í samtals fjóra og hálfan tíma voru nóturnar farnar að synda fyrir augunum á mér og þótt Hróðmar gerðist svo elskulegur að líta á prófið mitt og gefa í skyn að þar væri eitthvað sem ég gæti lagað var ekki séns að ég kæmi auga á það á þeim tímapunkti. Stundum borgar sig heldur ekki að laga einhverjar smávægilegar vitleysur því þá er maður líklegur til búa til nýjar og miklu verri.

Eníhú - ég ætla að kíkja á prófið á fimmtudaginn og sjá hvað fór úrskeyðis. Mig grunar að hann vilji sjá að ég skilji villurnar áður en hann neglir niður einkunnina.

_______________________
* Maður þarf að fá átta til ná. Mér skilst að það sé ekki hægt að fá 10 og þú ert dreginn niður um hálfan fyrir hverja vitleysu.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Jæja - hljómfræðipróf á morgun og ég búin að bretta upp ermar og tekin til við lærdóminn.

Fyrst þurfti ég auðvitað að vera útsofin og skreið því ekki fram úr rúmi fyrr en kl. 1.

Svo gat ég ekki einbeitt mér að lærdómnum fyrr en ég hafði kíkt aðeins á netið og vaskað upp og tekið til í eldhúsinu.

Fór út með ruslið og lagaði til tréð sem sat ansi hallandi í alltof stórum blómapotti við útitröppurnar með því að setja steina í pottinn.

Þurfti því næst að þrífa stofugólfið því Lísa var víst eitthvað að mótmæla því að ég gleymdi að kaupa kattasand í gær og vökvaði einn sófafótinn.

Ég byrjaði síðan að lesa en eftir einn kafla saknaði ég tónlistar og náði því í spilarann minn og stakk í samband bak við sjónvarpið. Tók þá eftir því að ég átti eftir að stinga DVD spilaranum í samband sem á nú að vera nokkurra sekúnta verkefni og ágætt að klára fyrst ég var að bifast þarna á bak við til að byrja með. En fjandans sjónvarpið vildi ekki birta mynd af því sem spilarinn var í góðri trú að spila og eftir að hafa rifið í hár mitt og prófað öll skart tengi hússins í öllum möglegum götum gafst ég upp.

Þreif rykið af sjónvarpinu í staðinn.

Eftir alla þessa geðshræringu og erfiðsvinnu þurfti ég nauðsynlega að setjast niður og blogga smá. Er alveg eftir mig eftir allt þetta vesen og er að spá í taka mér pásu frá lærdómnum. Ég var búin að gleyma hvílík hörkuvinna það er að vera í skóla.

föstudagur, júlí 01, 2005

Komin aftur í bæinn - búin að standa í stífu fríi alla síðustu viku. Held ég noti helgina í að jafna mig.

Vaknaði snemma í morgun og byrjaði að taka saman allt í bústaðnum og þrífa. Tókst að komu öllu draslinu í bílinn og að skila lyklunum á slaginu 12. Brunaði síðan í bæinn og beint í vinnuna. Mjólkin - og það sem verra er; bjórinn - er hægt og rólega að hitna úti bíl.

Ég þurfti að mæta tvisvar í hljómfræði tíma í vikunni (á mánudag og miðvikudag) og þar sem ég var hvort eð er stödd í bænum var ég að vinna á þriðjudaginn og fór á fyllerí á miðvikudaginn. Ég hef samtals, á einni viku, keyrt leiðina á milli Reykjavíkur og Brekkuskógs - rúmlega 100 km - sex sinnum. Nær alltaf í grenjandi rigningu. Það var reyndar alveg ágætt og ég hlustaði á einhverjar bækur á spólum leiðinni en nú langar mig soldið til að vera bæði kjur og þurr.

Og sjá War of the Worlds. Syndaflóðsstemning síðustu daga hefur gert það að verkum að ég er ákkúrat rétt stemmd til að sjá geimverur rústa jörðinni.