laugardagur, desember 31, 2005

Var að horfa (með öðru auga og í sennilega í 87. skipti) á Grease og það helltist yfir mig þörf til að blogga á gömlu Tóbakstuggu síðunni sem ég var víst óvirkur meðlimur að (markmiðið þar var að benda á vandræðalegar þýðingavillur í sjónvarps- og kvikmyndaefni og var bloggið það víst ekki í miklu uppáhaldi hjá þýðendum þessa lands.) Það er ansi mikið um Tóbakstugguverð mómentum í þýðingu þessarar myndar en flest er nú hægt að fyrirgefa - þ.e. þangað til að kom að þessu atriði:

Strákur (Kenickie) segir við stúlku (Rizzo): I hear you're knocked up.

Þýtt sem: Ég held að ég sé ófrískur.

Ég veit að starf þýðandans er vanþakklátt en hversu sofandi þarf maður að vera til að svona gerist?

Ég sé að allt í kringum mig er fólk að gera upp árið og spá fyrir framrás þess næsta. Sjálf er ég hætt að hugsa um tímann í árlegum skömmtun - þetta er allt saman vinnuferli og hálf tilgangslaust að vera eilíft að líta til baka. Svo hef ég engan tíma til að horfa lengra en til kvöldsins í kvöld - þarf að sturta og sjæna mig og, úps, er alltof sein. Allt Grease að kenna.

Gleðilegt nýtt ár öll sömul!

fimmtudagur, desember 29, 2005

Eins og flestir vita skrifa ég stundum í enskt blogg. Það hryggir mig þó að þeir lesendur mínir sem eru kannski ekki nógu sleipir í engilsaxnesku skuli fara á mis við hið ótæmandi innsæi sem þar er að finna og hef ég því brugðið á það ráð að þýða nýjustu færsluna þar og birta hér.

Þökk sé þessari þýðingasíðu.

Sjá:

Áhorfandi Friður í gærkvöldi í the þægindi af minn eiga dagstofa ( ég alltaf skipuleggjandi á seeing það í the theater en myndað af did not fá the tækifæri ÉG var alltaf of upptekinn / þreyttur ) It's a kátur góður létt högg. Ákaflega heilbrigður allur í kring , skemmtilegur , óvissa og jafnvel þó it's hlutfall PG -13, hver gefa það a grænt ljós á guðlast the eini sverja var í Kínverji. Myndað af I am ekki orðatiltæki ÉG hugur a hluti af sverja en ÉG ást hvernig þeir myndað af did not þörf það. Í the endir ÉG hryggð þessi the TV röð aldrei got til standa sig þess möguleiki og , já a ágætur hluti af lokun á the ættarsaga. Náttúrulega Skurðgoð af nauðsyn til gera fleiri.

Svo mörg voru þau orð.

miðvikudagur, desember 28, 2005

36 dagar til Ástralíufarar - þetta er bara að verða raunverulegt...

Stærsta áhyggjuefnið: þegar maður er að fara úr vetrarríki í sumarríki - tekur maður með úlpu? Konfektofát hefur valdið slíkri heilalömun að þetta virðist vera óleysanleg ráðgáta. Það verður örugglega skítkalt hérna 2. febrúar - og sennilega í London líka - en ég nenni varla að ferðast dúðuð frá toppi til táar um Singapore og Sidney. Það er engin lausn í sjónmáli. Kannski einn konfektmoli í viðbót geri gæfumuninn...

laugardagur, desember 24, 2005

Er búin að ákveða að allt spilaravesen sé því að kenna að ég er að rippa lögin á wma formati frekan en mp3. Ég laga það kannski þegar ég hef tíma.

Setti "Jólaóratóríuna" í spilarann af augljósum ástæðum.

Gleðileg jól!

miðvikudagur, desember 21, 2005

Lét loks undan þrýstingi og sett upp Firefox. Ein breytingin sem ég hef orðið vör við (enn sem komið er) er að nú byrjar spilarinn á þessu hér bloggi að spila lögin sjálfkrafa - þótt ég hafi hann þannig stilltan að fyrst þurfi að smella á play. Þetta þykja mér ekki alveg nógu góð skipti og væri til í að fá ábendingar um hvernig má laga þetta hið snarasta. Á meðan er Auður með nákvæmlega eins spilara á sínu bloggi (copy/paste frá mínu) og hann hagar sér allt öðruvísi. Undarlegt. Er það bara ég sem er að lenda í þessu?

Afmælisdagurinn var sérkennilegur og vil ég hérmeð senda framtíðarsjálfi mínu þá ábendingu að eiga ekki aftur afmæli nema að vera vel úthvíld og helst laus við allar hormónasveiflur. Var að öðru leiti hið besta mál; fólk kom í heimsókn, pakkar gáfust, afmælissöngurinn sunginn samtals fjórum sinnum af tveimur mismunandi manneskjum - þar af þrisvar af annarri - o.s.frv.

Ennþá eru til smákökur, súkkulaði og jólabjór þannig að gestir og gangandi eru velkomnir í heimsókn að aðstoða við útrýminguna.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Árinu eldri og enginn munur.

Get ekki ákveðið hvort það er gott eða slæmt.

Nær frávita að þreytu eftir að hafa farið alltof seint að sofa - upptökur á jólaplötu Hrauns stóðu yfir til 2 í nótt.

Skrifa meira ef kviknar einhvern tímann aftur á heilanum.

Var ég annars ekki búin að biðja um startkapla í afmælisgjöf?


Setti inn Söng Tomma litla í spilarann því ég er svo hryllilega meyr í dag.

föstudagur, desember 16, 2005

Um fegurðarsamkeppnir

Ég ætlaði mér nú að standa algjörlega fyrir utan þessa umræðu - a.m.k. á blogginu - en get auðvitað ekki á mér setið.

Ungfrú Ísland er Ungfrú Heimur. Gott hjá henni. Hún átti það örugglega meira skilið en einhver tilteygð silikonbomba.

Nú koma slæmu fréttirnar.

Ég er ekkert rosalega fylgjandi fegurðarsamkeppnum. Finnst þær draga upp falska mynd að kvenfólki, still þeim upp sem gínum og fullkomleikafyrirmynd sem þátttakendurnir sjálfir ná ekki að nálgast. En ... staðreyndin er sú að fólk hefur þessa tilhneigingu til að dæma fólk eftir útlitinu og á meðan slík hegðun er rík í manninum (og munið að konur eru líka menn) er næsta fullvíst að til verði fegurðarsamkeppnir í einhverri mynd. Á maður þá bara að yppa öxlum og segja "svona er Ísland í dag?"

Auðvitað ekki. Sjálf sé ég skýra sammerkingu á milli fegurðarsamkeppna og stríðsreksturs Bandaríkjamanna í Írak. Ójá.

Við feminista[niðurlægjandi lýsingarorð að eigin vali] höfum ekkert við stúlkurnar sem taka þátt í keppninni að sakast. Ekki frekar en friðarsinnar ámæla þá menn og konur sem send eru að berjast og deyja í stríði. Þær fá upp í hendurnar tækifæri - bæði frá fólki í samfélaginu og í gegnum hið genetíska lotterí - til að koma sér áfram á einhverju sviði. Nýta þá kosti sem þær hafa fram að færa. Lái þeim hver sem vill. Ekki geri ég það. Nei, það er stríðreksturinn sem liggur undir ámæli hér. Bara vegna þessa að eitthvað hefur verið gert á ákveðinn hátt í háa herrans tíð er ekki þarmeð sagt að það sé ákjósanlegt. Ímyndum okkur fegurðarsamkeppni sem dvergakast. Þótt þú finnir einhverja dverga sem kjósa að taka þátt er keppnin engu að síður niðurlægjandi fyrir dverga upp til hópa.

Þegar ég hugsa málið sé ég engan mun á dvergakasti og fegðurðarsamkeppnum. Í báðum tilfellum eru einstaklingar skilgreindir út frá líkamlegum eiginleikum eingöngu og notaðir í keppni án tillits til þess að um vitsmunaverur sé að ræða. Ég ætla mér ekki að ráðast á einstaka dverga fyrir að kjósa að taka þátt í slíkum keppnum - sér í lagi ef það skapar þeim tækifæri sem þeir hefði ekki annars fengið. En ég leyfi mér að efast um að allir dvergar í heiminum séu sérstaklega ánægðir með að litið sé eingöngu á þá sem skondna bolta.

Að lokum: fínt hjá ráðmönnum þjóðarinnar að óska Unni Birnu til hamingju með titilinn. Og fínt hjá feministum að gagnrýna það. Mál- og skoðanafrelsi er svo gasalega hollt.

Og í tilefni af fegurðarsamkeppnum alls staðar hef ég ákveðið að hoppa yfir Jólaóratórínu og leyfa Kapítólu Karlsdóttur að tjá sig um eigin fegurð í spilaranum.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda upp á afmælið mitt. Skynsemisröddinn í hausnum, sem er nú yfirleitt háværust, segir mér að þetta sé nú ekki hentugur tími fyrir afmælisboð. Helgarnar eru fullbókaðar og hver býður í veislu á þriðjudegi? Svo eru ríflegur skerfur vinanna staddur í öðrum lands/heimshluta – nú eða að búa til nýtt líf. Já og læra fyrir próf, standa í jólavafstri, taka upp plötur og svo framvegis. Að lokum (segir röddin með vandlætingartón): hvaða heilvita manneskja heldur upp á 33 ára afmælið? Og lætur það þar að auki fréttast hvað hún er orðin hundgömul?!

Það er erfitt að mótmæla.

Hin röddin (þær eru bara tvær eins og stendur) er ca. 9 ára og á afmæli rétt fyrir jól. Sú staðreynd skilgreinir alla hennar tilvist. Hún grenjar jafnan og vælir ef hún fær sameiginlega afmælis- og jólagjöf. Þessi rödd er að rembast eins og hún getur við að yfirgnæfa þessa skynsömu og fullorðnu. Væntingarnar eru reyndar ekki miklar. Hún vill gjarnan að fólk muni eftir afmælinu. Að það rífi athyglina frá jólageðveikinni og meðtaki að 20. desember hafi eitthvað gildi. Henni er í raun sama um pakkana – það má alveg sleppa þeim hennar vegna – bara ekki dulbúa þá sem jólagjöf (veikur blettur.)

Framan af var þessi rödd bundin og kefluð niðri í kjallara undirmeðvitundarinnar. Nú er hún búin að rífa af sér keflið og er komin í kjallaratröppurnar. Ég heyri einhvern óm. Hún notar orðið “bitsj” fulloft.


Það skal tekið fram á þessum tímapunkti að ég er fyrir löngu hætt að taka mark á henni. Ég heyri kannski í henni en hún fær sjaldnast að ráða. Það er helst að ég sleppi henni lausri á heilum tugum.

Niðustaðan er samt sú að mig langar soldið til að bjóða til jóla/afmælissamsætis næstkomandi þriðjudag. Smá jólabjór og piparkökur kannski? Eða er annríkið of mikið?

þriðjudagur, desember 13, 2005

Ugh - mér hefur tekist að næla mér í kveisu. Hún lýsir sér í magapínu, hálsbólgu og verk í einni tá á vinstra fæti. Kannast einhver við kveisuna?

Hef samt bitið á jaxlinn þrátt fyrir þessa erfiðu byrði og sit nöldrandi glöð og fús í vinnunni og framkvæmi skylduverkin.

Læt mér því nægja að linka hér á Stundina okkar frá því á sunnudaginn var þar sem nokkrir leikrar úr Jólaævintýrinu skemmtu börnunum með atriði úr sýningunni. Ég veit að flestir sem taka þátt í leikritinu misstu af þessu sökum sýningar. Atriðið byrjar þegar þátturinn er ca. hálfnaður.

mánudagur, desember 12, 2005

Ég sé þetta alls staðar. Fólk fellur í tölvuleikjagryfjuna umvörpun og sést ekki meðal manna sólarhringum saman. Þetta er víst orðið svo fullkomið. Grafíkina gasaleg og nýjar og óvæntar leiðir spretta upp til að valda sjálfum sér og öðrum félagslegum og/eða varanlegum skaða.

Fyrir mitt leyti var fullkomnum í tölvuleikjaframleiðslu náð með Rockford (sjá mynd) sem, ef minni þrýtur ekki, var einn af fyrstu PC leikjunum. Eða var það Atari? Ekki var það Commodore því við áttum aldrei slíka tölvu. Í öllu falli var það fyrir margt löngu og hef ég, síðan þá, séð litla ástæðu til að kynna mér það sem komið hefur fram á markaðinn.

Ég tók upp á því að troða leiknum í allri sinni dýrð inn á netið máli mínu til stuðnings. Njótið nú vel. Tekur aðeins hálf megabæt af minni enda eintóm græðgi að vera að ætlast til einhvers meira.

Vek að lokum athygli á nýju lagi í spilaranum.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Hríð á glugga... ef þetta er ekki dagur til að bruna beint heim eftir vinnu og pakka sér inn í teppi og mjúk húsgöng þá veit ég ekki hvað er.

Og viti menn, ég get það. Ekkert planað í dag. Jólafrí í skólanum, prófin búin (fékk 8,5 í hljómfræði - wheee!) og engin sýning fyrr en annað kvöld. Og þá verður sko líka sýnt. Hvorki fleiri né færri en þrjár sýningar yfir helgina og svotil fullt á þær allar. Nú finnst mér gaman. Þess þá heldur um að gera að hvíla sig vel í dag.

Annars er stórt spurningarmerki hangandi yfir plönum kvöldsins. Þannig er að við Nanna og Jón Geir sórum og sárt við lögðum að við ætluðum að sjá Serenity í bíó. Fréttablaðið segir mér að myndin sé aðeins sýnd í Kringlubíó kl. 10:10. Sennilega í litlum sal. Á morgun verður hún líklega horfin með öllu. Ætli allir góðir nördastrákar og stelpur hafi ekki farið um leið og myndin var tekin til sýningar og ekkert tillit tekið til kjána sem binda sig við einhverjar leiksýningar dögum saman. Þannig að: við förum nú eða aldrei. Og eins og orkulevelið hefur verið á fólki er ég ansi hrædd um að aldrei sé orðið líklegra en nú. Ég er auðvitað búin með kvótann fyrir næstu tvo mánuði (fór á Harry Potter um daginn*.)

Skipti um lag í glymskrattanum glæsilega - nú óma "Sambandsslitin" um þetta blogg.

Viðbót: Uss - ekki fyrr búin að ýta á send en kvöldið fyllist af plönum. Æfingar á jólaplötu Hrauns eru s.s. að hefjast og nauðsynlegt að mæta á slíkt. Og jafnvel bara bíó líka. Ég fæ hvort eð er næga hvíld í gröfinni. Ætti ekki að vera nema ca. 30 ár í það.

____________________
* Fín mynd. Ekki öfundsvert verkefni að troða þessari bók inn í undir þriggja tíma mynd. Saknaði réttindabaráttu álfanna (eða hvað þeir nú heita) ekki baun þar sem það var alltaf frekar problematísk hliðarsaga í bókunum: Kynþáttur sem góða fólkið vill frelsa undan ánauð en það skapar aðeins meiri vandamál en það leysir því kynþættinum líður best sem þrælar. Nei, það mátti alveg missa sín.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Bætti við "blogginu" hennar Þórdísar - systur Auðar - á listann minn. Ég segi "blogg" því hún hefur kosið að sleppa því að væla yfir leiðinlegu fólki í strætó og sjónvarpsdagskránni eins og við hin og setur í staðinn inn myndir af glæsilegu málverkunum sínum. Þar er m.a. að finna seríu byggða á sögum úr gamla testamentinu sem Biblíufræðingunum þætti eflaust gaman að skoða.

Nú er ég ein af þeim sem hefur ekki hundsvit á málaralist og læt gjarna út úr mér klisjur á borð við "ég veit ekki mikið um list en ég veit hvað mér líkar" eða eitthvað álíka andlaust. Jæja, mér líkar við listina hennar Þórdísar. Þarna eru verk sem mér finnst ég skilja og þreytist aldrei á að skoða. Hvað sem það þýðir.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Ég veit ekki... þetta er kannski ekki svo vitlaus skóli sem ég er í.

Þegar ég byrjaði í hljómfræði I í sumar og sat gjarnan sveitt úti í garði og reyndi að átta mig á því hvað snéri upp og hvað niður átti ég það til að leita til nágrannakonu minnar í kjallaranum sem er að læra á píanó og virkaði, út frá mínu fávitalegu sjónarhorni, sem doktor í hljómfræði. Hún skildi þetta! Og meira til! Talaði um sjöundarhljóma og hefði allt eins getað farið með formúlur úr skammtafræði. Hún var snillingur!

Og nú er ég komin fram úr henni. Var að fara yfir miðsvetrarprófið í hljómfræði II sem mér gekk víst ekki alltof vel með á mánudaginn í síðustu viku og skildi ekki allar útskýringar kennarans. Trítlaði því niður í kjallara eins og svo oft áður til að fá vel ígrundaðar skýringar á öllu saman.

Hafði s.s. ekki erindi sem erfiði. Hún hristi bara hausinn og sagðist ekki vera komin þetta langt og var gáttuð yfir því hvað prófið var langt og erfitt og að ég skildi ekki ná með 5 villur. Nú veit ég ekki hvort ég á að vera montin eða miður mín. Ég er búin að missa þennan prýðis auka-einkakennara og þarf að ráða fram úr öllu alveg sjálf hér eftir. Einnig virðist sem aðrir skólar (held hún sé í FÍH) séu ekki að píska nemendur sína jafn mikið og Tónó og hví ætti aumi heilinn minn að gjalda fyrir það?

Á hinn bóginn: Hah!

Ætla að rúlla þessu prófi upp á morgun.

Ég og sjöundarhljómar: like this.

Grrr...

Holly: I'm not bored. I've had a really busy morning. I've devised a system
to totally revolutionize music.
Lister: Get out of town!
Holly: Yeah, I've decimalized it. Instead of the octave, it's the decatave.
And I've invented two new notes: H and J.
Lister: Hang on a minute, you can't just invent new notes.
Holly: Well I have. Now it goes: Do Re Mi Fa So La Wo Bo Ti Do. Do Ti
Bo Wo La So Fa Mi Re Do.
Rimmer: What are you drivelling about?
Holly: Holrock. It'll be a whole new sound. All the instruments will be extra
big to incorporate my two new notes. Triangles will have four sides. Piano
keyboards the length of zebra crossings. Course, women will have to be
banned from playing the cello.

Red Dwarf

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Hmm... bíó. Slíkt ku vera vinsæll áfangastaður samtímamanna. Sjálf hef ég ekki stigið inn í slíkt síðan ... síðan ... ég man ekki síðan hvenær.

Það er af sem áður var þegar vasapeningarnir fyrir vikuna voru reiknaðir út frá verði á bíómiða + smá meðlæti og voru iðullega brúkaði í það. Þá var heldur ekki snobbast í vali á mynd og kíkt á nær hvað sem er.

Ég held, svei mér, að ég hafi ekki farið síðan War of the worlds var í bíó og eru það váleg tíðindi. Í stað þess hef ég horft á svo marga klukkutíma af raunveruleikasjónvarpsefni að mig sundlar við tilhugsunina.

Reyndar hefur haustið verið annasamt sem aldrei fyrr og ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið að gera fullt af skemmtilegum og uppbyggilegum hlutum sem koma hæglega í staðinn fyrir bíóferðir. En ég sakna þeirra nú smá...

Nú er því tími til aðgerða. Bæði Harry Potter og Serenity í bíó og mér ekkert að vanbúnaði. Það er bara þetta með að finna tíma og tækifæri...

Í öðrum fréttum: andskotans, djöfulsins hljómfræðiprófið sem ég sat sveitt yfir í fjóra tíma síðasta mánudag varð mér ofviða og ég þarf að taka það aftur. Annað hvort á laugardagsmorgun kl. 9 (verður það ekki gaman?) eða næsta miðvikudag. Og það er engin leið að læra fyrir það því ég geri ekkert nema klaufavillur (stækkaðar tvíundir og ferundir hirst og her.) Fyrir þá sem ekki þekkja til þá felst einmitt djöfulleiki hljómfræðinnar í því að kunna aðferðirnar en gera svo villur sem þarf áralanga þjálfun til að koma auga á. Fuss.

Viðbót: Kalli og súkkulaðiverksmiðjan! Auðvitað. Tveir og hálfur mánuður er samt alveg nógu langur tími milli bíóferða.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Þetta er að ganga (og Skotta var víst búin að "kítla" mig þarna um daginn er ég hafði sem mest að gera með einhverju svipuðu):

Hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:

1. Klára Masters ritgerðina
2. Finna vinnu sem hentar mér
3. Eignast börn
4. Búa í Danmörku
5. Læra á gítar

Hlutir sem ég get ekki gert:

1. Haldið góðu jafnvægi
2. Heklað
3. Haldið geðheilsu á flugvöllum
4. Talað þýsku
5. Djammað sem það væri enn 1999

Hlutir sem ég get gert:

1. Prjónað
2. Blístrað eins og dómaraflauta
3. Fundið jólagjafir handa fólki
4. Unnið ykkur öll í Miner 2049er
5. Talið upp allar Ísfólksbækurnar ásamt aðalpersónum og atburðarrás. Það sama á við um Buffy þætti.

Hlutir sem heilla mig við hitt kynið:

1. Ég verð að herma eftir Auði og segja einhver ógreinanlegur x-faktor
2. Varir
3. Kímni
4. Falsleysi
5. Góðmennska

Hlutir sem fæla mig frá hinu kyninu:

1. Töffaraskapur
2. Mikilmennskubrjálæði
3. Ánægja yfir eigin kroppi
4. Að geta ekki hlegið að sjálfum sér
5. Andúð á konum

Frægir menn sem heilla mig :

Frægð og stjörnudýrkun fer óendanlega mikið í taugarnar á mér í seinni tíð - eins og ég var nú upptekin af henni hérna áður fyrr. Ég skal samt reyna:

1. Colin Firth
2. Ryan Reynolds
3. Daniel Dae Kim (nauðsynlegt að hafa Lost-meðlim á listanum)
4. Heath Ledger og Jake Gyllenhaal (svona til hálfs hvor um sig)
5. Uhhh... segjum þetta gott

Hlutir sem ég sé akkúrat núna:

1. Rekstraryfirlit lóðar
2. Gagnslausa hátalara (hljóðkortið í tölvunni er bilað)
3. Diet-Pepsi í bjórglasi með grænu röri
4. Labello Caregloss & Shine
5. Gleraugu

laugardagur, nóvember 26, 2005

Í gær átti að vera sýning en bannsettur draugur fortíðarkvala ákvað að heimsækja Nönnu og hann verður víst að fá að sinna erindi sínu - ekki hægt að rusla þessu bara af. Sýningin féll því niður og ég gat farið í afmælið til mágkonu minnar. Eitthvað vildi partýstuðið ekki láta kræla á sér og þegar haldið var niður í bæ við níunda mann fór ég bara heim. Það er voðalega skrítið af hafa heilan laugardag fyrir ekkert nema hangs og hef ég það alltaf svo sterkt á tilfinningunni að ég eigi að vera að gera eitthvað. Ákvað því að gera eitthvað og ætla að búa til sushi. Á sennilega eftir að búa til alltof mikið og eru allir sem lesa þetta velkomnir í mat.

Nýtt lag komið í spilarann; Jólarifrildið - svona í tilefni af því að aðventan byrjar á morgun.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Einhvers staðar á ég niðurgrafið kort í Hreyfingu. Kannski kominn tími á að nýta það á ný fyrst maður frumsýndur og svona. Mjöðmin mín vill ekki vera til friðs nema ég hreyfi hana nokkuð reglulega. Hún var t.d. ekki alveg að fíla gólfið á Nasa þar sem Jólaævintýrisleikhópurinn plantaði sér til að fylgjast með útgáfutónleikum Ampop í gærkvöldi. Sem var þar fyrir utan hin besta skemmtun. Ég hef nokkru sinnum séð Ampop á tónleikum en aldrei jafn mögnuðum og þeim sem við* fylgdumst með í gærkvöldi. Þeir voru lifandi á sviði og flutningur sífellt þéttari og kraftmeiri. Ég verð að segja það - mér finnst þeir hljóma betur "læf" heldur en í upptökum og þykir mér líklegt að orsakarinna sé að leita í ofurtrommuleik Jóns Geirs. Það var líka gaman að fylgjast með andlitum Hugleikaranna sem voru flest allir á svipinn líkt og 1 árs barn sem fær að smakka súkkulaði í fyrsta sinn. "Ég vissi ekki að þetta yrði svona gott" svipurinn :)

Já og ég vek athygli á spilaranum hér til hægri sem mun framvegis spila mismunandi lög úr Jólaævintýrinu. Tekið er á móti óskalögum.


_____________
* Ég og leikhópurinn. Eða kannski ég og mjöðmin. Fyrst að hinar tvíeinu Siggalára og Nanna vilja ekki tala um sjálfa sig í fleirtölu er kannski best að ég geri það.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Jólahreingerning

Rétt rúmur mánuður til jóla og loksins hægt að byrja að píra augun í allan undibúninginn. Skreytingarnar fara nú ekki upp fyrr en í fyrsta lagi á aðventu – ef svo snemma – en sennilega kominn tími til að huga að gjöfum og þrífa gardínurnar. Á mínu heimili stendur yfir þessa stundina all svakaleg yfirhalning og það besta er að ég þarf ekkert að koma nálægt henni. Þegar ég kem heim eftir tíma í dag verður baðherbergið skínandi hreint ásamt megninu af stofunni. Mágkona mín elskuleg fékk nefnilega þá flugu í höfuðið að hún ætti að gjalda mér alla barnapössun, bæði fyrr og síðar. Nú er það mér ekki óljúft að eyða tíma með bróðurbörnum mínum en þegar einhver næstum því grátbiður um að fá að þrífa heimilið þitt hvernig er hægt að segja nei? Sérstaklega þar sem ég hef ekki fundið mikinn tíma eða orku í það sjálf upp á síðkastið og orðið “vanþörf” er beinlínis hlægilegt þegar það er mátað við ástandið. Á hún allt heimsins þakklæti og knús skilið fyrir fyrirhöfnina.

Ég kíkti við heima í hádeginu til að færa henni mat og taka á móti tryggingamanni og kom svo til baka á skrifstofuna fyllt hreingerningarmóði. Henti út tveimur bloggurum sem er útséð með haldi nokkurn tímann áfram og bætti við í staðinn tveimur Hugleikurum sem eiga miklu frekar skilið að vera á listanum. Líður vel með dagsverkið.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Aldrei hélt ég að ég myndi segja þetta; en fyrst við lifum í landi þar sem ekki aðskilið ríki og kirkja hvernig væri nú að halda hvíldardaginn heilagan og EKKI BORA Í STEINVEGGI Í NÆSTU ÍBÚÐ ÞEGAR MAÐUR ER AÐ REYNA AÐ SLAPPA AF EFTIR VEL HEPPNAÐ FRUMSÝNINGARPARTÝ!

Ahemm.

Frumsýning á Jólaævintýrinu tókst með eindæmum vel - smávægileg klikk eru bara skemmtileg þegar allir eru það vel með á nótunum að auðvelt er að snúa sig út úr þeim. Ég held svei mér þá að við séum með hina fullkomnu sýningu í höndunum hvað áhorfendamarkhóp varðar. Á genaralprufu samanstóð salurinn ca. 75% af krökkum sem fundu svo til með Tomma litla og lifðu sig inn í alla dramatíkina af heilum hug. Þau voru minna að fatta klámkjaftinn í Móra eða vísanir í Miklabæjar-Sólveigu. Frumsýningargestir voru hins vel upplýstir og með sóðalegan hugsunarhátt en eitthvað urðu raunir Tomma litla og fjölskyldu hans afskipar. Ja, afskiptari í öllu falli. En það er allt í lagi því þarna er klárlega að finna eitthvað fyrir alla.

Síðan var skálað og öllum klappað vel í bak og fyrir og síðan skálað soldið meir ... og meir ...

Ég kom heim til mín kl. ca. 6 um morgun sem segir allt sem segja þarf ef menn hafa einhvern tímann upplifað Hugleikspartý.

Nú er kominn tími til iðrast Ebbi að sækja bílinn.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Nú hef ég verið að góla jóla- og jólatengd lög í meira en mánuð með Hugleikshópnum en á ennþá eftir að finna þetta eftirsóknarverða jólaskap. Ég hef nú margoft gert mig seka um að óska öllum nærstöddum gleðilegra jóla en bitri sannleikurinn er sá að ég hef aldrei meint það. Maður á kennski ekki að láta slíkt fréttast þegar maður þykist ætla að frumsýna jólaleikrit eftir tvo daga? En þar var nefnilega fjandans kýrin stungin til bana. Dagsetningin 19. nóvember hefur verið brennimerkt í huga mér og ómerkilegheit eins og jól eftir 5 vikur komast alls ekki að. Í fyrsta lagi eftir frumsýningu.

Forgangsröðin er sem hér segir:

1.Halda heilsu fram yfir laugardagskvöld
2.Frumsýna
3.Jól

Einhvers staðar á milli frumsýningar og jóla á ég svo víst afmæli en ég stórefast um að ég hafi getu eða nennu til að gera nokkuð í því í ár. Enda ártalið eingöngu merkilegt fyrir þær sakir að vera sæmilega myndrænt.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Já hjá fuglum og kræklingum

Ég fæ allar bestu setningarnar í leikritinu. Það er sko ekki spurning.

Alveg snælduvitlaust að gera hjá mér í vinnunni og ég ætti í raun ekki að gefa mér tíma til að blogga... Iss, geri það samt.

Var að dunda mér við það í hádeginu að skrifa upp setningarnar mínar úr leikritinu og vona að það hjálpi við að festa þær í sessi (kann þær alveg - það er bara þetta með að fiska þær upp úr minninu á réttum augnablikum.) Hef lúmskan grun um að restin af leikhópnum sé í svipaðri stöðu og við það að bresta í kjánalegheit af einskæru stressi.

Ég fór að fá Buffy-flashbökk með meiru og samsama mig kannski óþarfleg mikið hinum ágæta Buffy þætti Restless. Sjaldan hefur þessi bútur virkað jafn lógískur:



5 mb bútur til dánlóds

Sölumaður deyr - Joss Whedon stæl (ef JW hefði fæðst á Íslandi hefði hann án efa orðið Hugleikari)

Kúreki: Well, hello little lady. Can I hold those milk pails for you?
Mjaltakona: Thank you but they'er not very heavy. Why have you come to our lonely small town which has no post office and very few exports?
Kúreki: I've come looking for a man. A sales man.


Það sem maður finnur á glámbekk á harða diskinum sínum. Fyrir óinnvígða er um draumaatriði að ræða.

Ég ætlaði að fara að segja að það væri ca. svona sem mér liði en komst þá að þeirri niðurstöðu að svo er barasta alls ekki. Miklu frekar tilhlökkun og eftirvæntingarkvíði. Það er helst ég og Riley (kúrekinn) séum að ná saman... mætti snemma, komin með búning, ógisslega ánægð.

Þetta var slugs dagsins.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Jólaævintýri Hugleiks er skemmtilegasta leikrit sem ég hef tekið þátt í. Segi og skrifa.

Eða kannski hef ég bara aldrei verið í jafn stóru hlutverki. Gæti verið.

Nei. Þetta er bara gaman. Æfingarnar allar farnar að vera vel smurðar og eitthvað sem lagast og þéttist með hverri yfirferð. Ný fynd eru alltaf að fæðast og allir eru að gefa ca. 140% af sér í þetta. Er að hlusta á upptökurnar af lögunum í þessum skrifuðu orðum. Mér finnst bara ennþá svo ótrúlegt að þetta skildi hafa verið hrist fram úr ca. 25 ermum á einum degi. Meira að segja lagið "mitt" er ekki jafn slæmt og ég var búin að mikla fyrir mér og grunar mig að það megi ég mixurum þakka. Annars er lagið hennar Ragnheiðar í sérlegu uppáhaldi.

Annað sem var hrist fram úr ermum – að þessu sinni minni og föður míns – var eitt stykki jólatré eftir miðnætti síðustu nótt. Hann fékk að halda á borvélinni en – þú’st – ég sá um hönnun ...

Var fyrir rest farin að valhoppa af kæti þarna í bílskúrnum yfir því að þetta skyldi loksins vera að skríða saman.

Jólin eru komin í leitirnar...


Viðbót: Ég gekk að því sem gefnu að fólk vissi að jólatréð sem smíðað var síðustu nótt væri að sjálfsögðu fyrir sýninguna. Sumir héldur víst *hóstAuðurhóst* að ég væri að ganga af göflunum.
Það er allt önnur og miklu lengri saga að segja frá því.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Ég hef Roger Waters og félaga grunaða um að hafa samið The Wall sérstaklega handa hinni annasömu húsmóður. Kannski ekki meðvitað - en einhvers staðar undir niðri hefur mallað meðkennd með þeim sem vinna eldhúsverkin. Dag eftir dag, ár eftir ár, aftur og aftur. Okei kannski ekki beinlínis mér sem aldrei nennir neinu - en öllum hinum. Platan hentar a.m.k. alveg einstaklega vel sem undirleikur við uppvaskið – sér í lagi eftir miðnætti þegar það er nauðsynlegt að hafa eitthvað með smá attitúdi þegar á að rusla þessu af á einu bretti með afgangsorkunni (en þó ekki vekja nágrannana.) Meðal uppvask dugar til og með Goodbye blue sky og er það aldeilis gott en svo byrjar Empty Spaces/What shall we do now og þá er vonlaust að hætta og viti menn; eldavélin fær almennilegt skrúbb.

What shall we do - Pink Floyd

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Þá jólatréð gamla með lyngi og litpappír skreytum

Nýjasta trendið í Ameríku eru svokölluð "öfug jólatré" - upside-down Christmas trees.

Þetta ku vera endurvakning á heiðnum 12. aldar sið nema hvað að hér er markmiðið að koma sem flestum pökkum undir tréð án þess að þurfa að klást við leiðinda greinar. Eru þau þá annað hvort hengd úr loftinu eða toppurinn settur á stand.




Ég á hreinlega ekki orð. Fer stjarnan þá á botninn?

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Jæja - ég þarf ekki nýja lifur eða löpp. Fékk úrskurðinn "fullkomlega heilbrigð" frá lækninum og verð víst að hætta að kvarta. Sennilega var ég með einhvern leiðinda og langvarandi vírus að gera óskunda hér og þar - laumulegan spellvirkja sem lét sér nægja að krota á veggi og brjóta loftnet af bílum en sleppti því að sprengja nokkuð í loft upp. Því var ég alltaf þreytt og með lítil skrítin einkenni sem saman gátu þó ekki stafað "veik." Ætla að halda upp á þetta ofurhreysti með því að bólusetja mig gegn lifrarbólgu (sem ku vera æskilegt þegar maður fer til Langtíburtistan.)

Nú fer að líða að frumsýningu eins og sést á glæsilegri auglýsingunni hér að neðan. Ég hef blendnar tilfinningar til þess áfanga. Vissulega verður gaman að frumsýna en um leið setur að smá kvíða þegar maður hugsar um hversu lítill tími er eftir. Vinna, skóli, líkamsrækt og leikfélaga hafa krafist fullmikillar orku af mér undanfarið og hugsa ég að ég verði talsvert fegin þegar álagið minnkar um næstu mánaðamót. Á móti kemur að þetta er bara svo gaman!

Á milli tveggja elda...

... og alltof sein í tónheyrn!

mánudagur, nóvember 07, 2005



Allt að gerast.

12 dagar til stefnu...

föstudagur, nóvember 04, 2005

Ég hélt í alvöru að ég væri að veikjast í gær. Stakk af úr vinnunni á hádegi og fór heim, gúllaði í mig Trópí og skreið upp í rúm. Lá þar í móki fram að kvöldmat og mætti síðan (svo til) hress á æfingu.

Kenni mér einskis mein í dag.

Þannig að annað hvort hefur þessi aðferð hjá mér virkað eða ég er bara svona mikill aumingi. Dæmi nú hver fyrir sig.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Ég finn fyrir þrá eftir Trópí.

Það gerist undir einum kringumstæðum - og aðeins einum: þegar ég er að veikjast (líkaminn kallar á c vítamín.)

Sjitt, fokk, dam, bitsj, hell.

Er tilbúin til að selja sál mína fyrir öflugri hvít blóðkorn.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Mér áskotnaðist - algjörlega fyrir tilviljun - tveir miðar á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum næstkomandi föstudag. Ég átti erfitt með að neita miðunum en veit núna varla hvað ég á að gera við þá. Ég kann ekkert á danssýningar og hef aldrei séð slíka í návígi (ef frá er krakkasýning í Borgarleikhúsinum sem Heba tók þátt í og Magadanssýning í Tjarnabíói fyrr á árinu.) Svo þarf víst að staðfesta komu í dag. Hvernig veit ég að mér líkar ekki danssýningar ef ég hef aldrei farið á eina slíka almennilega?

Þó hef ég það óþægilega á tilfinningunni að nærvera mín þarna væri álíka viðeigandi og á frístælkeppni í Fellabæ. Nú eða rímnaflæði eða fótboltakeppni eða súludansstað eða árshátíð Sjálfstæðisflokksins eða einhverjum álíka vettvangi þar sem ég er líkleg til að líða sem fiski á þurru landi. Þetta dansbatterí er heimur sem ég hef enga þekkingu á og á einfaldlega ekki heima í. Formlegt dansnám mitt hófst og endaði með stuttu bellettnámskeiði þegar ég var sex ára. Ég man ekki sérstaklega eftir dansinum en var hrifin af búningum (svört samfella yfir svartar sokkabuxur sem ég skreytti með gervirósum og fannst ég ógurlega fín - einhvers staðar er til mynd...) Ég man heldur ekki eftir því af hverju ég hætti en fyrst að það eftirminnilegasta var fyrrnefndur (og stórglæsilegur) búningur hefur ástæðan sjálfsagt verið góð. Ég hef sjaldan og seint verið kennd við þokkafullar hreyfingar.

Er ekki æfing þetta kvöld sem getur tekið af mér ákvörðunina?

mánudagur, október 31, 2005

Helgi smelgi. Þessi var ósköp ljúf ef tíðindalaus. Laugardaginum var eytt sem oftar vestur á Eyjarslóð þar sem öllu leikritinu var rennt ca. 70% handritslausu. Stefnir, svei mér þá, bara í leikrit.



Um kvöldið var mætt aftur út í Örfirisey og baunasúpa, að hætti Sigrúnar Óskarsdóttur, etin - svo góð að hún mun sennilega fara inn í baunasúpuannála sem besta baunasúpa sem boðið hefur verið upp á og að því loknu öll lögin í leikritinu kyrjuð. Mér tókst að vísa að hljóma eins og stunginn grís og reyndi af veikum mætti að dylja það sem sorg og ekka en varð nú ekki um sel. Gat verið að ég væri allt í einu svona stressuð að syngja fyrir fjórar hræður? Mörgum klukkutímum síðar áttaði ég mig á ástæðunni. D'oh! Þetta horfir því allt til batnaðar og er planið að syngja eingöngu sem óstunginn grís hér eftir.

Ekki tókst mér að finna djammstuðið þessa helgi og hélt því heim á leið, bláedrú, um miðnætti og sökkti mér ofan í sálarangist stúlknanna sem keppast um að fá að verða aðalmódelið í Bandaríkjunum.

Eftir epískt letikast á sunnudeginum kíkti ég í heimsókn til foreldranna og borðaði þar kvöldmat. Kom aftur úr þeirri för með hálflasna handryksugu. Aldrei skal maður fara tómhentur heim frá því húsi. Ekki veit ég hvar hún á komast fyrir á alltof litlu heimilinu en var sjálfsagt hin brýnasta nauðsyn.

Ég gerði heiðarlega tilraun til heimalærdóms í gærkvöldi - kláraði næstum því hljómaröðina en strandaði á vii6 sem skiptihljómi sem ég er ekki alveg viss um hvað er. Henti síðan Sibeliusi inn í tölvuna og pikkaði inn ryþmaæfingarnar fyrir tónheyrnina. Hefði átt að gera það fyrir löngu síðan. Var alltof lengi að dytta að því og skreið loks í rúmið upp úr 1.

Kl. hálf tvö ákvað nágranni á efri hæðinni í austurhluta hússinn að nú væri kjörinn tími til að blasta "China in your hand" með hinn víðfrægu hljómsveit T'Pau á hæsta styrk. Sumt fólk á skilið að skjóta á færi fyrir ekki aðeins tónmengun heldur hreinlega tónlistarsmekkinn. T'Pau var líka vond tónlist fyrir 17 árum.

föstudagur, október 28, 2005

Mig dreymdi í nótt að mér tækist að eyðileggja bókunina mína til Ástralíu. Sennilega er þráin eftir að komast til sólríkari staða orðin það sterkt að óttinn við að eitthvað eyðileggi þá fyrirætlan er farinn að láta á sér kræla.

Eða kannski er ferðafóbían mín að láta heyra í sér 3 mánuðum of snemma.

Ég ætlaði að fara í blóðprufu í morgun úti á Heilsugæslustöð (Seltjarnarness) en sumardekkin mín voru ekki alveg á þeim buxunum. Sennilega þarf ég heldur ekkert að fara í þessa blóðprufu. Ég fór til læknis fyrir tveimur mánuðum vegna slappleika og álíka einkenna og það eina sem kom í ljós var hugsanlega mögulega oggponsulítil bólga í lifur. Átti s.s. að tékka á því nokkrum vikum seinna og ég var að muna eftir þessu núna. Slenið og hin einkennin eru hins vegar alveg horfin þannig að ég ætti kannski bara að spara peningana mína. Ég er a.m.k. farin að vakna vekjaraklukkulaust kl. 7 að morgni (að vísu með farmiðabókanir á heilanum) þannig að ég hlýt að teljast nokkuð hress.

Sett inn enn eitt Eurovisionlagið samkvæmt beiðni:

Vicky Leandros - Apres Toi (Luxemburg 1972)

þriðjudagur, október 25, 2005

Eurovision spektaklið nú um helgina var einhver sú tilgangslausasta lofrulla í kringum ABBA slagarann Waterloo sem sést hefur frá því að lagið vann í den. Réttið upp hendi þeir sem héldu í alvöru að eitthvað annað lag hefði séns á að vinna? Anyone? Og réttið nú upp hendi þeir sem nenntu að kjósa.

...

Einmitt. Það var þó nokkuð gaman að sjá hin mýmörgu skemmtilegu og skrítnu lög sem birst hafa í keppninni í gegnum tíðina og er ég þá ekki að tala um þessi topp 14 sem fengu að keppa um hinn "eftirsóknarverða" titil (að maður tali nú ekki ógrátandi um fjarveru nær allra íslenskra laga frá upphafi - við erum víst ekki nógu klikkuð - memo til þjóðarinnar...) Þarna voru alls konar gullmolar sem maður mundi ekki eftir því að væru til - hvað þá að væru upprunalega Júróvisjónlög. T.d. "Heyr mína bæn"? Ekki hafði ég hugmynd.

Eitt lag sérstaklega kom mér á óvart og þar sem ég missti af bæði landi og nafni lags var ég í mesta basli við að finna það. Það hafðist þó fyrir rest og í kjölfarið uppgötvaði mér til mikillar furðu að til er ágætt safn af lögum á frönsku sem ég kann að meta. Vissi aldrei að tónlistarsmekkur minn hneigðist í þá átt - kannski gerir hann það bara í seinni tíð. Altént er einhver þróun í gangi.

Hið kunnuglega lag var s.s. framlag Luxemburg í keppnina árið 1967:

Vicky Leandros - L'Amour Est Bleu
Vicky Leandros - Love is blue - sama lag á ensku

Þessi lög er í talsverðri spilun:

Marie Myriam - L'Oiseau Et L'enfant (Frakkland - 1977)
France Call - Poup De Cire, Poup De Son (Luxemburg - 1965)

Og af því að þýskir diskódjöflar eru alltaf soldið skemmtilegir á sérstaklega sýrðan hátt:

Dschingis Khan - Dschingis Khan (Þýskaland, 1979)

Njótið vel.

mánudagur, október 24, 2005

Kvennafrídagur í dag frá og með 14:08. Ég ætla að skreppa heim fyrst og klæða mig vel og hitta svo mömmu og Nönnu við styttu Leifs heppna kl.15:00.

Ég gæti skrifað margt og mikið um þennan dag en bæði er hlaupinn frá mér allur tími og svo er ég búin að því.

Áfram stelpur...!

föstudagur, október 21, 2005

Leikæfing í gær eins og svo oft áður og mér er illt í ökkla. Klossar eru víst ekki ákjósanlegur skófatnaður í íþróttum. Bolti er mikil keppnisíþrótt og ég löngu hætt að fórna mér á gólfinu á Eyjarslóð. Síðast þegar ég gerði það uppskar ég bilaða taug í hné sem er ennþá til trafala.

Æfingin sjálf var ljúf þrátt fyrir að einhverja hefi vantað. Frekasti leikstjórinn skrapp af landi þannig að Siggalára og Sigrún sátu í leikstjórasætum og fórst það prýðisvel úr hendi. Á meðan verður hljómsveitin Hraunlegri með hverjum deginum sem líður þar sem Loftur bassaleikar er nú genginn til liðs við okkur.

Ég kíkti aðeins með ágætum hóp eftir æfing á Ungann í einn lítinn bjór en lét mig hverfa þaðan frekar fljótt á meðan ég hafði ennþá þrek til að keyra heim.

(Þessi færsla er farin að verða ansi æfingabloggsleg.)

Gat samt ekki farið að sofa án þess að glápa á hinn nýuppgötvaða raunveruleikaþátt "So you think you can dance." Svona þættir eru alveg prýðisgóð mannfræðistúdía. T.d. er greinilegur munur á bandarískjum og íslenskum ungmennum þegar kemur að hvers konar hæfileikakeppnum. Við Íslendingarnir erum aldir upp við að gera lítið úr öllum okkar mögulegu hæfileikum og þykir það smekkleysa mikið að trana sér of mikið fram nema sérstaklega sé beðið um það. Hroki og sýndarmennska fer ekki vel í landann. Því virðist vera öfugt farið í USA. Kannski vegna þess hversu mannmörg þjóðin er - þar þýðir ekkert að bíða eftir því að vera uppgötvuð/uppgötvaður - þú hreinlega týnist í mannmergðinni ef þú reynir það. Eina leiðin er hoppa upp og niður og garga yfir fjöldann "Ég er best(ur)!!" Það er líka gjarna viðkvæðið í SYTYCD. Hver kolómögulegi dansarinn á fæti öðrum sem ekkert getur en er alltaf jafn sannfærður um eigið ágæti. Þetta fólk á eflaust eftir að komast langt á einhverju sviði. Bara ekki í þessari keppni. Svo er það hrokafulli keppandinn sem er jafn góður og hann vill vera láta. Jafnvel þjálfararnir virðast viðurkenna það þótt þau augljóslega þola hann ekki. Enda eru aðrir keppendur frekar fúlir yfir því að atvinnudansari - sem hefur m.a. dansað með Britney Spears - skuli taka þátt í svona keppni. Einn þeirra lýsti því sem svo að það væri væri sem Mariah Carey tæki þátt í American Idol. Hins vegar stígur kauði ekki í vitið og á það eflaust eftir að verða honum að falli. Hvaða heilvita maður segir í myndavélina - rétt eftir að hafa verið hrósað af þjálfurum - að hann sé sjálfur miklu betri dansir en þeir? Kjánaprik.

Sko - mín bara komin í ham :þ

fimmtudagur, október 20, 2005

Grrr! Arrrgg!

Your Monster Profile

Death Warrior

You Feast On: Tofu

You Lurk Around In: The Hearts of Men

You Especially Like to Torment: Vegans


Já með því að éta allt tófúið þeirra...

miðvikudagur, október 19, 2005

Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvað er að gerast í námi mínu þessa dagana. Svo virðist sem framför mín í ýmsum greinum sé í öfugu hlutfalli við þá vinnu sem ég legg í heimalærdóminn. Þannig hef ég kastað til höndum á nær öllum sviðum að undanförnu og uppskorið ekkert nema lof fyrir vönduð vinnubrögð. Í tónheyrn í gær var mér hrósað fyrir að vera augljóslega sú eina sem æfði sig heima í að hitta á random nótur (sérlega leiðinleg æfing þar sem kennarinn stendur uppi við töflu með prik og slær því svo fast á handahófskennda staði á skalanum að liggur við prik-broti.) Það hefur ekki svo mikið sem hvarflað að mér að æfa þessi ósköp heima og eina skýringin sem mér dettur í hug er að þessi skali var í sama dúr og upphafslagið í jólaævintýrinu - greinilega svona líka ferkst í minni.

Hafa skal eftir það sem virkar segi ég nú bara.
Fyrir rest dró Nanna mig í Rúmfatalagerinn og við skiptum ólukkans gítarnum fyrir annan alveg örugglega jafn ógæfusamann. Spurning hvort hægt er að gera einhvejar fyrirbyggjandi aðgerðir á honum. Ég hef a.m.k. ekki treyst mér ennþá til að taka hann upp úr kassanum.

Og hef varla tíma. Lífið skiptist nokkuð bróðurlega á milli vinnu, skóla og leikfélags þessa dagana. Hef loksins tekið þá ákvörðun að læra handritið - líst vel á þá þróun og býst við að hefjast handa við fyrsta tækifæri. Finnst þó ekki líklegt að það tækifæri birtist fyrr en um helgina. Það er líkamsræktardagur í dag og svo vill Betta ólm að ég mæti á generalprufu hjá Óperunni í kvöld kl. 7. Til þess að það gangi eftir verð ég víst að mæta í dag kl. 2 og betla miða. Ég veit ekki einu sinni hvaða óperu á að sýna... ahemm...

Vindar blása enn í Ameríku og finnst mér nú kominn tími til að einhver klóri sér í hausnum og hugsi - kannski bara með sjálfum sér: "Þetta er nú ekki alveg eðlilegt." Það er svo spurning hvort verra er að bora hausnum í sandinn eða týna honum í svartholum samsæriskenninga.

------

Og þar sem það er hvort eð er aldrei heil brú í bloggfærslunum mínum er hér smá glaðningur fyrir aðdáendur sjónvarpsþáttanna Lost:

Hvað gerist ef þú blandar saman Queen, Weird Al Yankovic, Lost og einhverjum með augljóslega yfrið nóg af frítíma? Þetta gerist.

mánudagur, október 17, 2005

Það eru sumir frasar í íslenskri tungu sem væri alveg ágætt að fara koma á eftirlaun. Það er ekki oft sem ég hleypi út mínum innri feminista og kýs frekar að viðra skoðanir mínar á óopinberum vettvangi (í hópi vinkvenna, fjölskyldu eða vinnufélaga.) Stundum læðist hins vegar hinn frægi dropinn ofan í mælinn og þá er nauðsynlegt að létta á.

Úr Blaðinu í dag:

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, laut í lægra haldi fyrir Þorgerði Katrínu með 424 atkvæði, en hann bar sig karlmannlega eftir kjörið og sagði að mikilvægt væri fyrir flokkinn að standa þétt saman að baki nýrri forystu.

Karlmannlega? Í alvöru krakkar. Hvað ef Þorgerður Katrín hefði tapað? Hefði hún þá haft tækifæri til að bera sig "karlmannlega"? Eða hefði hún verið stimpluð "kvenleg" og allur stuðningur hennar við flokkinn verið túlkaður út frá því orði? Þá hefði hún væntanlega þótt sýna veikleika með því að lúffa fyrir karlmanni - því "kvenleg" hefur jú allt annan merkingarauka. Er kannski einmitt málið að þarna höfum við karlmann að tapa kosningu fyrir kvenmanni – og það í Sjálfstæðisflokknum – sem fær blaðamanninn/konuna til að taka svona til orða. Eins og spekingarnir segja: maður spyr sig.

Er ekki alveg kominn tími til að hætta þessari kynbindingu – sérstaklega í fjölmiðlun? Er íslensk tunga virkilega svo karlrembumiðuð að í henni er ekkert gott orð að finna sem táknar reisn og stolti þrátt fyrir ósigur - og það án þess að vera að draga fólk í dilka eftir kynfærum?

Pirr pirr pirr...

Hana. Hægt að fylla á aftur.

föstudagur, október 14, 2005

Dabbi karlinn fær loksins tækifæri til að létta á sér. Greinlegt að ýmis mál hafa íþyngt honum í áraraðir. Karlinn ætti auðvitað bara að blogga - það er jú hinn sanni vettvangur formælinga, blammeringa og annarra -inga.

Hann gæti líka haft gott að því að heyra söguna um refinn og vínberin.

Hræódýri gítarinn sem ég festi kaup á í Rúmfatalagernum framdi sjálfsmorði í fyrradag. Þegar ég kom heim blasti þessi sjón við mér. Mögulega er alheimurinn að taka fyrir hendurnar á mér og stýra mér af braut sjálfsblekkingar og rangrar fingrasetningar. Á meðan ég geri það upp við mig velt ég því fyrir mér hvort ég hafi of mikla sjálfsvirðingu til að mæta upp í búð með 2500 kr. gallagripinn - án kvittunar - og heimta nýjan.

þriðjudagur, október 11, 2005

Ég gramsaði í hirslum og reyndi að finna krullhærða mynd af mér máli mínu til stuðning og þetta var það skásta sem mér tókst að grafa upp:



Ég og amma í góðum fíling á jólunum 1991.

Man núna skyndilega hvers vegna ég hef ekki verið svona um hárið í meira en áratug. Mér leiðast permanent. Ég barasta nenni ekki að líta svona út. Svo er líka hætta á að ég neyðist til að klippa allt af (eins og Nanna benti réttilega á) og það kann varla góðri lukku að stýra:



Eldhúspartý a Eggertsgötu ca. 1999.

Já já og svo er þetta með leikritið. Ég var ekki búin að gleyma því - fannst samt í lagi að taka ákvörðunina fyrst og spyrja leikstjórana svo. Þannig að hin nýtrúlofaða Siggalára getur andað léttar með það:



Sennilega eina myndin sem ég á úr Hugleikspartýi og hármiðjuð mjög (eins og mínar færslur þessa dagana). Það stendur "engill" á blaðinu (?)

Til hamingju mín kæra.

mánudagur, október 10, 2005

Ég ætla leggja þessa spurningu fyrir nefnd: Ætti ég að fá mér permanent?

Mér stendur það til boða að láta einhvern hárgreiðslunema eyðileggja hársrótina mína með ætandi efnum og breyta mér í ígildi lambs. Mér finnst hugmyndin soldið spennandi af því að:

a) ókeypis - allt er gott sem er ókeypis
b) ég var svoleiðis útlítandi öll mín menntaskóla ár og nostalgían segir til sín
c) þykir það ekki ennþá gasalega hallærislegt? Ég veit ekki um neinn sem gerir slíkt við hárið á sér í dag. Straujað og stælt er málið. Það býr alltaf lítill púki í mér sem sækir í að vera á móti tískunni. Hallærislegheitin lokka.

Það er bara spurning hvor að þrjár veikar ástæður gera saman eina stóra.

Á ég að skella mér út í óvissuna eða er hægt að bjarga mér frá tískuslysi aldarinnar og meðfylgjandi félaglegri útskúfun?

sunnudagur, október 09, 2005

Ég finn að þetta er allt að mjakast í hljómfræðinni. Ég er farin að vera mun skemur en þessa fjóra-fimm klukkutíma sem hvert heimaverkefni tók í upphafi. Rúmur klukkutími nægir mér nú sem er mikill léttir. Munurinn felst í því að ég er orðin talsvert betri í að þekkja nótur og nótnasambönd án þessa að þurfa að hugsa mig um og samstíga fimmundir sjaldséðar núorðið. Hef ég fjandans tónheyrnina grunaða um að þessa auknu þjálfun í nótnaþekkingu og er mér eiginlega meinilla við að hún hafi öll þessi jákvæðu áhrif í mínu lífi.

Helgin hefur verið róleg að vanda. Ég kíkti á fjölskylduna á Eiðistorgi og lék við þau um stund og borðaði alls kyns nýbakaðar kræsingar. Lá annars bara í sófanum heima hjá mér og prjónaði af krafti. Trefillinn tilbúinn svo og húfan og einn vettlingur. Ég var svo upptekin af því að prjóna fyrir aðra í fyrra að ég gjörsamlega gleymdi sjálfir mér og er nú að bæta úr því svo um munar enda stefnir í snjó. Stebbi kíkti í heimsókn og pantaði húfu í stíl við vettlingana sem ég prjónaði handa honum í fyrra. Nú vantar mig bara meira af bleiku, gulu og hvítu garni – ef einhver skyldi eiga slíkt á glámbekk. Fór allt of seint að sofa og rumskaði ekki fyrr en á slaginu tólf þegar ég átti að vera mætt á æfingu. Æddi sem geðsjúk manneskja vestur í bæ og var mætt 15 mínútum eftir að ég vaknaði. Tók að mér að skrifa í æfingadagbók Hugleiks og geta áhugasamir lesið afraksturinn hér.

Sumir dagar (og helgar) enda sem lítið annað en upptalning.

fimmtudagur, október 06, 2005

Snilldartæki. Mundi panta svoleiðis í jólagjöf ef það kostaði ekki milljón pening og tæki allt pláss á stofunni.Rafmagnið fór af Hreyfingu - og meirihluta Reykjavíkur - í gær og enginn kippti sér upp við það. Ég var stödd í einhvers konar orbitrek tæki þar sem ég bjó til mitt eigið rafmagn með krafti fóta minna. Það sama má segja um alla aðra sem voru ekki á hlaupabrettum. Held ég hafi séð þarna vísi að fullkomlega sjálfbærri líkamræktarstöð í náinni framtíð. Bara spurning um að opna vel glugga, kveikja á rómó kertum og tengja hvert tæki við nettan rafal. Öll orkan sem spanderast þarna á hverjum degi ætti hæglega að duga til að keyra áfram nokkur ljós, síma, græjur, tölvu og blandara (því massarnir þurfja jú prótíndrykkina sína.)

Ætti þá að vera kominn góður grundvöllur fyrir því að færa verð á þriggja mánaða kortum niður fyrir 20 þúsundin.

Þarf að gauka þessari hugmynd að henni Ágústu...

miðvikudagur, október 05, 2005

Ósköp getur maður verið smásálarlegur.

Ég er nefnilega að komast að því að ég hef næstum því jafn mikla ánægju af því að hatast út í eitthvað eins og að gleðjast yfir því. Hér sit ég og hlusta á útgáfu hljómsveitarinnar Toadies á Pixies slagaranum “Where is my mind” og uni vel þrátt fyrir allar mínar yfirlýsingar um almenna óbeit á hinni síðarnefndu hljómsveit. Mig er nefnilega farið að gruna að ég hati ekki beint Pixies – heldur fái ég eitthvert pervertískt kikk út úr því að lýsa yfir vanþóknun minni í hópi heitra aðdáenda (svo verð ég auðvitað sármóðguð ef einhver dirfist að rífa niður allt sem ég held upp á í lífinu.) Vellíðanin samfara þessu kikki er bara svo miklu meiri heldur en mögulega ánægja sem ég fæ út úr Pixies og þeirra tónlist. Ég vona bara að þetta þýði ekki að ég þurfi að endurskoða afstöðu mína til Oasis. Ég SKAL fara í gröfina með þá meiningu að Wonderwall sé versta lag allra tíma.

Svipað er uppi á teningnum þegar kemur að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ég hef sérstakt gaman af því að gera sem allra minnst úr bæði “Sex and the City” og “Desperate housewives” and verð víst að viðurkenna í hljóði að þetta eru ekki svo slæmir þættir. Ofmetnir já – en ekki slæmir. Og "The O.C."? Sæmilega vel gerð sápa sem hefur víst tilvistarrétt þótt ekki sé hún minn tebolli. Kannski er ég að meyrast óþarflega mikið í seinni tíð en maður vill nú ekki vera óþarflega ósanngjarn. Ekki í heimi sem býður upp á alheimsleiðindin “Invasion.”

Nú er ég víst komin út úr skápnum með það. Á það ekki að vera svo gott fyrir sálina?
Æfingar á Jólaævintýrinu eru hafnar og lofa að vera hin besta skemmtun. Ég efa að ég muni sjá eftir því að fórna kvöldunum mínum í sprell vestur á EyjaRslóð. Á að leika móður hennar Nönnu. Fyrir þá sem ekki vita er ég fjórum árum eldri en hún sem er skref í rétt átt þar sem síðast þegar ég lék hina móðurlegu týpu voru svo til öll mín börn leikin af mér eldri konum. Stefnir í fjörlega sýningu og nauðsynlegt að halda uppi dampi í ræktinni ef ég á að hafa einhverja orku í hana.

Svo á ég víst að fara að taka einhver próf í desember; hljómfræði II, tónheyrn og þriðja stigið í söng...

Ég er himin lifandi yfir því að hafa svona mikið að gera fram að jólum því það þýðir að tíminn mun þjóta áfram og nýja árið birtast fyrr en varir. Og þá fer að styttast í Ástralíuförina fyrirheitnu (jibbí!)

mánudagur, október 03, 2005

Er með hljómfræði á heilanumVetrarstarfið segir til sín sem aldrei fyrr. Þarf að klára að vinna, fara yfir heimalærdóm, hengja þvott á snúrur, mæta í tveggja tíma hljómfræðitíma, borða, mæta á Hugleiksæfingu og læra fyrir tónheyrn. Því það eru víst próf í hverjum tíma. Af því bara smákrakkar læra tónheyrn. Grrr...

Eins gott að ég notaði helgina til að safna orku. Þeyttist reyndar um stórmarkaði borgarinna með Hebu á laugardaginn að finna hið fullkomna garn (það tókst! Ó fagri verðandi trefill/vettlingar /sokkar/húfa!) Og mætti í ræktina í gær og þóttist vera dugleg. Annars var Lost DVD pakkinn minn nýttur óspart og erlend dagskrá sömpluð af miklum móð. Nýjasti Battlestar Galactica þátturinn (2x10) fékk mig til að gnísta tönnum svo all svakalega að mér sárverkjaði í kjálkana og ég átti í mestum erfiðleikum með að brjóta ekki blýantinn, sem ég hélt á, í tvennt. Gróf kynferðisleg misnotkun vill hafa slík áhrif á sálartetrið. Mig langar ennþá til að brjóta hluti þegar ég hugsa um þessi atriði. Er ekki vön að þurfa áfallahjálp og af-reiðun eftir sjónvarpsgláp.

Þetta var því, eftir á að hyggja, ansi strembin helgi.

föstudagur, september 30, 2005

Það stefnir í ágætist dýragarð hjá mér.

Draumar mínir í nótt voru fullir af hvolpum. Stórum sætum St. Bernards hvolpum sem geymdir voru í búrum ásamt einhverjum hundategundum sem ég er ekki alveg viss um að hafi verið frá þessari plánetu. Og einum apa. Ég skil ekki alveg þetta dýrastreymi inn í undirmeðvitundina. Finnst yfrið nóg að tjónka við tvo ketti. Fyrir rest reyndust dýrin vera hættuleg - eitruð og mannýg jafnvel. Túlkiði nú.

Var á þeysingi allan eftirmiðdaginn og endaði úti á Granda á framhaldsaðalfundi Hugleiks. Var öll upptjúnuð þegar ég kom loksins heim kl. 11 og tókst ekki að sofna fyrr en klukkan var langt gengin í fjögur. Leikhúsumræður höfðu þó þau áhrif að í mér fæddist einþáttungur þar sem ég lá og bylti mér í hringi. Veit reyndar ekki hvort hann þolir dagsljósið. Enn sem komið er býr hann nú bara í heilaskúffu ásamt öðrum einmana hugmyndum.

fimmtudagur, september 29, 2005

Mér er sagt að draumar um köngulær sé bara af hinu góða, jafnvel fullt af peningu og í mínu sambandi ku þær tákna "þrautseigu þótt móti blási." Sem er allt í lagi. Ég treysti frekar skilaboðum sem segja mér að gefast ekki upp frekar en þeim sem lofa lottóvinningi.

Draumfarir mínar í nótt voru hins var þvert á venju fyrir daglátum. Mig dreymdi að ég væri með heiftarlegan hausverk og tæki pillur við. Svo vaknaði ég með þennan sama hausverk áður en klukkan hringdi. Spúkí!

Gúllaði í mig samtals þremur imigram og tveimur íbúfen sem kepptust við að hafa nákvæmlega engin áhrif og lá svo í rúminu fram að hádegi og beið eftir að hausverkurinn hyrfi. Sem hann gerði ekki. Hungur og einskær leiðindi ráku mig þá af stað í vinnuna og annað hvort hafa lyfin mín tekið sig saman og ákveðið að hafa áhrif í einni hendingu eða soðinn fiskur, hrísgrjón og karrísósa svo og tvö glös af vatni gera kraftaverk. Kannski bara allt þetta. Samstarfsmenn mínir voru á því að ég þyrfti bara að komast á gott fyllerí. Hmm...
Hausverkurinn ekki alveg farinn en er orðinn þolanlegur og ég sé aftur fyrir mér bjartari tíð með beljur í haga.

Mætti á samlestur á Jólaævintýri Hugleiks eins og svo margir. Það leikrit lofar að vera stórfyndið og vel mannað og get ég ekki fyrir nokkra muni fundið neikvæðan flöt á þeim fyrirætlunum öllum.

Í öðrum fréttum er ég búin að gera um hug minn varðandi tónheyrn og niðurstaðan er: oj bjakk og eintóm leiðindi. Ég mundi kvíða vetrinum ef það væri ekki svona mikið skemmtilegt að gerast inni á milli þeirra hörmungstíma.

þriðjudagur, september 27, 2005

Fyrir mörgum, mörgum tunglum var ég á leið heim úr útskrifarferð á Rhodos. Á flugvellinum keypti ég tímarit til að lesa í flugvélinni og þetta reyndist innihalda viðtal við Winonu Ryder. Ég hef sennilega lesið all blaðið á hinu þriggja tíma flugi til Kaupmannahafnar því ég man sérstaklega eftir að hafa lesið viðtalið. Svosem ekki mikið að frétta nema ein setning sem sló mig svo gott sem untanundir:

"...but otherwise Winona Ryder brims with self-confidence. "Insecure people," she says, wrinkling her nose, "don't fry my burger." Precocious enough to hold her own with adults, she radiates the qualities of a child who has always been encouraged: a chatty, optimistic disposition ... "

O.s.frv.

(ég er ekki svona svakalega minnug - fann þennan bút á netinu)

Óöruggt fólk steikir s.s. ekki hennar borgara. "Hey!" hugsaði ég. Nákvæmlega það. "Hey!" Mér sárnaði. Þannig að ef ég hitti Winonu í einhverju partýi mundi hún strax finna óöryggisstækjuna af mér og fitja upp á nefið. Ég var 19 ára þarna - sennilega ári yngri en Winona - og ekki beinlínis að springa úr sjálfsöryggi. "Þvílíkur hrokagikkur," hugsaði ég svo, "og mér sem fannst hún ágætis leikkona." Greinlega hafa þessi orð hennar komið við þvílíkan kaun að ég hef aldrei gleymt þessu annars frekar ómerkilega viðtali.

Líða nú nokkur ár. Mitt sjálfsöryggi hefur aðeins vaxið ásmeginn þótt enn sé langt í land. Kannski hugsaði ég innst inni að hún hefði rétt fyrir sér - að óöryggi væri tilgangslaus og óaðlaðandi eiginleiki, jafnvel fyrirlitlegur. Ég er ekki viss.

Svo er ég eitt kvöld að horfa á sjónvarpið - sennilega "The Tonight Show " með Jay Leno á meðan það var á CNBC í íslensku sjónvarpi - þarna er litla Winona að mæta í sinn fyrsta spjallþátt að því er hún segir sjálf (þetta var löngu fyrir stelsýkiævintýrið.) Og viti menn - hún skelfur eins og lauf í vindi og segist vera dauðhrædd við að koma fram.

Bíddu, bíddu, bíddu... ungfrúin sem vildi ekki leyfa mér að grilla borgarann sinn ... að míga á sig af óöryggi?! Jay klappaði henni á öxlina og reyndi að róa hana allan tímann en hún hætti samt aldrei að titra.

Hver veit - kannski var hún að leika. Mér finnst það samt ólíklegt.

Það sem þessi upplifun (ef upplifun skyldi kalla) kenndi mér er að:

a)það bulla allir í viðtölum
b)sjálfsöryggi er af hinu góða - en óöryggi ber að sýna skilning
b)því yfirlætislegri sem yfirlýsendurnir eru þeim mun minni er skjálfandi hérinn sem þeir geyma án efa inni í sér.

Og hana nú.
Mér finnst vanta smá líf í þetta blogg. Hér eftir ætla ég að myndskreyta sem flestar færslur.



Ég var alltaf teiknandi þegar ég var krakki. Hversu margir vissu það um mig? Ég sótti slatta af myndlistarnámskeiðum og hafði mikið gaman af. Einhvers staðar á unglingsárunum ákvað ég víst að þar sem ég var augljóslega ekki efni í Kjarval þá hafði það ekkert upp á sig að vera að krota eitthvað. Og ég steinhætti því. Sem ég er í seinni tíð að uppgötva er frámunalega heimskulegt lífsviðhorf. Svo mikið er víst að ég græði ekkert á því að vera lélegri að teikna í dag heldur en þegar ég var krakki. Þar sem stóreflings endurvinnsla á nærri glötuðum hæfileikum er í gangi hér á bæ er ekki úr vegi að reyna að rifja upp eitthvað af teiknihæfileikunum sem mér hefur tekist að glutra niður síðust 15 árin.

Nú er bara spurningin: hvað skal teikna? Á mínum Barbí árum voru mér kökur mjög hugleiknar og setti ég gjarnan fram heil veisluborðin. Á hinum fyrstu táningsárum gætti eitthvað af portrait myndum - bæði sjálfsmyndir, annað fólk og ormétnar verur (sem ég hafði mikið dálæti á og sérlega gaman af að sjokkera fólk með.) Nú þegar ég bora í heilaafkimana eftir hugmyndum dettur mér helst í hug hlutir sem ég man að ég get gert nokkuð skammlaust. Epli - var ágæt í að teikna epli. Vasar og blóm af ýmsum gerðum. Augu og munnur. Tré. Frumleikinn ekki alveg að gera út af við mig. Þannig að við leitum á önnur mið.

föstudagur, september 23, 2005

Ætli það sé fyrir einhverju sérstöku að dreyma köngulær?

Venjulega eru allar mínar draumfarir frekar vandræðalegur grautur af hugsunum og upplifunum gærdagsins en þarna poppuðu upp köngulær eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Ekki öfga stórar (en þó stærri en sjást vanalega hér á landi) en vissulega bæði ljótar og loðnar. Hvað segja bækurnar?

Annars var ég að fatta það að ég hef engann hitt fyrir utan vinnu og skóla alla vikuna. Ég virðist vera dottin inn í sérlega ófélagslega rútínu. Spurning hvort þetta er þróun í jákvæða átt.

Þegar ég fer yfir bækurnar kemur í ljós að ég drakk síðast áfengan vökva á Búrfells-endurfundinum á Selfossi fyrir tveimur vikum. Tveir bjórar. Þar áður var í kveðjupartýinu hans Snorra Hergils; 4-5 glös af hvítvíni. Já, það er af sem áður var.

miðvikudagur, september 21, 2005

Stjörnufræðingar klóra sér í höfuðið yfir hraðskreiðum stjörnum sem myndast hafa á tiltölulega stuttum tíma (200 milljón árum) á knöppu svæði (spannar 1 ljósár) í kringum svarthol í miðju Andromedu vetrarbrautarinnar. Hraðinn ku vera of mikill til að þyngarafl næði að mynda stjörnurnar en samt eru þær þarna.

Kannski Guð hafi verið of upptekinn við að bísnast út í forhúrðarstatus Móses og önnur brýn vandamál mið Austurlanda til að mega vera að því að láta eðlisfræðina ganga upp?

þriðjudagur, september 20, 2005

Suvivor Guatemala.

Þarna er þátturinn sem ég kannast við og elska. Enginn hinna 18 keppenda fer neitt sérstaklega í taugarnar á mér (ennþá) sem er ánægjuleg tilbreyting og það á svo sannarlega að láta þau vinna fyrir millunni. Ungu folarnir í Nakum (með Bobby Jon úr síðustu þáttaröð í broddi fylkingar) geystust í gegnum frumskóginn á testósteróinu einu saman og hlutu að launum betri híbýli en ella svo og alvarlega magakrampa sökum ofþurrks. Tapliðið Yaxha var mun kellingavænna (þau fengu Stephanie í sitt lið) enda voru þau öll við hestaheilsu þegar þau komu í mark - nokkrum mínútum á eftir hinu. Það var merkilega lítið um pirring og ofþanin egó en sennilega voru þau bara af þreytt. Þessi þrauta ganga var jú 17 km í gegnum hnausþykkan regskóg í 40 stiga hita og tók heilan sólarhring. Sennileg hafa svo veikindin komið Nakum í koll því þau töpuðu immunity keppninni og losuðu sig í kjölfarið við öldunginn með slitna upphandleggsvöðvann. Nú þurfa hóparnir bara góðan nætursvefn og þá ætti hið kunnuglega nag og nöldur að byrja í næstu viku.

Gaman, gaman.

föstudagur, september 16, 2005

Það var víst verið að klukka mig og nú þarf ég að finna 5 gagnslausar upplýsingar um mig.

Það ætti ekki að vera mikið vandamál.

1. Ég hef samtals brotið 4 tær - sumar oftar en einu sinni. Það er víst útséð með ballettnámið...

2. Ég get framkallað hljóð sem getur hæglega komið í stað dómaraflautu. Þegar ég hugsa málið má vera að ég hafi misst af eina starfsferlinum sem ég er sköpuð fyrir.

3. Nei ég hef aldrei drukkið kaffi og langar ekkert til þess. Ég hef heldur aldrei borðað apaheila og sé engan tilgang í því að byrja á því núna.

4. Ég er ekki ferðavæn manneskja. Á erfitt með að höndla það þegar plön fara út um þúfur. Það er eitthvað svo stressandi við tímaáætlanir. En er jafnframt fljót að jafna mig þegar málum hefur verið reddað.

5. Ég get ekki smellt fingrum með þumal og löngutöng. Verð að nota þumal og baugfingur sem veldur meira álagi á puttana en hitt fyrirkomulagið. Ég endist því ekki lengi í þeirri leikfimi (og þar fór leiklistarferillinn eins og hann leggur sig en hann byggist einmitt nær eingöngu á getu til að smella fingrum vel og lengi.)

Eru ekki allir mun upplýstari núna?

Ég verð svo víst að klukka einhverja fimm grunlausar hræður (þetta stendur allt einhvers staðar í bloggaralögunum): Auður klukk! Nanna klukk! Siggalára klukk! Skotta klukk! Þórunn Gréta klukk!
Mér líður soldið eins og ég hafi verið að lulla um á sunnudagsrúnti síðustu árin, í fyrsta gír, langt undir löglegum hraða, hálfsofandi undir stýri.

En er nú komin upp í þriðja gír og stefni á að taka þetta með trukki.

Skrifaði Ástráði bréf og innti eftir námsstatus mínum. Það var nefnilega í fréttum að besti vinur minn, hann GMB, hefði fengið að halda öllum sínum einingum úr háskólanáminu þótt komið væri yfir hinn hefðbundna 4 og 1/2 árs firningartíma og hann ekki búin með ritgerðina. Ekki frekar en ég. Nú heiti ég hvorki G, né M og er ekki B - hvað þá rétttengdur sjálstæðismaður en mig grunar að eitthvað af þessu eiginleikum séu nauðsynlegir til að fá slíkar undanþágur. En kannski er ekki sama hvort um stjórnmálafræði eða bókmenntafræði er að ræða? Þessi firningarelga var a.m.k. alveg ný fyrir mér og nú er bara að krossleggja fingur og tær og vona hið besta.

Fékk svar á meðan ég var að skrifa þetta - allt er í góðu - vissi alltaf að bókmenntafærðin væri mun vænlegri kostur en tíkin sem kennd er við pól :)

miðvikudagur, september 14, 2005

Mér finnst ég verða að þakka vinum mínum fyrir að vera í sífellu að flytja til framandi landa. Öðrum kosti hefði ég aldrei komið til Montpellier í Frakklandi og Manchester í Englandi. Og væri ekki á leið til Wollongong í Ástralíu. Mér líst ágætlega á þessa útflutningsstefnu og væri til í að sjá meira af henni svo ég hafi afsökun til að heimsækja fleiri staði úr alfaraleið. Hins vegar er algjörlega nauðsynlegt að þessir sömu vinir séu ekki að hanga þarna of lengi og komi örugglega til baka því ekki á maður endalausar birgðir af þeim.

Þessi þakkarræða kemur til af því að mér leiðist óumræðanlega á skrifstofunni í dag og hlakka sérlega mikið til að komast til sólríkra stranda Ástralíu. Aðeins 4 og 1/2 mánuður ... ég og Skippy...

Ég var ekki fyrr búin að vera með stórar yfirlýsingar um neikvæða tíðni bíóferða minna á blogginu hans Varríusar þegar hin frjóa fangor fékk mig til að koma með á Burton myndina í kvöld. Það er því aðallega mínu eigin framtaksleysi að kenna að ég fer aldrei bíó - eða öllu heldur ég fer ekki af eigin frumkvæði. Það er víst annað upp á teningnum þegar aðrir toga mig með. Hmm...
Eins og lesendur þessa bloggs vita kannski er ég sjónvarpsfíkill mikill. Skilst mér að ég sé ekki ein með þessa fíkn. Að einhverju leiti er ég hryllilegur elítist þegar að kemur að sjónvarpsefni – þættir fá gjarnan þumalinn upp eða niður hjá mér og lítið um millivegi. Þannig harðneita ég að horfa á The O.C., Smallville, One Tree Hill, Strong Medicine og álíka froðuþætti. Desperate housewives er reyndar undantekning – ég hef horft á þá hingað til en mér þykir þeir stefna hraðbyr í froðuflokkinn. Raunveruleikaþættir eru einnig undanþegnir þessari reglu að mestu leyti en þá er ég gjörn á að láta ýmislegt yfir mig ganga. Dreg þó markið við paraþætti (Bachelor, Paradise Hotel o.s.frv.) þar sem froðan og almennt tilgangsleysi er í algleymingi.

Venjulegt ástand á mínu heimili er að vera eilíft önugu út í sjónvarpsdagskrána og sækja ég því gjarnan í “mína” þætti eftir öðrum leiðum. Nú hyllir hins vegar í betri og blómlegir tíma á öldum ljósvakans. Skyndlega eru allir uppáhaldþættirnir komnir í sýningu og það á sama tíma. Öðruvísi ég áður hrökk í kút.

Lost – ég keypti DVD pakkann – held að það segi allt sem segja þarf
House – ég var orðin óttalega þreytt á sjúkrahúsþáttum en hef gaman af þessum. Hugh Laurie á kommbakk ársins.
Alias – ég hef haldið tryggð við þá en er samt eiginlega búin að fá nóg
Battlestar Galactica – stundum eiga þeir það til vera langdregnir og hugmyndasnauðir en taka svo snilldarlega kippi, verða æsispennandi og fara langt fram úr væntingum
America’s next top model – ég skil ekki ennþá af hverju ég elska þessa þættir. Ég bara geri það. Tyra Banks heldur í alvöru að áhorfendur hafi áhuga á módelbransanum.
Survivor – æi það er alltaf eitthvað svo heimilislegt við Survivor
Arrested development – stundum er fyndnin pínleg – en oftast er þetta fyndnasti þáttur í sjónvarpi.
Gray’s Anatomy – læknasápa.* Ég er búin að horfa á fyrstu seríuna og var orðin soldið þreytt á sápuelementunum en það er nógu mikið gott þarna til að ég vilji halda áfram.

Og nú síðast: Veronica Mars sem byrjar næsta þriðjudag í ríkissjónvarpinu mér til ómældrar ánægju (þótt ég sé reyndar búin að sjá alla þætti í fyrstu seríu.)

Klikkt er svo út með þessari nýstárlegu gæðastefnu með því að sýna næsta mánudag hina prýðilegu tveggja hluta sjónvarpsmynd; Second coming um endurkomu frelsarans á okkar tímum. Sem reynist vera verkamaður í Manchester leikinn af Christopher Eccleston.

Sem minnir mig á...

Hvar í fjandanum er Doctor Who? Er ekki alveg kominn tími til, eftir 40 ár, að íslenskir sjónvarpsáhorfendur fái að kynnast karlinum? Og allt í lagi að bæta einhverjum breskum þáttum í flóruna.

_______________________________
* Ath. ekki er sama hvort er sápa eða froða. Sápur er afþreyingarflokkur út af fyrir sig sem má gjarnan hafa gaman af ef vel er að verki staðið. Froða hins vegar er álíka innihaldsrík og efnið sem hún dregur nafn sitt af og ekki nærri því eins nytsamleg.

sunnudagur, september 11, 2005

Sniðug þessi blogg. Ef rannsóknarlögreglan bankar einhvern tímann upp á og spyr hvað maður hafi nú verið að bardúsa kl. 11.30 þann 27. mars síðastliðinn þá er bara spurning um að fletta því upp.

Ég bíð spennt eftir þeim degi.

Svo liggur það eins og mara á sál minni þessa dagana hvers vegna engum hefur ennþá dottið í hug að gera hefðbundnar fegurðarsamkeppnir að raunveruleikaþáttum? Ekki að ég sé neitt sérstaklega fylgjandi fegurðarsamkeppnum - í teoríu - en í ljósi þess að einhverjar skemmtilegustu gamanmyndir síðustu ára - Drop dead gorgeous og Í skóm drekans - fjölluðum um þann skrípaleiks sem er keppni í fastasta Colgate brosinu er ég hreinlega gáttuð á að ekki hafi tekist að hnoða í þó ekki nema vondan raunveruleikaþátt úr efniviðnum. Ekki get ég ímyndað mér að nokkur nenni lengur að horfa á tveggja tíma prógram af stífum og karakterlausum World Class klónum spássera upp og niður sviðið á Broadway aðeins til þess að falla í gleymsku daginn eftir hvort sem þau vinna eður ei. Í staðinn höfum við America's Next Top Model (sem er ekkert nema snilld) og The Swan (viðbjóður) sem komast nálægt fyrirmyndinni en samt ekki. Kannski er ekki lengi að bíða...

Þangað til reyni ég að humma hljómfræðiheimalærdóminn fram af mér svo og almenna tiltekt með gáfulegum athugasemdum og nýstárlegum hugmyndum.

miðvikudagur, september 07, 2005

Ég dró Emblu með mér á tónleika í gær og löngu kominn tími til. Upp úr dúrnum kom að hún hafði ekki gert sér ferð á slíka uppákomu frá því að hún sá Ice-T á tónleikum í Florida fyrir 13 árum. Hjá mér voru hins vegar liðnir 4 dagar.

Það tók Patti Smith til að lokka hana út úr þessi langlífa tónleikabindindi og var sjón að sjá okkur báðar þettar kvöld. Ég var riðandi af svima (og komin með blússandi kvefpest í dag) og hún kasólétt. Einhvern veginn hafði ég misskilið að það yrðu sæti á staðnum (NASA) en svo reyndist ekki vera nema í mjög takmörkuðu upplagi og allt löngu upptekið. Maður sníðir sér því stakk eftir vexti og við ekki á því að standa upp á annan endann allt kvöldið í okkar ásigkomulagi. Svo var ég heldur ekki nógu vel skóguð. Við spiluðum óléttuspjaldinu skammlaust og Embla fékk þenna fína stól úr fatahenginu. Vorum með plott um að skiptast á sitja í stólnum en svo fann Embla borð úti í horni á dansgólfinu þannig að fyrir rest stóð hún bara og gnæfði yfir mannfjöldann eins og rokkandi frjósemisgyðja á meðan ég nauðgaði stólnum þar sem ég skiptir á að standa á honum og sitja á bakinu. Við skemmtum okkur prýðilega og Patti sveik ekki.

mánudagur, september 05, 2005

Úff - einhvern veginn beit ég það í mig að hljómfræði II byrjaði ekki fyrr en í næstu viku en að sjálfsögðu er fyrsti tíminn í dag. Í fangi stundarbrjálæðis skráði ég mig svo líka í tónheyrn I. Takið eftir; þetta er dagurinn þar sem ég hætti að kvarta undan því að ég hafi ekkert að gera.

Já og varðandi tónlistarmenntun mína þá hef ég bara ákveðið að stunda hana bara samt og ekki spyrja kóng, prest eða Stefán Jón Hafstein um leyfi. Það er alveg hægt - eftir smá krókaleiðum og með aðeins meira fjármagni en ella.

Spakmæli dagsins eru: Stjórnmálamenn eru líka fólk.

Ég er hérmeð hætt að ætlast til nokkurs af stjórnmálamönnum og ber jafn mikið traust til þeirra og hvaða afgreiðsludömu í Vogue, tækniaðstoðarmanns hjá Og Vodafone svo og kerlingarinnar í Vestmanneyjum sem sér um bókhaldið fyrir iðnaðar-manninn sinn og heldur að ég beri ábyrgð á því að hún nái að borga virðisaukann.

föstudagur, september 02, 2005

Stundum skil ég ekki alveg dagskrárstefnu sjónvarpsstöðvanna. Er kl. 11 á föstudagskvöldi virkilega besti tíminn fyrir nýja sjónvarpsseríu - og það seríu sem hefur fengið mikið lof og áhorf erlendis og vísir er að muni kannski falla í kramið hér?

Battlestar galactica mun s.s. hefjast í kvöld á Skjá einum og ef þú, lesandi góður, hefur einhvern snefil af áhuga á vísindaskáldskap þá skaltu ekki láta þá þætti fram hjá þér fara. Það verður að vísu byrjað á að sýna mini-seríuna sem er gott því hún undirbýr allt sem koma skal þótt hún sé reyndar svolítið langdregin. Þættirnir sjálfir eru í hinu hefðbundna 45 mínútna formati sem hentar þeim mun betur og þá byrjar líka aðalfjörið.

Ekki halda að þetta sé Enterprise með öðru nafni - nú eða sama súpan og var framleidd árið 1978 og var víst geimsápa af basískustu gerð með körlum að gera karllega hluti og hjákátlegum róbótum. Þetta er pólitískt spennu drama af bestu gerð með góðum slatta af heimspekilegum vangaveltum ásamt bráðnauðsynlegum húmor og geimorustum inn á milli.

Til að gera langa sögu stutta: á einhverjum öðrum tíma hefur mannkynið dreift sér um vetrarbrautinu og misst samband við jörðina sem lifir aðeins í vitund þess sem ótrúverðug þjóðsaga. Að baki er langt og erfitt stríð við Cylonana - róbota sem mannkynið bjó til og snérist gegn þeim. Ekkert heyrist frá Cylonunum svo áratugum skiptir þar til einn góðan veðurdag þeir dúkka upp - í mjög endurbættu formi - og sprengja ótal kjarnorkusprengjur á öllum 12 plánetum mannkynsins. Þeir einu sem lifa af er fólkið sem var statt á geimskipunum þegar árásin var gerð - 40-50 þúsund manns. Nú hefst leit þeirra að nýjum heimkynnum - kannski jörðinni - á meðan Cylonarnir reyna að klárið verkið sem þeir byrjuðu á.

Það besta við þessa þætti er hversu venjulegt fólk fær að vera. Vandamálin sem þau glíma við eru oftar en ekki kunnugleg. Einhvers staðar verður að redda vatni. Alkóhólistar verða að spara áfengisbirgðirnar sínar. Stundum þarf að fórna fólki og það er alltaf ljótt. Allir geta gert mistök og gera þau gjarnan. Hetjurnar eru breiskar og þrívíðar og óvinirnir stundum mannlegri en þeir sem hafa "réttinn" sín megin. Sögusviðið er kannski framandlegt en fólk heldur alltaf áfram að vera fífl og það þýðir gott sjónvarp.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég vaknaði upp við vondan draum í morgun þar sem Gísli Marteinn var að mala um að "við Sjálfstæðismenn stöndum saman og keppum að bla bla bla..." Mér finnst ágætt að stilla vekjaraklukkuna þannig að hún kveikir á útvarpinu um leið og hún hringir. Þá get ég vaknað smám saman þangað til einhver í morgunþættinum segir eitthvað nógu heimskulegt til að knýgja mig til fullrar meðvitundar og slökkva á blaðrinu. Ég var 5 sekúntur að vakna í morgun.

Er ekki ennþá heil meðganga í kosningar? Þarf ég að vakna við þetta raus á hverjum morgni í allan vetur? Það verður kaldur dagur í helvíti þegar ég kýs Gísla Martein sem borgarstjóra yfir mig (að því gefnu að hann nái fyrsta sætinu.) Hvað mig og mitt litla atkvæði varðar er ég fullkomlega milli steins og sleggju í kosningamálunum:

Sjálfstæðisflokkur - ég segi nei takk við GMB
Samfylkingin - aldrei í lífinu skal ég kjósa hinn erkisvikahrapp Stefán Jón Hafstein
Vinstri Græni - vænissjúkir
Framsókn - fyrir fólk sem þorir ekki að kjósa sjálfstæðið
Frjálslyndir - plebbar

Í fyrsta skipti í minni 15 ára kosninasögu neyðist ég til að skila inn auðu. Nema auðvitað eitthvað hresst lið stofni bara nýja flokk. Er ekki hægt að kljúfa sjálfstæðar konur frá sínum mönnum? Eða eru þær kannski of uppteknar við bakstur?

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Fyrir þá sem nenna ekki inn á hitt bloggið...

Nýja fína píanóið mitt (ok, lánspíanóið - í 3 ár) sem ég braut nærri bak við að flytja við fjórða mann upp tröppurnar heima hjá mér (og þurfti fyrir vikið bara að borga 12 þúsund):





Sigrún Ýr frumflutti að því tilefni framúrstefnuverkið sitt "Lemja lykla. Fast."

mánudagur, ágúst 22, 2005

Núna langar mig til að nota tækifærið og klappa sjálfri mér aðeins á bakið.

*klapp, klapp*

Síðustu tvær vikur hef ég mætt sjö sinnum í ræktina. Þrisvar síðustu tvær vikur og einu sinni það sem af er þessari. Og - hvort sem þið trúið því eða ekki - þá langar mig til að mæta í dag (en mun ekki gera því í dag er hinn mikli píanóflutningadagur.) Ég skil ekki almennilega hvaðan þessi atorkusemi og hreyfingaráhugi kemur en tek honum fagnandi. Það sem mig grunar að geri gæfumuninn er að hafa niðurneglt plan. Þriðjudaga og fimmtudaga mæti ég strax eftir vinnu, fer í 20 mínútur á bretti og álíki tól og síðan í lyftitækin. Á sunnudögum mæti ég um tvö í æfingafötunum og er 40-60 mínútur á bretti/hjóli og fer svo beint heim í sturtu (það lokar í Hreyfingu kl. 3 á sunnudögum.) Kosturinn við skipuleggja sig svona er að það eyðir allri hugsun að "nú ætti maður að fara að drífa sig" og "kannski ég fari á morgun eða hinn" og "æji ég er búin að mæta tvisvar, það hlýtur að vera nóg." Nú fer ég bara þessa daga og á þessum tímum og hina 4 daga vikunnar slepp ég alveg við að hafa samviskubit. Húrra!

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Ef þú átt Sony Ericsson síma - sérstaklega 700 og 750 týpurnar - er ég með glaðning handa þér. Hérna er pakki með 70 leikjum sem þú getur hent inn á símann þinn og síðan gert ekkert annað næstu vikurnar en að leika þér í pool, tetris, kapli, yatzee, Prince of Persia og undarlegum Kingdom of Heaven leik þar sem þú átt að bjarga pílagrímum frá heiðingjum eða eitthvað álíka - ásamt 65 öðrum sem ég hef ekki haft tök á ennþá að skoða.

Og lengra verður bloggið ekki í dag. Ég var 3 tíma í ræktinni í dag og er nær dauða en lífi af þreytu. Góða nótt (sagt í besta Sigurðar H. Richter mæðutón.)

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Siggalára reið á vaðið og skrifaði langa og ljúfan reiðilestur yfir fordildinni í Stefáni Jóni Hafsteini varðandi aldurstakmarkanir í tónlistarskóla. Svo ég endursegir í stuttu máli (en hvet samt fólk til að lesa frumtextann í öllum sínum dásamlega pirringi) þá hefur SJH töglin og höldin hvað varðar menntamál í borginni og þar sem allir peningar eru búnir úr sjóðskassanum sökum ... tja ... hvert fóru eiginlega peningarnir? ... lagði hann á og mældi um að enginn yfir 25 (í sumum tilfellum 27) ára aldri mætti læra nokkuð á músík. Tónlistarskólum sem hafa sín inntökupróf er því víst ekki treystandi fyrir eigin dómgreind. Ég hef litlu við hið ágæta rant að bæta annað en það að mig langaði til að láta fylgja viðeigandi bút úr þessum hörmungar lögum sem ég fann á heimasíðu FÍH og var full langur fyrir kommentkerfið hennar (mín komment eru í svigum):

Menntaráð tekur ákvörðun um fjölda skóla sem hljóta styrk hverju sinni. (Þ.e. SJH ræður)
Heildarframlög til skólanna ráðast af fjárhagsramma Menntasviðs hvers árs og geta þjónustukaup af skólunum því orðið meiri eða minni en kemur fram hér að neðan. (Þ.e. ef SJH er í vondu skapi. T.d ef skólastjórar eru eitthvað að ybba sig í fjölmiðlum?)

Við úthlutun fjármagns til tónlistarskóla skal tekið tillit til gildandi úthlutunar, en framlög verða þó aldrei hærri en raunverulegur fjöldi nemenda með lögheimili í Reykjavík og kennslumagn vegna þeirra gefur tilefni til.

Þegar þjónustukaup eru reiknuð á grundvelli gildandi úthlutunar skal miða við að skólar geti fengið 95% af áður samþykktum nemendafjölda, en 5% verði úthlutað með hliðsjón af eftirspurn í hvern skóla (sjá þó grein 10).


Þjónustukaup miðast við forskólanám, grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneytið greiði hluta kostnaðar við nemendur í tónlistarvali eða á tónlistarbrautum framhaldsskólanna skv. nánara samkomulagi milli ráðuneytisins og sveitarfélaga. (Þýðir það ég get stundað tónlistarnám ef ég skrái mig í menntaskóla? Aldrei hélt ég að stúdentsprófið kæmi mér í koll.)

Þjónustukaup Reykjavíkurborgar miðast við að nemandi sé á aldrinum 4 - 25 ára, en söngnemendur upp að 27 ára aldri. Þetta ákvæði tekur ekki gildi gagnvart nemendum sem stunda tónlistarskólanám skólaárið 2004/05 fyrr en haustið 2007. (Þ.e. ef þú ert þegar skráður í nám. Ég er búin að taka 2. stig í söng en var aldrei formlega skráð í skóla og kem því alltof mörgum árum of seint.)

Menntaráð getur veitt undanþágu frá þessum aldursmörkum við sérstakar aðstæður vegna einstakra nemenda að undangengnu áliti fagnefndar. (Ég sé það ekki gerast í mínu tilfelli. Einnig; SJH ræður.)

Við útreikning á eftirspurn eftir skólavist í tónlistarskóla eru aðeins teknir með þeir nemendur sem eru á aldrinum 4 – 25 ára, en söngnemendur upp að 27 aldri. (Og hvers vegna? Eru miðaldra kerlingar sem halda að þær séu efnilegir sópranar að taka pláss frá Ragnheiðum Gröndulum framtíðarinnar?)

Ef tónlistarskólar hætta eða nemendum fækkar í ákveðnum skólum verður úthlutað samsvarandi nemendafjölda til annarra skóla með hliðsjón af eftirspurn. (Nema eftirspurnin komi frá einhverju pakki eldra en 25 ára)

Framlag til skólanna reiknast á samræmdan hátt skv. reiknilíkani.

Úthlutun miðast við að tónlistarskólanemandi í fullu námi fái 32 klukkustundir á ári í aðalnámsgrein, auk hliðargreina. Skóli getur kennt aðalnámsgrein í smá hópum sbr. 2. grein þessara reglna.
(Þarna vantar mig upplýsingar um hvað það kallar á mikla peninga.)

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að hafna styrkumsókn frá tónlistarskóla á grundvelli 3. greinar laga nr. 75/1985. Ef efasemdir vakna um að skóli standist kröfur er hægt að fara fram á endurstaðfestingu menntamálaráðuneytis. (Þ.e. SJH ræður)

föstudagur, ágúst 12, 2005

Nú þykast einhverjar kellingar sem greinilega leiðist í vinnunni hafa fundið upp nýja skilgreiningu á karlmanninum: úbersexual. Metrósexúal maðurinn þótti víst ekki nógu spennandi þegar til lengdar leit:

(Úbersexúal] eru karlmenn sem eru mjög aðlaðandi, kraftmiklir og eru þeir sem bera af meðal jafnaldra sinna. Þeir hafa sjálfstraust án þess að vera hrokafullir, karlmannlegir, bera skynbragð á tísku og gæðum á öllum sviðum. Úbersexúal-karlmaðurinn leggur meiri áherslu á sambönd en metrómaðurinn en er jafn spenntur fyrir innkaupaferðum og hann. Áherslan er þó á ákveðna hluti en ekki verslunaræði verslunaræðisins vegna.

Bestu vinir úbersexúal-karlsins eru karlar en konur eru aldrei félagar hans. Lykilatriði hjá úbersexúarl-karlinum, segir þríeykið sem fann um metrómanninn, eru hefðbundin karlmennskugildi eins og kraftur, heiður og skapgerð í blandi við jákvæð kvenleg gildi eins og umönnun, samskipti og samvinnu.


Ég er hreinlega gáttuð. Í kjölfar þessa spánýja uppspuna ku metrómaðurinn víst vera dauður. Því það má víst aðeins vera til ein klisjukennd og ímynduð týpa! Var ég kannski eitthvað að misskilja: ég hélt að metrómaðurinn væri lýsing á týpu sem væri til - hvernig getur þessi bara allt í einu komið í staðinn? Ég leyfi´mér að efast um að metrómenn allra landa hafi hrokkið upp með andfælum einn daginn og ákveðið sem einn að snúa baki við metrólegum hegðunum. Var metrómaðurinn kannski aldrei til? Eru þær að halda því fram að úbermaðurinn komi í staðinn? Því hann er allt öðruvísi. Mér finns líka grunsamlegt hvernig hann á að bera af meðal jafnaldra sinna. Sem þýðir að hann er í miklu minnihluta. Enda ekki skrítið því ég fæ ekki betur séð en hér sé einungis um uppskrift af ástmögrinum í rauðu seríunni að ræða. Ég legg til að þessar manneskju leggi frá sér kiljurnar og fari að svipast um í kringum sig og kannski rýna í hina rauðverulegu karla. Nú eða bara hætta að draga fólk í yfirborðskennda dilka. Allar kventýpur eru orðnar langþreyttar og ómerkar - því skyldu karlarnir að þurfa að lúta sömu meðferð?
Þetta er allt í áttina...

* Svo ég gæti hætt að tjá mig um leigandamál: það er allt í rjóma og sóma á þeim vígstöðvum. Ég er komin með peningana mína og stelpan á leið í herbergið. Allir eru sáttir og hamingjan lekur af veggjum hússins.
* Ég er hef verið gasalega dugleg í ræktinni þessa vikuna. Finnst mér. Ójá - ég mætti á sunnudag og mánudag, get hreyft hvorki legg né lið fyrir þreytu þriðjudag og miðvikudag en mætti galvösk í gær. Ætla að fara aftur eftir vinnu í dag og hef þá fullnýtt þennan 6 daga passa eftir bestu getu. Næsta skref er að frjáfest í mánaðarkorti og reyna að fullnýta það líka. Spræk sem læk í september skal verða mitt viðurnefni.
* Ég baðst undan ferðalagi í kringum landið á rúmum sólarhring. Auðvitað er alltaf gaman að mæta á Hraunball en að hossast 700 km í bíl til þess eins - og það tvisvar á jafnmörgum dögum - finnst mér fulllangt gengið. Í staðinn mum ég heilsa upp á fjölskylduna og njóta andaslitra sumarsins í Reykjavík.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Ég veit ekki hvað skal halda...

* Það bólar ekkert á leigjendanum, hvorki hvað innflutning né peninga varðar.
* Lísa skilaði sér loksins heim. Ég fann hana í felum í kjallaraherberginu í gær. Hún er sármóðguð yfir meðferðinni og gengur um síkvartandi. Gabríel er farinn í epíska fýlu.
* Fólk hlýtur að vera fætt með gjörólíka bragðlauka frá manni til manns. Það er það eina sem útskýrir ananas og brauðsúpu. Og salatið sem ég bjó til í gær. Mér var sagt að eftirfarandi samsetning væri ólýsanlega gómsæt: tómatar, rauðlaukur, ferskur kóriander, lime-safi. Ég kom niður tveimur bitum og henti restinni. Það var kóriander stybba af puttunum í heila eilífð á eftir. Blah.
* Það er bara ágætt að vera mætt aftur til vinnu.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Hér eru sviftingar þessa dagana:

* Ég er komin með glansandi fína leigjendastelpu sem lítur ekki út fyrir að vera týpan sem laðar að sér dópista og handrukkara
* Fríið er búið í bili og vinna hefst í fyrramálið
* Kisa litla er týnd og, að því er virðist, tröllum gefin. Hún sást síðast á miðvikudaginn flýja undan mér bak við horn. Ég ætla að hafa samband Kattholt á morgun. Gabríel er himinn lifandi.
* Í dag brúkaði ég 6 daga passann í Hreyfingu sem ég fékk hjá Jóni Geir. Ætla að gera slíkt hið sama næstu 5 daga og sjá hvort ég hef ekki nennu í að kaupa heilt kort.
* Ég fann loksins Leiðarvís í ástarmálum eftir Ingimund Gamla og Madömu Tobbu eftir mikla leit. Þessi eðal leiðarvísir frá árinu 1922 hverfur regulega á mínu heimili og birtist aftur aðeins þegar hann vill láta finna sig. Þarna er um að ræða sérlega nytsama og hjálplega bók og þótt eitthvað af leiðbeiningunum standist ekki hörðustu feminísta staðla ("Sú kona, sem elskar manninn sinn, leitast aldrei við að kasta skugga á húsbóndstöðu hans á heimilinu. Þvert á móti. Henni er ánægja að því að draga sig í hlé, ef kostir hans koma frekar í ljós við það. Jafnvel þótt hún sé meiri gáfum gædd en eiginmaður hennar, gætir hún þess af auðæfum elsku sinnar, að láta sem minnst á því bera") og sumar séu blátt áfram barnalegar ("Það er afarljótt, þegar konur reykja og neyta áfengis á samkvæmum eða á veitingahúsum og það ættir þú aldrei að gera") er bókin rituð af svo fordæmalausri íslenskri skynsemi að erfitt er að finna að flestum ráðunum. Því hvorugt kynið er undanþegið hollráðunum: "Þér er eigi nóg að nota skoðanir Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins - sem breytast stundum daglega -, heldur verður þú af eigin dómgreind að gera mun á réttu og röngu. Þú verður að temja þér rökrétta hugsun, því að djarfur hugsunarháttur er mikils virði í augum kvenfólks." Eins og áður sagði er bókin ritið árið 1922 (og mýmörg dæmi um biðlanir skötuhjúanna til íslenskra ungmenna um að bursta tennurnar og fara í bað bera með sér) og því væntanlegt ýmislegt í henni sem þurfti að segja kyrfilega undir rós eða bara alls ekki. Einum degi eftir gay pride er svolítið freistandi að lesa þessa klausu í nýju samhengi: "Sumar konur virðast fæddar með þeirri hamingu að vera pilta-gull, en eigi eru þær að fremur meiri mannkostum búnar en hinar, enda eru þess mörg dæmi, að bestu kvenkostirnir sitja auðum höndum á akri ástarinnar og fá eigi aðhafst - af ýmsum ástæðum."

Hmm...

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Nýja tengingin er voða fín þegar kemur að alls kyns niðurhali en er soldið treg við að hleypa mér um vafrarana. Því kallar það á sérstaka viðburði að ég nenni að troða mér inn á blogger til að segja frá. Oftar en ekki er miklu einfaldara að blaðra í hina lifandi dagbók. En nú er viðburður - eða öllu heldur tilkynningaskylda:

Mig langar til að læra á gítar.

Einnig: Nornabúðin sem samnornir Eyrún og Eva* opnuðu kl. 2 í dag á Vesturgötu 12. Þori ég að fullyrða að aldrei hefur sést hennar líki í okkar samfélagi og sjaldan hefur nokkur búð verið jafn vel réttnefnd. Þar er gjörsamlega allt að finna sem hægt er að hugsa sér í tengslum við galdur og talsvert sem ekki er hægt að hugsa sér þar að auki. Og að sjálfsögðu allt borið fram á vægu verði ásamt kaffi og meððí eins og hæfir í hinu opinbera musteri mammons. Vil ég óska þeim ógrynni af farsæld og sandhólum af seðlum.


* Hefur reyndar gleymst að gera Evu að formlegri Naflalóarnorn en það kann varla nokkrum að dyljast að hún er það nú bara samt.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Það hafa allir séð nýju útgáfuna af Hlemmi ekki satt? Fyrst hélt ég að ég væri ofboðslega glöð að sjá Laugarveginn loksins kominn í sinn rétta farveg - þrátt fyrir hálf ruglingslegt gatnamótasystem. En svo fór ég að hugsa mig um og á mig renna nokkrar grímur. Því ég get ekki betur séð en um tapaða kynjabaráttu sé að ræða.

Einhverra hluta vegna er Laugarvegurinn fastur í mínum huga sem karllegur; hann er aðalgatan, liggur ofar en Hverfisgata, þar eru allir peningarnir og straumurinn liggur aðeins í eina óhaggaða átt. Hverfisgatan hins vegar er hálfgert gettó, búðirnar fáar og raka litlu inn, umferðin þrvöngvar sér í báðar áttir um mjóan veginn. Þar er afþreyingin; leikhús, bíó, pool. Amma bjó þar síðustu áratugi ævi sinnar og mamma ólst þar upp. S.s. Mér hefur alltaf þótt gatan hafa kvenlega eiginleika - sérstaklega við hliðina á hinum "æðri" partner sem Laugarvegurinn er. Nöfnin á götunum hjálpa svo auðvitað við að styrkja þessa ímynd (vegur - kk., gata - kvk.) Það sem bjargaði Hverfisgötunni frá algjörri hliðrun var sú staðreynd að á endasprettinum skákaði hún Laugarveginum og tók af honum bæði nafnið og almennilegan endapunkt í glæsilegum gatnamótum. Gamli Laugarvegurinn sem byrjaði með svo miklu stæl upp úr Bankastrætinu endaði í frekar sorlegu bílastæði og fékk ekki einu sinni ljós til að marka leiðarendann. Hverfisgata fékk ekki bara ljós - hún brunaði með sína farþega beint inn í Laugarveginn og skilaði þeim síðan í hendurnar á Suðurlandsbraut (annarrar kerlingar) skömmu síðar. Og þarna sat broddurinn á Laugarveginum, steingeldur á milli soldið sjabbí en glaðhlakkandi kerlingarbrauta.

Auðvitað mátti ekki svo við una.

Nú er búið að laga kynjaruglinginn. Bílastæðislíkinu hefur verið útrýmt þar sem núverandi Laugarvegur brunar beint í gegnum það og endurheimtir restina af sér. Fær nú óslitna braut og glæsileg ljós í lokin. Hverfisgatan hins vegar endar einhvern veginn í engu þar sem ljósin eru farin og aðeins strætó má aka síðasta spölin. Þar sem Laugarvegurinn tók áður við Hverfisgötunni er nú mjó einstefnugata sem liggur niður úr Laugarveginum, meðfram lögreglustöðinni og inn í Hverfisgötuna. Þvert á upphaflega einstefnuleið. Þannig að nú er Laugarvegurinn ekki aðeins búinn að loka fyrir allt flæði og uppstokkanir heldur er hann byrjaður að þröngva sér leið inn í hina áður óspjölluðu en frökku götu.

En týpískt.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Mmm... búin að vera í fríi alla þessa viku og er rétt svo núna að komast upp á lagið. Ég þarf alltaf smá aðlögunartíma þegar ég fer í frí. Get ekki bara hrokkið úr einum í gír annan. Eða öllu heldur: úr fjórða gír og í park úti á kanti með slökkt á vélinni og tvö dekk úti í móa.

Framkvæmdagleðin hefur eitthvað staðið á sér og kenni ég öllu um sem er ekki ég. Var í allan gærdag að slá garðinn og raka. Var í mest basli við að koma slátturvélinni í gang og þurfti að taka mér langa og góða pásu eftir að hafa slegið garðinn áður en ég gat rakað. Ekki skil ég hvernig maður plægði í gegnum heilu hektarana í unglingavinnunni í den og það fyrir hádegi. Annars hef ég verið að hanga soldið með honum bróðursyni mínum. Við skelltum okkur í Kringluleiðangur og sund á mánudaginn og fórum og fengum okkur ís ásamt eldri systur hans í dag. Á morgun er planið að gera eitthvað skemmtilegt líka.

En þegar ég er ekki að passa börn og fara hamförum við viðhald heimilisins er ég fullkomlega laus og liðug og til í hvað sem er (ef einhver skyldi lesa þetta sem er ekki staddur/stödd úti á landi, erlendis eða í barnabasli.)

Ég rakst á söngkennarann síðustu helgi uppi bústaðnum hennar (öll fjölskyldan fór á flakk um innsveitir suðurlands og endaði þar.) Hún tilkynnti mér að ég gæti fengið píanó að láni næstu þrjú árin þar sem einhver nemandi hennar er að fara úr landi. Pabbi verður örugglega feginn að fá hljómborðið sitt til baka þótt ég verði víst að viðurkenna að ég er ekkert ofboðslega dugleg að pota í það. Því veldur sennilega sami kvilli og kom í veg fyrir að ég æfði mig heima þegar pabbi hans Lofts reyndi eftir bestu getu að kenna mér á píanó í barnæsku. Reyndar á ég frekar erfitt með að æfa lögin sem söngkennarinn lét mig hafa einmitt vegna þess að hvað píanógetu mína varðar sökka ég feitt!

Svo ég sletti.

Kann að hitta á réttar nótur og þekkja mismunandi dúra og molla og lengra nær það ekki. Lýsi hérmeð eftir undirleikara - eða bara einhverjum sem kanna að spila með báðum höndum í einum - sem er til í fara yfir lögin ca. einu sinni svo ég nái laglínunni. Öðrum kosti held ég áfram að nota það sem afsökun. Ahemm...