sunnudagur, febrúar 08, 2009

Enn og aftur hefur Hugleikur hrist fram úr erminni eins og eina dagskrá. Jólafundur Hugleiks varð að Þorrafundi - eða Þorrablóti - og nú með enn meira skemmtiefni. Júlía Hannam heldur uppi merki félagsins og skellti í tvo leikþætt eins og ekkert væri. Það er orðið svo langt um liðið síðan ég hef staðið á sviði og gert eitthvað að ég var hreinlega búin að gleyma tilfinningunni. En mér heyrðist gerður góður rómur af, það var múgur og margmenni á staðnum og þrusugott partý í kjölfarið. Að vísu allt í rúst þegar við Júlía komum við þarna í dag (höfðu báðar gleymt símunum okkar). Það er alveg kominn tími á að fleiri félagsmenn finni hjá sér tiltektarhvötina.

Ritgerðarfjandinn mjakast. Ég skilaði heljarinnar inngangi til Guðna í síðustu viku og hef tekið mér verðskuldaða pásu í kjölfarið. En nú er kominn tími til að bretta aftur upp þessar ermar. Til þess að reyna að krækja í bráðnauðsynlega aukaorku afréð ég fyrir viku síðan að ég skyldi hætta að borða sykur. Sykursukk ku fara frekar illa með blóðsykurinn og valda bara sleni þegar fram líða stundir. Og hef staðið við það merkilegt nokk. Reyndar bjó ég til sushi í síðustu viku og það er smá sykur í því. Og ég var búin með helminginn af jólablandi sem ég fann í ísskápnum þegar ég mundi að það var auðvitað hlaðið sykri en þetta voru einu útúrdúrarnir. Ég snerti ekki einu sinni við kökunni í föstudagskaffinu sem ég keypti þó sjálf. Hún var meira að segja óvenju girnileg; kaka ársins með nóakroppi og bláberjum. Held nefnilega að maður þurfi að tækla þetta soldið eins og að hætta að reykja eða drekka. Ein retta, einn drykkur, eitt súkkulaði - er einu of mikið. Ég ætla samt ekki að reyna að halda þetta út til eilífðarnóns. Og það er engin leið að sneiða framhjá öllum sykri. Gruna t.d. að það hafi verið ágætt magn í öllu víninu sem ég drakk í gærkvöldi. En ég er a.m.k. með skýrar línur og maður verður allur meðvitaðri í kjölfarið. Þrír mánuðir ættu að vera nokkuð raunsær rammi - svo sé ég bara til.

Páskarnir verða vafalaust erfiðir.