mánudagur, október 31, 2005

Helgi smelgi. Þessi var ósköp ljúf ef tíðindalaus. Laugardaginum var eytt sem oftar vestur á Eyjarslóð þar sem öllu leikritinu var rennt ca. 70% handritslausu. Stefnir, svei mér þá, bara í leikrit.Um kvöldið var mætt aftur út í Örfirisey og baunasúpa, að hætti Sigrúnar Óskarsdóttur, etin - svo góð að hún mun sennilega fara inn í baunasúpuannála sem besta baunasúpa sem boðið hefur verið upp á og að því loknu öll lögin í leikritinu kyrjuð. Mér tókst að vísa að hljóma eins og stunginn grís og reyndi af veikum mætti að dylja það sem sorg og ekka en varð nú ekki um sel. Gat verið að ég væri allt í einu svona stressuð að syngja fyrir fjórar hræður? Mörgum klukkutímum síðar áttaði ég mig á ástæðunni. D'oh! Þetta horfir því allt til batnaðar og er planið að syngja eingöngu sem óstunginn grís hér eftir.

Ekki tókst mér að finna djammstuðið þessa helgi og hélt því heim á leið, bláedrú, um miðnætti og sökkti mér ofan í sálarangist stúlknanna sem keppast um að fá að verða aðalmódelið í Bandaríkjunum.

Eftir epískt letikast á sunnudeginum kíkti ég í heimsókn til foreldranna og borðaði þar kvöldmat. Kom aftur úr þeirri för með hálflasna handryksugu. Aldrei skal maður fara tómhentur heim frá því húsi. Ekki veit ég hvar hún á komast fyrir á alltof litlu heimilinu en var sjálfsagt hin brýnasta nauðsyn.

Ég gerði heiðarlega tilraun til heimalærdóms í gærkvöldi - kláraði næstum því hljómaröðina en strandaði á vii6 sem skiptihljómi sem ég er ekki alveg viss um hvað er. Henti síðan Sibeliusi inn í tölvuna og pikkaði inn ryþmaæfingarnar fyrir tónheyrnina. Hefði átt að gera það fyrir löngu síðan. Var alltof lengi að dytta að því og skreið loks í rúmið upp úr 1.

Kl. hálf tvö ákvað nágranni á efri hæðinni í austurhluta hússinn að nú væri kjörinn tími til að blasta "China in your hand" með hinn víðfrægu hljómsveit T'Pau á hæsta styrk. Sumt fólk á skilið að skjóta á færi fyrir ekki aðeins tónmengun heldur hreinlega tónlistarsmekkinn. T'Pau var líka vond tónlist fyrir 17 árum.

föstudagur, október 28, 2005

Mig dreymdi í nótt að mér tækist að eyðileggja bókunina mína til Ástralíu. Sennilega er þráin eftir að komast til sólríkari staða orðin það sterkt að óttinn við að eitthvað eyðileggi þá fyrirætlan er farinn að láta á sér kræla.

Eða kannski er ferðafóbían mín að láta heyra í sér 3 mánuðum of snemma.

Ég ætlaði að fara í blóðprufu í morgun úti á Heilsugæslustöð (Seltjarnarness) en sumardekkin mín voru ekki alveg á þeim buxunum. Sennilega þarf ég heldur ekkert að fara í þessa blóðprufu. Ég fór til læknis fyrir tveimur mánuðum vegna slappleika og álíka einkenna og það eina sem kom í ljós var hugsanlega mögulega oggponsulítil bólga í lifur. Átti s.s. að tékka á því nokkrum vikum seinna og ég var að muna eftir þessu núna. Slenið og hin einkennin eru hins vegar alveg horfin þannig að ég ætti kannski bara að spara peningana mína. Ég er a.m.k. farin að vakna vekjaraklukkulaust kl. 7 að morgni (að vísu með farmiðabókanir á heilanum) þannig að ég hlýt að teljast nokkuð hress.

Sett inn enn eitt Eurovisionlagið samkvæmt beiðni:

Vicky Leandros - Apres Toi (Luxemburg 1972)

þriðjudagur, október 25, 2005

Eurovision spektaklið nú um helgina var einhver sú tilgangslausasta lofrulla í kringum ABBA slagarann Waterloo sem sést hefur frá því að lagið vann í den. Réttið upp hendi þeir sem héldu í alvöru að eitthvað annað lag hefði séns á að vinna? Anyone? Og réttið nú upp hendi þeir sem nenntu að kjósa.

...

Einmitt. Það var þó nokkuð gaman að sjá hin mýmörgu skemmtilegu og skrítnu lög sem birst hafa í keppninni í gegnum tíðina og er ég þá ekki að tala um þessi topp 14 sem fengu að keppa um hinn "eftirsóknarverða" titil (að maður tali nú ekki ógrátandi um fjarveru nær allra íslenskra laga frá upphafi - við erum víst ekki nógu klikkuð - memo til þjóðarinnar...) Þarna voru alls konar gullmolar sem maður mundi ekki eftir því að væru til - hvað þá að væru upprunalega Júróvisjónlög. T.d. "Heyr mína bæn"? Ekki hafði ég hugmynd.

Eitt lag sérstaklega kom mér á óvart og þar sem ég missti af bæði landi og nafni lags var ég í mesta basli við að finna það. Það hafðist þó fyrir rest og í kjölfarið uppgötvaði mér til mikillar furðu að til er ágætt safn af lögum á frönsku sem ég kann að meta. Vissi aldrei að tónlistarsmekkur minn hneigðist í þá átt - kannski gerir hann það bara í seinni tíð. Altént er einhver þróun í gangi.

Hið kunnuglega lag var s.s. framlag Luxemburg í keppnina árið 1967:

Vicky Leandros - L'Amour Est Bleu
Vicky Leandros - Love is blue - sama lag á ensku

Þessi lög er í talsverðri spilun:

Marie Myriam - L'Oiseau Et L'enfant (Frakkland - 1977)
France Call - Poup De Cire, Poup De Son (Luxemburg - 1965)

Og af því að þýskir diskódjöflar eru alltaf soldið skemmtilegir á sérstaklega sýrðan hátt:

Dschingis Khan - Dschingis Khan (Þýskaland, 1979)

Njótið vel.

mánudagur, október 24, 2005

Kvennafrídagur í dag frá og með 14:08. Ég ætla að skreppa heim fyrst og klæða mig vel og hitta svo mömmu og Nönnu við styttu Leifs heppna kl.15:00.

Ég gæti skrifað margt og mikið um þennan dag en bæði er hlaupinn frá mér allur tími og svo er ég búin að því.

Áfram stelpur...!

föstudagur, október 21, 2005

Leikæfing í gær eins og svo oft áður og mér er illt í ökkla. Klossar eru víst ekki ákjósanlegur skófatnaður í íþróttum. Bolti er mikil keppnisíþrótt og ég löngu hætt að fórna mér á gólfinu á Eyjarslóð. Síðast þegar ég gerði það uppskar ég bilaða taug í hné sem er ennþá til trafala.

Æfingin sjálf var ljúf þrátt fyrir að einhverja hefi vantað. Frekasti leikstjórinn skrapp af landi þannig að Siggalára og Sigrún sátu í leikstjórasætum og fórst það prýðisvel úr hendi. Á meðan verður hljómsveitin Hraunlegri með hverjum deginum sem líður þar sem Loftur bassaleikar er nú genginn til liðs við okkur.

Ég kíkti aðeins með ágætum hóp eftir æfing á Ungann í einn lítinn bjór en lét mig hverfa þaðan frekar fljótt á meðan ég hafði ennþá þrek til að keyra heim.

(Þessi færsla er farin að verða ansi æfingabloggsleg.)

Gat samt ekki farið að sofa án þess að glápa á hinn nýuppgötvaða raunveruleikaþátt "So you think you can dance." Svona þættir eru alveg prýðisgóð mannfræðistúdía. T.d. er greinilegur munur á bandarískjum og íslenskum ungmennum þegar kemur að hvers konar hæfileikakeppnum. Við Íslendingarnir erum aldir upp við að gera lítið úr öllum okkar mögulegu hæfileikum og þykir það smekkleysa mikið að trana sér of mikið fram nema sérstaklega sé beðið um það. Hroki og sýndarmennska fer ekki vel í landann. Því virðist vera öfugt farið í USA. Kannski vegna þess hversu mannmörg þjóðin er - þar þýðir ekkert að bíða eftir því að vera uppgötvuð/uppgötvaður - þú hreinlega týnist í mannmergðinni ef þú reynir það. Eina leiðin er hoppa upp og niður og garga yfir fjöldann "Ég er best(ur)!!" Það er líka gjarna viðkvæðið í SYTYCD. Hver kolómögulegi dansarinn á fæti öðrum sem ekkert getur en er alltaf jafn sannfærður um eigið ágæti. Þetta fólk á eflaust eftir að komast langt á einhverju sviði. Bara ekki í þessari keppni. Svo er það hrokafulli keppandinn sem er jafn góður og hann vill vera láta. Jafnvel þjálfararnir virðast viðurkenna það þótt þau augljóslega þola hann ekki. Enda eru aðrir keppendur frekar fúlir yfir því að atvinnudansari - sem hefur m.a. dansað með Britney Spears - skuli taka þátt í svona keppni. Einn þeirra lýsti því sem svo að það væri væri sem Mariah Carey tæki þátt í American Idol. Hins vegar stígur kauði ekki í vitið og á það eflaust eftir að verða honum að falli. Hvaða heilvita maður segir í myndavélina - rétt eftir að hafa verið hrósað af þjálfurum - að hann sé sjálfur miklu betri dansir en þeir? Kjánaprik.

Sko - mín bara komin í ham :þ

fimmtudagur, október 20, 2005

Grrr! Arrrgg!

Your Monster Profile

Death Warrior

You Feast On: Tofu

You Lurk Around In: The Hearts of Men

You Especially Like to Torment: Vegans


Já með því að éta allt tófúið þeirra...

miðvikudagur, október 19, 2005

Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvað er að gerast í námi mínu þessa dagana. Svo virðist sem framför mín í ýmsum greinum sé í öfugu hlutfalli við þá vinnu sem ég legg í heimalærdóminn. Þannig hef ég kastað til höndum á nær öllum sviðum að undanförnu og uppskorið ekkert nema lof fyrir vönduð vinnubrögð. Í tónheyrn í gær var mér hrósað fyrir að vera augljóslega sú eina sem æfði sig heima í að hitta á random nótur (sérlega leiðinleg æfing þar sem kennarinn stendur uppi við töflu með prik og slær því svo fast á handahófskennda staði á skalanum að liggur við prik-broti.) Það hefur ekki svo mikið sem hvarflað að mér að æfa þessi ósköp heima og eina skýringin sem mér dettur í hug er að þessi skali var í sama dúr og upphafslagið í jólaævintýrinu - greinilega svona líka ferkst í minni.

Hafa skal eftir það sem virkar segi ég nú bara.
Fyrir rest dró Nanna mig í Rúmfatalagerinn og við skiptum ólukkans gítarnum fyrir annan alveg örugglega jafn ógæfusamann. Spurning hvort hægt er að gera einhvejar fyrirbyggjandi aðgerðir á honum. Ég hef a.m.k. ekki treyst mér ennþá til að taka hann upp úr kassanum.

Og hef varla tíma. Lífið skiptist nokkuð bróðurlega á milli vinnu, skóla og leikfélags þessa dagana. Hef loksins tekið þá ákvörðun að læra handritið - líst vel á þá þróun og býst við að hefjast handa við fyrsta tækifæri. Finnst þó ekki líklegt að það tækifæri birtist fyrr en um helgina. Það er líkamsræktardagur í dag og svo vill Betta ólm að ég mæti á generalprufu hjá Óperunni í kvöld kl. 7. Til þess að það gangi eftir verð ég víst að mæta í dag kl. 2 og betla miða. Ég veit ekki einu sinni hvaða óperu á að sýna... ahemm...

Vindar blása enn í Ameríku og finnst mér nú kominn tími til að einhver klóri sér í hausnum og hugsi - kannski bara með sjálfum sér: "Þetta er nú ekki alveg eðlilegt." Það er svo spurning hvort verra er að bora hausnum í sandinn eða týna honum í svartholum samsæriskenninga.

------

Og þar sem það er hvort eð er aldrei heil brú í bloggfærslunum mínum er hér smá glaðningur fyrir aðdáendur sjónvarpsþáttanna Lost:

Hvað gerist ef þú blandar saman Queen, Weird Al Yankovic, Lost og einhverjum með augljóslega yfrið nóg af frítíma? Þetta gerist.

mánudagur, október 17, 2005

Það eru sumir frasar í íslenskri tungu sem væri alveg ágætt að fara koma á eftirlaun. Það er ekki oft sem ég hleypi út mínum innri feminista og kýs frekar að viðra skoðanir mínar á óopinberum vettvangi (í hópi vinkvenna, fjölskyldu eða vinnufélaga.) Stundum læðist hins vegar hinn frægi dropinn ofan í mælinn og þá er nauðsynlegt að létta á.

Úr Blaðinu í dag:

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, laut í lægra haldi fyrir Þorgerði Katrínu með 424 atkvæði, en hann bar sig karlmannlega eftir kjörið og sagði að mikilvægt væri fyrir flokkinn að standa þétt saman að baki nýrri forystu.

Karlmannlega? Í alvöru krakkar. Hvað ef Þorgerður Katrín hefði tapað? Hefði hún þá haft tækifæri til að bera sig "karlmannlega"? Eða hefði hún verið stimpluð "kvenleg" og allur stuðningur hennar við flokkinn verið túlkaður út frá því orði? Þá hefði hún væntanlega þótt sýna veikleika með því að lúffa fyrir karlmanni - því "kvenleg" hefur jú allt annan merkingarauka. Er kannski einmitt málið að þarna höfum við karlmann að tapa kosningu fyrir kvenmanni – og það í Sjálfstæðisflokknum – sem fær blaðamanninn/konuna til að taka svona til orða. Eins og spekingarnir segja: maður spyr sig.

Er ekki alveg kominn tími til að hætta þessari kynbindingu – sérstaklega í fjölmiðlun? Er íslensk tunga virkilega svo karlrembumiðuð að í henni er ekkert gott orð að finna sem táknar reisn og stolti þrátt fyrir ósigur - og það án þess að vera að draga fólk í dilka eftir kynfærum?

Pirr pirr pirr...

Hana. Hægt að fylla á aftur.

föstudagur, október 14, 2005

Dabbi karlinn fær loksins tækifæri til að létta á sér. Greinlegt að ýmis mál hafa íþyngt honum í áraraðir. Karlinn ætti auðvitað bara að blogga - það er jú hinn sanni vettvangur formælinga, blammeringa og annarra -inga.

Hann gæti líka haft gott að því að heyra söguna um refinn og vínberin.

Hræódýri gítarinn sem ég festi kaup á í Rúmfatalagernum framdi sjálfsmorði í fyrradag. Þegar ég kom heim blasti þessi sjón við mér. Mögulega er alheimurinn að taka fyrir hendurnar á mér og stýra mér af braut sjálfsblekkingar og rangrar fingrasetningar. Á meðan ég geri það upp við mig velt ég því fyrir mér hvort ég hafi of mikla sjálfsvirðingu til að mæta upp í búð með 2500 kr. gallagripinn - án kvittunar - og heimta nýjan.

þriðjudagur, október 11, 2005

Ég gramsaði í hirslum og reyndi að finna krullhærða mynd af mér máli mínu til stuðning og þetta var það skásta sem mér tókst að grafa upp:Ég og amma í góðum fíling á jólunum 1991.

Man núna skyndilega hvers vegna ég hef ekki verið svona um hárið í meira en áratug. Mér leiðast permanent. Ég barasta nenni ekki að líta svona út. Svo er líka hætta á að ég neyðist til að klippa allt af (eins og Nanna benti réttilega á) og það kann varla góðri lukku að stýra:Eldhúspartý a Eggertsgötu ca. 1999.

Já já og svo er þetta með leikritið. Ég var ekki búin að gleyma því - fannst samt í lagi að taka ákvörðunina fyrst og spyrja leikstjórana svo. Þannig að hin nýtrúlofaða Siggalára getur andað léttar með það:Sennilega eina myndin sem ég á úr Hugleikspartýi og hármiðjuð mjög (eins og mínar færslur þessa dagana). Það stendur "engill" á blaðinu (?)

Til hamingju mín kæra.

mánudagur, október 10, 2005

Ég ætla leggja þessa spurningu fyrir nefnd: Ætti ég að fá mér permanent?

Mér stendur það til boða að láta einhvern hárgreiðslunema eyðileggja hársrótina mína með ætandi efnum og breyta mér í ígildi lambs. Mér finnst hugmyndin soldið spennandi af því að:

a) ókeypis - allt er gott sem er ókeypis
b) ég var svoleiðis útlítandi öll mín menntaskóla ár og nostalgían segir til sín
c) þykir það ekki ennþá gasalega hallærislegt? Ég veit ekki um neinn sem gerir slíkt við hárið á sér í dag. Straujað og stælt er málið. Það býr alltaf lítill púki í mér sem sækir í að vera á móti tískunni. Hallærislegheitin lokka.

Það er bara spurning hvor að þrjár veikar ástæður gera saman eina stóra.

Á ég að skella mér út í óvissuna eða er hægt að bjarga mér frá tískuslysi aldarinnar og meðfylgjandi félaglegri útskúfun?

sunnudagur, október 09, 2005

Ég finn að þetta er allt að mjakast í hljómfræðinni. Ég er farin að vera mun skemur en þessa fjóra-fimm klukkutíma sem hvert heimaverkefni tók í upphafi. Rúmur klukkutími nægir mér nú sem er mikill léttir. Munurinn felst í því að ég er orðin talsvert betri í að þekkja nótur og nótnasambönd án þessa að þurfa að hugsa mig um og samstíga fimmundir sjaldséðar núorðið. Hef ég fjandans tónheyrnina grunaða um að þessa auknu þjálfun í nótnaþekkingu og er mér eiginlega meinilla við að hún hafi öll þessi jákvæðu áhrif í mínu lífi.

Helgin hefur verið róleg að vanda. Ég kíkti á fjölskylduna á Eiðistorgi og lék við þau um stund og borðaði alls kyns nýbakaðar kræsingar. Lá annars bara í sófanum heima hjá mér og prjónaði af krafti. Trefillinn tilbúinn svo og húfan og einn vettlingur. Ég var svo upptekin af því að prjóna fyrir aðra í fyrra að ég gjörsamlega gleymdi sjálfir mér og er nú að bæta úr því svo um munar enda stefnir í snjó. Stebbi kíkti í heimsókn og pantaði húfu í stíl við vettlingana sem ég prjónaði handa honum í fyrra. Nú vantar mig bara meira af bleiku, gulu og hvítu garni – ef einhver skyldi eiga slíkt á glámbekk. Fór allt of seint að sofa og rumskaði ekki fyrr en á slaginu tólf þegar ég átti að vera mætt á æfingu. Æddi sem geðsjúk manneskja vestur í bæ og var mætt 15 mínútum eftir að ég vaknaði. Tók að mér að skrifa í æfingadagbók Hugleiks og geta áhugasamir lesið afraksturinn hér.

Sumir dagar (og helgar) enda sem lítið annað en upptalning.

fimmtudagur, október 06, 2005

Snilldartæki. Mundi panta svoleiðis í jólagjöf ef það kostaði ekki milljón pening og tæki allt pláss á stofunni.Rafmagnið fór af Hreyfingu - og meirihluta Reykjavíkur - í gær og enginn kippti sér upp við það. Ég var stödd í einhvers konar orbitrek tæki þar sem ég bjó til mitt eigið rafmagn með krafti fóta minna. Það sama má segja um alla aðra sem voru ekki á hlaupabrettum. Held ég hafi séð þarna vísi að fullkomlega sjálfbærri líkamræktarstöð í náinni framtíð. Bara spurning um að opna vel glugga, kveikja á rómó kertum og tengja hvert tæki við nettan rafal. Öll orkan sem spanderast þarna á hverjum degi ætti hæglega að duga til að keyra áfram nokkur ljós, síma, græjur, tölvu og blandara (því massarnir þurfja jú prótíndrykkina sína.)

Ætti þá að vera kominn góður grundvöllur fyrir því að færa verð á þriggja mánaða kortum niður fyrir 20 þúsundin.

Þarf að gauka þessari hugmynd að henni Ágústu...

miðvikudagur, október 05, 2005

Ósköp getur maður verið smásálarlegur.

Ég er nefnilega að komast að því að ég hef næstum því jafn mikla ánægju af því að hatast út í eitthvað eins og að gleðjast yfir því. Hér sit ég og hlusta á útgáfu hljómsveitarinnar Toadies á Pixies slagaranum “Where is my mind” og uni vel þrátt fyrir allar mínar yfirlýsingar um almenna óbeit á hinni síðarnefndu hljómsveit. Mig er nefnilega farið að gruna að ég hati ekki beint Pixies – heldur fái ég eitthvert pervertískt kikk út úr því að lýsa yfir vanþóknun minni í hópi heitra aðdáenda (svo verð ég auðvitað sármóðguð ef einhver dirfist að rífa niður allt sem ég held upp á í lífinu.) Vellíðanin samfara þessu kikki er bara svo miklu meiri heldur en mögulega ánægja sem ég fæ út úr Pixies og þeirra tónlist. Ég vona bara að þetta þýði ekki að ég þurfi að endurskoða afstöðu mína til Oasis. Ég SKAL fara í gröfina með þá meiningu að Wonderwall sé versta lag allra tíma.

Svipað er uppi á teningnum þegar kemur að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ég hef sérstakt gaman af því að gera sem allra minnst úr bæði “Sex and the City” og “Desperate housewives” and verð víst að viðurkenna í hljóði að þetta eru ekki svo slæmir þættir. Ofmetnir já – en ekki slæmir. Og "The O.C."? Sæmilega vel gerð sápa sem hefur víst tilvistarrétt þótt ekki sé hún minn tebolli. Kannski er ég að meyrast óþarflega mikið í seinni tíð en maður vill nú ekki vera óþarflega ósanngjarn. Ekki í heimi sem býður upp á alheimsleiðindin “Invasion.”

Nú er ég víst komin út úr skápnum með það. Á það ekki að vera svo gott fyrir sálina?
Æfingar á Jólaævintýrinu eru hafnar og lofa að vera hin besta skemmtun. Ég efa að ég muni sjá eftir því að fórna kvöldunum mínum í sprell vestur á EyjaRslóð. Á að leika móður hennar Nönnu. Fyrir þá sem ekki vita er ég fjórum árum eldri en hún sem er skref í rétt átt þar sem síðast þegar ég lék hina móðurlegu týpu voru svo til öll mín börn leikin af mér eldri konum. Stefnir í fjörlega sýningu og nauðsynlegt að halda uppi dampi í ræktinni ef ég á að hafa einhverja orku í hana.

Svo á ég víst að fara að taka einhver próf í desember; hljómfræði II, tónheyrn og þriðja stigið í söng...

Ég er himin lifandi yfir því að hafa svona mikið að gera fram að jólum því það þýðir að tíminn mun þjóta áfram og nýja árið birtast fyrr en varir. Og þá fer að styttast í Ástralíuförina fyrirheitnu (jibbí!)

mánudagur, október 03, 2005

Er með hljómfræði á heilanumVetrarstarfið segir til sín sem aldrei fyrr. Þarf að klára að vinna, fara yfir heimalærdóm, hengja þvott á snúrur, mæta í tveggja tíma hljómfræðitíma, borða, mæta á Hugleiksæfingu og læra fyrir tónheyrn. Því það eru víst próf í hverjum tíma. Af því bara smákrakkar læra tónheyrn. Grrr...

Eins gott að ég notaði helgina til að safna orku. Þeyttist reyndar um stórmarkaði borgarinna með Hebu á laugardaginn að finna hið fullkomna garn (það tókst! Ó fagri verðandi trefill/vettlingar /sokkar/húfa!) Og mætti í ræktina í gær og þóttist vera dugleg. Annars var Lost DVD pakkinn minn nýttur óspart og erlend dagskrá sömpluð af miklum móð. Nýjasti Battlestar Galactica þátturinn (2x10) fékk mig til að gnísta tönnum svo all svakalega að mér sárverkjaði í kjálkana og ég átti í mestum erfiðleikum með að brjóta ekki blýantinn, sem ég hélt á, í tvennt. Gróf kynferðisleg misnotkun vill hafa slík áhrif á sálartetrið. Mig langar ennþá til að brjóta hluti þegar ég hugsa um þessi atriði. Er ekki vön að þurfa áfallahjálp og af-reiðun eftir sjónvarpsgláp.

Þetta var því, eftir á að hyggja, ansi strembin helgi.