mánudagur, desember 27, 2004

Stundum þykist ég geta prjónað. Tók til að mynda þá ákvörðun í nóvember að ég skyldi prjóna vettlinga á alla í jólagjöf. Það fór nú ekki alveg eins og ég ætlaði. Tókst að koma hvorki fleiri né færri en þremur pörum í pakka. Er með þrjú önnur í lokavinnslu. Framleiðnin er ekki meiri en þetta. En ég hef allt árið framundan til að æfa mig fyrir næstu jól og hver veit nema ég hefji leikinn upp á nýtt og ókannað plan. Ég held ég geti fullyrt það að engir aðrir muni finna annað eins í jólapakkanum að ári.

laugardagur, desember 25, 2004

Það er auðvitað synd og skömm að jólin skuli bæði koma í veg fyrir tímanlegar kveðjur sökum annríkis og almennt skyggja á...

Þrjátíuogeins árs afmælið hennar Berglindar Rósar sem var í gær!

Til hamingju og hún lengi lifi!

miðvikudagur, desember 22, 2004

Kíkti í gær í heimsókn til Svavars þar sem verið var að leggja loka hönd á hina epísku jólaplötu Hrauns (mark 2). Eftir að hafa fengið nasasjón af því sem í boði verður get ég með sanni sagt að þessi plata verður a) bráðskemmtileg, b) ólík öllum öðrum jólaplötum á markaðnum og c) með allt öðrum brag en platan í fyrra.

Mestur tíminn fór í að taka upp lagið hennar Nönnu (sem helti sér í verkefnið af mikilli innlifun þrátt fyrir afskaplega bágborna heilsu) - bæði stórgóðan söng hennar og sérstakan trompetleik Jóns Geirs. Síðan góluðum við Nanna nokkrar bakraddir við örfá lög. Alveg merkilegt hvað hægt er að koma miklu í verk á ekki lengri tíma en þetta (vorum svona 2 tíma.) Einhvern tímann var uppi sú hugmynd að ég léti ljós mitt skína á þessari plötu en bæði datt mér ekkert almennilegt lag í hug og svo hljóp tíminn frá öllum þannig að ekkert varð úr. Það var svo auðvitað ekki fyrr en ég var á leiðinni heim að mér datt loksins í hug hið fullkomna jólalag og verður það bara að fá að vera með næstu jólaplötu fyrir náð og miskunn.

Sko.

Fyrir næstu plötu finnst mér að Fúlhildur ætti að taka Santa baby með sinni geðþekku rödd - og eftir svona hálfa flösku af sherríi. Þetta lag hefur gjarnan verið framið með einhverri hálf pervertískri babydoll rödd af meyjum á borð við Madonnu. Þannig lifir það a.m.k. í minni minningu. Er ekki mál til komið að gera það almennilega og án vandræðalegrar tvíræðni? Sungið af sauðdrukkinni og drafandi miðaldra kerlingu. "Come and trim my Christmas tree" indeed.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Afmælisdagurinn var ánægjulegur ef lágstemmdur. Fór í dýrindis mat til bróður míns og mágkonu þar sem dramakóngur heimilisins (Gísli Hrafn) þóttist vera skyndilega logandi hræddur við mig og skemmti fólki með hljóðgjörningi þangað til maturinn byrjaði. Síðan brunaði ég heim og tók til í stofunna svona ef og mundi einhvern mundi kíkja. Auður kíkti til mín en aðrir voru forfallaðir og við fylgdumst með leiðinlegu fólki segja leiðinlega hluti í Survivor. Vinningshafinn hélt uppteknum lygahætti og gekk svo langt að gráta krókódílatárum við hvert tækifæri sem skilaði nettri milljón í vasann. Farið hefur fé betra.

Annars hefur afmælið mitt gjarnar þjónað þeim tilgangi í lífi mínu að minna á að jólin eru að bresta á en einhverra hluta vegna gengur mér ill að muna eftir þeim þessa dagana. Kannski einmitt vegna þess að ég er búin með öll jólagjafainnkaup og hef þau ekki til að stressast yfir. Það eina sem er eftir er að klára nokkra vettlinga, þvo þvott og draga upp gamla gervijólatréð hennar ömmu sem ég fann óvænt í geymslunni síðastliðið sumar.

Og jólalag Baggalúts er víst komið út. Sem þýðir að það er ekki flóafriður í vinnunni þar sem einn starfsmaður er með lagið á repeat og fullu blasti og vei þeim sem reynir að hlusta á eitthvað annað. Þannig að - "The Final Countdown" í íslenskum, jólalegum búning - aftur og aftur og aftur. Baggalútur hefur gert mörg skemmtileg jólalög í gegnum tíðina en af hverju þarf að gera mér þetta? Europe ... *hrollur*

mánudagur, desember 20, 2004

Jæja árinu eldri og aldurskomplexar næstum því hættir að segja til sín. Eftir að hafa fylgst með Snorra Hergli verða þrítugur með látum um helgina rifjaðist upp mín eigin örvænting yfir þeim merku tímamótum. Sem virka ekki svo merk lengur. Þá var ég ung og vitlaus og hélt að tíminn hefði bitið á mér í síðasta skipti. Eitthvað í þá veru. En ég varð samt bæði þrjátíuogeins og þrjátíuogtveggja og verð að öllum líkinum þrjátíuogþriggja að ári. Mál komið að sætta sig við þróunina.

Þannig að - fyrst að þetta kallast nú afmælisdagurinn er ekki úr vegi að heiðra hann sem slíkann. Halldór og Jóhanna hafa boðið mér í mat í kvöld en svo ætla ég bara að vera heima hjá mér og ef fólk vill heilsa upp á mig er það velkomið. Formlegheit, hins vegar, verða nákvæmlega engin þó mögulega verði hægt að plata mig til að hella upp á kaffi.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Komin heim frá Bretlandseyjum og langar aldrei til að ferðast aftur. Ekki að þetta hafi verið á nokkurn hátt leiðinleg ferð; þvert á móti. Ég þrammaði um Manchester þvera og endilanga á hverjum degi (þó mest um miðbæinn) og dvaldi í afskaplegu góðu yfirlæti Skottu. En 12 tíma ferðalög eru meira en ég hef úthald og andlega heilsu í. Lest + neðanjarðarlest + rúta + flug + rúta + leigubíll * 30 kílóa taska = löngun til að loka mig inni á heimili mínu um ókomna ævi. Samt - þrátt fyrir smá hnökra á ferðalaginu (ég er þannig að ferðalög verða að vera fullkomlega hnökralaus ef ég á ekki að tapa geði) gekk nú allt upp. Þegar illu lestarmennirnir í London vildu ekki hleypa mér í lestina sem fór til Manchester vegna þess að miðinn minn var eitthvað vitlaust merktur fann ég yndæla miðasölukonu sem reddaði mér í næstu lest (við það tækifæri var tekin sú allar sorglegasta, úldnasta og grátbólgnasta passamynd sem um getur.) Eins þegar ég var á leiðinni heim og sá fram á að vera með alltof mikla yfirvigt gat ég fengið manninn sem stóð fyrir aftan mig í röðinni og var farangurslaus með öllu til að tékka sig inn um leið og ég og bjarga mér frá himinháum gjöldum. Semsagt - allt hið besta mál.

Það sem gerðist svo á milli miklu landaflutninganna var fullkomlega stresslaus yndælistími. Ég vona bara að ég hafi ekki truflað Skottu of mikið við lærdóminn. Ég gekk að reyndar af mér báða fótleggi - a.m.k. þangað til ég fann almennilega strigaskó - en hafði það af að klára jólgjafainnkaupin með öllu. Get nú bara tjillað með bækurnar mínar og prjónana og DVD-ið út mánuðinn og fyrir utan hin hefðbundnu jólatrjáainnkaup sem við pabbi förum alltaf í þarf ég aldrei aftur að hætta mér út í jólaörtröðina. Jibbí jei!

mánudagur, desember 06, 2004

Úff - er ég að leggjast í bloggleti? Nú væri afskaplega hentugt að skella skuldinni á skammdegið og firra sig allri ábyrgð. Hins vegar vill til að ég er ekkert sérstaklega illa fyrir kölluð þessa dagana og því verður þetta háttalag eingöngu skrifað á leti og hugmyndasnauði.

Þrír daga þangað til ég fer út. Ég er ekki frá því að ég kvíði hálfpartinn fyrir því. Ver umheimsfælnari og heimóttalegri með hverju árinu sem líður hér bjargföst á klakanum. Fyrst og fremst finnst mér leiðinlegt að ferðast. Að þurfa að flækjast á milli staða og tala við útlendinga og rata ekki og þekkja ekki á kerfið - mér finnst það bara minna en ekkert spennandi. Og samt ætla ég. Gerir það að verkum að ég missi af jólatónleikum Hrauns sem verða á meðan ég verð úti en í staðinn geri ég eitthvað dásamlega skemmtilegt með Skottu.

Planið eins og það lítur í dag er sem sagt þannig ég fer út næstkomandi fimmtudag kl. 14:50 og lendi á Stansted um sexleytið. Þarf síðan að koma mér með lest eða rútu til London þar sem ég á bókað hótelherbergi um nóttina. Síðan daginn eftir þarf ég að finna út úr lestastöðvunum og koma mér til Manchester. Einhvern tímann áður en ég fer þyrfti ég líka að panta mér lestarmiða en ég hef ekki hugmynd hvernig ég á að fara að því og get ekki fyrir mitt litla líf fundið rétta síðu fyrir slíkt.

Já og mig vantar far á völlinn. Anyone?

miðvikudagur, desember 01, 2004

Ég var með einhverjar yfirlýsingar um að ég treysti mér ekki strax til að segja skoðun mína á Memento Mori strax sem þýðir víst að ég verð að gera það einhvern tímann. Í sem allra stystu orðum: þrátt fyrir nokkra byggingagalla á sýningunni og úrlausn sem kom of fljótt og virkaði ekki nógu vel á mig var þetta mjög flott sýning. Afskaplega vel leikin, skrifuð og sérstaklega leikstýrt. Ég get lofað því að engum mun leiðast og hefði sýningin notið sín enn betur hefði hún verið lengri. En hún ku víst vera þetta stutt (rúmur klukkutími) af ásettu ráði.

Hvað hefur annars á daga mína drifið? Lítið annað en sjónvarp og prjónaskapur. Kíkti í fajitas og setu yfir Skjá einum hjá Siggu Láru á mánudaginn. Í gær var svo hið alræmda bíókvöld okkar Auðar sem byrjar yfirleitt á "Amazing race" og hverfist svo yfir í gláp á einhverri kvikmynd eftir fyrirframákveðnu þema. Stundum villist bjór eða léttvín inn í dæmið en ekki oft og sjaldan í miklum magni *hóst*. Þemað þessa dagana er "heimsendir" og eins og í síðustu viku var hörgull á slíkum myndum á heimilinu og enginn nennti út í vídeóleigu. Í stundarbrjálæði rámaði mig í að bókin Slapstick: Or Lonesome No More eftir Kurt Vonnegut innihéldi slíkar pælingar og vildi svo skemmtilega til að ég átti mynd sem gerð var eftir henni árið 1982 í fórum mínum, mynd sem ég hafði verið að humma fram af mér að horfa á því mig grunaði að hún væri það vond. En hún var ekki vond. Það verður aldrei sagt að Slapstick (of another kind) sé bara vond. Þetta var vondasta, versta og illasta mynd sem gerð hefur verið nokkurn tímann ever. Við gáfumst upp eftir svona tuttugu mínútur og þá af einskærum leiðindum. Fyrir rest tókst að halda heiðri þemans á lofti með glápi á In the mouth of madness - sem er kannski aðeins of póstmódernísk fyrir árið 2004 en alltaf soldið krípí.