miðvikudagur, júní 30, 2004

Það er spurning...

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að útskýra fyrir umheiminum ást okkar Auðar á Barböru Streisand ballöðunni "Woman in love." Þarfnast slíkt einhverrar útskýringar? Ég hélt ekki en eftir Júróvisjón partýið góða þar sem einhverjum ofbauð víst dívulegur flutningur okkar á téðu lagi (ég veit ekki hver en einhver mun hafa tautað "Guð minn almáttugur" á meðan á ósköpunum stóð) hefur þetta virkilega legið á sál minni.

Eins og svo margt annað gott í mínu lífi byrjaði þetta sem brandari. Í hópkarókívímupartýi heima hjá Auði fyrir nokkrum árum áður var hún neydd til að taka þetta lag í einsöng og var ekki mjög skemmt. Síðar í annars konar (áfengis)vímu vorum við tvær að spasla saman enn einum kjánakaflanum í Ástríki og kom einhver staðar upp sú hugmynd að láta persónur okkar taka þetta lag í karókí (write what you know segja þeir). Eftir að hafa haft upp á textanum á netinu og komist að því hversu arfavondur hann er í raun og veru spratt upp sú hugmynd að íslenska hann með stæl og laga að sögunni. Að sjálfsögðu var passað að halda sama gæðastíl í textagerð og fröken Streisand hafði sett sér. Texta dæmi:I am a woman in love
and I'll do anything
to get you into my world
and hold you within.
It's a right that I defend
over and over again.
What do I do?
Ég er vinkona þín
og ég geri allt
til þess að halda í þig 
ég sleppi þeir ei
Þú er allt sem ég á
aftur og aftur ætíð
Hvað geri ég nú?


Þarna þótti okkur vel að verki staðið og var afraksturinn settur í söguna. Síðan tóku við ófáar áskoranir á báða bóga að taka þetta lag einhvern tímann í karókí. Tækifærið bauðst hins vegar ekki fyrr en á títtnefnda Júróvisjón nótt. Sjálfar vorum við afskaplega ánægðar með að fá loksins tækifæri til að fremja tónlist sem hefur verið á dagskrá hjá okkur í mörg ár en greinlegt er að sumum hefur ofboðið. Við þessa suma segi ég bara :þ
Já ég gleymdi - tók nokkrar myndir af krakkaormunum hennar Emblu um daginn.

Fór annars með þeim í sund í hádeginu í gær. Þær eru skondnar. Ofboðslega ólíkar systur. Venjulega er Ragnheiður Dís öll á iði, klifrand og garandi - almennilega skvetta - á meðan eldri systir hennar er rólegri og yfirvegaðri. Ekki kannski alvarleg en talsvert minna fyrir öfgarnar. Hefur t.a.m. ekki slasað sig jafn oft og litla systir. Svo er þeim dýpt í vatn og eitthvað undarlegt gerist - þær skiptast á persónuleikum. Sigga Vigga verður manísk - hoppar og skoppar í lauginn og er slétt sama þótt hún kunni ekki að synda. Ragnheiður Dís hins vegar rígheldur í hálsinn á mömmu sinni og þorir ekki einu sinni að láta lappirnar leita að botninum. Henni fannst nú samt gaman - þarf bara að fá að venjast lauginni smám saman. Maður þurfti sífellt að fullvissa hana um að það væri allt í lagi þótt hún buslaði með fótunum eða settist í heita pottinum - maður mundi ekki sleppa. Fyrir rest var hún farin að sitja ein og óstudd - þótt annað hvort ég eða Embla hafi auðvitað alltaf verið aðeins í nokkurra sentimetra fjarlægð. Á meðan gerði Sigga Vigga sitt besta til að drekkja sér og var vatnsrennibrautinn óspart nýtt. Ég prófaði að fara einu sinni með hana en það var ekki svo sniðugt þannig að hún fór bara alein eftir það. Og hefði ekki getað verið sáttari.
Fallegi bíllinn minn er farinn. Ég seldi fyrsta bílinn sem ég eignaðist í gær og vona bara að Embla feri um hann mjúkum höndum. Það var grunsamlega auðvelt að ná í hann á bílasöluna. Ég bara rölti inn, sagðist vera að ná í bílinn minn og fékk lyklana. Engin pappírsvinna, engin sönnunarkrafa á því að ég ætti í raun bílinn. Eygi þarna gullið gróðatækifæri...

Síðan þegar við Embla vorum búnar að skrifa undir okkar pappíra, koma lyklum í réttar hendur og setja barnabílstólana á sína staði skildu leiðir okkar og ég brunaði út á nes með umslag með 160 þúsund krónum í fimm þúsund köllum.

Sú ánægjulega tilbreyting átti sér stað að engin tölva kom nálægt þessu viðskiptum. Millifærsla smillifærsla.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Allt að gerast. Ég er sennilega búin að selja bílinn minn; Embla ætlar að kaupa hann á hagstæðu verðu. Ég er loksins byrjuð á eldhúsframkvæmdunum í kjallaranum - vantar bara vegg sem kemur vonandi á morgun. Er á leið á Trékyllisvík um helgina ásamt Siggu Láru, Nönnu, Steina og Hraunmönnum. Munum gista á Djúpuvík fyrri nóttina, Trékyllisvík þá síðar eftir Hraunballið og almennt njóta íslenskrar náttúru. Það verður alltaf bara gaman. Bakið virðist eitthvað vera að skána og er ég fallin frá þeirri sjúkdómsgreiningu að ég sé komin með brjósklos - þetta var sennilega bara heiftarleg vöðvabólga. Því ætla ég í sund í hádeginu. Skal í Árbæjarlaug ásamt Emblu og stelpunum.

Heimatölvan er ennþá jafn dauð.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Ég er ekki að höndla það sérstaklega vel að vera komin aftur til vinnu eftir þó ekki lengra frí en þetta. Finnst ég ekki vera á réttum stað og kann ekki að vakna á morgnana. Eins og svo oft áður hef ég takmarkaðan áhuga á að blogga á frídögum (sem er ástæðan fyrir því að það eru - ahemm - 12 dagar síðan ég skrifaði hérna síðast) og nú get ég ekki bloggað heima hjá mér þótt ég fegin vildi; tölvan mín er dáin. A.m.k. í dái. Það er því skyndilegur (og pínu ógnvænlegur) friður og ró á mínu heimili. Ég er ekkert að grínast með þetta - síðastliðin 3 ár hefur stanslaus viftuómurinn hljómað um alla 53 m2 og nú er eins og slökkt hafi verið á sálinni í húsinu. Mánudagskvöldið flúði ég hús og endaði í litlum dal fyrir ofan Nesjavallarvirkjun í tjaldi ásamt Nönnu, Jóni Geir og Steina. Í gær svaf ég af mér allt kvöldið, vaknaði kl. 10 og gat að sjálfsögðu ekki sofnað aftur fyrr en undir morgun. Ég kenni tölvuleysi alfarið um og veit það fyrir víst að ég verð ekki heil manneskja fyrr en búið verður að kippa málum í lag.

Einnig:

Eitt stykki bassatromma, gyllt, ca. 120 cm á hæð, óskar eftir eiganda sínum. Er ekki að uppfylla sín réttu örlög sitjandi í ganginu mínum þar sem hún fúnkerar aðeins sem stökkpallur fyrir ketti.

föstudagur, júní 11, 2004

Ég er komin í frí og legst þá blogghöfgi yfir mig og mínar síður. Hef líka aðallega verið að rifja upp kynni mín af listinni að hanga og því ekki mikið markvert frá að segja. Það voru nokkrar leikæfingar uppi í Heiðmörk í vikunni en nú eru svo margir á leiðinni í leiklistaskólann á Húsabakka að leikritið er komið í frí næstu 10 daga.
Skotta kom til mín í gær og hjálpaði mér að rífa upp arfa í garðinu en veðrið er ekki eins gott í dag og nenni ég ómögulega aftur út í garð. Í staðinn mun ég skella mér í banka og borga reikninga, heilsa upp á fólkið í vinnunni og borða kökurnar þeirra (og leggja grundvöllinn að því að snapa mér iðnaðarmenn í næstu viku svo og eldhúsinnréttingar fyrir ekki neitt), leita að Póló-i í Bónus, fara með bílinn í skoðun og finna hið fullkomna, eldrauða blóm til að planta í hálsinn á kúrekanum.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Kæri herra heimur. Mig langar til að kenna þér eitt lítið orð. Eitt lítið götunafn í miðborg Reykjavíkur sem ég hef tekið eftir að vefst talsvert fyrir þér.

Þetta götuheiti er Sölvhólsgata.

Segðu það með mér. Sölv-hóls-gata.

Ekki Selfossgata, Selvhílsgata, Salvarsgata, Sölfólsgata, Söllhósgata, Selhólsgata, Selfhólsgata, Selvhólsgata eða Sólvalsgata.

Bara gata sem heitir í höfuðið á Sölvhól - ætli það sé ekki hóllinn hans Sölva; Sölvhólsgata.

Ekki svo flókið.

Heldurðu að þú getir munað það? Fyrir mig?

mánudagur, júní 07, 2004

Ég hef sagt við sjálfa mig trekk í trekk að þegar ég byrjði í fríi mundi ég sko fara að gera hluti. Eins og t.d.:

- reyta arfa
- greiða úr fjármálum
- fara með gosflöskur í endurvinnslu
- skrifa
- þrífa allt sem þrifið verður
- díla við leigjendur
- fara í útilegu
- mála
- búa til kartöflugarð
- prjóna
- sauma
- horfa á "Oz" frá byrjun til enda

Núna langar mig hins vegar mest til að stinga af frá öllu saman og skella mér til útlanda. Veit ég hef sagt það oft áður og hætti alla jafnan við eftir svona 3 daga. Það er hins vegar engin ástæða til að fara ekki ef ég get nýtt þessi punkta sem stórfyrirtækin segja að ég eigi. Þannig að annað hvort fer ég eftir nokkra daga eða í ágúst. Júlí er eitt stórt spurningnarmerki því þá verða æfingar á Stútungasögu á fullu og svo veit ég ekki hvað það verður sýnt lengi - vonandi/sennilega mjög þétt.

Kannski stafar þetta eirðarleysi af einskærri öfund. Svo margir í kringum mig eru á leiðinni í Svarfaðardalinn á leiklistarnámskeið og ég kemst ekki þótt ég hefði efni á því :( Í fyrra náði þetta eirðarleysi svo langt að ég krasjaði lokakvöldið í skólanum undir því yfirskyni að ég væri að sækja Siggu Láru á leið minni til Egilsstaða. Efast um að ég komist upp með slíkt athæfi í ár.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Ég fór í bíó í gærkvöldi efir leikæfingu. Ligga ligga lá! Sá myndina "The Day after Tomorrow". Hún var alveg eins og ég átti von á. Hefði mátt vera aðeins meira stórslysa-klám en annars skilaði hún sínu. Ég get ekki komið með betri gagnrýni en þessa.

Óli og frumvarpið. Almannarómur segir að hann gerði góðan hlut. Ég er nokkuð sammála almannarómi og sé enga ástæðu til að endurtaka það sem margtuggið er. Hins vegar sló það mig í gær hversu sjaldan eitthvað gerist á Íslandi. Þar sem ég horfði í óvenju taugaveiklaðan forseta voran reyna að koma sér að efninu uppgötvaði ég að ég hafði búist við því að hann mundi skrifa undir. Var fastlega búin að gera ráð fyrir því. Því þannig fara hlutirnir alltaf. Almúginn tuðar og ráðamennirnir segja "jú víst" og svo tuðar almúginn aðeins meira - ekkert gerist og almúginn finnur sér eitthvað annað að tuða yfir. Það er Íslendinga hátturinn. Og nú þurfum við skyndilega að bera ábyrgð á tuðinu í okkur og það er bara soldið skerí.

miðvikudagur, júní 02, 2004

Hvað er þetta - fólk rýkur ekki upp til að handa og fóta þegar tækifæri til að fara í bíó með MÉR býðst? Ég er svo aldeilis...

Var að reyna að muna eftir öllum tilkippilegu vinum mínum sem ég gæti hugsanlega togað með mér. Komast að því að alltof margir þeirra eru í föstu sambandi - og fast samband þýðir parið vill gera hluti - eins og að fara í bíó - saman.

Bleh. Á þessum tímapunkti ætla ég að leyfa mér að þusa yfir óhóflegri parahyggju (án þess að hafa nokkrar vísbendingar um að vinir mínir hafi hagað sér á þann hátt og er þessu ranti á engan hátt beint til þeirra) - mér finnst ég eiga það inni. Það er þetta með að geta ekki framkvæmt ákveðnar félagslegar athafnir nema makinn geri slíkt hið sama. Ekki fara í bíó því makinn vildi líka sjá myndina, ekki taka mynd á leigu því þið ætluðu að sjá hana saman, ekki fara á djammið nema með makann límdann við öxl, ekki gera milljón litla og ómerkilega en þó skemmtilega hluti því makinn er getur ekki verið með. Þetta er fólkið sem gefur einhleypum vinum sínum eina afmælis/jólagjöf en ætlast til þess að fá sitt hvora frá þeim. Oftar en ekki finnst mér þetta fólk hafa sömu öfgafullu skoðanirnar en það gæti verið tilviljun. Þetta er líka fólkið sem vorkennir öllum þeim er eru ekki jafn hrikalega ósjálfstæð og ósjálfbjarga og þau - þ.e. einhleypa fólkinu.

Vill til að ég vorkenni þeim líka. Þessu fólki vil ég tileinka eftirfarandi partýóð og bið það vel að lifa.

Hvaða sagnorð sem er getur komið í auðu línuna en þau vinsælustu eru: drekka, syngja, leika, elska, deyja, ríða og reykja - ekki endilega í þessari röð.

Dragðu ekki það að ________
þar til þú eldist
því þá kannski upp af hrekkurðu heldur fljótt
og hefur hreint aldrei ________ neitt
Taktu heldur því sem þér að höndum ber
það þýðir ekki um að fást
þú mátt aldrei láta mæðu sækja sinnið á
né súta yfir von sem brást


Endurtekið þangað til forsöngvari deyr áfengisdauða

P.S. Ég er viss um að ég er eitthvað að klúðra textanum - það gerist alltaf þegar ég reyni að muna hann edrú. Hins vegar er hvert orð kristalstært í minninu á sjötta glasi.
Er einhver - einhver - sem les þess blogg til í að koma með mér í bíó að sjá "The day after tomorrow"?

Einhver?