laugardagur, desember 31, 2005

Var að horfa (með öðru auga og í sennilega í 87. skipti) á Grease og það helltist yfir mig þörf til að blogga á gömlu Tóbakstuggu síðunni sem ég var víst óvirkur meðlimur að (markmiðið þar var að benda á vandræðalegar þýðingavillur í sjónvarps- og kvikmyndaefni og var bloggið það víst ekki í miklu uppáhaldi hjá þýðendum þessa lands.) Það er ansi mikið um Tóbakstugguverð mómentum í þýðingu þessarar myndar en flest er nú hægt að fyrirgefa - þ.e. þangað til að kom að þessu atriði:

Strákur (Kenickie) segir við stúlku (Rizzo): I hear you're knocked up.

Þýtt sem: Ég held að ég sé ófrískur.

Ég veit að starf þýðandans er vanþakklátt en hversu sofandi þarf maður að vera til að svona gerist?

Ég sé að allt í kringum mig er fólk að gera upp árið og spá fyrir framrás þess næsta. Sjálf er ég hætt að hugsa um tímann í árlegum skömmtun - þetta er allt saman vinnuferli og hálf tilgangslaust að vera eilíft að líta til baka. Svo hef ég engan tíma til að horfa lengra en til kvöldsins í kvöld - þarf að sturta og sjæna mig og, úps, er alltof sein. Allt Grease að kenna.

Gleðilegt nýtt ár öll sömul!

fimmtudagur, desember 29, 2005

Eins og flestir vita skrifa ég stundum í enskt blogg. Það hryggir mig þó að þeir lesendur mínir sem eru kannski ekki nógu sleipir í engilsaxnesku skuli fara á mis við hið ótæmandi innsæi sem þar er að finna og hef ég því brugðið á það ráð að þýða nýjustu færsluna þar og birta hér.

Þökk sé þessari þýðingasíðu.

Sjá:

Áhorfandi Friður í gærkvöldi í the þægindi af minn eiga dagstofa ( ég alltaf skipuleggjandi á seeing það í the theater en myndað af did not fá the tækifæri ÉG var alltaf of upptekinn / þreyttur ) It's a kátur góður létt högg. Ákaflega heilbrigður allur í kring , skemmtilegur , óvissa og jafnvel þó it's hlutfall PG -13, hver gefa það a grænt ljós á guðlast the eini sverja var í Kínverji. Myndað af I am ekki orðatiltæki ÉG hugur a hluti af sverja en ÉG ást hvernig þeir myndað af did not þörf það. Í the endir ÉG hryggð þessi the TV röð aldrei got til standa sig þess möguleiki og , já a ágætur hluti af lokun á the ættarsaga. Náttúrulega Skurðgoð af nauðsyn til gera fleiri.

Svo mörg voru þau orð.

miðvikudagur, desember 28, 2005

36 dagar til Ástralíufarar - þetta er bara að verða raunverulegt...

Stærsta áhyggjuefnið: þegar maður er að fara úr vetrarríki í sumarríki - tekur maður með úlpu? Konfektofát hefur valdið slíkri heilalömun að þetta virðist vera óleysanleg ráðgáta. Það verður örugglega skítkalt hérna 2. febrúar - og sennilega í London líka - en ég nenni varla að ferðast dúðuð frá toppi til táar um Singapore og Sidney. Það er engin lausn í sjónmáli. Kannski einn konfektmoli í viðbót geri gæfumuninn...

laugardagur, desember 24, 2005

Er búin að ákveða að allt spilaravesen sé því að kenna að ég er að rippa lögin á wma formati frekan en mp3. Ég laga það kannski þegar ég hef tíma.

Setti "Jólaóratóríuna" í spilarann af augljósum ástæðum.

Gleðileg jól!

miðvikudagur, desember 21, 2005

Lét loks undan þrýstingi og sett upp Firefox. Ein breytingin sem ég hef orðið vör við (enn sem komið er) er að nú byrjar spilarinn á þessu hér bloggi að spila lögin sjálfkrafa - þótt ég hafi hann þannig stilltan að fyrst þurfi að smella á play. Þetta þykja mér ekki alveg nógu góð skipti og væri til í að fá ábendingar um hvernig má laga þetta hið snarasta. Á meðan er Auður með nákvæmlega eins spilara á sínu bloggi (copy/paste frá mínu) og hann hagar sér allt öðruvísi. Undarlegt. Er það bara ég sem er að lenda í þessu?

Afmælisdagurinn var sérkennilegur og vil ég hérmeð senda framtíðarsjálfi mínu þá ábendingu að eiga ekki aftur afmæli nema að vera vel úthvíld og helst laus við allar hormónasveiflur. Var að öðru leiti hið besta mál; fólk kom í heimsókn, pakkar gáfust, afmælissöngurinn sunginn samtals fjórum sinnum af tveimur mismunandi manneskjum - þar af þrisvar af annarri - o.s.frv.

Ennþá eru til smákökur, súkkulaði og jólabjór þannig að gestir og gangandi eru velkomnir í heimsókn að aðstoða við útrýminguna.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Árinu eldri og enginn munur.

Get ekki ákveðið hvort það er gott eða slæmt.

Nær frávita að þreytu eftir að hafa farið alltof seint að sofa - upptökur á jólaplötu Hrauns stóðu yfir til 2 í nótt.

Skrifa meira ef kviknar einhvern tímann aftur á heilanum.

Var ég annars ekki búin að biðja um startkapla í afmælisgjöf?


Setti inn Söng Tomma litla í spilarann því ég er svo hryllilega meyr í dag.

föstudagur, desember 16, 2005

Um fegurðarsamkeppnir

Ég ætlaði mér nú að standa algjörlega fyrir utan þessa umræðu - a.m.k. á blogginu - en get auðvitað ekki á mér setið.

Ungfrú Ísland er Ungfrú Heimur. Gott hjá henni. Hún átti það örugglega meira skilið en einhver tilteygð silikonbomba.

Nú koma slæmu fréttirnar.

Ég er ekkert rosalega fylgjandi fegurðarsamkeppnum. Finnst þær draga upp falska mynd að kvenfólki, still þeim upp sem gínum og fullkomleikafyrirmynd sem þátttakendurnir sjálfir ná ekki að nálgast. En ... staðreyndin er sú að fólk hefur þessa tilhneigingu til að dæma fólk eftir útlitinu og á meðan slík hegðun er rík í manninum (og munið að konur eru líka menn) er næsta fullvíst að til verði fegurðarsamkeppnir í einhverri mynd. Á maður þá bara að yppa öxlum og segja "svona er Ísland í dag?"

Auðvitað ekki. Sjálf sé ég skýra sammerkingu á milli fegurðarsamkeppna og stríðsreksturs Bandaríkjamanna í Írak. Ójá.

Við feminista[niðurlægjandi lýsingarorð að eigin vali] höfum ekkert við stúlkurnar sem taka þátt í keppninni að sakast. Ekki frekar en friðarsinnar ámæla þá menn og konur sem send eru að berjast og deyja í stríði. Þær fá upp í hendurnar tækifæri - bæði frá fólki í samfélaginu og í gegnum hið genetíska lotterí - til að koma sér áfram á einhverju sviði. Nýta þá kosti sem þær hafa fram að færa. Lái þeim hver sem vill. Ekki geri ég það. Nei, það er stríðreksturinn sem liggur undir ámæli hér. Bara vegna þessa að eitthvað hefur verið gert á ákveðinn hátt í háa herrans tíð er ekki þarmeð sagt að það sé ákjósanlegt. Ímyndum okkur fegurðarsamkeppni sem dvergakast. Þótt þú finnir einhverja dverga sem kjósa að taka þátt er keppnin engu að síður niðurlægjandi fyrir dverga upp til hópa.

Þegar ég hugsa málið sé ég engan mun á dvergakasti og fegðurðarsamkeppnum. Í báðum tilfellum eru einstaklingar skilgreindir út frá líkamlegum eiginleikum eingöngu og notaðir í keppni án tillits til þess að um vitsmunaverur sé að ræða. Ég ætla mér ekki að ráðast á einstaka dverga fyrir að kjósa að taka þátt í slíkum keppnum - sér í lagi ef það skapar þeim tækifæri sem þeir hefði ekki annars fengið. En ég leyfi mér að efast um að allir dvergar í heiminum séu sérstaklega ánægðir með að litið sé eingöngu á þá sem skondna bolta.

Að lokum: fínt hjá ráðmönnum þjóðarinnar að óska Unni Birnu til hamingju með titilinn. Og fínt hjá feministum að gagnrýna það. Mál- og skoðanafrelsi er svo gasalega hollt.

Og í tilefni af fegurðarsamkeppnum alls staðar hef ég ákveðið að hoppa yfir Jólaóratórínu og leyfa Kapítólu Karlsdóttur að tjá sig um eigin fegurð í spilaranum.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda upp á afmælið mitt. Skynsemisröddinn í hausnum, sem er nú yfirleitt háværust, segir mér að þetta sé nú ekki hentugur tími fyrir afmælisboð. Helgarnar eru fullbókaðar og hver býður í veislu á þriðjudegi? Svo eru ríflegur skerfur vinanna staddur í öðrum lands/heimshluta – nú eða að búa til nýtt líf. Já og læra fyrir próf, standa í jólavafstri, taka upp plötur og svo framvegis. Að lokum (segir röddin með vandlætingartón): hvaða heilvita manneskja heldur upp á 33 ára afmælið? Og lætur það þar að auki fréttast hvað hún er orðin hundgömul?!

Það er erfitt að mótmæla.

Hin röddin (þær eru bara tvær eins og stendur) er ca. 9 ára og á afmæli rétt fyrir jól. Sú staðreynd skilgreinir alla hennar tilvist. Hún grenjar jafnan og vælir ef hún fær sameiginlega afmælis- og jólagjöf. Þessi rödd er að rembast eins og hún getur við að yfirgnæfa þessa skynsömu og fullorðnu. Væntingarnar eru reyndar ekki miklar. Hún vill gjarnan að fólk muni eftir afmælinu. Að það rífi athyglina frá jólageðveikinni og meðtaki að 20. desember hafi eitthvað gildi. Henni er í raun sama um pakkana – það má alveg sleppa þeim hennar vegna – bara ekki dulbúa þá sem jólagjöf (veikur blettur.)

Framan af var þessi rödd bundin og kefluð niðri í kjallara undirmeðvitundarinnar. Nú er hún búin að rífa af sér keflið og er komin í kjallaratröppurnar. Ég heyri einhvern óm. Hún notar orðið “bitsj” fulloft.


Það skal tekið fram á þessum tímapunkti að ég er fyrir löngu hætt að taka mark á henni. Ég heyri kannski í henni en hún fær sjaldnast að ráða. Það er helst að ég sleppi henni lausri á heilum tugum.

Niðustaðan er samt sú að mig langar soldið til að bjóða til jóla/afmælissamsætis næstkomandi þriðjudag. Smá jólabjór og piparkökur kannski? Eða er annríkið of mikið?

þriðjudagur, desember 13, 2005

Ugh - mér hefur tekist að næla mér í kveisu. Hún lýsir sér í magapínu, hálsbólgu og verk í einni tá á vinstra fæti. Kannast einhver við kveisuna?

Hef samt bitið á jaxlinn þrátt fyrir þessa erfiðu byrði og sit nöldrandi glöð og fús í vinnunni og framkvæmi skylduverkin.

Læt mér því nægja að linka hér á Stundina okkar frá því á sunnudaginn var þar sem nokkrir leikrar úr Jólaævintýrinu skemmtu börnunum með atriði úr sýningunni. Ég veit að flestir sem taka þátt í leikritinu misstu af þessu sökum sýningar. Atriðið byrjar þegar þátturinn er ca. hálfnaður.

mánudagur, desember 12, 2005

Ég sé þetta alls staðar. Fólk fellur í tölvuleikjagryfjuna umvörpun og sést ekki meðal manna sólarhringum saman. Þetta er víst orðið svo fullkomið. Grafíkina gasaleg og nýjar og óvæntar leiðir spretta upp til að valda sjálfum sér og öðrum félagslegum og/eða varanlegum skaða.

Fyrir mitt leyti var fullkomnum í tölvuleikjaframleiðslu náð með Rockford (sjá mynd) sem, ef minni þrýtur ekki, var einn af fyrstu PC leikjunum. Eða var það Atari? Ekki var það Commodore því við áttum aldrei slíka tölvu. Í öllu falli var það fyrir margt löngu og hef ég, síðan þá, séð litla ástæðu til að kynna mér það sem komið hefur fram á markaðinn.

Ég tók upp á því að troða leiknum í allri sinni dýrð inn á netið máli mínu til stuðnings. Njótið nú vel. Tekur aðeins hálf megabæt af minni enda eintóm græðgi að vera að ætlast til einhvers meira.

Vek að lokum athygli á nýju lagi í spilaranum.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Hríð á glugga... ef þetta er ekki dagur til að bruna beint heim eftir vinnu og pakka sér inn í teppi og mjúk húsgöng þá veit ég ekki hvað er.

Og viti menn, ég get það. Ekkert planað í dag. Jólafrí í skólanum, prófin búin (fékk 8,5 í hljómfræði - wheee!) og engin sýning fyrr en annað kvöld. Og þá verður sko líka sýnt. Hvorki fleiri né færri en þrjár sýningar yfir helgina og svotil fullt á þær allar. Nú finnst mér gaman. Þess þá heldur um að gera að hvíla sig vel í dag.

Annars er stórt spurningarmerki hangandi yfir plönum kvöldsins. Þannig er að við Nanna og Jón Geir sórum og sárt við lögðum að við ætluðum að sjá Serenity í bíó. Fréttablaðið segir mér að myndin sé aðeins sýnd í Kringlubíó kl. 10:10. Sennilega í litlum sal. Á morgun verður hún líklega horfin með öllu. Ætli allir góðir nördastrákar og stelpur hafi ekki farið um leið og myndin var tekin til sýningar og ekkert tillit tekið til kjána sem binda sig við einhverjar leiksýningar dögum saman. Þannig að: við förum nú eða aldrei. Og eins og orkulevelið hefur verið á fólki er ég ansi hrædd um að aldrei sé orðið líklegra en nú. Ég er auðvitað búin með kvótann fyrir næstu tvo mánuði (fór á Harry Potter um daginn*.)

Skipti um lag í glymskrattanum glæsilega - nú óma "Sambandsslitin" um þetta blogg.

Viðbót: Uss - ekki fyrr búin að ýta á send en kvöldið fyllist af plönum. Æfingar á jólaplötu Hrauns eru s.s. að hefjast og nauðsynlegt að mæta á slíkt. Og jafnvel bara bíó líka. Ég fæ hvort eð er næga hvíld í gröfinni. Ætti ekki að vera nema ca. 30 ár í það.

____________________
* Fín mynd. Ekki öfundsvert verkefni að troða þessari bók inn í undir þriggja tíma mynd. Saknaði réttindabaráttu álfanna (eða hvað þeir nú heita) ekki baun þar sem það var alltaf frekar problematísk hliðarsaga í bókunum: Kynþáttur sem góða fólkið vill frelsa undan ánauð en það skapar aðeins meiri vandamál en það leysir því kynþættinum líður best sem þrælar. Nei, það mátti alveg missa sín.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Bætti við "blogginu" hennar Þórdísar - systur Auðar - á listann minn. Ég segi "blogg" því hún hefur kosið að sleppa því að væla yfir leiðinlegu fólki í strætó og sjónvarpsdagskránni eins og við hin og setur í staðinn inn myndir af glæsilegu málverkunum sínum. Þar er m.a. að finna seríu byggða á sögum úr gamla testamentinu sem Biblíufræðingunum þætti eflaust gaman að skoða.

Nú er ég ein af þeim sem hefur ekki hundsvit á málaralist og læt gjarna út úr mér klisjur á borð við "ég veit ekki mikið um list en ég veit hvað mér líkar" eða eitthvað álíka andlaust. Jæja, mér líkar við listina hennar Þórdísar. Þarna eru verk sem mér finnst ég skilja og þreytist aldrei á að skoða. Hvað sem það þýðir.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Ég veit ekki... þetta er kannski ekki svo vitlaus skóli sem ég er í.

Þegar ég byrjaði í hljómfræði I í sumar og sat gjarnan sveitt úti í garði og reyndi að átta mig á því hvað snéri upp og hvað niður átti ég það til að leita til nágrannakonu minnar í kjallaranum sem er að læra á píanó og virkaði, út frá mínu fávitalegu sjónarhorni, sem doktor í hljómfræði. Hún skildi þetta! Og meira til! Talaði um sjöundarhljóma og hefði allt eins getað farið með formúlur úr skammtafræði. Hún var snillingur!

Og nú er ég komin fram úr henni. Var að fara yfir miðsvetrarprófið í hljómfræði II sem mér gekk víst ekki alltof vel með á mánudaginn í síðustu viku og skildi ekki allar útskýringar kennarans. Trítlaði því niður í kjallara eins og svo oft áður til að fá vel ígrundaðar skýringar á öllu saman.

Hafði s.s. ekki erindi sem erfiði. Hún hristi bara hausinn og sagðist ekki vera komin þetta langt og var gáttuð yfir því hvað prófið var langt og erfitt og að ég skildi ekki ná með 5 villur. Nú veit ég ekki hvort ég á að vera montin eða miður mín. Ég er búin að missa þennan prýðis auka-einkakennara og þarf að ráða fram úr öllu alveg sjálf hér eftir. Einnig virðist sem aðrir skólar (held hún sé í FÍH) séu ekki að píska nemendur sína jafn mikið og Tónó og hví ætti aumi heilinn minn að gjalda fyrir það?

Á hinn bóginn: Hah!

Ætla að rúlla þessu prófi upp á morgun.

Ég og sjöundarhljómar: like this.

Grrr...

Holly: I'm not bored. I've had a really busy morning. I've devised a system
to totally revolutionize music.
Lister: Get out of town!
Holly: Yeah, I've decimalized it. Instead of the octave, it's the decatave.
And I've invented two new notes: H and J.
Lister: Hang on a minute, you can't just invent new notes.
Holly: Well I have. Now it goes: Do Re Mi Fa So La Wo Bo Ti Do. Do Ti
Bo Wo La So Fa Mi Re Do.
Rimmer: What are you drivelling about?
Holly: Holrock. It'll be a whole new sound. All the instruments will be extra
big to incorporate my two new notes. Triangles will have four sides. Piano
keyboards the length of zebra crossings. Course, women will have to be
banned from playing the cello.

Red Dwarf