sunnudagur, maí 30, 2004

Ljúfur ylur á björtum degi - ég er komin í sumarkjólinn minn og er í sólskinsskapi og ÞAÐ ER ENGINN Í BÆNUM!!

Hnuss!

Er að spá í að gangast upp í stereótýpunni sem ég stefni hraðbyr í, klæðast mínu dræsulegasta pússi og hanga desperat á einhverjum pöbbnum ofarlega á Laugarveginum með vonarblik í auga.

Eða ekki.

Er undir miklum áhrifum frá Sporvagninum Girnd sem ég sá með kvart-auga í vikunni: Jessica Lange snargeðveik á ystu nöf en þó ríghaldandi í hverfandi elegansinn.

föstudagur, maí 28, 2004

Ég hef sveimað um í doða undanfarna daga. Hef lagt mig á hverjum degi, farið alltof seint að sofa og almennt ekki komið neinu í verk. Svo var ég að átta mig á því í dag að nú er þriggja daga helgi! Hvernig í ósköpunum fór það fram hjá mér? Venjulega hefði ég talið dagana ; þrír heilir dagar í röð fyrir alvöru slæpingjahátt! Annars er ég viss um að ég ætlaði að gera eitthvað um þessa helgi en get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað. Reyta arfa? Þrífa bíl? Detta í það?
Jú ég þarf víst að fara upp í Árbæ einhvern tímann um helgina og kíkja á íbúð fyrir Emblu. Hún ætlar að skilja kallinn eftir í Svíþjóð og flytja aftur til landsins seinni partinn í júní og þar sem hennar eigin íbúð hefur verið leigð út næsta árið er ekki um annað að ræða en leigja aðra íbúð. Þetta er reyndar allt frágengið - aðeins eftir að skrifa undir alla rétta pappíra sem gerist um leið og ég fæ umboð frá Emblu en leigutakinn var eitthvað nervus við að leigja út íbúð án þess að nokkur hefði skoðað hana þannig að það fellur í minn hlut að gefa lokasamþykki. Skyndilega orðin prókúruhafi og dómari! Þetta gerist þegar maður segir "láttu mig vita ef ég get gert eitthvað." Ég er nú samt ekki að kvarta - ekki mikið mál að kíkja á eina íbúð og krota á nokkra pappíra.
Æfing í kvöld (ef hún fellur ekki niður - virðist vera að ganga þessa dagana - gæti svosem vel verið að búið sé að fresta henni - pósturinn minn hefur ekki virkað í allan dag) þannig að ég missi af American Idol (ó. nei.) - skiptir nú ekki miklu máli. Það er skemmtilegast að horfa á þetta með rétta fólkinu og þar sem að það fólk verður annað hvort úti á landi eða á Spáni missi ég ekki af miklu. Veit líka hver vann.
Annars er ég með hugann við bíó þessa daga. Kill Bill Vol. 2 kom einhverju af stað í blóðinu og nú langar mig bara aftur og aftur í bíó. Efst á listanum er The Day after Tomorrow - ekkert jafnast á við almennilega stórslysamynd - eða í þessu tilfelli stór-náttúruhamfaramynd. Langt síðan nokkur hefur rótað upp almennilegri paranóju hjá heimsbyggðinni - í raun ekki síðan kjarnorkuváin var og hét (ég meina hélt einhver í alvöru að geimverur/Godzilla mundu gera innrás eða lofsteinar falla á jörðina?) Nokkrar aðrar sem komast á listann: Saved, Harry Potter and the prisoner of Azkaban og The Stepford Wives sem hlýtur að vera forvitnileg ef ekkert annað. Hef glettilega lítinn áhuga á Troy - þrátt fyrir að hafa lesið bókina. Þetta gerist oft þegar myndir eru yfir-hæpaðar á leikurunum og tæknibrellunum einum saman. Ég á að fara að sjá þessa mynd af því að Brad Pitt er klæðalítill í henni, Orlando Bloom! og skipin eru ógeðslega, ógeðslega mörg! Nei takk.

fimmtudagur, maí 27, 2004

Er að hlusta á Kolrossu og reyna eftir fremsta megni að vinna ekki. Með talsverðu átaki er það að takast. Það hvarflar að mér að tónlistin úr Sirkus var aldrei tekin upp. Lögin voru kannski ekki nógu mörg?

Veit annars einhver hvað varð um Hugleikssíðuna? Hún hefur legið niðri í marga daga!

Nú er byrjað að æfa Stútungasögu. Hef verið að spranga um Eyjaslóð undanfarin kvöld að leika flest önnur hlutverk en þau sem ég var skipuð í. Allt saman hin ágætasta skemmtun. Til stóð að við færum upp í Heiðmörk í gær að athuga aðstæður en það féll niður. Engin æfing í kvöld en bæði aðalfundur hjá Hugleik og boð á sýningu í Hafnafirði. Ég veit ekkert hvað ég á að gera. Kannski bara það sem upphaflega stóð til sem var að hitta Auði?

Btw Auður - ég byrjaði skyndilega á verkefninu mínu kl. 2 í nótt - alltaf erfiðast að byrja...

þriðjudagur, maí 25, 2004

Lata stelpa. Nenni ekki að blogga. Fussumsvei. Og það gefur að skilja að fyrst ég nenni ekki að blogga nenni ég heldur ekki að gera fullt af öðrum hlutum sem ég ætti að vera að gera. Eins og að vaska upp, raka blettinn (ég sló grasið í fyrradag) eða gera það sem ég lofaði Auði að ég mundi gera...

Ég hef samt ágætis afsökun! Það er eitthvað kolvitlaust fólk farið að neyða mig á æfingar á hverju kvöldi. Var í allt gærkvöld að drepa og drepasta, garga og stynja svo barst um alla Örfirisey. Á að mæta í kvöld og gera slíkt hið sama. Það er eiginlega bara gaman. Sé hins vegar ekki fram á að ég geri nokkuð annað fyrr en um helgina.

mánudagur, maí 24, 2004

Ég fann Póló! Loksins!

Þá á ég ekki við hið gómsæta myntusælgæti sem stendur hjörtum okkar svo nær heldur fyrrum útlæga gosdrykkinn sem nú fæst í tveggja lítra umbúðum í Bónus. Ég keypti tvær flöskur.

Póló Póló Póló Póló Póló!!

föstudagur, maí 21, 2004

Svona fyrirvaralausir frídagar í miðri viku setja allt úr skorðun. Ekki að uppstigningadagur hafi verið með öllu fyrirvaralaus - ég var bara ekki búin að búa mig undir hann. Ég brást við á eðlilegan hátt - fór á fyllerí. Auður var að djamma í vinnunni með hinum ölkunum á Fréttablaðinu á miðvikudagskvöldið og þegar bjórinn var búin rölti hún yfir til mín og hellti mig fulla. Þegar hún kom var ég bláedrú og þegar við fórum niður í bæ ca. einum og hálfum tíma síðar var ég orðin mjúk og meyr og vel marineruð. Við tókum stefnuna á 22 og þegar þangað var komið uppgötvaði ég mér til mikillar gleði að ég hafði gleymt öllum peningum og peningaígildum heima og þurfti því að treysta á góðmennsku ókunnugra það sem eftir var nætur. Eins og alltaf eykst okkur almenn greind og kænska með áfengisdrykkju og því var litla ferðataflið mitt rifið upp og vitsmunum att saman. Fyrri skákin einkenndist af óhóflegum drápshita og sjálfsmorðslöngunum og leið ekki á löngu áður en báðir kóngar voru orðnir ansi vinafáir og samið um jafntefli.
Það voru því full varkárar skákkonur sem fóru í seinni skákina og tók hún dágóðan tíma. Mörg mistök voru gerð á báða bóga og tilviljun ein réði því að önnur stóð uppi sem sigurvegar (ég ég ég ég ég ég ég!!) Það er hins vegar ánægjulegt að segja frá því að karlkyns kúnnarnir á 22 eru ekki haldnir þeirri þráhyggju að konur að tefla þurfi nauðsynlega á þeirra aðstoð að halda. Ekki að við höfum ekki fengið aðstöð - einhver staðar rétt eftir að seinni skákin hófst mætti Hörður og veitti okkur ómetanlegan styrk sem almenn klappstýra fyrir báða mótherja.
Um fjögurleytið eftir að seinni skákin endaði (ég ég ég ég ég ég ég!!) óðum við blóðpolla upp á aðra hæðina og tókum til við tjúttið. Sjaldan hafa þrjár manneskjur verið jafn jákvæðar á dansgólfinu. Pixies, Clash, Rolling Stones og Michael Jackson á vondum degi var lýsandi fyrir stemninguna. Hvenær var diskói eiginlega úthýst af 22? Við gerðum þó okkar besta og þegar ljósin voru kveikt var klukkan að verða sex og gamlar kellingar búnar að vera alltof lengi á djamminu. Þrátt fyrir ýmis freistandi tilboð þar sem í boði voru áframhaldandi partý og brennivín héldum við heim á leið. Vorum næstum því búnar að týna klappstýrunni okkar Herði sem hafði stungið af á klósettið á ögurstundu en endurheimtum hann og héldur gangandi heim á leið. Við gamla DV húsið fannst svo bíll og þurfti ég því ekki að labba alla leið heim (uh.. jibbí).
Gærdagurinn var síðan fullkomlega óinteresant og það eina markverða var að ég skellti mér í bíó - hugsanlega í fyrsta skipti á árinu. Við Skotta fórum að sjá Kill Bill Vol. 2 og þótti hin besta skemmtun. Og þannig var nú það.

mánudagur, maí 17, 2004

Júrósvall aldarinnar loksins yfirstaðið. Mikið er gott að geta endurheimt kynni sín að rökrænni hugsun og eðlilegum geðsveiflum - a.m.k. þangað til að ári. Íslendingar lentu í 19. sæti og er það vel. Við höfum gott af því að lenda neðarlega svona við og við. Lækkar í okkur rostann sem á það til að þenjast óhóflega út í byrjun maí ár hvert. Austur-Evrópa/Miðjarðarhafið átti þessa keppni og einhver ógurlega hress lög flutt af klæðalitlum flytjendum lentu í efstu sætunum. Erum við annars ekki að klikka á þessu? Hvenær hafa íslenskir flytjendur eiginlega sýnt smá hold? Hefur súlastaðavelsæmið smitast yfir í aðra listgeira eða erum við svona spéhrædd frá náttúrunnar hendi? Ég get ekki séð að við höfum um neitt annað að velja; við verðum að fækka fötum í komandi keppnum - reyna að nappa gredduatkvæðunum - því ekki fáum við landamæraatkvæðin svo mikið er víst :D

Júróvisjónpartýið var eins og júróvisjónpartý eiga að vera. Alltof margir gestir í pínulítilli stofu að drekka í takt við stigin og gera grín að Gísla Marteini. Eftir keppnina var hrundið af stað heimatilbúnni karókíkeppni og tóku (svo til) allir gestir þátt af mikilli innlifun. Sigur úr býtum hafði Sigga Lára fyrir ómennska túlkun á Whitneysmellinum "I will always love you" sem verður seint leikin eftir og var það mál mann að hún væri vel að sigrinum komin. Verðlaunin voru ekki af verri endanum - spánýr geisladiskur með íslenska sigurjúróvisjónlaginu ásamt karókí útgáfu. Varð vinningshafa svo mikið um að hún sá sig tilneydda til að leggja sig af einskærri geðshræringu. Til allrar lukku tók einn partýgestanna það að sér að flytja lagið á hátt sem slagaði upp í frammistöðu Siggu.

Einhver skildi brúnt prjónavesti eftir heima hjá mér. Kannast einhver við það?

fimmtudagur, maí 13, 2004

Júróvisjón já - ég bara nenni ekki að velta mér upp úr þessari undankeppni. Það er ekkert sem fær breytt úrslitunum. Enda er hugurinn annars staðar; ég var nefnilega að uppgötva að ég á sennilega heil ósköp af punktum á hinum og þessum kortum sem ég hef aldrei nýtt mér. Sé fram á að geta ferðast eitthvað utanlands í sumar fyrir ekki svo mikinn pening! Og ég sem var alltaf að reyna að losna við kreditkortið. Stundum hefur maður (ó)vit fyrir sjálfum sér.

En ég má ekki verað að þessu pári - þarf að útbúa karókílagalista fyrir laugardaginn. Lalala...

miðvikudagur, maí 12, 2004

Jahá - í dag er fyrsti í Júróvisjón (eða Eurovision - eftir smekk hvers og eins) og ég hef skrafað glettilega lítið um það fyrirbæri hér. Eins og ég er áhugasöm. Í ár er sama súpan af mis gáfulegum/leiðinlegum/fyndum/lélegum/grátlegum/flippuðum lögum og alltaf. Meðalmennskan ræður í flestum tilfellum og hættan á að smitast af makedóníusyndróminu ógurlega eykst með hverjum degi. Ég hef hlustað samviskusamlega á öll lögin í keppnin og get með sanni sagt að ég hef ekki hugmynd um hvaða lag muni vinna. Dómgreindin er löngu flogin og sé ég fram á að ég muni taka ástfóstri við þau lög sem fá mig til að annað hvort brosa út í annað eða dilla tánum.

Hafandi það í huga er hér listi yfir helstu gimsteina Júrósvisjón keppninnar í ár - að mínu dómgreindarskerta mati:

1. Jari Sillanpää - Takes 2 to tango (Finnland). Já Finnland. Finnar eru víst mjög tangóelsk þjóð og hefur sú ástríða loksins skilað sér í keppnina. Loksins segi ég - hver man ekki eftir finnsku keppendum síðustu ára sem voru álíka skemmtilegir og upplífgandi og kvótaumræður á þingi? Svo er hann Jari miðaldra maður með vængi á bakinu sem syngur um djöfla og engla - gerist ekki betra.

2. Neiokõsõ - Tii (Eistland). Eitt af fáum lögum sem virkilega skera sig úr í keppninni. Svo finnst mér það einfaldlega skemmtilegt. Þarf ég að hafa ástæðu?Bosníski stuðboltinn Deen

3. On again...off again - Julie & Ludwig (Malta). Peppaðasta lag keppninnar (ef frá er talið framlag Sviss sem er of vont til að ég vilji hugsa um það). Ótrúlega glaðir keppendur með ótrúlega glaðlegt lag. Mögulega samið á sýrutrippi.

4. The image of you - Anjeza Shahini (Albania). Aumingja Albanir. Sem þjóð eiga þeir bágt - þeir hafa aldrei áður tekið þátt í Júróvisjón og þeir hafa fengið, af myndbandinu að dæma, 500 kr. til að spandera í framlag sitt. Mann langar mest til að klappa þeim.

5. Wild dances - Ruslana (Úkraína). Óttalega hress og kraftmikið lag sem gæti alveg unnið. Söngkonan er fögur snót með frekar óheppilegt nafn fyrir Íslandsmarkað.

6. Stronger every minute - Lisa Andreas (Kýpur). Voða sætt lag í talsverðum söngleikja/70s pop stíl. Afskaplega erfitt að láta sér líka illa við það.

Að auki: Danmörk, Bosnía, Grikkland - hommainnrásin. Að senda kyn- og klæðskiptinga er gimmik - meira að segja nokkuð "seif" gimmik því í þeim tilvikum er um leikhús að ræða - menn að leika hlutverk. Að senda unga karlmenn sem leika sér með kynferði sitt er að gangast upp í hinum rétta anda Júróvisjón sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, gay gay gay. Nokkuð sem að Páll Óskar startaði og má alveg vera meira af.

Á ég svo eitthvað að vera að minnast á íslenska lagið? Nei er það nokkuð? Ég hef ekki hugmynd hvort ég ber rétt skynbragð á það - það er alltof stutt í keppnina og fyrr- og títtnefnt dómgreindarleysi hjálpar ekki upp á. Fæst orð bera minnsta ábyrgð.

mánudagur, maí 10, 2004

Það er komin skýring á kúrekanum. Leigjandinn minn ber ábyrgð á öllu saman. Hann fann þennan mæta mann einhvers staðar og fannst hann sóma sér svo afskaplega vel þarna á miðjum blettinum. Hann sagðist jafnvel vera með hugmynd um að gera úr honum gosbrunn og láta rautt vatn gjósa upp úr hálsinu. Ég sagði honum að það væri ekki útilokað að koma honum einhvers staðar fyrir í garðinum en ekki á miðju grasinu (yrði erfitt og leiðingjarnt að slá í kringum hann). Einnig er ég ekki viss um að nágrannarnir yrðu hrifnir af gosbrunns hugmyndinni.
Sumir dreifa garðálfum um garðinn hjá sér. Ég er svo heppin að vera með hauslausan plast kúreka í garðinu. Ekki veit ég hvaðan hann kom - eða hver ber ábyrgð á honum - hann bara birtist um kvöldmatarleytið.Ég get kannski komið fyrir fallegum burkna í hálsinum á honum.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Jæja ef maður bíður nógu lengi eru ákvarðanirnar teknar fyrir mann. Það lítur ekki út fyrir að ég sé að fara langt í bráð. Ég hefði hugsanlega getað bókað eitthvað í síðustu viku en núna er sama hvað ég geri; ég finn ekki ferð til Montpellier eða Barcelona á viðráðanlegu verði - ekki á því tímabili sem ég sækist eftir sem er ca. 16.-24. maí annars vegar og 5.-21. júní hins vegar. Tímabilið þarna á milli get ég ekki verið í fríi því þá er samstarfskona mín í fríi og eftir 21. júní verður byrjað á fullu að æfa Stútungasögu (þar sem ég verð í mjög litlu en örugglega burðarhlutverki) og erfitt að skipuleggja nokkuð út júlí og fram í ágúst.

Helgarferðir eru þó ekki út úr myndinni. Hvað segirðu Auður?

þriðjudagur, maí 04, 2004

Gó Finnland!Ég gleymi því allra mikilvægasta!

Nú er Eurovision rétt handan við hornið og allir væntanlega að koma sér í réttan gír - ekki satt? Þannig er að mágkona vor er búin að koma upp þessari líka glimmrandi fínu Eurovisionsíðu þar sem hlusta má á öll lögin sem keppa í ár. Þar er einnig að finna helling af gömlum Eurovision slögurum - bæði vinningslögum og þessum sérstöku sem komust ekki alla leið - íslenskum sem erlendum.

Tékkið á síðunni

Gó Finnland!

mánudagur, maí 03, 2004

Jæja það virðist ekki vera mikill áhugi fyrir sumarbústaðarferðum. Það verður bara að hafa það. Kannski ég skelli mér í veiðihúsið einhvern tímann í júní - á eftir að taka endanlega ákvörðun um það. Ætli ég sleppi ekki potta-bústöðunum - þeir kostar 7500 kr. yfir helgi og þar sem mér finnst hálf tómlegt að sitja ein í potti er eins gott að sleppa því. Veiðihúsi er pottlaust en ég þyrfti hins vegar ekkert að borga fyrir það.

Allar hugmyndir um utanlandsferðir eru enn á borðinu og óleystar. Ætti ég að skella mér með Nönnu og Jóni Geir til Spánar í svona viku eða spara peninginn fyrir helgarferð til London með Auði? Montpellier kannski? Sleppa þessu öllu og einbeita mér að því að borga skuldir? Grr... ákvarðanataka er ekki mín sterkasta hlið.

Helgin var róleg að vanda. Passaði guttann hann bróðurson minn á laugardaginn. Við gláptum saman á Rocky Horror og skelltum okkur svo í göngutúr niður og upp Laugaveginn. Um kvöldið létum við Skotta undan öllum okkar átfýsnum (hamborgari á American Style og ís í eftirmat) og skemmtum okkur svo stórvel yfir samnorræna júróvisjón þættinum. Dómararnar voru í undarlegu skapi í þessum þætti og allir þeirra dómar virtust valdir eftir vindátt. Eins og ég var sammála þeim í síðustu viku gat ég ekki með nokkru móti skilið hvað var að gerast í hausnum á þeim núna. T.d. öll óskiljanlega neikvæðnin gagnvart Eistlandi og að sama skapi undarlega góðir dómar á makedónska laginu.

Sunnudagurinn fór í samlestur. Ég hafði verið með einhver plön um að þrífa bílinn minn að innan en eyddi svo megninu af nýtanlegum deginum vestur í Eyjaslóð þar sem sem leikfélagið Sýnir var að lesa saman "Stútúngasögu." Ég er alveg að spá í að vera með. Ekki vantar hlutverkin í það leikrit - allt morandi í frillum og feigum húskörlum.