mánudagur, janúar 30, 2006

Ef örlaði á einhverju samviskubiti yfir væntanlegum iPod kaupum mínum hvarf það sem dögg fyrir sólu um miðjan dag í gær þegar forláta vasadiskóið, sem ég keypti í kaupfélaginu á Fáskrúðsfirði fyrir nokkrum árum og hefur nýst mér afar vel, gaf endanlega upp öndina inni í Iðu við Lækjargötu. Sjaldan hef ég talið mig fá jafn ótvíræð skilaboð frá almættinu og er ánægjulegt að sjá það láta sig tækjaeign mína sig varða. Ef ég gæti fengið jafn skýr fyrirmæli um atvinnu og/eða námsferil...

Talandi um nám. Þórunn Gréta skrifaði ágætan pistil um það menningarlega slys sem lög borgarinnar um tónlistarskóla eru nú í dag. Ég tek undir flest allt sem hún segir en er þó ekki jafn áköf við að krossa við D. Júlíus Vífill virðist jú vera sá maður í framboðið sem bæði hefur einhvern áhuga á að halda uppi tónlistarmenntun svo og einhverja þekkingu á þeim málum. Efast ég ekki um að hann muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma málum í lag.

En þar blæðir líka fjandans beljunni út. Hvaða vald hefur Júlíus Vífill eiginlega í borgarstjórn - já og borgarfulltrúar allir upp til hópa? Þeir virðast einungis geta hrært aðeins í þeirri mögru aurasúpu sem þeim er boðið upp á en ekki hafa nokkra leið til að gera eitthvað almennilega. Þ.e.a.s. hvers vegna í fjandanum er ríkið ekki dregið til ábyrgðar? Það virðist soldið gleymast í R og S lista blammeringum að það er D-drifin ríkisstjórn sem er fullkomlega sátt við að troða mest allri ábyrgð um framhaldsnám tónlistar landsins í heild yfir á Reykjavíkurborg. Svo sitja þeir og blístra sáttir, skerðandi fjárveitingar til Háskólans og leyfa borgarfulltrúum að hlaupa í hringi sem hauslaus hænsni. Að hafa skipulagið eins og það er í dag er grátlega fáránlegt - og heldur einhver í alvöru að B, D, F, S, eða V liðar hafi getu eða nennu til að koma stórfelldum og almennum breytingum á - og færa tónlistarskóla yfir til ríkisins? Því þar eiga þeir heima.

Ekkert af þessu breytir þó því að Stefán Jón Hafstein er og verður asni.
Haha! Sjáiði hvað er ennþá til!

Thu ert Bergsveinn
Þú ert Bergsveinn. Ert að eigin mati einn snjallasti en jafnfram vanmetnasti bókmenntafræðingur sem útskrifast hefur. Þú neyðist því til að starfa við mis-virðuleg störf en vinnur einnig að sjalfstæðum skrifum. Mikil drykkja frá útskriftardegi hefur sljóvgað fræðiheilann sem brýst oft út i óþarfa tilfinningasemi.


Hvada persona ur Astriki ertu?
brought to you by Quizilla

laugardagur, janúar 28, 2006

Jæja - Godot mætti loksins á svæðið og reyndist vera stelpa. Hvað ætli Beckett segði?

En það er gott að heyra að allt gekk að lokum hjá Sigguláru og hún og Árni hafið fengið litla böggulinn í fangið heilann á húfi. 15 merkur og 49 cm - ekki virtist hún vera að nota þessar tvær "auka" vikur í neitt annað en nauðsynlega stækkun. Til hamingju bæði tvö. Þetta rétt náðist áður en ég þurfti að fara úr landi (því mig langar mikið til að sjá hana :)

Er núna á fullu að hugsa ekki um ferðalag dauðans sem ég legg í eftir 5 daga. Langar mest til að pakka engu nema tannburstanum og vegabréfinu. En ég ætla ekki að væla yfir ferðalögum núna - er að geyma það fyrir miðvikudaginn.

Morguninn fór annars í skemmtiferð með Gabríel til dýralæknisins. Enn og aftur. Slagsmálakötturinn minn. Nú hafði honum tekist að rífa úr sé kló svo hún hékk grotnandi í hárunum á loppunni. Hann væri sjálfsagt steindauður ef hann hefði ennþá öruggan aðgang að testósteróni.

Eftir að hafa skilað óargadýrinu heim og skipulagt annasaman eftirmiðdag með Sudoku var ég rifin út úr húsi og skellt í bleyti í Kópavogslaug hinni nýrri ásamt Nönnu, Jóni Geir og Hjalta. Uppgötvaði þar algjörlega óvænt minn innri sundmann sem hefur legið frekar kyrfilega í dvala hingað til. Yfirleitt tek ég 200 metra og finnst það harla ágætt og soldið leiðinlegt. Þarna komst ég í eitthvað buslstuð og æddi áfram 500 metra án þess að stoppa varla eða blása úr nös. Hætti bara vegna þess að samsundsfólki mínu hungraði í mat. Ég þori varla að vona að þetta geti endurtekið sig.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Grunaði ekki Gvend:



You scored as Sleeping Beauty. Your alter ego is Princess
Aurora, a.k.a. Sleeping Beauty! You are beautiful and enchanting,
and as sweet as ever.

Sleeping Beauty

88%

Goofy

69%

Peter Pan

63%

Ariel

50%

Cinderella

50%

The Beast

50%

Cruella De Ville

44%

Snow White

44%

Donald Duck

44%

Pinocchio

38%

Which Disney Character is your Alter Ego?
created with QuizFarm.com

Áróra? Síðan hvenær hét Þyrnirós Áróra? Eru til öruggar heimildir fyrir þessu nafni eða er þetta eitthvað sem var kokkað í Disneyverksmiðjunni? Augljóslega grafalvarlegt mál sem þarfnast úrlausnar.

Hvað sem því líður - sá þessar niðurstöður gjörsamlega fyrir. Hef alltaf öfundað Þyrnirós pínulítið. Er kannski ekki femínískasta fyrirmyndin sem til er en fyrir utan eina klikkaða kerlingu og baneitraða snældu fékk hún að vera í friði. Enginn að bögga hana. Ólíkt sumum sem lentu bara í dvergaþrældómi og húsverkum.

Er farin að sofa í heila öld. Skal rumska þegar prinsinn kemur. Kannski.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Svipmynd úr ræktinni:

Ásta situr sveitt við að reyna að bifa einhverju handlóðatækinu á næst-minnstu stillingu og er of upptekin til að taka mikið eftir gaurunum á nálægum tækjum. Þ.e. þar til þeir opna munninn:

Gaur 1: "Ég get ekki! Þetta er of erfitt!" *grenj*
Gaur 2: "Koma svo! Massa þetta!"
Gaur 1: *sob*
Gaur 2: "Ímyndaðu þér að ... að ... þú sért að berja lögguna!"
Gaur 1: "Aaarrrgggh! Djöfulsins, helvítis, andskotans ...." [fullkomlega óprenthæft]
Gaur 2: "Það var lagið."

Ísland í dag.
Ég get ekki gert það almennilega upp við mig hvort ég sé svona húðlöt eða brjálæðislega upptekin. Einhvern veginn virðist ég ekki hafa tíma fyrir neitt sem ég tek mér fyrir hendur - sem þýðir að mér tekst að láta allt sitja að einhverju leiti á hakanum.

Ég mæti í vinnu sem ég hef þó varla tíma fyrir því ég þarf að taka mér frí tvisvar í viku til að mæta í skóla sem ég hef svo lítinn tíma til að læra fyrir.

Leiklistin tók mikið af mínum tíma fyrir áramót en það er komin pása á það núna og ætti þá að vænkast hagur Strympu til muna en svo virðist ekki vera.

Keypti mér kort í ræktinni í síðustu viku og hef mætt tvisvar. Ég er ekki að slugsa en kannski enginn ofurárangur.

Mætti á ágætisdjamm um helgina (afmæli Svavars) en þurfti frá að hverfa fyrir miðnættu sökum gífurlegrar þreytu.

Ég á bunka af sjónvarpsþáttum inni á tölvunni sem ég hef ekki gefið mér tíma til að horfa á þannig að ekki er það það.

Svo er ég stanslaust að lofa upp í ermina á Auði - ætla að skrifa alls konar hluti og kemst einhvern veginn aldrei úr startholunum.

Já og Mastersritgerð. Hún hefur týnst þarna mitt í öllu aðgerðaleysinu.

Humm... kannski er þetta bara einhver janúardepurð sem dregur úr manni dug og táp. Það mun að sjálfsögðu vera allt annað uppi á teningnum þegar ég kem aftur heim frá Ástralíu, öll endurnærð og brún og sælleg og tekst á við að setja upp þessa heimasíðu sem ég var að taka af mér (og þarf víst að byrja á að dusta rykið af gömlu html trixunum.)

Er einhver séns á að ég sé að taka mér of mikið fyrir hendur eða þarf ég bara að læra að skipuleggja tíma minn á hagkvæmari hátt? Er svefn og afslöppun kannski bara fyrir lúsera?

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Mikið var! Allir skrifa undir takk.

Auðvitað hefði maður átt að gera eitthvað í þessu sjálfur en mér tókst nú að smeygja mér framhjá höftunum að mestu leyti hvað mína söngmenntun varðar og nennti því ekki að standa í stríði. Eins og svo margir.

Það sem mér finnst hvað allra áhugaverðast í þessu leiðindamáli er að fæstir virðast gera sér grein fyrir hvers vegna aldurstakmörkin eru sett á. Nákvæmlega hvað eiga þau að bæta? Taka skólarnir inn færri nemendur fyrir vikið? Er dýrar að hafa eldri nemendur í námi? Eða breytir þetta kannski ekki neinu hvað fjárhaginn varðar og er eingöngu kvikindisskapur í Stefáni Jóni?

Alls staðar virðist fólk vera að vakna úr doða hvers konar afskiptaleysis og rökheimsku - og Varríus kemst að kjarna málsins eins og svo oft.

mánudagur, janúar 16, 2006

Ég ... steingleymdi að læra heima. Steingleymdi yfirleitt að ég væri í skóla. Slakaði svo gríðarlega vel á um helgina að öll slík vitneskja lak ofan í sófann. Ég neyðist til að kenna bjórnum um. Og Auði.

Á að mæta í tíma kl. hálf sex. Er að vinna til fjögur og á 2-3 tíma heimalærdóm eftir. Fyrir svo utan tónheyrnina sem er á morgun. Þetta verður áhugavert.

Var með einhverjar loftkenndar hugmyndir um að sjá Brokeback Mountain fyrir Golden Globes afhendinguna sem er víst í kvöld - svo ég gæti nú sagst hafa séð a.m.k. eina tilnefnda mynd - en verð víst að fórna því fyrir heimalærdóminn. Andsk...

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Colonel Brandon: Sensible...  yet Sexy
You are the true hero(ine)! Sensible, steady and
mature, you are the lynchpin of your circle of
friends and family.

Male: At your
best, you are a dynamo combination of Mr.
Knightley from Emma and Colonel Brandon
from Sense and Sensibility. At your
worst, you may be briefly beguiled by silly
women (cf. Edward Ferrars in Sense and
Sensibility
and Captain Wentworth's
behavior toward Lousia Musgrove in
Persuasion), but in the end, you'll win
through and end up with the proper heroine.



Female: You are Elinor from Sense and
Sensibility
! Wise beyond your years, you
are all too aware of the folly of those around
you. You are "sense" personified,
and without you, things would certainly fall
apart.


Which Jane Austen Character Are You?
brought to you by Quizilla


Það var og.
Sér loksins fyrir endann á þessu pestarferli og mér þá óhætt að tjá mig á ný. Ég er alltaf soldið hrædd um að blogga á slíkum stundum og fara þá að væla yfir eymd minni sem er, þegar grannt er skoðað, í raun ekki það mikil. Sérstaklega þegar haft er í minnum flensufárið mikla í janúar 1997 sem lagði íbúa Leifsgötu 21 (+ Einsa) í einni hendingu og hefur ennþá ekki verið toppað. A.m.k. ekki hvað mig varðar.

Þrjár vikur þangað til ég held í lengsta ferðalaga sem ég hef mannað mig upp í og mál að byrja að panikka yfir smáatriðunum. Ekki veit ég af hverju ég er alltaf að sækja í þessi ferðalög þegar mér finnst svona leiðinlegt að ferðast. Það er auðvitað alltaf gaman að koma til nýrra áfángastaða en ferðaupplifunin er oftast svo hörmuleg að það nálgast við að vera fóbía. Troðningur á flugvöllum, stress varðandi farangur, bókanir sem klikka, fólk sem týnist, sæti með engu plássi fyrir lappir ... ég fæ satt að segja ekki séð að nokkur manneskja fái notið þessarar upplifunar nema vera nógu lágvaxin og með netta sjálfspíningarhvöt. Ég þyrfti að vera rík og fræg til að hafa fólk í vinnu við að stressast fyrir mig á ferðalögum.

Það sem ég er kannski helst að mikla fyrir mér er að ferðalagið til Manchester fyrir rúmu ári var nógu þyrnum stráð og það var nú bara eins og að skreppa í næstu sveit. Ég hef enga hugmynd um alla þá milljón litlu hluti sem geta farið úrskeiðis á leiðinni frá London til Singapore til Sidney - hvort farmiðarnir eru allir réttir, hvort vegabréfsáritanir sem ég reddaði mér á netinu hafi verið rétt framkvæmdar, hvort ég muni alltaf rata á rétta staði á réttum tíma. Ég hef svo ekkert pláss eftir til að hafa áhyggjur af hlutum á borð við sprengjuhótanir, tollamisskilning og flugslys. Það sem á eftir að halda fyrir mér vöku síðustu næturnar fyrir brottför er tilhugsunin um hinn Erlenda Flugvallastarfsmann sem meinar mér aðgang því ég gleymi að merkja í "ekki djók pöntun" boxið sem er örugglega falið einhvers staðar á öllum slíkjum pöntunarsíðum.

Annars hef ég hugsað mér að vera með nefið grafið sem kyrfilegast ofan í þessa bók á meðan á ferðalaginu stendur.

Næst þegar ég held í slíka langför verður það í gegnum virta ferðaskrifstofu og helst með farastjóra til að halda í höndina á mér. Nema auðvitað þetta gangi eins og í sögu eftir þrjár vikur.

laugardagur, janúar 07, 2006

Jólin búin - þrettándinn liðinn og þá tekur maður niður allar skreytingar. Það sama á við um Jólaævintýrisplögg sem gáfu þessari síðu óneitanlega lit og birtu líkt og seríurnar í stofuglugganum. En það sem á ekki við lengur er ekki viðeigandi og því fer sem fer. Það taka líka önnur verkefni við eftir þessi og nú er búið að endurvekja hina stórskemmtilegu vampýruóperu "Bíbí og blakan" upp úr værum dvala og verður hún sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum aðeins eitt kvöld - þ.e. næstkomandi miðvikudagskvöld. Ekki missir maður af því.

Aukalokasýningin í gær gekk með ágætum. Það var algjörlega yfirbókað en eitthvað virtist veðrið draga úr fólki og fyrir rest renndum við stykkinu í allra, allra síðasta sinn fyrir hálf fullum/tómum sal. Ég hélt lóðréttri stöðu og kom öllum línum og lögum svotil óbrengluðum út úr mér og gat ekki beðið um meira. Mæli með bráðri lungnasýkingu ef þið eruð að versla ykkur veikindi - skuggalega auðvelt að jafna sig á henni í ljósi þess að daginn áður var ég með 39 stiga hita og krafta á við dasaðan kettling. Þótt veðurguðirnir hafi ekki verið okkur hliðhollir voru pestaguðirnir það greinlega því ekki var ég sú eina í leikritinu sem rétt marði það að standa sæmileg heilsu á sviðinu.

Annars bíða allir Hugleikarar nú með öndina í hálsinu eftir burði nýjasta sköpunarverks Sigguláru og keppast um að veðja á daga og kyn. Held ég hafi bundið mig við "9. janúar" og "stelpa" einhvern tímann á síðasta ári. Koma svo :)

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Veik. Sigli a.m.k. hraðbyr í áttina að Veik.

Verð afskapleg glöð og hissa ef ég verð frísk á morgun.

Hef rétt svo orku og nennu til að skipta um lag í spilaranum. Ebeneser er dauður. Drullusokkurinn sá.

Húmbúkk.

mánudagur, janúar 02, 2006

Rigningasuddi og grámygla er boðberi nýs árs. Finnst enn sem komið er vanta soldið fútt í þetta en ætla að gefa því séns fram yfir, tja, 3. janúar.

Árómótin voru frekar róleg - a.m.k. rólegri en þau hefðu getað orðið þar sem ég komst í kast við hin djöfullegu djellósjots Stebba, sem hélt sitt árlega áramótateiti. En ég hafði yfirhöndina í þeirri baráttu, greip réttri hendi í óæðri endann um fjögurleytið og kom mér heim. Fann meira að segja leigubíl og var höfuðið mitt afskaplega þakklát þessum skjótu viðbrögðum daginn eftir. Þurfti nú samt að sofa til hálf þrjú til að koma því í samt lag.

Tók meðvitaða ákvörðun um að horfa á allar Matrix myndirnar í réttri röð í gær. Þær eru svo óttalega ruglingalegar og meingallaðar að ég er hrædd um að ég hafi ekki endilega gefið þeim alla sénsa sem þær eiga skilda. Sú fyrsta var jafn góð og mig minnti. Reloaded of löng og treysti um of á tölvugrafík en hélt athygli minni og það virtist vera heil brú í því sem þeir Wachowski bræður (nú Wachowski systkini) voru að segja. Nema djelloshotin hafi unnið slíkan skaða - hver veit. Sú síðasta þurfti reyndar að víkja fyrir Hable con ella í ríkissjónvarpinu. Ég ætla að reyna við hana í kvöld. Held svei mér þá að þær gangi betur upp þegar horft er á þær í einni lotu en ætla að bíða með allar stærri yfirlýsingar þar til verkinu er lokið (og endanlega runnið af mér.)