þriðjudagur, október 31, 2006

Nú stendur yfir bráðskemmtileg stuttverkasamkeppni á leiklist.is og geta allir farið þangað inn og lesið þau 15 verk sem valin voru í úrslit og gefið atkvæði. Ég hélt að þetta yrði kannski flókið verkefni en þegar til kom fannst mér nákvæmlega þrjú bera af hinum (og tvö önnur komast næst því) þannig að atkvæðaval var bæði ljúft og auðvelt.

Þar sem það eru ágætis verðlaun í boði gældi ég auðvitað við þá hugmynd að senda sjálf inn verk en ekki varð neitt úr neinu - október búinn að vera þannig mánuður að ég hef ekki getað einbeitt mér að neinu öðru en eymslum og ömurleik. Þ.e. ekki fyrr en ca. klukkustund eftir að frestur rann út en þá fæddist í mér lítill einþáttungur sem meira að segja náði fullum þroska. Byrjun, miðja, endir, hvörf og læti. Og brandari sem aðeins Hugleikarar kynnu að meta. Fylltist ég þvílíku stolti við framtakið að nú langar mig skyndilega til að klára fleiri hluti. Ég er að hugsa um að gerast svo djörf að setjast niður og lesa yfir það sem komið var af MA ritgerðinni í den (heilar 27 blaðsíður!) og athuga hvort eitthvað er nothæft. Hún er víst ekki jafn slæm og mig minnti.

fimmtudagur, október 26, 2006

Það hefur gætt umtalsverðs kæruleysis á þessu bloggi og í mínu lífi undanfarið. En því tímabili mun brátt ljúka.

Ég hef verið að heyja óvenju harða orustu við síðuna mína - og um tíma leit út fyrir að hún hefði vinninginn þar sem ég skakklappaðist um sveitir og héruð og kveinkaði mér óspart út af bakverk. En nú er komið plan. Ég heimsótti sjúkraþjálfara í dag sem blöskraði bólgan og er nú komin með tilskipan upp á sund fjórum sinnum í viku ásamt heimaæfingum og frekari sjúkraþjálfaraheimsóknum. Skal þessi forni fjandi yfirunnin í eitt skipti fyrir öll. Eða í öllu falli haldið kyrfilega kjurrum undir skóhælnum.

Og af því að ég hef einsett mér að ráðast aðeins á hæstu garðana hef ég sett mér annað markmið í lífinu: ég ætla að læra allan texann við Vor í Vaglaskógi. Ó já.

Það forheimskulegt að ætla bara að taka eina spýtu í einu og klára hana: heimsyfirráð eða dauði!

fimmtudagur, október 12, 2006

Dr. Gunni segir farir sínar ekki sléttar á baksíðu Fréttablaðsins í dag er hann reynir að troða menningu inn í barnungan son sinn í Reykjavíkurborg:



Nú er ég ekki viss um að Þórdís hafi málað þessar myndir með smábörn í huga en veit þó að 5 ára frændi hennar sá ekkert athugavert við þær. Mér sýnist Doktorinn vera að ala upp óvenju viðkvæmt barn og ég er forvitin að vita hvernig því verður við í fyrsta skipti sem það heyrir Prumpulagið.

þriðjudagur, október 10, 2006

Mig langar heim að sofa.

Svo langar mig til að einhver komi heim til mín, taki til, eldi handa mér súpu, vaski upp, kaupi handa mér uppþvottavél og setji í hana, kveiki á kertum, breiði yfir mig teppi, gefi kettinum, þvoi þvott og slökkvi ljósin. Á meðan ætla ég að liggja í móki.

Fjandans kvef.
Um leið og ég finn nennuna til þess ætla ég að taka til í linkalistanum hér til hægri. Ég veit orðið um alltof mikið af fólki sem á miklu frekar skilið að vera upptalið heldur en ónefnd letidýr. Munið það með mér.

Það er alltaf viss hætta sem fylgir því að blogga þegar maður er latur og aumingjalegur sem er sú allar færslu fara að fjalla um leti og aumingjaskap (og NB skal ekki ruglað saman við þunglyndi sem er allt önnur og stórhættuleg ella.) Ég eyddi allri helginni í að passa börn bróður míns þar sem foreldrarnir skelltu sér út fyrir landsteinana - og var meira eða minna á stanslausri pissu og snýtuvakt. Heba líka. Var síðan svo stórheppin að veikjast á sunnudaginn. Ég vil engum svo illt að fara að segja frá því í smáatriðum. Og ég er búin að komast að því endanlega að ég er handónýtur kandídat í einhleypa móður. Tvö börn á 2-3 ára aldrinum er minnst tveggja manna starf og ég hefði aldrei meikað þetta án Hebu. Börnin eru auðvitað yndisleg en það tók þau alveg 5 daga að venjast því að hafa Ástu frænku þarna í staðinn fyrir mömmu og pabba þannig að flestir morgnar byrjuðu á gífurlegu svekkelsi yfir stöðu mála. Síðasta daginn var komið n.k. jafnvægi á og þá var þetta auðvitað búið. Sigrún Ýr var reyndar fljótari til að haga seglum eftir vindi - enda á hápunkti "ég get sjálf" aldursins - en tilhugsunin um Spiderman inniskó sem mamma hans var búin að lofa honum hélt Gísla Hrafni gangandi. Einn morguninn vaknaði ég við að hann þeyttist inn í svefnherbergið til mín og hrökklaðist frá rúminu þegar hann sá hver lá í því. Hann lét nú samt ekki hugfallast heldur tautaði aftur og aftur fyrir sjálfum sér "Spiderman inniskór ... mamma sagði ... Spiderman inniskór..." Fór síðan aftur inn í sitt herbergi þar sem Sigrún Ýr var að vakna og útskýrði samviskusamlega fyrir henni að mamma og pabbi þurftu að "fljúga yfir allt hafið" og svo fengi hann ... hvað annað ... Spiderman inniskó. "Og ég Bangsímon inniskó" tísti hún hamingjusöm og svo fóru systkinin að fá sér morgunmat. Þetta var reyndar auðveldasti morguninn :)

þriðjudagur, október 03, 2006

Hugleikur hefur ofvirkni vetrarins með Hinu mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld kl. 9. Sex nýir einþáttungar verða sýndir að þessu sinni og sjálf verð ég í tveimur þeirra. Er reyndar hálf ljóskuleg í báðum hlutverkum og fer að óttast að vera typecast en allt er nú skárra en eilífðar móður hlutverkið.

Það fer reyndar að verða deginum ljósara að það gengur ekki upp að reyna að stunda fullt söng- og píanónám, skrifa ritgerð og leika í leikritum á sama tíma. Eitthvað verður að fá að gefa sig og ég er ansi hrædd um það verði að vera leiklistin. Sem er bölvað því það er gaman!

Sem betur fer er lítið að gera í vinnunni þessa dagana. Ríkisstjórnin hefur sett stopp á allar framkvæmdir næsta árs. Eða svo gott sem. M.ö.o. ef stofnanaklósett bila megum við stoppa í gatið en alls ekki kaupa ný. Þetta ku vera lykillinn að stöðvun þenslu í þjóðfélaginu. Frestun viðhalds þýðir reyndar bara að skemmdir verða meiri þegar við fáum loks að gera við, framkvæmdirnar dýrari og hálf þjóðin í fýlu út í okkur en - hey - lítur vel út á pappírum. Aðeins Þjóðleikhúsið (sem fékk sér fjárveitingu) og hesthúsin hans Guðna (ekki á okkar könnu) virðast undanþegin.

En nóg af því röfli. Það eru brýnni mál sem krefjast athygli minnar.

Ég held að ég sé búin að týna litlu kisunni minni fyrir fullt og allt. Hún týndist fyrir tæpum þremur vikum. Hljóp út eitt kvöldið þegar ég var að kalla á Gabríel og hefur ekki sést síðan. Ég var að vonast til þess að hún skilaði sér eftir viku því hún hefur gert það tvisvar áður en þetta er fulllangur tími.

Ef einhver á Háteigsvegssvæðinu verður var við þessa dauðhræddu kisu má hafa samband við mig. Hún er með drapplitaða hálsól með grænu merki og heitir Lísa: