þriðjudagur, janúar 23, 2007

Landið er að þiðna. Mikið ofboðslega er ég fegin. Og mikið ofboðslega vona ég að þetta verði viðvarandi ástand. Aldrei aftur skal ég hallmæla gróðurhúsaáhrifunum svo lengi sem þau bjóða upp á ótímabær hlýindi. Kuldinn hefur ekki góð áhrif á mig. Á meðan aðrir (hugsanlega, sumir, hlýtur að vera) fyllast orku og eldmóð í gaddinum til þess að halda á sér hita leggst ég undir feld, slekk á heilastarfsemi og borða mér til hlýju. Það kæmi mér ekki á óvart ef einhver bjarnagen leyndust í móðurættinni. Sem dæmi: ég brunaði í gegnum alla 11 þætti sem komnir eru af Studio 60 on the Sunset Strip (gaman gaman) yfir helgina ásamt því að horfa á slatta af kvikmyndum og ýmsar aðra þætti. Þetta kalla ég að lifa veturinn af. Nú, þegar mér er loksins hvorki kalt á nefi né puttum, get ég byrjað að hugsa um að eiga félagslíf.

Fór á Foreldra á föstudaginn. Hún var góð.

Horfði á Börn á laugardaginn. Hún var líka góð.

Stóra spurningin er auðvitað hvor er betri. Svarið er: hvur veit? Kosturinn við "Börn" er sá að sögurnar þrjár eru allar jafn tragískar og ná að spinna saman hámark á réttu augnabliki. Þótt að viss leyti sé um sjálfstæðar sögur að ræða hafa þær áhrif á hvor aðra - orsök í einni leiðir til afleiðinga í annarri o.s.frv. Því er ekki fyrir að fara í "Foreldrum." Tvær þeirra tengjast jú nokkuð en ekki á jafn afdrifaríkan hátt og í "Börnum." Þriðja sagan er svo til alveg ótengd við hinar tvær. Því má auðvitað ekki gleyma að þetta átti upphaflega að vera ein mynd (og þá kölluð "Kvikyndi") og allar sex sögurnar tengdust innbyrðis á mun flóknari hátt. Það tókst vel að aðgreina sögurnar í "Börnum" og gera að einni heild en "Foreldrar" ber það kannski með sér að vera restin. Engu að síður er um virkilega vandaða mynd að ræða og mun kómískari heldur en "Börn." Margar skemmtilega útfærðar senur - grátbroslegar jafnvel en þó án þess að verða pínlegar (list sem alltof fáir íslenskir kvikmyndagerðarmenn virðast geta tileinkað sér) - og leikurinn óaðfinnanlegur. Er sérstök ástæða til að hampa Nönnu Kristínu sem hverfur gjörsamlega inn í persónu sína. Það reynist líka vera kostur að sögurnar fjalla allar um ofur hversdagslega hluti. Við hlæjum að og finnum mest til með þeim sem við þekkjum.

Hvað undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva varðar hef ég aðeins eitt að segja: ái.

föstudagur, janúar 19, 2007

Ég er að spá í hvort ég eigi ekki bara að segja þetta gott. Frá því um jólin hef ég tjáð mig hérna einu sinni. Á sama tíma hef ég skrifað 12 sinnum í live journal. Held að það segi sitt. Einhverra hluta vegna finn ég fyrir kröfu til að segja alltaf eitthvað af viti hérna og þegar það gerist ekki sný ég mér að live journal þar sem væntingarnar eru í lágmarki. Þar virðist ég lifa í þeirri blekkingu að enginn sem ég þekki sé að lesa um mig. Kannski er líka miklu þægilegar að blaðra um ekki neitt á enskri tungu. Við sjáum til. Ekki búast a.m.k. við stórtíðindum á þessum vettvangi í nánustu framtíð - ég ætla ekki að eyða blogginu eða neitt svo drastískt en ef þig langar til að fylgjast með stórtíðindum í mínu lífi er vænlegast að fylgjast með hamborgarabúllunni.