fimmtudagur, júní 11, 2009

Á morgun held ég norður í öndvegi íslenskra dala og þykist vera leikritaskáld í 10 daga. Það verður eflaust erfitt og gaman - alveg eins og í fyrra. Nema núna þarf ég galdra fram leikrit í fullri lengd *gúlp*

Á sama tíma rembust við Auður við að klára útvarpsþátt nr. 2 - hann verður tekinn upp í fyrramálið og er svo gott sem tilbúinn (og upplýsingar um þættina má nálgast hér). Þannig að það er allt á réttu róli. Nema hvað ég er ekki komin með pössun fyrir Móra litla. Hann er - ennþá a.m.k. - bara inniköttur og alltof lítill í sér til að ég vilji skilja hann einan eftir í íbúðinni (nágranni er búinn að bjóðast til líta eftir honum). Og ég get ekki séð að það sé betri lausn að loka hann inni í búri í Kattholti og borga fyrir það fúlgu fjár. Það er bara meira en að segja það að biðja fólk um að taka ókunnan og snaróðan kettling inn á heimilið. Hann er reyndar ofboðslega kelinn og góður - nema þegar ég hef verið mikið í burtu. Þá ertu tekin æðiskost um íbúðina og vei því sem verður á hans vegi. Rafmagnssnúrur fá sérstaklega að kenna á því. Núna á stuttu tíma er ég búin að tapa handfrjálsabúnaðinum fyrir símann, hleðslutækinu, flakkaranum og heimasímanum í kattarginið. Allt þunnar snúrur eða tengt þunnum snúrum sem liggja nú í bútum. Ég þarf greinilega annað hvort að fara að vera meira heima eða hleypa honum út svo hann geti étið mýs og spörfugla. Svona áður en hann verður nógu stór til að ráða við almennilegar snúrur með almennilegu rafmagni.