föstudagur, september 30, 2005

Það stefnir í ágætist dýragarð hjá mér.

Draumar mínir í nótt voru fullir af hvolpum. Stórum sætum St. Bernards hvolpum sem geymdir voru í búrum ásamt einhverjum hundategundum sem ég er ekki alveg viss um að hafi verið frá þessari plánetu. Og einum apa. Ég skil ekki alveg þetta dýrastreymi inn í undirmeðvitundina. Finnst yfrið nóg að tjónka við tvo ketti. Fyrir rest reyndust dýrin vera hættuleg - eitruð og mannýg jafnvel. Túlkiði nú.

Var á þeysingi allan eftirmiðdaginn og endaði úti á Granda á framhaldsaðalfundi Hugleiks. Var öll upptjúnuð þegar ég kom loksins heim kl. 11 og tókst ekki að sofna fyrr en klukkan var langt gengin í fjögur. Leikhúsumræður höfðu þó þau áhrif að í mér fæddist einþáttungur þar sem ég lá og bylti mér í hringi. Veit reyndar ekki hvort hann þolir dagsljósið. Enn sem komið er býr hann nú bara í heilaskúffu ásamt öðrum einmana hugmyndum.

fimmtudagur, september 29, 2005

Mér er sagt að draumar um köngulær sé bara af hinu góða, jafnvel fullt af peningu og í mínu sambandi ku þær tákna "þrautseigu þótt móti blási." Sem er allt í lagi. Ég treysti frekar skilaboðum sem segja mér að gefast ekki upp frekar en þeim sem lofa lottóvinningi.

Draumfarir mínar í nótt voru hins var þvert á venju fyrir daglátum. Mig dreymdi að ég væri með heiftarlegan hausverk og tæki pillur við. Svo vaknaði ég með þennan sama hausverk áður en klukkan hringdi. Spúkí!

Gúllaði í mig samtals þremur imigram og tveimur íbúfen sem kepptust við að hafa nákvæmlega engin áhrif og lá svo í rúminu fram að hádegi og beið eftir að hausverkurinn hyrfi. Sem hann gerði ekki. Hungur og einskær leiðindi ráku mig þá af stað í vinnuna og annað hvort hafa lyfin mín tekið sig saman og ákveðið að hafa áhrif í einni hendingu eða soðinn fiskur, hrísgrjón og karrísósa svo og tvö glös af vatni gera kraftaverk. Kannski bara allt þetta. Samstarfsmenn mínir voru á því að ég þyrfti bara að komast á gott fyllerí. Hmm...
Hausverkurinn ekki alveg farinn en er orðinn þolanlegur og ég sé aftur fyrir mér bjartari tíð með beljur í haga.

Mætti á samlestur á Jólaævintýri Hugleiks eins og svo margir. Það leikrit lofar að vera stórfyndið og vel mannað og get ég ekki fyrir nokkra muni fundið neikvæðan flöt á þeim fyrirætlunum öllum.

Í öðrum fréttum er ég búin að gera um hug minn varðandi tónheyrn og niðurstaðan er: oj bjakk og eintóm leiðindi. Ég mundi kvíða vetrinum ef það væri ekki svona mikið skemmtilegt að gerast inni á milli þeirra hörmungstíma.

þriðjudagur, september 27, 2005

Fyrir mörgum, mörgum tunglum var ég á leið heim úr útskrifarferð á Rhodos. Á flugvellinum keypti ég tímarit til að lesa í flugvélinni og þetta reyndist innihalda viðtal við Winonu Ryder. Ég hef sennilega lesið all blaðið á hinu þriggja tíma flugi til Kaupmannahafnar því ég man sérstaklega eftir að hafa lesið viðtalið. Svosem ekki mikið að frétta nema ein setning sem sló mig svo gott sem untanundir:

"...but otherwise Winona Ryder brims with self-confidence. "Insecure people," she says, wrinkling her nose, "don't fry my burger." Precocious enough to hold her own with adults, she radiates the qualities of a child who has always been encouraged: a chatty, optimistic disposition ... "

O.s.frv.

(ég er ekki svona svakalega minnug - fann þennan bút á netinu)

Óöruggt fólk steikir s.s. ekki hennar borgara. "Hey!" hugsaði ég. Nákvæmlega það. "Hey!" Mér sárnaði. Þannig að ef ég hitti Winonu í einhverju partýi mundi hún strax finna óöryggisstækjuna af mér og fitja upp á nefið. Ég var 19 ára þarna - sennilega ári yngri en Winona - og ekki beinlínis að springa úr sjálfsöryggi. "Þvílíkur hrokagikkur," hugsaði ég svo, "og mér sem fannst hún ágætis leikkona." Greinlega hafa þessi orð hennar komið við þvílíkan kaun að ég hef aldrei gleymt þessu annars frekar ómerkilega viðtali.

Líða nú nokkur ár. Mitt sjálfsöryggi hefur aðeins vaxið ásmeginn þótt enn sé langt í land. Kannski hugsaði ég innst inni að hún hefði rétt fyrir sér - að óöryggi væri tilgangslaus og óaðlaðandi eiginleiki, jafnvel fyrirlitlegur. Ég er ekki viss.

Svo er ég eitt kvöld að horfa á sjónvarpið - sennilega "The Tonight Show " með Jay Leno á meðan það var á CNBC í íslensku sjónvarpi - þarna er litla Winona að mæta í sinn fyrsta spjallþátt að því er hún segir sjálf (þetta var löngu fyrir stelsýkiævintýrið.) Og viti menn - hún skelfur eins og lauf í vindi og segist vera dauðhrædd við að koma fram.

Bíddu, bíddu, bíddu... ungfrúin sem vildi ekki leyfa mér að grilla borgarann sinn ... að míga á sig af óöryggi?! Jay klappaði henni á öxlina og reyndi að róa hana allan tímann en hún hætti samt aldrei að titra.

Hver veit - kannski var hún að leika. Mér finnst það samt ólíklegt.

Það sem þessi upplifun (ef upplifun skyldi kalla) kenndi mér er að:

a)það bulla allir í viðtölum
b)sjálfsöryggi er af hinu góða - en óöryggi ber að sýna skilning
b)því yfirlætislegri sem yfirlýsendurnir eru þeim mun minni er skjálfandi hérinn sem þeir geyma án efa inni í sér.

Og hana nú.
Mér finnst vanta smá líf í þetta blogg. Hér eftir ætla ég að myndskreyta sem flestar færslur.



Ég var alltaf teiknandi þegar ég var krakki. Hversu margir vissu það um mig? Ég sótti slatta af myndlistarnámskeiðum og hafði mikið gaman af. Einhvers staðar á unglingsárunum ákvað ég víst að þar sem ég var augljóslega ekki efni í Kjarval þá hafði það ekkert upp á sig að vera að krota eitthvað. Og ég steinhætti því. Sem ég er í seinni tíð að uppgötva er frámunalega heimskulegt lífsviðhorf. Svo mikið er víst að ég græði ekkert á því að vera lélegri að teikna í dag heldur en þegar ég var krakki. Þar sem stóreflings endurvinnsla á nærri glötuðum hæfileikum er í gangi hér á bæ er ekki úr vegi að reyna að rifja upp eitthvað af teiknihæfileikunum sem mér hefur tekist að glutra niður síðust 15 árin.

Nú er bara spurningin: hvað skal teikna? Á mínum Barbí árum voru mér kökur mjög hugleiknar og setti ég gjarnan fram heil veisluborðin. Á hinum fyrstu táningsárum gætti eitthvað af portrait myndum - bæði sjálfsmyndir, annað fólk og ormétnar verur (sem ég hafði mikið dálæti á og sérlega gaman af að sjokkera fólk með.) Nú þegar ég bora í heilaafkimana eftir hugmyndum dettur mér helst í hug hlutir sem ég man að ég get gert nokkuð skammlaust. Epli - var ágæt í að teikna epli. Vasar og blóm af ýmsum gerðum. Augu og munnur. Tré. Frumleikinn ekki alveg að gera út af við mig. Þannig að við leitum á önnur mið.

föstudagur, september 23, 2005

Ætli það sé fyrir einhverju sérstöku að dreyma köngulær?

Venjulega eru allar mínar draumfarir frekar vandræðalegur grautur af hugsunum og upplifunum gærdagsins en þarna poppuðu upp köngulær eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Ekki öfga stórar (en þó stærri en sjást vanalega hér á landi) en vissulega bæði ljótar og loðnar. Hvað segja bækurnar?

Annars var ég að fatta það að ég hef engann hitt fyrir utan vinnu og skóla alla vikuna. Ég virðist vera dottin inn í sérlega ófélagslega rútínu. Spurning hvort þetta er þróun í jákvæða átt.

Þegar ég fer yfir bækurnar kemur í ljós að ég drakk síðast áfengan vökva á Búrfells-endurfundinum á Selfossi fyrir tveimur vikum. Tveir bjórar. Þar áður var í kveðjupartýinu hans Snorra Hergils; 4-5 glös af hvítvíni. Já, það er af sem áður var.

miðvikudagur, september 21, 2005

Stjörnufræðingar klóra sér í höfuðið yfir hraðskreiðum stjörnum sem myndast hafa á tiltölulega stuttum tíma (200 milljón árum) á knöppu svæði (spannar 1 ljósár) í kringum svarthol í miðju Andromedu vetrarbrautarinnar. Hraðinn ku vera of mikill til að þyngarafl næði að mynda stjörnurnar en samt eru þær þarna.

Kannski Guð hafi verið of upptekinn við að bísnast út í forhúrðarstatus Móses og önnur brýn vandamál mið Austurlanda til að mega vera að því að láta eðlisfræðina ganga upp?

þriðjudagur, september 20, 2005

Suvivor Guatemala.

Þarna er þátturinn sem ég kannast við og elska. Enginn hinna 18 keppenda fer neitt sérstaklega í taugarnar á mér (ennþá) sem er ánægjuleg tilbreyting og það á svo sannarlega að láta þau vinna fyrir millunni. Ungu folarnir í Nakum (með Bobby Jon úr síðustu þáttaröð í broddi fylkingar) geystust í gegnum frumskóginn á testósteróinu einu saman og hlutu að launum betri híbýli en ella svo og alvarlega magakrampa sökum ofþurrks. Tapliðið Yaxha var mun kellingavænna (þau fengu Stephanie í sitt lið) enda voru þau öll við hestaheilsu þegar þau komu í mark - nokkrum mínútum á eftir hinu. Það var merkilega lítið um pirring og ofþanin egó en sennilega voru þau bara af þreytt. Þessi þrauta ganga var jú 17 km í gegnum hnausþykkan regskóg í 40 stiga hita og tók heilan sólarhring. Sennileg hafa svo veikindin komið Nakum í koll því þau töpuðu immunity keppninni og losuðu sig í kjölfarið við öldunginn með slitna upphandleggsvöðvann. Nú þurfa hóparnir bara góðan nætursvefn og þá ætti hið kunnuglega nag og nöldur að byrja í næstu viku.

Gaman, gaman.

föstudagur, september 16, 2005

Það var víst verið að klukka mig og nú þarf ég að finna 5 gagnslausar upplýsingar um mig.

Það ætti ekki að vera mikið vandamál.

1. Ég hef samtals brotið 4 tær - sumar oftar en einu sinni. Það er víst útséð með ballettnámið...

2. Ég get framkallað hljóð sem getur hæglega komið í stað dómaraflautu. Þegar ég hugsa málið má vera að ég hafi misst af eina starfsferlinum sem ég er sköpuð fyrir.

3. Nei ég hef aldrei drukkið kaffi og langar ekkert til þess. Ég hef heldur aldrei borðað apaheila og sé engan tilgang í því að byrja á því núna.

4. Ég er ekki ferðavæn manneskja. Á erfitt með að höndla það þegar plön fara út um þúfur. Það er eitthvað svo stressandi við tímaáætlanir. En er jafnframt fljót að jafna mig þegar málum hefur verið reddað.

5. Ég get ekki smellt fingrum með þumal og löngutöng. Verð að nota þumal og baugfingur sem veldur meira álagi á puttana en hitt fyrirkomulagið. Ég endist því ekki lengi í þeirri leikfimi (og þar fór leiklistarferillinn eins og hann leggur sig en hann byggist einmitt nær eingöngu á getu til að smella fingrum vel og lengi.)

Eru ekki allir mun upplýstari núna?

Ég verð svo víst að klukka einhverja fimm grunlausar hræður (þetta stendur allt einhvers staðar í bloggaralögunum): Auður klukk! Nanna klukk! Siggalára klukk! Skotta klukk! Þórunn Gréta klukk!
Mér líður soldið eins og ég hafi verið að lulla um á sunnudagsrúnti síðustu árin, í fyrsta gír, langt undir löglegum hraða, hálfsofandi undir stýri.

En er nú komin upp í þriðja gír og stefni á að taka þetta með trukki.

Skrifaði Ástráði bréf og innti eftir námsstatus mínum. Það var nefnilega í fréttum að besti vinur minn, hann GMB, hefði fengið að halda öllum sínum einingum úr háskólanáminu þótt komið væri yfir hinn hefðbundna 4 og 1/2 árs firningartíma og hann ekki búin með ritgerðina. Ekki frekar en ég. Nú heiti ég hvorki G, né M og er ekki B - hvað þá rétttengdur sjálstæðismaður en mig grunar að eitthvað af þessu eiginleikum séu nauðsynlegir til að fá slíkar undanþágur. En kannski er ekki sama hvort um stjórnmálafræði eða bókmenntafræði er að ræða? Þessi firningarelga var a.m.k. alveg ný fyrir mér og nú er bara að krossleggja fingur og tær og vona hið besta.

Fékk svar á meðan ég var að skrifa þetta - allt er í góðu - vissi alltaf að bókmenntafærðin væri mun vænlegri kostur en tíkin sem kennd er við pól :)

miðvikudagur, september 14, 2005

Mér finnst ég verða að þakka vinum mínum fyrir að vera í sífellu að flytja til framandi landa. Öðrum kosti hefði ég aldrei komið til Montpellier í Frakklandi og Manchester í Englandi. Og væri ekki á leið til Wollongong í Ástralíu. Mér líst ágætlega á þessa útflutningsstefnu og væri til í að sjá meira af henni svo ég hafi afsökun til að heimsækja fleiri staði úr alfaraleið. Hins vegar er algjörlega nauðsynlegt að þessir sömu vinir séu ekki að hanga þarna of lengi og komi örugglega til baka því ekki á maður endalausar birgðir af þeim.

Þessi þakkarræða kemur til af því að mér leiðist óumræðanlega á skrifstofunni í dag og hlakka sérlega mikið til að komast til sólríkra stranda Ástralíu. Aðeins 4 og 1/2 mánuður ... ég og Skippy...

Ég var ekki fyrr búin að vera með stórar yfirlýsingar um neikvæða tíðni bíóferða minna á blogginu hans Varríusar þegar hin frjóa fangor fékk mig til að koma með á Burton myndina í kvöld. Það er því aðallega mínu eigin framtaksleysi að kenna að ég fer aldrei bíó - eða öllu heldur ég fer ekki af eigin frumkvæði. Það er víst annað upp á teningnum þegar aðrir toga mig með. Hmm...
Eins og lesendur þessa bloggs vita kannski er ég sjónvarpsfíkill mikill. Skilst mér að ég sé ekki ein með þessa fíkn. Að einhverju leiti er ég hryllilegur elítist þegar að kemur að sjónvarpsefni – þættir fá gjarnan þumalinn upp eða niður hjá mér og lítið um millivegi. Þannig harðneita ég að horfa á The O.C., Smallville, One Tree Hill, Strong Medicine og álíka froðuþætti. Desperate housewives er reyndar undantekning – ég hef horft á þá hingað til en mér þykir þeir stefna hraðbyr í froðuflokkinn. Raunveruleikaþættir eru einnig undanþegnir þessari reglu að mestu leyti en þá er ég gjörn á að láta ýmislegt yfir mig ganga. Dreg þó markið við paraþætti (Bachelor, Paradise Hotel o.s.frv.) þar sem froðan og almennt tilgangsleysi er í algleymingi.

Venjulegt ástand á mínu heimili er að vera eilíft önugu út í sjónvarpsdagskrána og sækja ég því gjarnan í “mína” þætti eftir öðrum leiðum. Nú hyllir hins vegar í betri og blómlegir tíma á öldum ljósvakans. Skyndlega eru allir uppáhaldþættirnir komnir í sýningu og það á sama tíma. Öðruvísi ég áður hrökk í kút.

Lost – ég keypti DVD pakkann – held að það segi allt sem segja þarf
House – ég var orðin óttalega þreytt á sjúkrahúsþáttum en hef gaman af þessum. Hugh Laurie á kommbakk ársins.
Alias – ég hef haldið tryggð við þá en er samt eiginlega búin að fá nóg
Battlestar Galactica – stundum eiga þeir það til vera langdregnir og hugmyndasnauðir en taka svo snilldarlega kippi, verða æsispennandi og fara langt fram úr væntingum
America’s next top model – ég skil ekki ennþá af hverju ég elska þessa þættir. Ég bara geri það. Tyra Banks heldur í alvöru að áhorfendur hafi áhuga á módelbransanum.
Survivor – æi það er alltaf eitthvað svo heimilislegt við Survivor
Arrested development – stundum er fyndnin pínleg – en oftast er þetta fyndnasti þáttur í sjónvarpi.
Gray’s Anatomy – læknasápa.* Ég er búin að horfa á fyrstu seríuna og var orðin soldið þreytt á sápuelementunum en það er nógu mikið gott þarna til að ég vilji halda áfram.

Og nú síðast: Veronica Mars sem byrjar næsta þriðjudag í ríkissjónvarpinu mér til ómældrar ánægju (þótt ég sé reyndar búin að sjá alla þætti í fyrstu seríu.)

Klikkt er svo út með þessari nýstárlegu gæðastefnu með því að sýna næsta mánudag hina prýðilegu tveggja hluta sjónvarpsmynd; Second coming um endurkomu frelsarans á okkar tímum. Sem reynist vera verkamaður í Manchester leikinn af Christopher Eccleston.

Sem minnir mig á...

Hvar í fjandanum er Doctor Who? Er ekki alveg kominn tími til, eftir 40 ár, að íslenskir sjónvarpsáhorfendur fái að kynnast karlinum? Og allt í lagi að bæta einhverjum breskum þáttum í flóruna.

_______________________________
* Ath. ekki er sama hvort er sápa eða froða. Sápur er afþreyingarflokkur út af fyrir sig sem má gjarnan hafa gaman af ef vel er að verki staðið. Froða hins vegar er álíka innihaldsrík og efnið sem hún dregur nafn sitt af og ekki nærri því eins nytsamleg.

sunnudagur, september 11, 2005

Sniðug þessi blogg. Ef rannsóknarlögreglan bankar einhvern tímann upp á og spyr hvað maður hafi nú verið að bardúsa kl. 11.30 þann 27. mars síðastliðinn þá er bara spurning um að fletta því upp.

Ég bíð spennt eftir þeim degi.

Svo liggur það eins og mara á sál minni þessa dagana hvers vegna engum hefur ennþá dottið í hug að gera hefðbundnar fegurðarsamkeppnir að raunveruleikaþáttum? Ekki að ég sé neitt sérstaklega fylgjandi fegurðarsamkeppnum - í teoríu - en í ljósi þess að einhverjar skemmtilegustu gamanmyndir síðustu ára - Drop dead gorgeous og Í skóm drekans - fjölluðum um þann skrípaleiks sem er keppni í fastasta Colgate brosinu er ég hreinlega gáttuð á að ekki hafi tekist að hnoða í þó ekki nema vondan raunveruleikaþátt úr efniviðnum. Ekki get ég ímyndað mér að nokkur nenni lengur að horfa á tveggja tíma prógram af stífum og karakterlausum World Class klónum spássera upp og niður sviðið á Broadway aðeins til þess að falla í gleymsku daginn eftir hvort sem þau vinna eður ei. Í staðinn höfum við America's Next Top Model (sem er ekkert nema snilld) og The Swan (viðbjóður) sem komast nálægt fyrirmyndinni en samt ekki. Kannski er ekki lengi að bíða...

Þangað til reyni ég að humma hljómfræðiheimalærdóminn fram af mér svo og almenna tiltekt með gáfulegum athugasemdum og nýstárlegum hugmyndum.

miðvikudagur, september 07, 2005

Ég dró Emblu með mér á tónleika í gær og löngu kominn tími til. Upp úr dúrnum kom að hún hafði ekki gert sér ferð á slíka uppákomu frá því að hún sá Ice-T á tónleikum í Florida fyrir 13 árum. Hjá mér voru hins vegar liðnir 4 dagar.

Það tók Patti Smith til að lokka hana út úr þessi langlífa tónleikabindindi og var sjón að sjá okkur báðar þettar kvöld. Ég var riðandi af svima (og komin með blússandi kvefpest í dag) og hún kasólétt. Einhvern veginn hafði ég misskilið að það yrðu sæti á staðnum (NASA) en svo reyndist ekki vera nema í mjög takmörkuðu upplagi og allt löngu upptekið. Maður sníðir sér því stakk eftir vexti og við ekki á því að standa upp á annan endann allt kvöldið í okkar ásigkomulagi. Svo var ég heldur ekki nógu vel skóguð. Við spiluðum óléttuspjaldinu skammlaust og Embla fékk þenna fína stól úr fatahenginu. Vorum með plott um að skiptast á sitja í stólnum en svo fann Embla borð úti í horni á dansgólfinu þannig að fyrir rest stóð hún bara og gnæfði yfir mannfjöldann eins og rokkandi frjósemisgyðja á meðan ég nauðgaði stólnum þar sem ég skiptir á að standa á honum og sitja á bakinu. Við skemmtum okkur prýðilega og Patti sveik ekki.

mánudagur, september 05, 2005

Úff - einhvern veginn beit ég það í mig að hljómfræði II byrjaði ekki fyrr en í næstu viku en að sjálfsögðu er fyrsti tíminn í dag. Í fangi stundarbrjálæðis skráði ég mig svo líka í tónheyrn I. Takið eftir; þetta er dagurinn þar sem ég hætti að kvarta undan því að ég hafi ekkert að gera.

Já og varðandi tónlistarmenntun mína þá hef ég bara ákveðið að stunda hana bara samt og ekki spyrja kóng, prest eða Stefán Jón Hafstein um leyfi. Það er alveg hægt - eftir smá krókaleiðum og með aðeins meira fjármagni en ella.

Spakmæli dagsins eru: Stjórnmálamenn eru líka fólk.

Ég er hérmeð hætt að ætlast til nokkurs af stjórnmálamönnum og ber jafn mikið traust til þeirra og hvaða afgreiðsludömu í Vogue, tækniaðstoðarmanns hjá Og Vodafone svo og kerlingarinnar í Vestmanneyjum sem sér um bókhaldið fyrir iðnaðar-manninn sinn og heldur að ég beri ábyrgð á því að hún nái að borga virðisaukann.

föstudagur, september 02, 2005

Stundum skil ég ekki alveg dagskrárstefnu sjónvarpsstöðvanna. Er kl. 11 á föstudagskvöldi virkilega besti tíminn fyrir nýja sjónvarpsseríu - og það seríu sem hefur fengið mikið lof og áhorf erlendis og vísir er að muni kannski falla í kramið hér?

Battlestar galactica mun s.s. hefjast í kvöld á Skjá einum og ef þú, lesandi góður, hefur einhvern snefil af áhuga á vísindaskáldskap þá skaltu ekki láta þá þætti fram hjá þér fara. Það verður að vísu byrjað á að sýna mini-seríuna sem er gott því hún undirbýr allt sem koma skal þótt hún sé reyndar svolítið langdregin. Þættirnir sjálfir eru í hinu hefðbundna 45 mínútna formati sem hentar þeim mun betur og þá byrjar líka aðalfjörið.

Ekki halda að þetta sé Enterprise með öðru nafni - nú eða sama súpan og var framleidd árið 1978 og var víst geimsápa af basískustu gerð með körlum að gera karllega hluti og hjákátlegum róbótum. Þetta er pólitískt spennu drama af bestu gerð með góðum slatta af heimspekilegum vangaveltum ásamt bráðnauðsynlegum húmor og geimorustum inn á milli.

Til að gera langa sögu stutta: á einhverjum öðrum tíma hefur mannkynið dreift sér um vetrarbrautinu og misst samband við jörðina sem lifir aðeins í vitund þess sem ótrúverðug þjóðsaga. Að baki er langt og erfitt stríð við Cylonana - róbota sem mannkynið bjó til og snérist gegn þeim. Ekkert heyrist frá Cylonunum svo áratugum skiptir þar til einn góðan veðurdag þeir dúkka upp - í mjög endurbættu formi - og sprengja ótal kjarnorkusprengjur á öllum 12 plánetum mannkynsins. Þeir einu sem lifa af er fólkið sem var statt á geimskipunum þegar árásin var gerð - 40-50 þúsund manns. Nú hefst leit þeirra að nýjum heimkynnum - kannski jörðinni - á meðan Cylonarnir reyna að klárið verkið sem þeir byrjuðu á.

Það besta við þessa þætti er hversu venjulegt fólk fær að vera. Vandamálin sem þau glíma við eru oftar en ekki kunnugleg. Einhvers staðar verður að redda vatni. Alkóhólistar verða að spara áfengisbirgðirnar sínar. Stundum þarf að fórna fólki og það er alltaf ljótt. Allir geta gert mistök og gera þau gjarnan. Hetjurnar eru breiskar og þrívíðar og óvinirnir stundum mannlegri en þeir sem hafa "réttinn" sín megin. Sögusviðið er kannski framandlegt en fólk heldur alltaf áfram að vera fífl og það þýðir gott sjónvarp.