fimmtudagur, apríl 29, 2004

Ein lítil spurning.

Mér stendur til boða sumarbústaðir - með pottum.

Er einhver áhugi fyrir slíku í maí? Yfir einhverja helgina?

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Mér finnst allt vera í biðstöðu núna. Það er einhvern veginn ekkert að gerast en á sjóndeildarhringnum bíða ýmis skemmtileg tækifæri og verkefni. Sumarið með sínu sumarfríi er ekki langt undan - vantar bara rétt herslumuninn. Leikfélögin ætla að gera margt skemmtilegt í vor og sumar - einþáttungaprógröm hirst og her og Stútungasaga í Heiðmörk - það er bara ekkert alveg byrjað.

Rúmar tvær vikur í Júróvisjón (Gó Finnland!)

Mig langar til útlanda. T.d. helgarferð til London eða Köben. Eða bara eitthvert. Vill einhver koma með mér?

Ekki að það vanti verkefnin ef vel er að gáð. Nú er ég að fara að selja bílinn minn og mun væntanlega eyða helginni í að pússa hann vel og vandlega að innan. Ætli ég verði ekki kominn á þennan nýja eftir helgi. Einnig eru eldhúsframkvæmdir ennþá til staðar - nú stendur til að láta borðplötuna vera en í staðinn rífa hurðirnar af skápunum; hreinsa, slípa og mála grænar. Svo er það garðurinn...

Það er þetta með að byrja.

Annars er ég viss um að vel heppnuð utanlandsferð mundi gefa mér bráðnauðsynlegan kraft til að takast á við allar áskoranir.

mánudagur, apríl 26, 2004

Skemmtilegasta lag vorra tíma er loksins komið í dreifinu. Kíkið heimasíðu Hrauns og hlustið á Rebelinn eða náið í lagið hér.

Við Nanna komum okkar hluta til skila í einni töku. Þokkalega pró :þ

laugardagur, apríl 24, 2004

Nýmæli á ruslahaugnum. Ég hef ákveðið að bjóða upp á kvikmyndahorn. Að þessu sinni geta áhugasamir lesendur náð í og notið hinnar eðal kvikmyndar He-Man & She-Ra - The Secret of the Sword. Heilar 90 mínútur af klassísku teiknimyndafjöri. Beini illur sem aldrei fyrr. Ég mæli með að fólk notist við FTP forrit ef það ætlar að dánlóda myndinni sem tekur um 225 mb. Góða skemmtun.

föstudagur, apríl 23, 2004

Hún Auður vinkona mín og blaðamaður með meiru var svo yfir sig hrifin af Sirkus - og í kjölfarið áhugamannaleikhúshreyfingunni - að hún skrifaði um ágæti hennar í nýjasta eintak af Birtu og lét fylgja með mynd úr fyrrnefndu leikriti (þannig er a.m.k. mín sögutúlkun.)

Sirkus bara enn að fá pressu þrátt fyrir að næstum vika sé liðin frá lokasýningu! Geri aðrar sýningar betur.
Kæra mér tölvufróðara fólk. Þannig er mál með vexti að vinnutölvan mín er óttalegt hræ. Ég óska mér einskis heitar en að fá nýja tölvu en það er varla líklegt að gerast nema ef þessi springi í loft upp. Og ég uppiskroppa með dínamít. Ég er nýbúin að ganga í gegnum skemmtilegt ferli þar sem hún neitaði að opna forrit, fraus og slökkti á sér upp úr þurru. Ég hef Messenger viðbót sem ég setti upp í gær grunaða um taugaáfallið og hefur það verið fjarlægt en það er samt ekki allt með felldu. Það þarf alltof lítið til að koma henni úr jafnvægi - eitt vesælt forrit sem installast eitthvað vitlaust og mín segir upp á staðnum. Anyhoo - spurningin er þessi: getur verið að sífelldar uppfæringar á Windows XP séu að gera hana geðveika? Í síðustu 3-4 skipti sem Windows tapaði sér hefur XP verið keyrt aftur yfir það gamla. Er ekki nóg komið? Hversu oft er hægt að halda áfram að keyra svona yfir áður en allt fer í flækju? Mér líst ekkert á innihald Documents and Settings möppunnar minnar - það er orðið eitthvað svo troðið þarna:



Ef einhver kann skýringu á þessu eða er með hugmyndir að lausnum þá væri allt slíkt vel þegið.

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Your name of Asta creates a desire for association with people and new experiences, many of which have been rather bitter. This name has given you a gregarious personality and a quick-thinking, creative, and versatile nature, but one that is very emotional. You desire change and travel and would enjoy opportunities that allowed you to be creative and to act independently, rather than to conform to system and routine. However, this name does not allow you to complete your undertakings, as farther fields always look greener.

Þetta er ekki upplífgandi. Ég er bitur og tilfinninganæm kona sem langar að gera eitthvað annað og öðruvísi en get bara gleymt því sökum nafnsins?!!

Kjánadót. Ekkert að marka þetta.

mánudagur, apríl 19, 2004

Ég er að sofna. Mánudagur segir til sín. Því blogga ég aldrei þessu vant til að halda rænu. Ekkert of flókið samt. Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru í eins árs afmæli bróðursonar míns um daginn. Á meðan ég reyndi að taka myndir af barninu með myndasímanum var bróðir minn mér að óafvitandi að reyna að taka myndir af okkur saman á almennilega myndavél. Þrátt fyrir þessa samhentnu viðleitni var ekki nokkur vinnandi vegur að ná sæmilegir mynd af okkur saman. Þessar verða víst að duga:

Símamynd 1
Símamynd 2
Símamynd 3

Ég og Gísli Hrafn 1
Ég og Gísli Hrafn 2
Ég og Gísli Hrafn 3
Ég og Gísli Hrafn 4
Ég var orðin svo góðu vön. Er að átta mig á því að nú þegar sýningum á Sirkus er lokið á ég mér ekki félagslíf lengur. Kannski full snemmt að örvænta þar sem ekki er liðinn nema rúmur sólarhringur frá síðasta partýi en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Svo ég orðið þetta á annan hátt - hver vill vera memm? Á ferðakotru og Póló.

Það vantar annars ekki (mis skemmtileg) verkefnin. Ég er um þessar mundir að skipta um bíl. Gamla drossían verður sett í viðgerð og svo seld og fæ ég í staðinn hina hárauðu Toyotu bróður minns. Hann ætlar að skella sér á Volvo sem tekur tvo barnabílstóla og þrjá fullorðna. Þannig að; ég þarf að tala við tryggingafélagið sem á að borga viðgerðina, koma bílnum í viðgerð, muna eftir að troða dekkjunum inn í geymslu, þrífa sjálfrennireiðina og annað gífurlega áhugavert og gefandi.

sunnudagur, apríl 18, 2004

Þá er ævintýrið úti. Að þessu sinni. Lokasýning á Sirkus var í gærkvöldi og sýningin síðan kvödd með stæl úti í Eyjaslóð. Þar var mikið fjör og mikið gaman og eitthvað var ég framlág í morgun. Enn og aftur voru endurvakin kynni mín af einu besta lagi sem samið hefur verið nokkurn tímann - Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson. Nú finnst mér mál að einhverjir músíkalskir einstaklingar taki sig til og taki upp og gefi lagið út í einhverri mynd. Það er alveg ótækt að ekki sé hægt að hlusta á það við hvert tækifæri heldur þarf maður að vera svo heppinn að hitta á rétta leikfélagapartýið með réttum manni og réttum gítar. Er það von mín að einhverjir muni taka áskoruninni og gefa þessu undurfallega lagi nýtt líf um aldur og ævi.

Næturljóð úr Fjörðum

Yfir í Fjörðum allt er hljótt
Eyddur hver bær hver þekja fallin
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt
Háreistum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð

Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um vötnin blá
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín

Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið
aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund

Grær yfir leiði grær um stein
gröfin er týnd og kirkjan brotin
Grasrótin mjúka græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein
grær yfir allt sem áður var
ástin mín hvílir nú þar


Talandi um upptökur. Ég fór á föstudaginn í sakleysi mínu á kaffihús að hitta Nönnu og var svo í kjölfarið dregin inn í stúdíó með henni þar sem Hraun var að taka upp uppreisnarlag allra uppreisnarlaga - Rebelinn. Voru við settar í bakraddir í laginu og kom það víst bara furðuvel út. Þetta var í það minnsta hin besta skemmun. Ég hef ekki heyrt endanlega afurðina en lagið ku koma út eftir svona viku.

föstudagur, apríl 16, 2004

Sá að Spunkhildur var að senda Bjössa vini okkar og jafnréttisskoðunum hans tóninn. Fór að hugsa um alla þá skemmtilegu jafnréttisumræðu sem ég hef rekið mig á að undanförnu - sérstaklega hvað feminista varðar og jafnræði á vinnumarkaðunum. Hérnar eru nokkur vel valin ummæli ungra karlmanna - og einnar snótar - tekið af Huga:

"Feministar eru hið verndaða hriðjuverksamtak það gæti ekki orðið verra "

"Ég veit að strákum nú til dags finnst þessi umræða fáránleg og það finnst mér líka ( ég er kvk ), ef konur koma fram í auglýsingum fáklæddar er það þeirra val og þeim finnst örugglega ekki að það sé verið að móðga allt kvenkynið. Fyrir mér er þetta fáránlegt og ég spyr hafa þessar konur ekkert annað að gera en að úthúða karlkyninu og kenna þeim um það sem gert hefur verið við konur síðustu aldir ??"

"En hvað þá þarna liðið sem fór í bókabúðir og var að röfla út af því að það voru seld klámblöð.. Shit hvað það þarf að berja svona fólk. Þeim kemur þetta ekkert við þau þurfa ekki að kaupa þetta..
Það væri bara lang best að flyjta þetta úr landi.
NIÐUR MEÐ FEMÍNISTA !!!!"

"Íslenskar konur eru orðnar alltof uppteknar af því keppa við menn og verða fúlar ef þeim finnst þær ekki ná jafn langt og verða bitrar.
Þetta er kannski hluti af því hvað Íslenskar konur eru brussulegar og ókvenlegar, skemma bara fyrir sér með þessu. Til samaburðar hafa verið að flytjast til landsins margar gullfallegar og ljúfar erlendar konur sem vilja frekar ná sér í góðann mann og njóta hans frekar en að keppa við hann.
Ég var að kynnast einni svoleiðis(hún er evrópsk)og hún er æðisleg, dugleg, sæt,í góðu formi(vill ekki nammi og ruslfæði!) sparsöm og vill allt fyrir mig gera og ég fyrir hana. Þetta er bara allt önnur og betri upplifun en þessar Íslensku. "

"jæja strákar snúum vörn í sókn.
hættum að kalla kvenskröunga femminísta og köllum þær píku fasista! "

"Mér hefur langað til þess að spurja suma öfgafeminista sem ekki vilja sá smá nekt í sjónvarpi, hvort þær/þeir hafi séð sig sjálf nakin.
"Já! EN ÞAÐ VAR ÓVART!!!" er svarið sem maður er að búast við. "

"Pointið er að Þessi umræða hjá þessum druslum er að það þarf að fara að láta einhvern lækni krufla í hausnum á þessum feministum því mér fynnst þær aldrey rökstiðja málið sitt nógu vel.... Þetta er bara einn af þessum öfgahópum eins og vinstri grænir sem eiga aldrey að ná neinni stjórn í samfélaginu... en eru í lagi í litlu mæli til að sakpa umræðu:)"


Þetta er bara lítið brot. Ég fórna höndum. Hvernig er hægt að svara svona vitleysu? Þetta er orðið svo algengt að ég er farin að reyna að leiða umræðuna hjá mér eftir fremsta megni til að halda geðheilsu. Nokkuð víst er að hann Bjössi er í góðum félagsskap.

Það er löngu vitað mál að foreldrar eru ekki að ala börnin sín upp. Hvurn fjandann eru skólar að gera til að troða inn í þau smá visku og viti? Af þessu að dæma - ekki nokkurn skapaðan hlut.

Grrrrr.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

"Bókmenntafræðingar alls staðar?"

Það eru alltaf einhverjir menn að villast inn á skrifstofuna mína. Núna í seinni tíð er það tíska að vera að leita að lögreglustöðinni og virðist sem einhverjar áttavilltar löggur á Hverfisgötu séu ekki með addressurnar sínar á hreinu. Minnst einu sinni á dag þarf ég að stýra villuráfandi innflytjendum, fyrrum/verðandi tugthúslimum og ökuskírteinishöfum í rétta átt: "Ekki 7A heldur 7B!" Það var einn slíkur að yfirgefa mig rétt í þessu. Kannaðist við mig úr bókmenntafræðinni og virtist greinlega sjá fyrrum samnemendur alls staðar í dag. Ruddist inn með ofangreindum orðum og undraðist verkefnaskipan alheimsins. Ég kom honum ekki almennilega fyrir mig en kunnuglegur var hann þó. Það er líka svo langt um liðið síðan ég var í námi að fólk er farið að breytast í útliti. Hvað ætli hinn meðal bókmenntafræðingur sé að gera í dag? Þegar ég var í námi var ekki friður fyrir hinni eilífu, klassísku spurningu: "Og hvað ætlarðu svo að verða?" Enginn viðmælenda gat ímyndar sér að nokkur mundi vilja ráða þessi grey. Margir svöruðu einfaldlega: "Ég ætla að verða hamingjusamur/söm" (fyrir utan Sigguláru sem sagðist ætla að verða forseti) og þaggaði það niður í þó nokkrum . Flestir fylgdu þó gjarnan fyrri spurningunni með þessari: "Ætlarðu svo að vinna á bókasafni?" Aldrei - og þá meina ég aldrei - stinga upp á því við bókmenntafræðing að hann og hans menntun sé best geymd á bókasafni. Það er næstum því eins slæmt og að gera ráð fyrir því að nemendur í hagnýtri fjölmiðlun stefni á þuluframa og að sjúkraþjálfara endi sem sjúkraliðar. Bókasafnfræði er gild starfsgrein sem krefst þriggja ára menntunnar og B.A. prófs og hefur ekkert með kjánalega hluti á borð við afbyggingu, nýsöguhyggju, sæborgir og semíótík að gera. En hvar er þá hin gilda starfgrein bókmenntafræðinganna? Þeir virðast a.m.k. hafa dreift sér í hin margvíslegustu störf ef þennan fyrrum samnemanda og vini mína er eitthvað að marka. Stóra spurningin er svo auðvitað - eru þeir allir hamingjusamir?
Iðnaðarmaður kemur inn á skrifstofu og réttir ritara sem er önnum kafinn við að rifja upp bókmenntafræðinámsferil sinn bréfsnepil:

"Sæl vinan viltu ljósrita þetta fyrir mig."

Ritarinn/bókmenntafræðingurinn íhugar að þræða bréfsnepilinn inn um aðra nös og út um vinstra eyrað á manninum.
Hefur hemil á sér en getur ekki stillt sig um að urra lágt að baki mannsins og ljósrita bréfsnepilinn skakkt.

Gæti verið kominn tími til að snúa sér að öðrum verkefnum í lífinu.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Borarnir eru í fullu fjöri í dag og hafa hamlandi áhrif á heilastarfsemina. Það kallar á talsvert erfiði bara að koma út úr sér setningu sem endar í punkti - hvað þá að hún hafi eitthvað innihald. Ég vil kenna eilífum lyftuframkvæmdum um alla mína blogg erfiðleika.

Skyndilega er farið að sjá fyrir endann á þessu leikriti. Aðeins 3 sýningar eftir! Á morgun, á miðvikudaginn eftir viku og laugardaginn 17. apríl og er það ljúfsár tilfinning. Sár vegna þess að hópurinn er góður og það verður leitt að skilja við hann og ljúf vegna þess að maður er farinn að fá aðeins meiri leið á sumum atriðum heldur en öðrum. GlæsilegheitEf ég á að vera fullkomlega hreinskilin þá fékk ég leið á fjandans partý senunni á fyrstu æfingu og ekki hefur ánægjustuðullinn vaxið síðan. Sennilega vegna þess að ég veit aldrei hvað ég er að gera og biðla til Belsebúbs í hvert skipti að áhorfendur taki ekki eftir því. Ég vona bara að þeir fókusi á fólkið sem talar.

Er að herða upp hugann til að hefja eldhúsframkvæmdir. Er með eldhúsinnréttingu dauðans - illa hannað hvítt skápaskrímsli frá Ikea sem er ekki mögulegt að þrífa! Gerir það að verkum að það er alveg sama hvað ég geri - eldhúsið virkar alltaf jafn óþrifalegt og sjabbí. En nú skulu ljótu, hvítu borðplöturnar fá að fjúka og ný grá plata komin í staðinn. Ja ný og ekki ný - það er hægt að finna alls konar nytsamlega hluti í geymslum Fasteigna ríkissjóðs. Skíturinn ætti a.m.k. ekki að sjást. Er að hugsa um að skella mér á "nýjan" vask líka. Og kannski ég hirðinn háfinn sem enginn var að nota - ýmislegt kemur til greina. Pabbi eru búinn að samþykkja að setja þetta upp yfir páskana þannig að það verður víst ekki flóafriður í húsinu í fríinu. En verður að gerast einhvern tímann.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Mig langar til að elda góðan mat í kvöld. Er með þessar fínu kjúklingabringur í ísskápnum sem ég nenni ekki að frysta (enda ekkert pláss í frystinum fyrir ýsuflökum og rabbabara sem ég tími ekki að henda en mun aldrei nota) og verð eiginlega að elda í dag vegna þess að það verður enginn tími yfir helgina. Hins vegar er ekkert gaman að elda bara fyrir sjálfan sig ("sambýliskonan" er soldið bissí núna og lítið við á matmálstímum) og hætt við að afgangar flæði út um allt. Þannig að ef einhver treystir sér til að narta í matselds mína er bara að mæta um kvöldmatarleytið og láta reyna á það. Ég ábyrgist ekki gæðin en get lofað óviðbrenndum mat.

Og svo það sé á hreinu þá er þetta er ekki aprílgabb (þótt ótrúlegt megi virðast.)