mánudagur, desember 24, 2007




Gleðileg jól frá Århus

fimmtudagur, desember 20, 2007



Ammæli í dag. Svo sem ekkert í frásögu færandi. Aldurkomplexarnir hafa ekki enn orðið mér að aldurtila enda hef ég ákveðið að taka fílósófíska pólinn á þetta; ég verð aldrei yngri en ákkúrat í dag. Og varla getur maður kvartað yfir því að verða eldri - það er nú enn sem komið er bara ein leið til að sleppa því og hún er sínu verri en aukinn árafjöldi.

föstudagur, desember 14, 2007

Ég er og verð símalaus frameftir degi. Ef einhvern skyldir reyna að ná í mig. Jólaherlegheit Hrauns voru tekin upp í gær og síminn minn sennilega orðið eftir heima hjá Svavari enda var ég orðin frávita af þreytu undir lokin og rétt hafði það að muna eftir sjálfri mér.

Rakst á þessa dásamlegu frétt um Akranesing sem vill fyrir alla muni ekki kenna bílinn sinn við neitt gay - sem er kannski skiljanlegt ef við förum út í bíllinn-sem-framlenging-á-ákveðnum-líkamsparti pælinguna:

"Til að bjarga málunum ákvað ég að fá mér einkanúmer [...] Það er skemmtilegt að segja frá því að tveimur dögum eftir að ég fékk nýja númerið mætti ég gömlum félaga mínum frá Hvanneyri sem þekkti mig á númerinu. Hann snéri við og við áttum ánægjulega endurfundi. Ég sé ekki fyrir mér að hann hefði gert slíkt hið sama og haft fyrir því að elta mann uppi á bíl með númerinu GAY-17,” sagði Ófeigur Gestsson.

Hvur veit, Ófeigur minn, hvur veit. Sælir eru einfaldir ;)

þriðjudagur, desember 11, 2007

Hvernig væri nú að virkja Hraunherinn og taka þessa jólalagakeppni? Helgi og hljóðfæraleikararnir eru komnir með afgerandi forystu.
Þá er ég lokst frumsýnd!

Aftansöngur jóla - desemberkjallaradagskrá Hugleiks - var frumsýndur á sunnudaginn og tókst bara ansi vel þótt ég segi sjálf frá. Mikið sungið, leikið og haft gaman.


Úr verkinu "Nýjar bomsur"


Svo maður plöggi nú almennilega:

Leikfélagið Hugleikur heldur árlega jólaskemmtun sína í Þjóðleikhúskjallaranum sunnudaginn 9. desember og þriðjudaginn 11. desember. Dagskráin hefur yfirskriftina "Aftansöngur jóla", enda verður sungið um aftaninn, auk þess sem aftansöngur kemur við sögu í tveimur leikþáttum sem sýndir verða.
Alls verða fluttir þrír nýir leikþættir eftir félagsmenn, sem meira eða minna tengjast jólunum. Verkin sem sýnd verða eru:

Á í messunni e. Árna Friðriksson í leikstjórn Júlíu Hannam
Nýjar bomsur e. Sigurð H. Pálsson í leikstjórn Ástu Gísladóttur
Þykist þú eiga veski? e. Fríðu Bonnie Andersen í leikstjórn Nönnu Vilhelmsdóttur

Auk leikþáttanna verða flutt ósköpin öll af jólalegri tónlist. Fram koma einsöngvarar úr röðum Hugleikara, kammerkórinn Hjárómur lætur sig ekki vanta, og á þriðjudagskvöldið stígur hljómsveitin Hraun á stokk. Hraun verður fjarri góðu gamni á sunnudagskvöldið, en það kemur til af góðu, þar sem hljómsveitin verður í London að keppa til úrslita í hljómsveitakeppni BBC World Service, The Next Big Thing.

Loks má gera ráð fyrir að gestum gefist kostur á að spreyta sig á föndri.

Húsið opnar kl. 20:30, en dagskráin hefst kl. 21:00 bæði kvöldin. Almennt miðaverð er 1000 kr.

föstudagur, desember 07, 2007

Ég er soldið farin að sjá 13. desember í hillingum. Þá verður allt búið - leikhússstúss og skóli. Það sér reyndar fyrir endann á öllu stressi. Jólatónleikar Tónó voru síðasta mánudag og gengu bara sæmilega og litla óþekka verkið sem Hjárómur tók að sér fyrir Helgu Ragnars var flutt á miðvikudag við góðar undirtektir og kannski nokkrar undrandi augabrúnir. Jóladagskrá Hugleiks er í óða önn að klambrast saman og ekkert eftir í skólanum nema einn píanótími og einn söngtími.

Nú er mig soldið farið að langa til að sofa svefni hinna óstressuðu og setjast síðan niður í góðra vina hópi með stóóóóóóra hvítvínsflösku. Eða tvær.

mánudagur, desember 03, 2007

Innilega til hamingju Hraun!


Á myndina vantar Gunnar Ben - ©Stebbi

Þá er það bara endaspretturinn... ;)

miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Athugið: í dag er Ásta sem útspýtt hundsskinn. Sýnið aðgát. Var sífellt að vakna í nótt og þurfti þar að auki að díla við ansi ósléttar daumfarir. Smáatriðin eru dofnuð - sem er allt eins gott því fátt er jafn leiðinlegt og draumaþus í bloggum - en þó veit ég að ég var að reyna að leika í leiksýningu og gerði það illa. Þó tókst mér að dröslast í gegnum hlutverkið og fólk reyndi að segja mér að það hefði ekki verið svo slæmt. Sem er skref upp á við frá því fyrir nokkrum vikum þegar ég mig dreymdi svipaða draum nema þar gleymdi ég innkomum, lét fólk bíða eftir mér á meðan ég leitaði að handritinu baksviðs því ég var búin að gleyma textanum og stóð síðan fyrir miðju sviði og blaðaði í textanum án þess að finna rétta staðinn. Það var verra.

Nú spái ég í því hvers vegna undirmeðvitundin er markvisst að reyna að grafa undan sviðsöryggi mínu. Kannski er of langt um liðið síðan ég lék í einhverju - rúmt ár(Margt smátt telst varla með því það var framkvæmt með aðeins hálfri vitund) en líklegra er þó að þarna sé heilaófétið að beita hentugri og nærtækri táknmyndir með vísun í eitthvað allt annað. Sennilega leikstjórnina. Og bið ég það hér með pent um að hætta því hið snarasta. Leikstjórnin gengur vel - ég þarf bara að redda fullt af litlum smáatriðum og er hrædd um að gleyma einhverju mikilvægu. Líkurnar á því aukast bara ef ég þarf að muna eftir hlutum alvarlega svefnvana.

Og nú er ég farin til að brjótast inn í Þjóðleikhúskjallarann og mæla sviðið.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Ég er þreytt. 20 villtir hestar gætu ekki fengið mig til að endurskrifa allt það sem blogger var að enda við að glutra niðrum klofið á sér.

Í stuttu máli:

1. Heimasími óáreiðanlegur - best að hringja bara í gemsa

2. Setti ljós yfir vaskinn - minnka hættu á magakveisu

3. Fór í klippingu - heysáta horfin.

4. Hraun að rokka feitt. Feitar en flestir aðrir. Og hana nú.

Óverendát.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Óperunni er þá lokið og tókst bara með glæsibrag. Ennþá er smá frágangur eftir - koma búningum aftur á sína staði o.þ.h. - en að öðru leiti get ég loks snúið mér alfarið að öðrum hlutum. Ég ætla mér að leikstýra í fyrsta skipti og svo er kominn tími til að bretta upp ermar og taka almennilega rispu í klippingum. Bæði myndbanda- og hárslegs eðlis. Ég leyfði klippingum á Hugleiksleikritum að frestast fram yfir óperu og höfuð mitt var síðast rúið af einhverri fagmennsku í janúar síðastliðnum. Það er ekkert sem hindrar mig í setjast við tölvuna en hvað hárið varðar... ég veit bara ekki hvert ég á að fara til að fá almennilega klippingu. Og er ekki alveg tilbúin til að borga morðfjár fyrir slíkt. Veit einhver um ódýra og góða hársnyrtistofu? Er slíkt kannski oxymoron? Get ég allt eins brugðið skærum á mig sjálf yfir baðkarinu?

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Vita ekki allir af Schubert óperunni sem ég er í - og ætla að mæta? Frumsýning er á morgun og generalprufa í kvöld og ég á ennþá eftir að klára einn kjól. Þetta væri svo miklu einfaldara ef ég þyrfti ekki að vinna eða mæta í skóla. Sem betur fer er mjög skynsamlegt sýningaplan á verkinu þar sem sýnt verður í þrjá daga samfleytt - frí í einn - og svo lokasýning á þriðjudag. Laugar- og sunnudagssýningarnar eru kl. 3 um daginn.

En myndir segja vonandi meira en orð:




Dr. Tóta smalar riddurum



Rannveig er greifynjan Ludmilla



Rakel, Anna Vala og Laufey



Já. Úff. Eftir að ég sá þessa mynd fór búningur Benedikts (Udolin) í yfirhalningu og Tinna (Isella) fékk nýjan kjól (eða fær þegar ég klára hann).

fimmtudagur, október 25, 2007

Ég dröslaði sjálfri mér í Salinn í Kópavogi í gærkvöldi og hlýddi þar á glænýja íslenska óperu. Skuggablóm eftir Helga Rafn í uppsetninu Söngskólans. Mjög flott verk sem var kannski ekki án allra hnökra (ég náði ekki mikilli tengingu við söguþráðinn og talkaflarnir sem voru stundum sungnir og stundum ekki stungu í stúf) en uppsetningin sjálf var glæsileg; mjög góð nýting á kórnum, tónlistin oft grípandi og það þarf ekki að taka það fram að allt var fantavel flutt. Og það skal alltaf gefa prik þegar farið er ótroðnar leiðir í óperugerð.

Nú fer að styttast í frumsýningu á óperunni hjá Tónó. Við förum mun hefðbundnari leið og setjum upp "Die Verschworenen" eftir Schubert. Verk sem er byggt á Lysiströtu eftir Aristófanes í kringum 19. aldar viðhorf til samskipta kynjanna. Í meðförum Schubert verður sagan frekar kjánaleg en tónlistin er margbreytileg, fjörug og skemmtileg. Og - hey! - þetta er frumsýning á verkinu á Íslandi. Sextán söngvarar - 8 konur og 8 karlar - og heil sinfóníuhljómsveit nemenda skólans ætla að flytja herlegheitin í Iðnó þarnæstu helgi (s.s. 2., 3., og 4. nóvember). Ég á örugglega eftir að auglýsa betur seinna. T.d. með myndum. En það verður lítið um þær þar til ég klára að klambra saman búningum. Ég er ekki að sauma þá alla - það væri geðveiki - og er búin að redda langflestu í búningageymslu Óperunnar - en það tekur þó sinn tíma að sauma 8 kyrtla á karlana og laga aðeins til búninga kvennanna. Ég er nokkuð stollt af því að enn sem komið er hefur útlagður búningakostnaður ekki farið yfir 5000 kr. Ég þarf bara að verða mér út um meiri tíma - sérstaklega ef ég ætla mér að vera búin að öllu fyrir næsta sunnudag. Langar einhvern til að hjálpa við að rumpa saman búningum? Þetta er svosem engin kúnst - bara klippa, lita og rumpa.

Inni á milli þarf ég svo að klára að læra fj. textann við lögin. Þetta komið svona ca. 95% en þar sem allt er á þýsku verð ég læra upp á páfagaukinn þar sem ég og þýska höfum aldrei verið miklir mátar. Læt fylgja með tvö tóndæmi úr óperunni - reyndar þau sem ég þarf að leggjast hvað mest yfir til að ná almennilega.

Fyrst höfum við kvennaskarann að samþykkja með semingi að fylgja greifynjunni út í kynlífsverkfallið:

'Ja, Wir Schworen' (No.4: Die Verschworenen)

Síðan hoppum við inn í seinni hlutann þar sem ráðagerð greifynjunnar virðist vera að fara út um þúfur:

'Kampf und Krieg' (No. 11: Finale)

Það þarf varla að taka það fram að þetta er ekki Tónó uppsetningin. Spilast ekki í browser (a.m.k. ekki mínum.)

mánudagur, október 15, 2007

Það lítur út fyrir að ég sé á leið til Danmerkur í annað skipti á árinu. Fjölskyldan er að spá í að hittast í Arhus yfir jól og áramót og hafa þar íslenskan hátíðleika í hávegum á danskri grund.

Það er hins vegar ekki fýsilegt fyrir okkur öll að leggjast inn á Halldór og Jóhönnu Ýr í tvær vikur og líklegt til að stýra öllum hlutaðeigendum í átt að geðveiki. Því ætla mamma og pabbi að finna sér gistingu. Spurningin er bara hvar. Það er fjandi dýrt að gista á hóteli á þessum tíma. Veit einhver um ódýra gistilausn á þessu svæði? Nú er yfirleitt allt morandi í Íslendingum í námi þarna - er ekki einhver sem býr í Arhus eða þar um kring sem ætlar að eyða jólum og áramótum á Íslandi og væri til í að leigja heimilið ráðsettum eldri hjónum?

þriðjudagur, október 09, 2007

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega spennt fyrir Galdrakarlinu í Oz - hef t.d. aldrei lesið bækurnar - en þessi útgáfa er soldið forvitnileg:



Tin Man Trailer - video powered by Metacafe


Zooey Deschanel er liðtæk söngkona - það væri nú í takt við annað að poppa gamla góða regnbogaslagarann soldið dugleg upp. Ég bíð spennt.
Ég elska Mastercard. Þar vinnur fjarskalega gott fólk og örugglega forkunnarfagurt sem er tilbúið að leysa úr vandræðum og koma til móts við fjármálablint fólk.

Ég fæ þá ekki magasár ofan í allt annað í dag.

mánudagur, október 08, 2007

En sú stuðhelgi. Margt smátt fór örugglega vel fram þótt ég hafi ekki tekið mikið eftir því sökum þess hversu fókuseruð ég var á minn eigin nafla. Bókstaflega. Fékk að kynnast náið þeim krankleika - sem hefur þjáð hana fangor árum saman - frá því á föstudagseftirmiðdag. Og sem sér nú (vonandi) fyrir endann á. Eða svo segja læknarnir á Lansa. Ég lá s.s. með djöfullegar magakvalir alla helgina og barðist við að harka af mér sökum anna. Hef hugsað mér að skella skuldinni af öllum leikósigrum á veikindin. Ég er hundfúl yfir því að hafa misst af Margt smátt eftirpartýinu sem var víst hin besta skemmtun og er farið að finnast eftir ófarir síðustu vikna (lús+flensa+bakbólgur+blöðrur á eggjastokk) að alheimurinn skuldi mér þó ekki nema eitt gott djamm. Ég tek líka við peningum.

Mamma vendi sínu kvæði í kross og stakk af til útlanda með Clöru Waage í dag. Ætlar að sóla sig á Spáni í 3 vikur eins og ekkert væri. Er þá tala fjölskyldumeðlima á landinu í sögulegu lágmarki - aðeins ég og pabbi eftir. Kannski ég kíki til hans á næstunni og panti pizzu. Ég verð hvort eð er mikið á sveimi í vesturbænum þar sem leikstjórnarnámskeiðið byrjar af fullu trukki á ný í kvöld. Á ég ekki von á öðru en það verði jafn gaman og það verður strembið - líkt og fyrra námskeiðið. Ég ætla að sleppa að leikstýra fyrir nóvemberdagskrá Hugleiks - taka þátt í eins og einni óperu í staðinn - og einblína frekar á jóladagskrána. Ef einhver veit um velmeðfarið jólatré á þessum árstíma má hnippa í mig.

fimmtudagur, október 04, 2007

Fjársýslan hefur tilhneigingu til að koma þeim leiðréttingum sem við óskum eftir í gegn eftir dúk og disk. Var innihald samræðna sem við samstarfskona mín áttum fyrir stundu.

Af hverju "dúk og disk"? Hvað hafa dúkar og diskar með frestunaráráttu að gera?

Af hverju hef ég aldrei spáð í þessu áður? Maður tileinkar sér alls kyns fraseringar án þess að hafa minnsta grun um hvernig eða hvers vegna þær virka.

Ég verð hins vegar alltaf að vita hvernig hlutirnir virka - svona þegar ég vakna loks til meðvitundar um tilvist þeirra.

Hvað segja málfarsráðunautin?

fimmtudagur, september 27, 2007

Er ég rosalega kaldrifjuð að finnast það að læra til prests vera álíka gagnlegt og gullgerðarlist og stjörnuspeki? Guðfræði - og þá meina ég trúarbragðafræði - sem slík er áhugaverð stúdía en kirkjubatteríið sem fylgir í kjölfarið... æi. Ég sé ekki tilgagn í að halda lífinu í fræðum sem byggja á hindurvitnum og stórum og allt of langlífum grundvallar misskilningi.

Nú er ég búin að móðga ca. helming að fólki sem ég þekki - svo og kalla yfir mig reiði Almættisins - og ætla að finna mér eitthvað lystugt að borða. Mötuneytið er ekki að uppfylla þá skyldu í dag með brauðsúpu (ojjjjjjjjj) og "sjávarréttum í brauðkollu". Ég læt nú ekki bjóða mér hvað sem er.

mánudagur, september 24, 2007

Embla er búin að eignast sitt fjórða barn - það sjöunda sem hjónin eiga saman. Það varð stúlka sem heitir Theresa Rós. Held að allt sé í lukkunar velstandi þar á bæ.

Sjálf er ég búin að eignast hjól og er hæstánægð með. Ég þarf að vísu að láta skipta um hnakk á því en er að öðru leyti nokkuð sátt með 12 þús. króna lítið notaðann gripinn. Nú bíð ég eftir mannsæmandi veðri svo ég get ætt um götur bæjarins á tryllitækinu.

föstudagur, september 21, 2007

Ég ætti að vera orðin nokkuð vel lúsalaus núna - það kemur a.m.k. ekkert úr kambinum - en ætla að klára jukkið um helgina til að vera alveg viss. Pestarógeðið sem ég bætti á mig í kjölfarið virðist í rénum og ég get vonandi farið að mæta á þær alltof mörgu æfingar sem ég hef þurft að slaufa upp á síðkastið - að maður tali nú ekki um félagslífið þótt sennilega sé skynsamlegt að hafa hægt um sig a.m.k. fram að næstu helgi.

Annars hef ég verið svo gífurlega uppteking af eigin armæðu svo og leikstjóranámskeiðinu að fátt annað hefur komist að. Til dæmis almennt heimilishald og endrubætur á sameign. Nágrannakonan lærði loks að bretta upp á ermar og hefur farið eins og stromsveipur um húsið og málað allt - hátt og lágt. Ég hef ekkert gert nema skammast mín. Nú bíð ég bara eftir að fá nóga heilsu/tíma til að sýna smá lit.

Ég er að hugsa um að kaupa mér hjól. Er það ekki skynsamlegt svona fyrir veturinn?

fimmtudagur, september 13, 2007

Á dauða mínum átti ég von.

En lús á gamals aldri hefði mig aldrei grunað.

Ég hef ekki hugmynd um hvar ég gæti hafa krælt mér í hana. Kötturinn er hafinn yfir allan grun því ófénaðurinn þrífst víst bara á mannablóði. Nú er það svo að hún smitast bara frá hári til hárs. Ég man ekki hvenær ég var síðast í návígi við annarra manna hár (sem er kannski eins gott því þá eru líkurnar á að ég hafi smitað aðra frekar litlar). Mér dettur helst í huga að einhvern hafi klæjað í hausinn á Kofanum um þarsíðustu helgi. Þar voru allir hoppandi og skoppandi og aldrei að vita hvaða ferðaleg þessi kvikindi hafa farið í.

Eftir að hafa fríkað út eftir miðnætti í nótt og farið í fýluför dágóðan bíltúr um Reykjavík í leit að opnu apóteki er ég miklu rólegri og með plan í höndum. Er búin að þaulgreiða mér og maka ólyfjan í allt hárið og vefja kyrfilega inn í klút. Skal það gerjast til kl. 11 í kvöld. Föt, teppi, púðar komnir í poka eða þvottavél og lús hérmeð gerð brottræk úr mínu lífi.

Mér finnst soldið skondið að ég skuli vera að segja alþjóð frá þessu þegar ég kinkaði bljúg kolli í morgun þar sem apótekarakonan var að útskýra fyrir mér að ég þyrfti að fjarlægja alla bangsa frá barninu.

En svona upplýsingum má maður víst ekki halda út af fyrir sig.

þriðjudagur, september 11, 2007

Vei!! Allir Bloggarar að ná í Semagic - virkar svo miklu betur heldur en þessi drasl w.Blogger og er ekki lengur bara fyrir Live Journal. Eftir að ég fór í Blogger andlistlyftinguna vildi sá síðarnefni ekki virka fyrir mig (fyrir ringlaða: þetta eru lítil forrit sem maður notar til að blogga - mun þægilegra heldur en að dröslast í gegnum margar vafrarasíður).

Mér tókst að taka bakið nokkuð föstum tökum og ligg núna daglega á hitapoka til að fyrirbyggja allt sem hægt er. Helgin fór aðallega í leikritasamlestur en einnig smá árshátíð á Domo og bíóferð á Astrópíu. Sem sagt; hin menningarlegasta. Maturinn var guðdómlegur og myndi mikil og góð skemmtun. Það var að vísu uppselt á hana þegar ég mætti á svæðið en Auður var þegar mætt og búin að kaupa sér miða. Litlu miðasölustúlkurnar þorðu greinilega ekki í okkur og létu mig bara samt hafa miða og þótt eitthvað af krökkum hafi víst þurft að sitja í stólum til hliðana sat ég frekjulega í mestu makindu í mínu þægilega bíósæti og kunni ekki að skammast mín.

Leikstjórnarnámskeiðið byrjaði í gær og ætlar að verða mjög fróðlegt og skemmtilegt. Það er afskaplega kvenmiðað því það urðu talsverð karlaafföll á síðustu stundu. Sem er reyndar fínt því þá er fólk ekki alltaf að eltast við að láta fólk leika bara samkvæmt kynum. Neyðin kennir naktri konu að spinna.

miðvikudagur, september 05, 2007

Hó boj... aaaaaaaalltof langt síðan ég hef farið í sund. Bakið mótmælir hástöfum, er búið að pakka ofan í sundtösku og komið hálfa leiðina í Laugardalinn.

Enda ekki vitlaust þegar framundan eru maraþon leikleistrarstundir þar sem fjöldinn allur af fantagóðum leikritum hefur verið lagður fram sem væntanlegt vetrarverkefni Hugleiks. Ég öfunda ekki sjálfa mig af því að þurfa að velja á milli. Ég þarf líka að sitja í vinnunni - og í samsöng, og á óperuæfingum - en standa í söngtímum og undirleikstímum sem er heldur ekki gott. S.s. ég er á leiðinni í hönk og nú er ráð til að taka í tíma.

Tók að vísu smá ráð um síðustu helgi í fimmtugsafmæli Önnu Beggu og Andreu þar sem veislugestir voru sendir á vergang fyrsta klukkutímann um neðri Þingholtin að leita að illfinnanlegum leiðbeiningum og fara eftir ruglingslegum kortum. Þar kom Júróvisjónþekking sér einstaklega vel ellegar væru við sennilega þarna ennþá, þrammandi um öngstræti. Partýið sjálft reyndist síðan mikið og gott og entist fram eftir öllu og endaði á öldurhúsi og það var áfengi, dans og hvaðeina. Hið besta mál.

En nú er ég farin. Þið getið fundið mig marinerandi í pottinum í Laugardalslaug upp úr 12:10.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Á sjónvarpsstöðinni Sirkus í kvöld - samkvæmt dagskrá:

20:10 Skins (1:9)
Átakanleg bresk sería um hóp unglinga sem reynir að takast á við daglegt líf í skugga átröskunar, eiturlyfjaneyslu og fleiri vandamála sem steðja að unglingum í dag. 2006.


Huh. Ég er ekki vön að horfa á unglingaþætti en ég hafði mjög gaman af þessum. Og "átakanleg" er ekki beint orðið sem ég mundi nota til að lýsa Skins. Kannski fjörug? Gráglettin? Beinskeitt? Raunsæ? Kjánaleg? Barnaleg? Óraunsæ? Allt af þessu. Fyrst og fremst skemmtileg. A.m.k. kannaðist mitt aldna hjarta við margt sem átti sér stað þarna - þótt það hafi oftast verið úr fjarlægð - og hafði gaman af. Ef fullorðið fólk hefur það fyrir prinsip að horfa ekki á neitt sem fjallar um fólk undir tvítugu þá ætti það sennilega að láta þessa þætti frjamhjá sér fara - en ef ekki þá mæli ég hiklaust með þeim.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Ég skellti Ástríki í smá andlitslyftingu - enda löngu kominn tími til. Hönnunin á síðunni síðast uppfærð árið 2000. Hún var svona - en er orðin svona. Endilega kíkið og segið mér hvað hún er ógisslega fín :)

Skellti mér í heimsókn til Nönnu í gær og missti allt tímaskyn yfir Carcassonne. Kom ekki heim fyrr en um hálf tvö og þurfti þá að klára bók áður en ég gat farið að sofa. Augnlokin gera sitt besta við að sleikja hnéskeljarnar í dag og heilinn nennir ekki taka þátt í þessari bloggvitleysu.

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Þessi kona á skilið Thule

Ég er með framkvæmdahiksta. Ekki veiki, ekki maníu, ekki áráttu - bara smá hiksta sem lýsir sér litlum framkvæmdarhvellum sem eru svo yfirstaðnir um leið og dágóður tími í þann næsta. Ég geri mikið af því að bretta upp og niður ermar þessa dagana.

Mér varð ekkert úr verki í gær en ákvað að "gera eitthvað í þessu" núna í kvöld og koma upp hillunum sem ég keypti í svefnherbergið. Til þess þurfti ég að bora. Ekkert mál - ég hef svosem borað áður - boraði saman allt garðshliði. Pabbi hafði látið mig fá forláta borvél - risastóra, illvíga og svarta á lit með aukahandfangi til að styðja sig á í gegnum mestu brestina og ekkert helvítis batterí bara beint í innstungu. Ég átti ekki von öðru en að þetta yrði létt verk.

Ég skipti um skoðun þegar skrímslið liðaðist í sundur í höndunum á mér á fullri ferð. Steinninn í veggjunum sem svo svakalega harður að ég kom bornum aðeins sentimetra inn í vegginn með venjulegum þrýstingi. Þannig að ég lagðist á hana og gaf í. Úff. Handfangið losnaði frá svo og borinn úr vélinni og einhver stykki flugu eitthvert og ég henti henni frá mér til að forða slysi. Gerist á ca. tveimur sekúntum.

Það fyrsta sem ég hugsa er: "Sjitt - ég er kvenmaður. Kvenmaður sem kann ekki að bora."

Ég leita út um allt að stykkinu sem hvarf (og hefur þá fúnksjón að festa borinn við borvélina) en finn ekki. Sé mig nauðbeygða til að hringja í pabba og segja farir mínar frekar ósléttar. Hann er ekki hissa - en ekki á minni vanhæfni! Borvélin sem hann gaf mér var víst eldgömul, ódýr og frekar vafasöm að uppruna. Hann var að vonast til þess að hún mundi "duga". Hah! Húsið mitt var byggt árið 1938 - á meðan menn kunnu enn að blanda sement og munaði ekki um að skella í terrazzo gólf á göngunum - ólíkt hripleku og útsprungnu bónushjöllunum sem voru steyptir á áttunda áratugnum og flestir miðaldra foreldrar þessa lands búa í. Ég fæ almennilega vél lánaða á morgun og nú fé ég mér bjór. Því ég á það svo sannarlega skilið.

Skál.

Með honum ætla ég svo að horfa á þáttinn sem segir frá því þegar menn voru alvöru menn með áfengissýki og lungnaþembu og konur voru klipnar í rassinn og skríktu af ánægju.
Þetta er sniðug búð. Ég er þegar byrjuð að eyða (litlum) pening þar.

Sjálfstæðismenn í borginni eru farnir að sýna sinn rétta lit og henda tónlistarnemendum aftur út í horn. Þeir fussuðu og sveiuðu nóg í kosningunum yfir meðferð R-listans og byrjuðu stjórnartíðina með stæl með því að hleypa elliheimilsmat á borð við mig inn í skólana. En þeir vilja ekki borga undir þetta pakk í strætó.

GMB hummar alla gagnrýni fram af sér í Fréttablaðinu í morgun og ýjar að því að tónlistanám sé ekki alvöru nám og einhvers staðar verði að draga mörkin ef ekki eigi að steypa borginni í skuldafen. For ðe rekkord þá býður LHÍ (rekið af ríkin) upp á alvöru nám ólíkt Tónó og FÍH (rekið af borg). Ég veit ekki hvort borgin ætlar að byrja aftur á gömlu tuggunni um að hún reki barasta ekki skóla á framhaldsstigi. Eitthvað segir mér að þarna sé peningastreymi á milli stofnana að spila inn í.

Sjálf hef ég ekki tekið strætó af neinu viti frá því um aldamótin en er fullkomlega miðsboðið fyrir hönd samnemenda minna.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Fyrir rúmum 3 árum keypti Embla af mér bíl og gengum við báðar frekar sáttar frá þeim viðskipum

Í dag keypti Embla aftur af mér bíl. Við erum sáttar held ég en tíminn mun auðvitað leiða það betur í ljós.

Ert þú búin(n) að finna kaupandann í þínu lífi?

Deja vu - all over again.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Innilegar hamingjuóskir til Nönnu sem átti afmæli fyrir tveimur dögum og varð – að eigin sögn – 25 ára. Skál fyrir auknum þroska og áframhaldandi velgengni í lífinu.

Í dag hinn 17. ágúst – eða 20. dag Heyanna - á hins vegar hin dularfulla Fúlhildur Ljótbjörg afmæli þótt Þjóðskrá sé eitthvað treg til að staðfesta. Ekki náðist í skáldkonuna í tilefni dagsins en hún ku vera 29, 34, 68, 3 og 45 eftir því hvenær hún er spurð og hversu mikið hún hefur drukkið.

Í tilefni af þessum gleðidögum er ég sjálf komin á splunkunýja bíl! Ja splunkunýjan fyrir mér. Hin fínasti Volvo árgerð 2000, silfurlitaður og sjálfskiptur. Ég átt von á að verða smástund að venjast sjálfskiptingu á ný eftir hafa verið á beinskiptum í mörg ár en það reyndist ekkert mál. Verra er að venjast litnum og þarf ég að taka mig alla á þegar ég kem út úr búð að valsa ekki að fyrsta rauða faratækinu sem ég sé og reyna að opna.

Svo ég ítreki: Toyota Corolla, árg. ’94 til sölu, nýskoðuð og velmeðfarin, óska eftir tilboði, áhugasamir hringi í 692 6012.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Ég nennti ómögulega að dröslast norður á Dalvík svona nýheimkomin og svefnavana og eyddi í staðinni helginni í að heimsækja Gaypride, Ikea og Heiðu Skúla.

Gaypride var með venjulegu sniði og gaman af því en ég tók sérstaklega eftir því hversu vinsælt auglýsingartækifæri gangan reyndist fyrir hin ýmsu fyrirtæki. Glitnir og Landsbankinn voru í ofurhýru stuði (og voru mjög líklega styrktaraðilar) en flestar búðir á Laugarveginu létu sér nægja að henda smá regnbogadóti í gluggana og segja það gott. Svosem ekki við meiru að búast en gaman að sjá þau fyrirtæki sem gengu skrefinu lengra. Eins og t.d. barnafataverslunin Englabörn sem var búin að átfitta allar sínar gínur í krúttlega regnbogagalla - eitthvað sem augljós vinna, hugsun og sérpöntun hefur farið í. Í eitt augnablik hvarflaði að mér að sjónvarpsstöðvarnar væru með á nótunum og höguðu kannski dagskrá sinni eftir deginu en eitthvað var hún tómlega af samkynhneigðu efni. RÚV komst næst því með Mika tónleika á miðnætti - en lítið gagn í því þegar gaurinn neitar að koma út úr skápnum. Nú eru flestir stórir hátíðisdagar yfirleitt úttroðnar af viðeigandi sjónvarpsefni og skrýtið að engum skyldi detta í hug að haga seglum eftir hýrum vindi. Ég veit ekki hvort vídeóleigurnar eða bókabúðirnar voru eitthvað meira vakandi - en leyfi mér að efast.

Ikeaferðirnar voru ekki í frásögu færandi en það sama verður ekki sagt um dýrindis veitingar Heiðu í gær - síðasta sí-bakandi konan á norðurheimshveli leyfi ég mér að fullyrða. Takk fyrir mig.

Að lokum nokkrar tilkynningar:

* Bíll til sölu - Toyota Corolla '94, keyrður 201.000 km, nýskoðaður, nýir bremsuklossar, rauður, smá upplitaður en ryðfrír, traustvekjandi fyrri eigandi, tilboð óskast.

* Hjálparhella óskast - helst uppfull af framkvæmdagleði og/eða getu og vilja til að sparka í rassinn á mér. Fyrirhugaðar framkvæmdir á stofu, tilfærsla á húsgögnum, uppröðun, myndaskipulag, Sorpuferðir og fleira. Í boði einn ósnertur tollur og sushi og súkkulaði eins og hægt er að troða í sig.

* Never Mind the Buzzcocks er brjálæðislega fyndinn þáttur:

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Blogger er í rétta fílingnum og stillir öllu upp hjálpsamur fyrir mig á dönsku. Gaman að því þegar tölvurnar hugsa fyrir mann. Mig vantar eina sem getur stútað moskítóflugum.

Er annars í góðu yfirlæti í Árósum. Halldór, Jóhanna Ýr og Heba skruppu í Ikea að skoða húsgögn og ég sit á veröndinni með tölvuna hennar Jóhönnu og fylgist með litlu ormunum stunda stunt-eldamennsku í garðinum með krakkaeldhús, bala af vatni, sandi og talsverðum látum.

Mér skilst að veðrið i Danmörku haf verið eitthvað leiðinlegt framan af sumrinu en það hefur leikið við allt landið síðan ég kom. 22-28 stiga hiti alla daga og sól og blíða. Einnig skilst mér að verslunarhelgin á Íslandi hafi verið eitthvað vætusöm... Ég er ekki að segja að það sé samhengi á milli en þið viljið kannski vita að ég kem heim annað kvöld. Væntanlega góðar fréttir fyrir fiskidaginn á Dalvík.

Það hefur auðvitað gengið á ýmsu eins og við er að búast þegar um búferlaflutninga er að ræða en Jóhanna er búin að útlista öllum Murphy-látunum í ítarlegri færslu svo ég þarf þess ekki.

Planið fyrir þennan síðasta dag er að kíkja í miðbæinn og misþyrma kreditkortinu. Vonandi verður ekki of heitt.

Og ... udgiv indlæg.

fimmtudagur, júlí 19, 2007

Síðustu tveir dagar fyrir frí eru helvíti á jörð. Tíminn sniglast áfram og heilinn reynir í sífellu að halda því fram að sé föstudagur þótt hálfsofandi vitundi viti betur.

Bráðum – og alls ekki nógu fljótt – get ég leikið mér að vild og gert allan fjandann í heila viku. Síðan fer ég út til Danmerkur og endurtek leikinn þar.

Ég þarf bara að finna upp á einhverju skemmtilega rigningavænu.

Og af því tilefni að ég þarf ekki lengur að telja saman klink til að eiga fyrir nauðsynjum:



Flight of the Conchords

Ég þarf að kíkja á þessa.

Einnig: ég er húkkt á þessum leik.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Um áraraðir hafa Húsasmiðjan og BYKO metast um hver sé stæstur og bestur og virðast engu nær. Það tók mig ca. klukkutíma í gær að komast að endanlegri niðurstöðu. Finnst að einhver ætti að borga mér fyrir. Ætti að vera billegra en endalausar Gallup kannanir.

Segið mér; hvað er nú það eftirsóknaðverðasta í fari hverrar verslunar? Staðsetning, vöruúrval, verð og kunnátta starfsmanna - ekki satt?

Ég var nú bara á höttunum eftir læsanlegri loku á hliðið og hafði álpast til að festa kaupa á renniloku og hengilás hjá Húsasmiðjunni:

Staðsetning
Það er dágóður spölur í næstu búð fyrir mig - hvort sem ég fer í austur eða vestur. Mér finnst einhvern veginn styttra í Húsasmiðjuna en BYKO er varla mikið lengra í burtu. Munurinn er sennilega vart mælanlegur.

Vöruúrval
Húsasmiðjan Tvær gerðir til - báðar kölluðu á mikla endurhönnun á hliðinu.
BYKO Mikið úrval og þ.á.m. einmitt það sem mig vantaði.

Verð
Húsasmiðjan Keypti renniloku á 2200 kr. sem svo passaði ekki
BYKO Seldi sömu loku á 1900 kr. - ég keypti aðra sem passaði á 670 kr.

Kunnátta starfsmanna
Húsasmiðjan Lúrulegur gaur sem dróst með semingi að lokurekkunum og reyndi að selja mér klósetthespur. Lét aðra kúnna í búðinni benda sér á hvar hluti væri að finna. Ráfaði í burtu í miðju samtali og sást ekki aftur.
BYKO Eldhress miðaldra maður sem sem var strax með á nótunum og fann ódýra lausn.

Það besta sem ég get sagt um Húsasmiðjuna að þessu loknu er að ég fékk endurgreitt. Og hún rukkaði mig bara fyrir helming af því sem hengilásinn átti að kosta. Samviskubit mitt er í sögulegu lágmarki.

mánudagur, júlí 02, 2007



Ójá.

sunnudagur, júlí 01, 2007

Við bjóðum aftur til leiks, eftir langa fjarveru, sólarofnæmið mitt. Hér áður fyrr lagðist það eingöngu á lappir, hendur og, fyrst og fremst, handbök en virðist í ævintýrahug og hefur nú hreiðrað um sig eingöngu á bringunni. Rauðar bólur sem mig klæjar í - geðslegt er það. Þannig hefnist manni víst fyrir fylleríin því ég rölti heiman frá mér í dag og út á Eyjarslóð í blíðviðrinu og sumarkjól til að ná í bílinn eftir fjör gærdagsins og uppskar hæfilega hegningu fyrir.

Og hvílíkt fjör var það. Ljótu hálfvitarnir héldu í Borgarleikhúsinu stærstu útgáfutónleika sem ég hef séð 6 mánaða gamla hljómsveit halda og með glæsibrag. Skemmtu þar á fjórða hundrað manns í tvo og hálfan tíma og buðu síðan í partý að því loknu. Ég sagði þetta gott um þrjúleytið og fór heim enda búin að ákveða að klára garðshliðið mitt í dag (og reisti víst fleiri en eina augabrún við þá tilkynningu - eins og smíði á hliðum sé eitthvað sérstaklega undarleg iðn). Hliðið er nú tilbúið og á ég bara eftir að redda mér borvél til að festa það á sinn stað.

Framkvæmdagleðin - hún kemur endrum og eins. Jafnvel aðeins oftar en fjandans sólarofnæmið - ég leyfi mér að vona.

mánudagur, júní 25, 2007

Ein af vinsælli gönguleiðum Reykjavíkurborgar er í gegnum garð einn austan við Hlemm. Hvort sem þú ert í göngutúr með hundinn, barn að leik, á leið heim af djamminu eða klifjuð farangri er fátt skemmtilegra en að stytta sér leið í gegnum hinn fagra og vel hirta garð hinna tveggja virðulegra piparjúnka, sem búa svo vel að hafa gat í grindverkinu í bakgarðinum, inn á leikvöllinn sem liggur á milli Háteigsvegar og Meðalholts. Stórtækar framkvæmdir og uppgröftur á leikvellinum hefur ekkert dregið úr vinsældum þessarar hjáleiðar og ef þú ert heppinn geturðu séð glitta í tortryggnar augngotur eins og einnar júnku í gegnum eldhúsgluggatjöldin.



En ekki láta þér bregða þótt á morgun verði komið læst hlið.

föstudagur, júní 22, 2007

Bæðevei...

Hefur einhver hérna séð Slings and Arrows? Bráðskemmtilegir kanadískir gaman/dramaþættir um hysteríu í snobbuðu leikhúsi í litlum bæ. Fantavel skrifaði og frábærleg leiknir þættir sem sýna mikla ást á leikhúsinu án þess að taka það hátíðlega. Ég veit ekki til þess að þeir hafi verið sýndir hérlendis sem er mikil synd. Eiginlega algjört möst fyrir leikhúsnördana. Gerðar voru þrjár seríur alls (6 þættir í hverri) og eru allar til á DVD (sjá link hér til hægri). Ég fór reyndar ódýru leiðina og komst yfir þá eftir smá vafasömu leiðum. Þeir sem rata á torrent - íslensk sem erlend - ættu að geta fundið líka.

Ég ætla að klára fyrstu seríuna í kvöld - á bara einn þátt eftir. Bíð spennt eftir að vita hvort Hollywood hunkið öðlast kjark til að tækla hlutverkið eða hvort geðveiki leikstjórinn þarf að sigrast á Hamletfóbíunni og stíga inn í verkið á síðustu stundu. Það er nefnilega frumsýning og kameljónið ennþá laust í áhorfendasalnum...

"Já þið segið nokkuð"

Segir maðurinn þegar hann gengur fram hjá skrifborðinu mínu og horfir eitthvert allt annað. Ég hef nokkrum sinnum reynt að segja honum nokkuð og finnst það sjálfsögð kurteisi: "Já það rignir", "Nei það gerum við ekki", "Ég braut nögl", "Dettum í það" en hann virðist ekki vera að hlusta. Á leiðinni til baka (hann var að ná í kaffi) brýst kannski fram eitt "Jájá" þegar hann er svo til kominn framhjá - alltaf svarandi óspurðum spurningum og staðhæfingum.

Ætli þetta sé n.k. form af Tourettes? Ósjálfrátt og tilefnislaust samræðuhjal fyrir fólk sem fær það ekki af sér að blóta?

mánudagur, júní 18, 2007

Þegar ég var barn var það besta sem ég fékk appelsína sem skorið var í miðjuna á og fyllt í með sykurmolum. Svo saug maður vökvann í gegnum sykurmolana og þegar hann var nær uppurinn borðaði sætt kjötið í kramda ávextinum.

Ég var bara að spá í hvernig maður glutrar niður gömlum og ánægjulegum fýsnum. Eins og að fara í gufu á hverjum degi. Eða spila blak. Eða lemja fólk af tilefnislausu.

Skólinn var gaman. Einn sá besti held ég bara. Samt með öðru sniði. Erfiður á lappirnar sem endra nær - sérstaklega þegar ég fór að snúa upp á þær - og stundum frústrerandi. En maður fær ekkert gott í þessu lífi án einhverra átaka.

Væmnin var í lágmarki þökk sé miklu magni af neðanbeltis húmor og ofbeldi. Það fannst mér fínt því hitt getur verið svo déskoti erfitt þegar líða tekur á vikuna. Marblettina og misboðna sómatilfinningu kann ég betur að díla við.

Ekki það að hvíldin frá kláminu verði ekki kærkomin. Og ég er alveg hætt að borða kokteilsósu. Það verður samt tilbreyting að hlæja sig ekki máttlausa á hverjum degi.

Hérna var "bloggað" um ævintýrið fyrir áhugasama.

Ég setti inn nokkrar myndir. Aðeins brot af þeim sem ég tók en af því að ég var nú bara með símann minn þurfti valið soldið að miðast af því hvaða myndir heppnuðust og hverjar fara beint í tunnuna. Það er því tilviljun og dyntir Sony Ericsson sem ráða öllu hér (þarna er líka "official" skólamynd sem við fegnum senda frá Vibbu).

Næstu dagar fara svo í það að sofa í heila öld.

mánudagur, júní 04, 2007

Fjandans kvef - tekur yfir lífið og sýgur úr manni alla orku. Ég verð víst bara að vona að það verði að mestu búið þegar ég fer norður næstu helgi.

Ég fann að þetta var að hellast yfir mig síðast föstudag. Rétt tókst að merja tónlistardagskrá Hugleiks þar sem ég fann að röddin var á síðasta snúning og byrjuð að bresta við minnsta álag. Hefði hún verið haldin degi seinna er ekki séns að ég hefði getað sungið. Að öðru leiti gekk þetta bara vel og var gerður góður rómur að.

Helgin var því með rólegra móti. Heimsótti fjölskyldu og vini á laugardag og hélt mig kyrfilega heima við á sunnudag. Lá uppi í rúmi og brynnti músum endurnýjaði kynni mín við Önnu í Grænuhlíð þökk sé internetinu. Komst að því að gerð var framhaldsmynd árið 2000 sem ég hef ekki enn þorað að horfa á. Sömu leikarar í sömu hlutverkum - bara 17 árum eldri að leika niður fyrir sig. Það er orðið langt síðan ég las bækurnar en ekki man ég eftir ævintýrum Önnu í fyrri heimstyrjöldinni. Aldrei grunaði mig að hún Anna gamla, af öllum, ætti eftir að stökkva yfir hákarl...

föstudagur, júní 01, 2007

Í kvöld er allra síðast séns til að upplifa restina af leikrári Hugleiks. Tónlistardagskráin glæsilega verður endurtekin - og eins vel heppnuð og hún þótti á þriðjudaginn verður hún ennþá betri í kvöld. Byrjar kl. hálf ellefu sem er auðvitað hinn besti tími fyrir föstudagsdjamm.

Aðalfundur Hugleiks var í gær og var mikið skrafað - en þó ekki þrætt og lauk honum á mjög skynsamlegum tíma. Gummi og Siggalára létu sig hverfa úr stjórn en ég, Jenný og Tóró komum inn í staðinn. Eftir fundinn vildi reykþyrsta liðið upplifa hina fullkomnu kaffihúsastemninu í síðasta skipti og því var reynt að finna hentugan vettvang. Andarunginn hafði þjófstartað sínu reykleysi en The Highlander tók við hópnum opnum örmum. Ég fékk mér Pepsi Max til samlætis því ég hef hugsað mér að gera heiðarlega tilraun til að hætta neyslu gosdrykkja og gat svona næstum því sett mig í þeirra spor.

Og nú ætlum við Auður að hittast á Vegamótum í hádeginu og halda uppá það að hún getur farið með 6 vikna guttann sinn inn á hvaða stað sem er hér eftir.

Það er fínt að hafa balans á hlutunum.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Mig grunar að ég sé alls ekki sú eina sem er að láta þetta sumarlíki sliga sig. Alla daga jafn þreytt og mygluð - og núna upp á síðkastið óeðlilega pirruð. Og það þótt ég borði (nokkurn veginn) rétt og taki vítamínin. En ef ekki á að kenna veðrinum um er smá séns að hreyfingarleysið sé sökudólgur. Í hádegisþunglyndiskasti var því fjárfest í korti í Baðhúsinu. Þar er sumartilboð í gangi - þriggja mánaða kort á kr. 13.900 sem er það mesta sem samviskan tímir að borga fyrir eitthvað sem verður að öllum líkindum illa nýtt. Eins og sést er hádegisþunglyndiskastið enn við lýði enda kunnuglega haglélið byrjað enn á ný og ég ekki farin að mæta í tíma. Nú væri ekki leiðinlegt ef fleiri sæju sér fært að nýta þetta góða tilboð og sparka síðan í óærði endann á mér svo ég mæti sem oftast. Ég er að sjálfsögðu bara að hugsa um velferð og heilsu vina minna.

Fyrst ég er á þessum nótum... á einhver hjól sem hann eða hún þarf að losna við? Jafnvel gegn vægu gjaldi? Ég geri engar kröfur aðrar en þær að það tolli undir mér.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Alveg makalaust.

Fjárhagurinn var orðinn soldið illvígur og ljótur á að líta upp á síðkastið og sá ég fram að á þurfa að koma mér í aukavinnu einhvers staðar út þennan mánuð ef ég átti ekki að enda á hvínandi kúpunni. Ekki bætti það lundina tilhugsunin um að ég átti eftir að borga fyrir meirihlutann af Húsabakkanámskeiðinu og sátu þær saman, kreditkortaskuldinn og skólaskuldin, eins og mörur á bakinu á mér og ekkert líklegar til að hypja sig í bráð.

Kemur þá til sögu Skatturinn - eins og guðinni í vélinni - færandi hendi með vaxtabætur sem nema ríflegri upphæðinni á kreditkortaskuldinni og feykja óvættinni út í buskann. Ég átti von á smá pening en ekki þessu. Skólaskulding er frekar sneypin og einmana núna og verður auðveld að tækla þegar þar að kemur.

Einhvers staðar átti ég uppsafnað gott karma það er ljóst. Við svo bætist að ég fékk fínar einkunnir fyrir bæði kontrapunkt og stigsprófið í píanó og er því bara hæstánægð þessa dagana.

Kók og prins á línuna!
Ég viðurkenni fúslega að hann er stundum frekar stuttur á mér fattarinn.

Ég var því bara að átta mig á því núna hvers vegna úkraínska lagið hljómaði strax svona kunnuglega.

Er þetta nokkuð annað en Rebellinn í nýrri og glitrandi mynd? Sama orka, svipuð geðveiki, fagrar bakraddir, einkennisdansinn í sams konar stíl og áköf danskrafa á alla sem hlýða. Hið úkraínska aðeins meira diskó og gay á meðan Rebellinn gæti best kallast írónískt gleðipönk en grunnhugmyndin skugglega svipuð.

Held ekki svei mér þá.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Bingó er búið í bili. Síðast sýning var í gær - bæði fyrir leikritið og leikhúsið sem er verið að rífa í tætlur í þessum orðum skrifuðum. Hún tókst með eindæmum vel og áhorfendur eðlilega hrifnir. Ég hafði ekki horft á frá því á þriðju sýningu og frábært að sjá hversu þétt og snuðrulaus hún var orðin. Ég veit ekki hvort, hvenær og hvar hún verður tekin upp aftur - held að málið sé athugun - en það er virkileg synd að kippa henni svona úr umferð þegar hún er komin á almennilegt flug.

C'est la vie. Áhugaleikfélög eru víst vön að sníða sér stakk eftir vexti.

Á meðan ég man: hvernig væri að brýna fyrir leikhúsgestum að setja ekki aðeins símana á "silent" heldur slökkva alfarið á þeim. Og alls ekki vera að senda sms út alla sýninguna! Manneskjan sem sat við hliðina á mér ótrúlega ræðin og gat ekki haldið athyglinni við það sem fyrir augu bar. Hún var með einn af þessum símum með stórum, björtum skjá - mun bjartari en á símanum mínum og þó hef ég átt það til að nota skjáinn sem vasaljós. Í aldimmum sal verður þetta "pínku" truflandi. Að maður tali nú ekki um vanvirðingu við sýninguna sjálfa.

Ég tók stigspróf í gær. Annað stig á píanó. Það gekk bara ágætlega. Síðasta lagið fékk að vísu allan stressskammtinn sem hafði safnast upp út prófið. Ég vissi að maður ætti að taka þau lög sem maður kann síst fyrst. Klára það sem veldur mestum áhyggjum strax af. En restin gekk ágætlega. Ég ber engar svakalega væntingar til píanónáms míns. Verð ánægð að ná.

mánudagur, apríl 30, 2007

Ég veit ekki með ykkur en mitt atkvæði fer til Úkraínu í ár



Myndband mögulega vinnuóhæft (NSFW).

Viðbót: Einnig með texta

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Mikið svakalega hefur visir.is dalað undanfarin ár. Einu sinni vann þarna fólk sem lagði metnað sinn í koma með vel skrifaðar og tímabærar fréttir en ég veit ekki hvaða sauðir eru við stjórnvölin þarna núna. Ekki finn ég upplýsingar um það á síðunni.

Það er svosem engin ein frétt sem er að fara fyrir brjóstið á mér heldur samansafn af ýmsum illa skrifuðum fréttum undanfarna mánuði þar sem málfarið og úrvinnslan var ekki samboðin illa ritandi örvita á huga.is. Þó fékk þessi frétt þann vafasama heiður að fylla mælinn. Til samanburðar má líta á sömu frétt á mbl.is - þar sem ennþá virðist vera til eitthvað sem heitir vinnubrögð.

Sömu hlutir að koma fram í báðum fréttum og þessi á vísi reyndar aðeins betur skrifuð en margar hafa verið upp á síðkastið (engar enskuslettur í þetta skipti) en lítil atriði í framsetningunni geta haft svo mikið að segja. Þannig virðist Vísis fréttin hafa gefið einhverjum geðsjúklingi leyfi til að réttlæta nauðganir í kommentunum og jafnframt segir valið á myndinni - og textanum undir henni - þeim sem eru móttækilegur fyrir slíkum skilaboðum að þær séu nú allar ýlandi dræsur hvort eð er og kannski hafi norsku perrandi bara rétt fyrir sér.

Glæsilegt.

Það skiptir líka ansi miklu máli á hvernig orðum frétt er lokið - því það eru gjarnan þau sem sitjast fastast í lesendum. Mbl.is klikkir út með vonbrigðum norskra stjórnmálamanna á meðan Vísir.is talar um að há prósenta telji að ef konur klæði sig djarflega "sé nauðgun að hluta eða alveg henni að kenna".

Ekki vil ég hafa þá yfirlýsingu sem mín lokaorð. Fyrst ég get ekki sagt upp fríum vefmiðli verð ég láta mér duga að taka hann út sem aðalsíðu í vafranum og sverja og sárt við leggja að fara aldrei þangað aftur.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Beljurnar vita hvað þær syngja. Nú er ég að koma undan vetri og eirðarlaus sem aldrei fyrr. Þolinmæðin gjörsamlega á þrotun og löngun til að gera eitthvað að heltaka mig. Brjótast út úr fjósinu og dansa á túnum. Fjósið verandi Ísland og/eða vinnan mín í þessu samhengi.

Ég var kölluð "vinan" í 600raðasta skipti í símanum í morgun. Eitthvað snappaði.


þriðjudagur, apríl 17, 2007

Það eru allir svo fjári aktífir og hæfileikaríkir í kringum mig þessa dagana:

* Gummi Erlings frumsýndi fallegu og skemmtilegu heimildamyndina, Tímamót sem öllum er hollt að kíkja á.

* Bingó er að sjálfsögðu snilldin ein og skyldumæting takk fyrir.

* Sýningum á Epli og eikum fer að ljúka og firra að missa af því frábæra verki.

* Stúdentaleikhúsið frumsýndi, um leið og "Bingó", leikritið Examinasjón í leikstjórn Denna og undir tónlistarstjórn Bibba. Brjálæðislega fyndin, vel unnin og hæfilega grótesk sýning um rassfasisma og mannlegt eðli. Ég sá ekki Allra kvikinda líki hjá LK á sínum tíma - sem var unnin upp úr sama efnivið og undir stjórn sömu manna - en ef hún var lík þessari þá missti ég af miklu.

* Það var svo gaman að sjá leikstjórana á öllum þremur ofangreindum sýningum skemmta sér manna best yfir eigin verki :)

* Auður eignaðis 16 marka strák á sunnudaginn og nefndi Steingrím. Ég á eftir að kíkja á gripinn sem ku vera líkur bróður sínum. Ég vona hennar vegna að þessi verði aðeins lágstemmdari í röddinni. Aðalsteinn eyddi fyrsta ári ævi sinnar í máta háa séið lon og don (þó ekki grátandi nb - þetta var bara almenn tónun.) Hátíðnin getur tekið á taugarnar þegar á líður.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Auður og Raggi eignuðust son nr. 2 í morgun kl. 9. Ég veit ekki meira fyrir utan það að móður og barni heilsast vel.

Aðalsteinn var búinn að panta bróður og hlýtur því að vera mjög sáttur nú.

Ég skipaði þeim í leikhús - á Bingó - á föstudagskvöldið og þegar þau fóru voru samdrættir að byrja. Fyrir nú utan allt annað reynist leikritið því hafa þessi prýðisgóðu losandi áhrif á óléttar konur. Samúðarsamdrættir kannski ekki svo vitlaus hugmynd.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Það er einhver kona sem vinnur í banka í Hafnarfirði sem ræður því alfarið hvenær ég kemst í frí. Ég þekki þessa konu ekki neitt en maðurinn hennar vinnur með eiginmanni samstarfskonu minnar og öll þurfum við að dansa eftir skipulagi þessarar einu hafnfirsku konu. Ef hún vill taka sér þriggja vikna frí í ágúst gerir maðurinn hennar það einnig. Það þýðir að samstarfsmaður hans kemst ekki frá í ágúst og fer í staðinn í júlí - sem og samstarfskona mín. Og þá kemst ég ekki spönn frá rassi. Ætli þessi kona viti hversu víðtæk áhrift sumarleyfisplön hennar hafa? Ætti ég að semja við hana beint?

Annars hef ég ekki miklar áhyggjur af sumarleyfinu þessa dagana. Ég hef verið að narta í frídagana í heilum og hálfum bitum í allan vetur hvort eð er. Núna er ég upptekin við að spígspora um eins og roggin hæna yfir myndbandasigrum mínum og finnst ég gasalega flink að splæsa sundur og saman myndum og hljóði með hjálp einföldustu forrita. Það hvarflar nefnilega að mér, seint og síðarmeir, að þarna er eitthvað praktískt sem ég hef gaman af að gera. Og hversu týpískt - og kvenlegt - það væri af mér að spá ekkert í því og snúa mér aftur að því sem ég geri daglega. Eða kannski er það ekki svo kvenlegt - ekki lengur. Ég var nefnilega ekkert að gantast hérna fyrir neðan þegar ég var að spá í klippinámi. Ég á auðvitað gríðarlega langt í land en ... hví ekki? Af hverju ekki ég frekar en einhver annar? Nú þarf ég bara að snúa mér í nokkra hringi og reyna að stefna í rétta átt án þess að detta á rassinn.

Æi - maður má láta sig dreyma.
Já það fylgir - frumsýningarvikunum - látlaust plögg á bloggsíðum. Þið verðið bara að sýna biðlund. Og auðvitað mæta á þessa stórgóðu sýningu.



Hugleikur og Leikfélag Kópavogs sýna leikritið Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Í leikritinu hittast fimm manneskjur reglulega og spila hinn stórskemmtilega leik – Bingó – sem allir þekkja og svo ótalmargir hafa spilað. Þessar fimm manneskjur bregðast við þeim tölum sem bingóstjórinn kallar upp og dreymir um að vinna stóra vinninginn. Skiptir það ekki mestu máli? Hver og einn verður að spila úr því sem honum er rétt - tölurnar vekja ýmsar minningar og við kynnumst persónunum og örlögum þeirra.

Komdu og við leikum Bingó fyrir þig!

Sýningar eru í Hjáleigunni, Félagsheimili Kópavogs, í Fannborg - hefjast kl. 20:30:

Laugard. - 14. apríl - Frumsýning - uppselt
Sunnud. - 15. apríl - 2. sýning
Fimmtud. - 19. apríl - 3. sýning
Laugard. - 21. apríl - 4. sýning - ath. sýningin byrjar kl. 23:00
Sunnud. - 22. apríl - 5. sýning
Miðvikud. - 25. apríl - 6. sýning
Mánud. - 30. apríl - 7. sýning
Fimmtud. - 3. maí - 8. sýning
Föstud. - 4. maí - 9. sýning
Laugard. - 5. maí - 10. sýning
Föstud. - 11. maí - 11. sýning
Sunnud. - 13. maí - 12. sýning
Föstud. - 18. maí - 13. sýning


Miðapantanir á hugleikur.is eða í síma 823-9700.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Bingó! Bingó. BINGÓ!



Í síðustu viku elti ég Bingóleikhópinn með vídeókameru og hérna er afraksturinn. Þetta er hugsað sem kynning fyrir sýninguna og væri ekki leiðinlegt ef fólk gæti skellt inn á blogg sín hvar sem þau kunna að finnast. Hægt er að blogga í gegnum youtube ef maður skráir sig þar inn en einnig er hægt að setja þennan link beint inn:


Nú eru bara 3 dagar í frumsýningu (14. apríl í Hjáleigunni!) og ekki seinna að vænna að brúka réttu plögggírana.

Btw - hvert fer maður til að læra klippingar? Þetta var ekki leiðinlegt.

fimmtudagur, mars 29, 2007

Ég er farin að halda að mitt eðlilega hvíldarástand sé að vera tábrotin vælandi yfir ýmsum krankleikum.

En ekki í dag - guðssélukka.

Ég hef ekkert minnst á alla menninguna sem sprettur út um allt þessa dagana. Hún er ekki svo lítil eða ómerkileg.

Fyrst verður auðvitað að telja Epli og eikur hjá Hugleik. Bráðfjörug, fyndin og vel unnin sýning sem engum ætti að leiðast á (þó að krakkar hafi sennilega takmarkað gaman af henni þar sem mikil áhersla er á hnyttinn texta.)

Svo er síðasta sýning á Systur Angelicu og Gianni Schicchi eftir Puccini í flutningi Óperustúdíósins í Óperunni í kvöld. Tvær mjög ólíkar og afar skemmtilegar uppsetningar á stuttum verkum með færustu nemum tónlistarskólanna.

Ég var annars búin að plana að kíkja á hvað hinn orðmargi heimspekingu Slavoj Žižek hefði að segja í fyrirlestri sínum á morgun en var boðuð í auka píanótíma á sama tíma sem ég hef ekki samvisku í að sleppa. Það er kannski nóg að lesa bækurnar hans - hann verður stanslaust úr einu í annað í þeim - það er hvort eð er soldið eins og hlusta á fyrirlestur. Mér er alveg sama.

Pirr - eins og konan sagði.

miðvikudagur, mars 28, 2007

Hérna er ferðasagan - í öllu sínu (litla) veldi. Ég hef hvorki orku né nennu til að skrifa hana aftur.

Ég er ennþá frekar máttlaus og utan við mig. Man ekkert stundinni lengur og geng á veggi. Matarleysi hefur svona gífurleg áhrif á heilastarfsemina. Gott að vita það. Note to self: Aldrei ráða anorexíusjúkling í flóknari vinnu en að blikka augum. Hmm... útskýrir módelbransann...

Rafgeymirinn í bílnum mínum gaf endanlega upp öndina 10 mínútum fyrir óperuna í gær (ég komst samt þökk sé hjálpsamri nágrannakonu - og það var mjög gaman) og af því að ég virðist hafa klárað allt uppsafnað karma í Barcelona laskaði ég auðvitað á mér tá rétt áður en ég lagði af stað fótgangandi í vinnuna í morgun. Ég er vonandi óbrotin en það er skemmtilegt frá því að segja að þessi sama tá var brotin frekar ósnyrtilega fyrir sléttum 20 árum.

Semsagt - ég kom nöldrandi frá útlöndum og sér ekki fyrir endann á.

En - hey - ég er með fullt af tolli og enga leið til að torga sjálf.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Vinna + skóli keppast við að drekkja mér þessa dagana. Ásamt öllu hinu. Og hvernig stafar maður aftur "sjálfsskaparvíti?"

Ég ætla ekki að velta mér of mikið upp úr því heldur einblína á Barcelonaförina sem hefst eftir tvo daga. Það er spáð rigningu. Jibbíjei.

Mér finnst ég alltaf hafa glutrað niður félagslífinu á slíkum tímum en þegar vandlega er skoðað er það nú ekki svo slæmt. Aðal hasarinn um helgina fólst reyndar í því að horfa á vídeó með Auði-sem-á-að-eiga-eftir-tvær-vikur og Ragga á laugardagskvöldið. Þvílíkt bóhemalíf sem ég lifi. Ég ætlaði að vísu að kíkja á Nönnu og co. tromma með glæsibrag á sunnudaginn en veðjaði því miður á ranga verslunarkeðju.

The Prestige reyndist vera ágætist mynd sem pirraði okkur mjög sökum þess hversu ruglingsleg hún var. Ég veit að trixið við hana var það myndin sjálf átti að funkera sem n.k. prestige* en hún klikkaði í undirbúningum. Í stað þessa að fela spotta- og kanínuleg plottin með því að sveipa þau hversdagsleika - innan myndmáls kvikmyndarinnar (eins og var t.d. gert í myndum á borð við The Sixth Sense og The Others) - var stuðst við hraðar klippingar og ruglingsleg stökk í tíma. Það fékk mann hins vegar bara til að leita eftir því sem var verið að fela. Það er kannski gallinn við að gera myndir um töframenn - sérstaklega þar sem plottið á að koma á óvart - væntingarnar verða óklífanlegar.

Hrós dagsins fær Augað í Kringlunni fyrir að gera við gleraugun mín á mettíma og endurgjaldslaust eftir að ég steig á þau í gær og braut. Þau eru nú betri en áður en ég braut þau. Ef aðeins fleiri fyrirtæki byðu upp á slíka þjónustu. T.d. Toyota umboðið.

__________________________________
* kalla eftir góðri þýðingu - það er s.s. galdurinn sjálfur - sá tímapunktur í atriðinu þegar þú lítur á sessunautinn og segir "hvernig í fjandanum fór hann að þessu?"

þriðjudagur, mars 20, 2007

þriðjudagur, mars 13, 2007

Ekki veik í dag. Sennilega hafa ljóðmælin mín í gær virkað sem hressilegur galdur og hrakið pestina vælandi á brott. Ég ætti augljóslega að yrkja oftar.

Allir eru rasandi yfir dökkhærði Eiríks Haukssonar í nýja myndbandinu. Mér er nokk sama hvernig hann greiðir sér en þetta nýja myndband vekur með mér spurningar um ímynd Íslands. Ójá. Júróvisjónmyndbandið hefur alltaf fúnkerða sem auglýsing heillar þjóðar á sérstæðu sinni og hæfileikum. Það væri verðugt verkefni fyrir hæfan bókmenntafræðing (*hóst*) að setjast niður og greina þessar ímyndarauglýsingar síðustu 20 ára. Frá glaðlegum goshverum Gleðibankans til hins drungalega og dökkhærða ljótleika hins alíslenska nútíma sem Eiki (í gegnum Gunnar Björn) býður upp á. Eða eins og segir í ensku útgáfunni:

I'll let the music play
while love lies softly bleeding.
In heavy hands on shadowlands.
As thunder clouds roll in
sunset is receding.
No summer wine - no Valentine.
A tiger trapped inside a cage.
An actor on an empty stage.
Come see the show!
Rock ‘n' roll can heal your soul
when broken hearts lose all control.


T.S. Eliot hefði verið stoltur - og sennilega slegist við Ezra Pound um heiðurinn að fá að vegsama þessa smíð.

mánudagur, mars 12, 2007

Blundar ekki í öllum lítið ljóðskáld? Ég á eitt slíkt. Samanrekið, bólugrafið kríli sem býr á bakvið hægra eyrað þar sem það hámar í sig ruslfæði og sefur yfir sjónvarpinu. Sem er ástæðan fyrir svona afrakstri:

Ó mig auma

Alla tíð hef ég hafið að leiðarljósi hina sönnu mannamöntru
Uppsprettu hreysti og æskublóma
í sefjandi munstri hins brúna og bleika.

Lygin afhjúpuð og fortíðartöfrar tættir:

Ég fæ engan kraft úr kókómjólk.




Ég ætti víst að þakka fyrir að vera að veikjast núna frekar en eftir 10 daga - í flugvél á leið til Barcelona. Ég er ennþá nokkuð hraust - einkenninn öll á byrjunarstigi. Hins vegar er ég ekki þekkt fyrir að reyna að fremja ljóðlist heil heilsu - þannig að þróunin er uggandi.

föstudagur, mars 09, 2007

Föstudagskvöld á Sirkus...

Play Station 3 er víst svaka græja sem allir ásælast "meira að segja konur því hún er svo flott."

Ásgeir Kolbeinsson er hetjan mín.

þriðjudagur, mars 06, 2007

Mig langar í ... frostpinna!

Þ.e. líkaminn kallar á frostpinna en mig grunar að það sé hausinn sem er eitthvað að mistúlka þörf fyrir sól og sælu á þennan hátt. Birtu og hitastig er farið að minna á vor og eftirvænting eftir sumri samfara því.

Þið vitið þetta kannski ekki um mig en ég er sveitastúlka í eðli mínu. Mér hefur tekist að sveipa um mig hinum ýmsum þæginum borgarlífsing og reynt að láta þau koma í staðinn en innst inni langar mig mest af öllu að rölta út á Hjálparflöt með berjatínuna eða klifra upp á nærliggjandi hól og virða fyrir mér sveitina í þægilegri sumargolu.



Auðvitað gæti þetta bara verið vegna þess að ég sé fyrir mér alltof mikið innilíf í nánustu framtíð. Skólasetan minnkar ekkert fyrr en nær dregur maí og nú á ég að taka stigspróf á píanó þannig að æfingarnar verða að aukast að sama skapi. Svo er það Bingó-aðstoðin sem ég er búin að lofa mér í. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég læt freistast á sumrin til að taka þátt í sprelli á vegum Leikfélagsins Sýnir. Útiveran kallar.

Á meðan á þessu öllu stendur er algjörlega útilokað að 25 snaróðir hestar gætu dregið mig út í garð til að dytta að. Maður verður að hafa einhverjar þversagnir í sínu lífi.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Nemendur Tónlistarskólans í Reykjavík halda úti dagskrá sem samanstendur af erlendum þjóðlögum í Norræna húsinu laugardaginn 3. mars kl. 14. Undirrituð ætlar að syngja eitt lag útsett af ofurhommanum Benjamin Britten.

Í guðanna bænum myndið einfalda röð við innganginn og ekki ryðjast framfyrir.
Litli bróðir á afmæli í dag - til hamingju! Hann þykist vera þrítugur en mér finnst hann ekki hafa elst um dag frá því að þessi mynd var tekin:



Ég skal viðurkenna að ég hef elst eitthvað aðeins. En hef alltaf verið jafn skelfilega gott módel.

Eins sólrríkur og þessi dagur er annars byrjað hann ekki vel því bíllinn minn vildi ekki í gang í morgun. Ég lét blindast af birtunni og sá ekkert því til fyrirstöðu að labba í vinnunna - í sex stiga frosti. Ég hafði þó vit á því að setja trefil yfir blautt hárið. Er fyrst núna að finna fyrir lærunum á ný.

Nú þarf ég einhvern veginn að finna út hvernig ég get púslað saman plönum dagsins bíllaus. Það er hádegistími með undirleik og kontrapunktur eftir vinnu - sem ég á eftir að læra fyrir - og kvöldmatur hjá foreldrunum. Það er sök sér með hádegistímann en eitthvað lítið á ég eftir að ná að læra fyrir kontrapunkt og svo þarf ég að stinga af úr tíma mun fyrr en ég ætlaði til að komast í mat kl. 7 og þá er varla að það taki því að mæta.

Nema ég finni einhvern til að gefa bílgarminum start. Ég á sjálf glansandi fína startkapla.

Viðbót: Nanna var svo elskuleg að bjóða fram aðstoð sína og start í bílinn en mér tókst að redda því í hádeginu og fékk Önnu samstarfskonu í lið með mér.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Hafiði heyrt nýjasta brandarann? Meðlimir Feministafélagsins mótmæla klámráðstefnu. Það má endalaust hafa gaman af þessu. Jafnvel hægt að líkja þeim við nasista - slík er fyndnin.

Er ekki stórhættulegt að láta bendla sig við þessa hreyfinu? Eiga ekki allir hugsandi kvenmenn að stinga höfðinu í sandinn og kalla sig "jafnréttissinna" - svona til að enginn misskilji örugglega?

Afneitar fólk kristnidómi og segir sig úr þjóðkirkjunni umvörpum í hvert skipti sem Gunnar í Krossinum segir eitthvað heimskulegt? Hættir fólk afskipum af stjórnmálum þegar ráðherrar stíga upp í kokið á sér? Mér er spurn.

Ekki að ég sé að líkja konunum í Feministafélaginu við Gunnar í Krossinum - né kalla viðhorf þeirra heimskulegt sem það er alls ekki. En ég má alveg kalla mig feminista án þess að gangast undir og taka þátt í öllu því sem Feministafélagið tekur sér fyrir hendur. Síðast þegar ég gáði var feminismi hvorki trúfélag né stjórnmálaflokkur - heldur hugmyndafræði.

Og ég er orðin afskaplega þreytt á því að í hvert skipti sem Feministafélagið vekur athygli á einhverju sem misbýður þeim snýst öll umræðan um réttmæti feminista til að segja skoðun sína og sama bitra tuggan tuggin enn á ný.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Hvernig á maður að koma á laggirnar almennilegum alkóhólisma með tilheyrandi sjálfsblekkingu, niðurbroti og afvötnun ef maður kemst aldrei úr sporunum inn á breiðu og brengluðu brautina?

M.ö.o.: Hvar eru allir?

Viðbót: Hún Björg gamla vinkona er loksins byrjuð að blogga. Allir veifa Björgu.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Siggi, formaður Hugleiks, og Íris kona hans eignuðust stúlku í gær. Sýnist mér vera orðin mjög áberandi kvenleg stefna í stjórn þessa leikfélag þar sem þrír núverandi stjórnarmeðlimir hafa framleitt stúlkubarn stuttu eftir að hafa hafið störf. Klárlega verið að undirbúa uppsetningu á "Öskubusku" - eða "Ásu, Signýju og Helgu" eftir 20 ára eða svo. Svona eru þau nú skipulögð og framtakssöm. Til hamingju.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Bloggið mitt hefur verið í hálfgerðri tilvistarkreppu undanfarið. Og hefur kannski liðið fyrir að fá að vera birtingarmynd minns eigin lífsóróa. Það er svo margt sem mig langar til að gera en kem ekki í verk. Það er svo ennþá meira sem ég vildi ekki gera en kemst ekki undan. Í staðinn réðst ég á mygluna í kjallaranum.

Við myglan eigum okkar langa sögu. Ég veit ekki hvaðan hún kemur en pabbi virðist halda að sprunga í útvegg sé orsökin. Ég held að húsið sé að hefna sín á þeirri endulausu runu af mis skemmti- og þrifalegum leigjendum sem ég hef troðið þar inn. Einn tók upp á því að mála stigaganginn í kjallaranum fyrir ca. 2 árum. Áður en hann málaði var engin mygla - nú er mygla. Hann gerði það afskaplega illa. Fór aðeins eina umferð yfir veggina, sletti málningu út um allt gólf - þ.á.m. trétröppurnar og hefur sennilega ekkert þrifið áður en hann byrjaði. Hann var síðan svo eftir sig eftir þessi átök að hann hvorki þreif né tók til það sem eftir var af dvöl hans í kjallaranum (kannski ár?) Regluleg hef ég hlussast niður á kjallaratröppurnar og reynt að þrífa myglublettinn sem gerjast þar í einu horni og étur sig upp eftir veggnum. Í hvert skipti kemur bara meira. Reyndur málari sagði mér að notast við klór þar sem sápa mundi bara virka sem æti fyrir mygluna. Það hafði ekkert að segja. Ég var hætt að nenna þessu og kvíða ferðum niður í þvottahús því það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði kjallaradyrnar var nýjasta gæludýrið - undir það síðasta farið að daðra við loftið.

Fyrir

Loksins tók ég eftir því að þar sem málningin hafði flagnað af við þvottatilraunir mínar var engin mygla - á meðan hún grasseraði vel á nýjasta málningarlaginu. Eina rökrétta skýring var því sú að undir eða inní slettunum sem leigjandi hafði klesst á vegginn var einhver drulla sem myglan mín gat maulað á dagslangt. Nú dugðu engin vettlingatök. Með skröpu að vopni réðst ég á óargadýrið og náð því loks í burtu - algjörlega bara með illu. Við bíðum nú - ég og skrapan - eftir að ófyglið láti kræla á sér á ný. Það rétt ræður.

Eftir

Ath. allur allegórískur lestur á ofangreindu er á ábyrgð lesenda.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Hér sé fikt. Vinsamlega sýnið þolinmæði.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Landið er að þiðna. Mikið ofboðslega er ég fegin. Og mikið ofboðslega vona ég að þetta verði viðvarandi ástand. Aldrei aftur skal ég hallmæla gróðurhúsaáhrifunum svo lengi sem þau bjóða upp á ótímabær hlýindi. Kuldinn hefur ekki góð áhrif á mig. Á meðan aðrir (hugsanlega, sumir, hlýtur að vera) fyllast orku og eldmóð í gaddinum til þess að halda á sér hita leggst ég undir feld, slekk á heilastarfsemi og borða mér til hlýju. Það kæmi mér ekki á óvart ef einhver bjarnagen leyndust í móðurættinni. Sem dæmi: ég brunaði í gegnum alla 11 þætti sem komnir eru af Studio 60 on the Sunset Strip (gaman gaman) yfir helgina ásamt því að horfa á slatta af kvikmyndum og ýmsar aðra þætti. Þetta kalla ég að lifa veturinn af. Nú, þegar mér er loksins hvorki kalt á nefi né puttum, get ég byrjað að hugsa um að eiga félagslíf.

Fór á Foreldra á föstudaginn. Hún var góð.

Horfði á Börn á laugardaginn. Hún var líka góð.

Stóra spurningin er auðvitað hvor er betri. Svarið er: hvur veit? Kosturinn við "Börn" er sá að sögurnar þrjár eru allar jafn tragískar og ná að spinna saman hámark á réttu augnabliki. Þótt að viss leyti sé um sjálfstæðar sögur að ræða hafa þær áhrif á hvor aðra - orsök í einni leiðir til afleiðinga í annarri o.s.frv. Því er ekki fyrir að fara í "Foreldrum." Tvær þeirra tengjast jú nokkuð en ekki á jafn afdrifaríkan hátt og í "Börnum." Þriðja sagan er svo til alveg ótengd við hinar tvær. Því má auðvitað ekki gleyma að þetta átti upphaflega að vera ein mynd (og þá kölluð "Kvikyndi") og allar sex sögurnar tengdust innbyrðis á mun flóknari hátt. Það tókst vel að aðgreina sögurnar í "Börnum" og gera að einni heild en "Foreldrar" ber það kannski með sér að vera restin. Engu að síður er um virkilega vandaða mynd að ræða og mun kómískari heldur en "Börn." Margar skemmtilega útfærðar senur - grátbroslegar jafnvel en þó án þess að verða pínlegar (list sem alltof fáir íslenskir kvikmyndagerðarmenn virðast geta tileinkað sér) - og leikurinn óaðfinnanlegur. Er sérstök ástæða til að hampa Nönnu Kristínu sem hverfur gjörsamlega inn í persónu sína. Það reynist líka vera kostur að sögurnar fjalla allar um ofur hversdagslega hluti. Við hlæjum að og finnum mest til með þeim sem við þekkjum.

Hvað undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva varðar hef ég aðeins eitt að segja: ái.

föstudagur, janúar 19, 2007

Ég er að spá í hvort ég eigi ekki bara að segja þetta gott. Frá því um jólin hef ég tjáð mig hérna einu sinni. Á sama tíma hef ég skrifað 12 sinnum í live journal. Held að það segi sitt. Einhverra hluta vegna finn ég fyrir kröfu til að segja alltaf eitthvað af viti hérna og þegar það gerist ekki sný ég mér að live journal þar sem væntingarnar eru í lágmarki. Þar virðist ég lifa í þeirri blekkingu að enginn sem ég þekki sé að lesa um mig. Kannski er líka miklu þægilegar að blaðra um ekki neitt á enskri tungu. Við sjáum til. Ekki búast a.m.k. við stórtíðindum á þessum vettvangi í nánustu framtíð - ég ætla ekki að eyða blogginu eða neitt svo drastískt en ef þig langar til að fylgjast með stórtíðindum í mínu lífi er vænlegast að fylgjast með hamborgarabúllunni.