sunnudagur, mars 27, 2005





Gleðilega páska

mánudagur, mars 21, 2005

Andskotinn! Einhvern veginn hef ég orðið mér út um auma bletti á tungunni. Ég skal spara ykkur físíksar lýsingar en get þó sagt að þetta er pirrandi svona eins og eftir að maður hefur borðið eitthvað súrt. Og mér finnst ég alltaf vera þyrst þótt ég sé það ekki. Óþægindin byrjuðu fyrir svona viku og sjúkdómsgreindi ég mig á þann hátt að mig vantaði vítamín og fór að gúffa í mig einhver nýútrunnu fjölvítamíni + nýútrunnum járntöflum sem ég fann uppi í skáp. Tungugreyið byrjaði strax að lagast og hugsaði ég ekki meira út í það – þangað til núna. Ég tók vítamínin í gær (en hef hugsanlega gleymt því kvöldið áður) og nú er allt komið á byrjunarreit. Spurningin er s.s. hvort að sjúkdómsgreiningin hafi verið rétt, hvort ég eigi að vera að bögga lækni með einhverju þessháttar smámunum og hvort það sé ekki allt í lagi að éta vítamín þótt þau séu ekki glæný.

Annars er það í bígerð hjá mér að brjóta smá odd af oflæti og hef ég sótt um hlutastarf í skúringum. Nú er ég haldin þeirri bjargföstu trú að ræstitæknivinna sé með þeim göfugri í okkar samfélagi og talsvert skemmtilegri en margt annað sem borgin hefur upp á að bjóða. Ég mundi t.d. fyrr láta krossfesta mig með ryðguðum nöglum heldur en að vera:

• Fatahengjari á skemmtistað
• Símasöludýr
• Blaðamaður á DV og/eða Séð og Heyrt
• Módel
• Lögga
• Alþingismaður

Til allra lukku á ég ekki á hættu með að verða ráðin í neitt af ofangreindum störfum.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Ég verð að fara í klippingu. Ég ræð ekkert við hárið á mér lengur. Þetta er löngu hætt að verða hárgreiðsla og orðið fyrirferðamikill og ljótur makki. Ég hef ekki efni á strípum að svo stöddu þannig ég var að spá í að prófa einhverja nýja stofu (sá sem ég fer venjuleg til er mjög góður í hárlitun en klippingarnar eru svona upp og ofan.) Mælið þið með einhverjum/einhverri?

miðvikudagur, mars 16, 2005

Skítabankar. Hlaða á mann gylliboðum svo mánuðum skiptir og svo loksins þegar maður lætur undan og ætlar að blanda geði við hina vaxtarlágu kemur á daginn að maður hefur ekki efni á að lifa. Ég er víst ekki nógu tekjuhá og merkileg til að hljóta náð fyrir greiðslumatsaugum Íslandbanka. Ég er alveg nógu góð til að greiða þeim vexti og ýmis afgreiðslugjöld og engir fettir fingrum út í hinar talsvert hærri afborganir sem fara til Íbúðalánasjóðs en vei mér fyrir að halda að ég, aumur ritarinn, geti gerst endurfjármögnuð og elegant. Mér fer víst best að svamla áfram í skuldasúpunni, greiða mína yfirdráttarvexti og vera þakklát á meðan bankinn hirðir ekki heimilið. Bah!

þriðjudagur, mars 15, 2005

Árás skyndibitans

Ef einhver skyldi detta inn í hið annars ágæta mexíkóska veitingahús Culiacan í Skeifunni skal sá hinn sami hér með varaður við stórhættilegum rétti sem veitingahúsið hefur á matseðli sínum. Santa fe salat (með kjúkling). Á ótímabærum dauða mínum átti ég von en að verða fyrir salatárás var frekar neðarlega á lista væntinganna. Þessi annars prýðilega bragðgóði réttur inniheldur nefnilega m.a. niðurmulda og mjög árásagjarna nachosbita. Þegar egghvössu bitunum hefur verið blanda haganlega saman við kjúkling, salsa, kál og fleira góðgæti og fórnarlambið skóflað í sig eins og einum munnbita verður hættan ljós. Engin leið er að spá fyrir um hvernig nachosbitarnir lenda uppi í munninum. Grunlaus neytandinn finnur skyndilega fyrir hvössum hornunum á viðkvæmum stöðum og verður að fara mjög varlega þegar tuggið er. Því miður áttaði ég mig ekki á hættunni nú í hádeginu og er nú með frekar ljótt sár í gómnum þar sem nachoshelvítið skar á mig gat! Mexikóskir réttir eru greinilega aðeins fyrir þá allra hörðustu og í dag var ég dæmd úr leik.

föstudagur, mars 11, 2005

Kominn föstudagur – með frosti í vöngum og sól í haga. Ekki hef ég hugmynd um hvers vegna ég hef ekkert bloggað í 10 daga og verður sá leyndardómur einfaldlega að fá að flokkast með óútskýrðum málum á borð við íverustað Geirmundar og Guðfinns svo og þetta. Það er smá föstudagsfiðringur í mér sem mun vonandi endast fram á kvöld og ekki deyja út með eftirmiðdagsþreytunni. Idolgláp og almenn vitleysa í kvöld eins og vera ber og ætli ég standi svo ekki í húsgagnalagfæringum og kjallahreinsunum um helgina. Strákpjakkurinn er farinn úr kjallaranum og ekkert því til fyrirstöðu að spúla hann almennilega. Öll aðstoð gríðarlega vel þegin.

Söngnámið gengur svona lala. Hálsbólga síðustu vikna hefur komið í veg fyrir einhver tilþrif og samkvæmt söngkennara ráði á ég bara að þegja sem mest - a.m.k. þangað til hún gengur yfir.

Mig langar til útlanda og get ekki stillt mig um að öfundast út í Nönnu og Jón Geir sem eru að fara að Ampoppast á þessari hátíð í næstu viku.

Hnuss! Hvern langar svosem að heimsækja heimafylki tvöfalda vaffsins, ég bara spyr? Ég er viss um að það verður of heitt þarna og örugglega skröltormar út um allt!

þriðjudagur, mars 01, 2005

Hvernig læt ég...

Til hamingju með 28 ára afmælið litli bróðir.





Það legst s.s. bloggværð yfir mann þegar maður hefur ekki jafnan aðgang að netinu. Við - kæru lesendur - erum nú á degi 10 í tölvuleysi og sér ekki fyrir endann á því. Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá vil ég meina að Og Vodafone sé að klúðra einhverju í tengingunni á meðan það góða fyrirtæki vill kenna mér um. Og þar sitjum við í pattstöðu.

Annars er framkvæmdagleðin að ná tökum á mér. Auk þess að ég er komin með nýjan sófa í stofana (allt annað líf) hef ég ákvðið að flikka upp á græna stólinn minn. Þetta er húsgagn sem pabbi keypti í Danmörku á námsárum sínum þar - kringum 1966 - og sér varla á. Þ.e. þangað til Gabríel meig í setuna. Um leið og ég uppgötvaði það reif ég að sjálfsögðu áklæðið af setunum og henti í þvottavél med det samme. Stillti á 40 og var ánægð með dagsverkið. Nema mér láðist að hugsa mig um í svona 3 sekúndur og komast að þeirri augljósu niðurstöðu að áklæðið væri ekki beinlínis úr polyester. Þetta reyndist vera hin fínasta ull sem fyrir utan það að tætast upp í vélinni minnkaði sem nam ca. 3 buxnastærðum. Ég á reynar nokkuð erfitt með að gráta það mjög mikið því seturnar sjálfar voru komnar á síðasta snúning; svampurinn farinn að molna og víravirkið potast í gegn. Þannig að ég er á leið í Listadún að redda mér nýjum sessum + áklæði. Ætla að drífa mig í dag eftir vinnu. Strax á eftir er svo förinni heitið í næstu Húsasmiðja og keyptur sandpappír og viðarolía. Stóllinn skal verða svo fínn að sjálf Vala Matt grenjar af öfund.