mánudagur, ágúst 29, 2005

Ég vaknaði upp við vondan draum í morgun þar sem Gísli Marteinn var að mala um að "við Sjálfstæðismenn stöndum saman og keppum að bla bla bla..." Mér finnst ágætt að stilla vekjaraklukkuna þannig að hún kveikir á útvarpinu um leið og hún hringir. Þá get ég vaknað smám saman þangað til einhver í morgunþættinum segir eitthvað nógu heimskulegt til að knýgja mig til fullrar meðvitundar og slökkva á blaðrinu. Ég var 5 sekúntur að vakna í morgun.

Er ekki ennþá heil meðganga í kosningar? Þarf ég að vakna við þetta raus á hverjum morgni í allan vetur? Það verður kaldur dagur í helvíti þegar ég kýs Gísla Martein sem borgarstjóra yfir mig (að því gefnu að hann nái fyrsta sætinu.) Hvað mig og mitt litla atkvæði varðar er ég fullkomlega milli steins og sleggju í kosningamálunum:

Sjálfstæðisflokkur - ég segi nei takk við GMB
Samfylkingin - aldrei í lífinu skal ég kjósa hinn erkisvikahrapp Stefán Jón Hafstein
Vinstri Græni - vænissjúkir
Framsókn - fyrir fólk sem þorir ekki að kjósa sjálfstæðið
Frjálslyndir - plebbar

Í fyrsta skipti í minni 15 ára kosninasögu neyðist ég til að skila inn auðu. Nema auðvitað eitthvað hresst lið stofni bara nýja flokk. Er ekki hægt að kljúfa sjálfstæðar konur frá sínum mönnum? Eða eru þær kannski of uppteknar við bakstur?

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Fyrir þá sem nenna ekki inn á hitt bloggið...

Nýja fína píanóið mitt (ok, lánspíanóið - í 3 ár) sem ég braut nærri bak við að flytja við fjórða mann upp tröppurnar heima hjá mér (og þurfti fyrir vikið bara að borga 12 þúsund):





Sigrún Ýr frumflutti að því tilefni framúrstefnuverkið sitt "Lemja lykla. Fast."

mánudagur, ágúst 22, 2005

Núna langar mig til að nota tækifærið og klappa sjálfri mér aðeins á bakið.

*klapp, klapp*

Síðustu tvær vikur hef ég mætt sjö sinnum í ræktina. Þrisvar síðustu tvær vikur og einu sinni það sem af er þessari. Og - hvort sem þið trúið því eða ekki - þá langar mig til að mæta í dag (en mun ekki gera því í dag er hinn mikli píanóflutningadagur.) Ég skil ekki almennilega hvaðan þessi atorkusemi og hreyfingaráhugi kemur en tek honum fagnandi. Það sem mig grunar að geri gæfumuninn er að hafa niðurneglt plan. Þriðjudaga og fimmtudaga mæti ég strax eftir vinnu, fer í 20 mínútur á bretti og álíki tól og síðan í lyftitækin. Á sunnudögum mæti ég um tvö í æfingafötunum og er 40-60 mínútur á bretti/hjóli og fer svo beint heim í sturtu (það lokar í Hreyfingu kl. 3 á sunnudögum.) Kosturinn við skipuleggja sig svona er að það eyðir allri hugsun að "nú ætti maður að fara að drífa sig" og "kannski ég fari á morgun eða hinn" og "æji ég er búin að mæta tvisvar, það hlýtur að vera nóg." Nú fer ég bara þessa daga og á þessum tímum og hina 4 daga vikunnar slepp ég alveg við að hafa samviskubit. Húrra!

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Ef þú átt Sony Ericsson síma - sérstaklega 700 og 750 týpurnar - er ég með glaðning handa þér. Hérna er pakki með 70 leikjum sem þú getur hent inn á símann þinn og síðan gert ekkert annað næstu vikurnar en að leika þér í pool, tetris, kapli, yatzee, Prince of Persia og undarlegum Kingdom of Heaven leik þar sem þú átt að bjarga pílagrímum frá heiðingjum eða eitthvað álíka - ásamt 65 öðrum sem ég hef ekki haft tök á ennþá að skoða.

Og lengra verður bloggið ekki í dag. Ég var 3 tíma í ræktinni í dag og er nær dauða en lífi af þreytu. Góða nótt (sagt í besta Sigurðar H. Richter mæðutón.)

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Siggalára reið á vaðið og skrifaði langa og ljúfan reiðilestur yfir fordildinni í Stefáni Jóni Hafsteini varðandi aldurstakmarkanir í tónlistarskóla. Svo ég endursegir í stuttu máli (en hvet samt fólk til að lesa frumtextann í öllum sínum dásamlega pirringi) þá hefur SJH töglin og höldin hvað varðar menntamál í borginni og þar sem allir peningar eru búnir úr sjóðskassanum sökum ... tja ... hvert fóru eiginlega peningarnir? ... lagði hann á og mældi um að enginn yfir 25 (í sumum tilfellum 27) ára aldri mætti læra nokkuð á músík. Tónlistarskólum sem hafa sín inntökupróf er því víst ekki treystandi fyrir eigin dómgreind. Ég hef litlu við hið ágæta rant að bæta annað en það að mig langaði til að láta fylgja viðeigandi bút úr þessum hörmungar lögum sem ég fann á heimasíðu FÍH og var full langur fyrir kommentkerfið hennar (mín komment eru í svigum):

Menntaráð tekur ákvörðun um fjölda skóla sem hljóta styrk hverju sinni. (Þ.e. SJH ræður)
Heildarframlög til skólanna ráðast af fjárhagsramma Menntasviðs hvers árs og geta þjónustukaup af skólunum því orðið meiri eða minni en kemur fram hér að neðan. (Þ.e. ef SJH er í vondu skapi. T.d ef skólastjórar eru eitthvað að ybba sig í fjölmiðlum?)

Við úthlutun fjármagns til tónlistarskóla skal tekið tillit til gildandi úthlutunar, en framlög verða þó aldrei hærri en raunverulegur fjöldi nemenda með lögheimili í Reykjavík og kennslumagn vegna þeirra gefur tilefni til.

Þegar þjónustukaup eru reiknuð á grundvelli gildandi úthlutunar skal miða við að skólar geti fengið 95% af áður samþykktum nemendafjölda, en 5% verði úthlutað með hliðsjón af eftirspurn í hvern skóla (sjá þó grein 10).


Þjónustukaup miðast við forskólanám, grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Gert er ráð fyrir að menntamálaráðuneytið greiði hluta kostnaðar við nemendur í tónlistarvali eða á tónlistarbrautum framhaldsskólanna skv. nánara samkomulagi milli ráðuneytisins og sveitarfélaga. (Þýðir það ég get stundað tónlistarnám ef ég skrái mig í menntaskóla? Aldrei hélt ég að stúdentsprófið kæmi mér í koll.)

Þjónustukaup Reykjavíkurborgar miðast við að nemandi sé á aldrinum 4 - 25 ára, en söngnemendur upp að 27 ára aldri. Þetta ákvæði tekur ekki gildi gagnvart nemendum sem stunda tónlistarskólanám skólaárið 2004/05 fyrr en haustið 2007. (Þ.e. ef þú ert þegar skráður í nám. Ég er búin að taka 2. stig í söng en var aldrei formlega skráð í skóla og kem því alltof mörgum árum of seint.)

Menntaráð getur veitt undanþágu frá þessum aldursmörkum við sérstakar aðstæður vegna einstakra nemenda að undangengnu áliti fagnefndar. (Ég sé það ekki gerast í mínu tilfelli. Einnig; SJH ræður.)

Við útreikning á eftirspurn eftir skólavist í tónlistarskóla eru aðeins teknir með þeir nemendur sem eru á aldrinum 4 – 25 ára, en söngnemendur upp að 27 aldri. (Og hvers vegna? Eru miðaldra kerlingar sem halda að þær séu efnilegir sópranar að taka pláss frá Ragnheiðum Gröndulum framtíðarinnar?)

Ef tónlistarskólar hætta eða nemendum fækkar í ákveðnum skólum verður úthlutað samsvarandi nemendafjölda til annarra skóla með hliðsjón af eftirspurn. (Nema eftirspurnin komi frá einhverju pakki eldra en 25 ára)

Framlag til skólanna reiknast á samræmdan hátt skv. reiknilíkani.

Úthlutun miðast við að tónlistarskólanemandi í fullu námi fái 32 klukkustundir á ári í aðalnámsgrein, auk hliðargreina. Skóli getur kennt aðalnámsgrein í smá hópum sbr. 2. grein þessara reglna.
(Þarna vantar mig upplýsingar um hvað það kallar á mikla peninga.)

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að hafna styrkumsókn frá tónlistarskóla á grundvelli 3. greinar laga nr. 75/1985. Ef efasemdir vakna um að skóli standist kröfur er hægt að fara fram á endurstaðfestingu menntamálaráðuneytis. (Þ.e. SJH ræður)

föstudagur, ágúst 12, 2005

Nú þykast einhverjar kellingar sem greinilega leiðist í vinnunni hafa fundið upp nýja skilgreiningu á karlmanninum: úbersexual. Metrósexúal maðurinn þótti víst ekki nógu spennandi þegar til lengdar leit:

(Úbersexúal] eru karlmenn sem eru mjög aðlaðandi, kraftmiklir og eru þeir sem bera af meðal jafnaldra sinna. Þeir hafa sjálfstraust án þess að vera hrokafullir, karlmannlegir, bera skynbragð á tísku og gæðum á öllum sviðum. Úbersexúal-karlmaðurinn leggur meiri áherslu á sambönd en metrómaðurinn en er jafn spenntur fyrir innkaupaferðum og hann. Áherslan er þó á ákveðna hluti en ekki verslunaræði verslunaræðisins vegna.

Bestu vinir úbersexúal-karlsins eru karlar en konur eru aldrei félagar hans. Lykilatriði hjá úbersexúarl-karlinum, segir þríeykið sem fann um metrómanninn, eru hefðbundin karlmennskugildi eins og kraftur, heiður og skapgerð í blandi við jákvæð kvenleg gildi eins og umönnun, samskipti og samvinnu.


Ég er hreinlega gáttuð. Í kjölfar þessa spánýja uppspuna ku metrómaðurinn víst vera dauður. Því það má víst aðeins vera til ein klisjukennd og ímynduð týpa! Var ég kannski eitthvað að misskilja: ég hélt að metrómaðurinn væri lýsing á týpu sem væri til - hvernig getur þessi bara allt í einu komið í staðinn? Ég leyfi´mér að efast um að metrómenn allra landa hafi hrokkið upp með andfælum einn daginn og ákveðið sem einn að snúa baki við metrólegum hegðunum. Var metrómaðurinn kannski aldrei til? Eru þær að halda því fram að úbermaðurinn komi í staðinn? Því hann er allt öðruvísi. Mér finns líka grunsamlegt hvernig hann á að bera af meðal jafnaldra sinna. Sem þýðir að hann er í miklu minnihluta. Enda ekki skrítið því ég fæ ekki betur séð en hér sé einungis um uppskrift af ástmögrinum í rauðu seríunni að ræða. Ég legg til að þessar manneskju leggi frá sér kiljurnar og fari að svipast um í kringum sig og kannski rýna í hina rauðverulegu karla. Nú eða bara hætta að draga fólk í yfirborðskennda dilka. Allar kventýpur eru orðnar langþreyttar og ómerkar - því skyldu karlarnir að þurfa að lúta sömu meðferð?
Þetta er allt í áttina...

* Svo ég gæti hætt að tjá mig um leigandamál: það er allt í rjóma og sóma á þeim vígstöðvum. Ég er komin með peningana mína og stelpan á leið í herbergið. Allir eru sáttir og hamingjan lekur af veggjum hússins.
* Ég er hef verið gasalega dugleg í ræktinni þessa vikuna. Finnst mér. Ójá - ég mætti á sunnudag og mánudag, get hreyft hvorki legg né lið fyrir þreytu þriðjudag og miðvikudag en mætti galvösk í gær. Ætla að fara aftur eftir vinnu í dag og hef þá fullnýtt þennan 6 daga passa eftir bestu getu. Næsta skref er að frjáfest í mánaðarkorti og reyna að fullnýta það líka. Spræk sem læk í september skal verða mitt viðurnefni.
* Ég baðst undan ferðalagi í kringum landið á rúmum sólarhring. Auðvitað er alltaf gaman að mæta á Hraunball en að hossast 700 km í bíl til þess eins - og það tvisvar á jafnmörgum dögum - finnst mér fulllangt gengið. Í staðinn mum ég heilsa upp á fjölskylduna og njóta andaslitra sumarsins í Reykjavík.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Ég veit ekki hvað skal halda...

* Það bólar ekkert á leigjendanum, hvorki hvað innflutning né peninga varðar.
* Lísa skilaði sér loksins heim. Ég fann hana í felum í kjallaraherberginu í gær. Hún er sármóðguð yfir meðferðinni og gengur um síkvartandi. Gabríel er farinn í epíska fýlu.
* Fólk hlýtur að vera fætt með gjörólíka bragðlauka frá manni til manns. Það er það eina sem útskýrir ananas og brauðsúpu. Og salatið sem ég bjó til í gær. Mér var sagt að eftirfarandi samsetning væri ólýsanlega gómsæt: tómatar, rauðlaukur, ferskur kóriander, lime-safi. Ég kom niður tveimur bitum og henti restinni. Það var kóriander stybba af puttunum í heila eilífð á eftir. Blah.
* Það er bara ágætt að vera mætt aftur til vinnu.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Hér eru sviftingar þessa dagana:

* Ég er komin með glansandi fína leigjendastelpu sem lítur ekki út fyrir að vera týpan sem laðar að sér dópista og handrukkara
* Fríið er búið í bili og vinna hefst í fyrramálið
* Kisa litla er týnd og, að því er virðist, tröllum gefin. Hún sást síðast á miðvikudaginn flýja undan mér bak við horn. Ég ætla að hafa samband Kattholt á morgun. Gabríel er himinn lifandi.
* Í dag brúkaði ég 6 daga passann í Hreyfingu sem ég fékk hjá Jóni Geir. Ætla að gera slíkt hið sama næstu 5 daga og sjá hvort ég hef ekki nennu í að kaupa heilt kort.
* Ég fann loksins Leiðarvís í ástarmálum eftir Ingimund Gamla og Madömu Tobbu eftir mikla leit. Þessi eðal leiðarvísir frá árinu 1922 hverfur regulega á mínu heimili og birtist aftur aðeins þegar hann vill láta finna sig. Þarna er um að ræða sérlega nytsama og hjálplega bók og þótt eitthvað af leiðbeiningunum standist ekki hörðustu feminísta staðla ("Sú kona, sem elskar manninn sinn, leitast aldrei við að kasta skugga á húsbóndstöðu hans á heimilinu. Þvert á móti. Henni er ánægja að því að draga sig í hlé, ef kostir hans koma frekar í ljós við það. Jafnvel þótt hún sé meiri gáfum gædd en eiginmaður hennar, gætir hún þess af auðæfum elsku sinnar, að láta sem minnst á því bera") og sumar séu blátt áfram barnalegar ("Það er afarljótt, þegar konur reykja og neyta áfengis á samkvæmum eða á veitingahúsum og það ættir þú aldrei að gera") er bókin rituð af svo fordæmalausri íslenskri skynsemi að erfitt er að finna að flestum ráðunum. Því hvorugt kynið er undanþegið hollráðunum: "Þér er eigi nóg að nota skoðanir Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins - sem breytast stundum daglega -, heldur verður þú af eigin dómgreind að gera mun á réttu og röngu. Þú verður að temja þér rökrétta hugsun, því að djarfur hugsunarháttur er mikils virði í augum kvenfólks." Eins og áður sagði er bókin ritið árið 1922 (og mýmörg dæmi um biðlanir skötuhjúanna til íslenskra ungmenna um að bursta tennurnar og fara í bað bera með sér) og því væntanlegt ýmislegt í henni sem þurfti að segja kyrfilega undir rós eða bara alls ekki. Einum degi eftir gay pride er svolítið freistandi að lesa þessa klausu í nýju samhengi: "Sumar konur virðast fæddar með þeirri hamingu að vera pilta-gull, en eigi eru þær að fremur meiri mannkostum búnar en hinar, enda eru þess mörg dæmi, að bestu kvenkostirnir sitja auðum höndum á akri ástarinnar og fá eigi aðhafst - af ýmsum ástæðum."

Hmm...

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Nýja tengingin er voða fín þegar kemur að alls kyns niðurhali en er soldið treg við að hleypa mér um vafrarana. Því kallar það á sérstaka viðburði að ég nenni að troða mér inn á blogger til að segja frá. Oftar en ekki er miklu einfaldara að blaðra í hina lifandi dagbók. En nú er viðburður - eða öllu heldur tilkynningaskylda:

Mig langar til að læra á gítar.

Einnig: Nornabúðin sem samnornir Eyrún og Eva* opnuðu kl. 2 í dag á Vesturgötu 12. Þori ég að fullyrða að aldrei hefur sést hennar líki í okkar samfélagi og sjaldan hefur nokkur búð verið jafn vel réttnefnd. Þar er gjörsamlega allt að finna sem hægt er að hugsa sér í tengslum við galdur og talsvert sem ekki er hægt að hugsa sér þar að auki. Og að sjálfsögðu allt borið fram á vægu verði ásamt kaffi og meððí eins og hæfir í hinu opinbera musteri mammons. Vil ég óska þeim ógrynni af farsæld og sandhólum af seðlum.


* Hefur reyndar gleymst að gera Evu að formlegri Naflalóarnorn en það kann varla nokkrum að dyljast að hún er það nú bara samt.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Það hafa allir séð nýju útgáfuna af Hlemmi ekki satt? Fyrst hélt ég að ég væri ofboðslega glöð að sjá Laugarveginn loksins kominn í sinn rétta farveg - þrátt fyrir hálf ruglingslegt gatnamótasystem. En svo fór ég að hugsa mig um og á mig renna nokkrar grímur. Því ég get ekki betur séð en um tapaða kynjabaráttu sé að ræða.

Einhverra hluta vegna er Laugarvegurinn fastur í mínum huga sem karllegur; hann er aðalgatan, liggur ofar en Hverfisgata, þar eru allir peningarnir og straumurinn liggur aðeins í eina óhaggaða átt. Hverfisgatan hins vegar er hálfgert gettó, búðirnar fáar og raka litlu inn, umferðin þrvöngvar sér í báðar áttir um mjóan veginn. Þar er afþreyingin; leikhús, bíó, pool. Amma bjó þar síðustu áratugi ævi sinnar og mamma ólst þar upp. S.s. Mér hefur alltaf þótt gatan hafa kvenlega eiginleika - sérstaklega við hliðina á hinum "æðri" partner sem Laugarvegurinn er. Nöfnin á götunum hjálpa svo auðvitað við að styrkja þessa ímynd (vegur - kk., gata - kvk.) Það sem bjargaði Hverfisgötunni frá algjörri hliðrun var sú staðreynd að á endasprettinum skákaði hún Laugarveginum og tók af honum bæði nafnið og almennilegan endapunkt í glæsilegum gatnamótum. Gamli Laugarvegurinn sem byrjaði með svo miklu stæl upp úr Bankastrætinu endaði í frekar sorlegu bílastæði og fékk ekki einu sinni ljós til að marka leiðarendann. Hverfisgata fékk ekki bara ljós - hún brunaði með sína farþega beint inn í Laugarveginn og skilaði þeim síðan í hendurnar á Suðurlandsbraut (annarrar kerlingar) skömmu síðar. Og þarna sat broddurinn á Laugarveginum, steingeldur á milli soldið sjabbí en glaðhlakkandi kerlingarbrauta.

Auðvitað mátti ekki svo við una.

Nú er búið að laga kynjaruglinginn. Bílastæðislíkinu hefur verið útrýmt þar sem núverandi Laugarvegur brunar beint í gegnum það og endurheimtir restina af sér. Fær nú óslitna braut og glæsileg ljós í lokin. Hverfisgatan hins vegar endar einhvern veginn í engu þar sem ljósin eru farin og aðeins strætó má aka síðasta spölin. Þar sem Laugarvegurinn tók áður við Hverfisgötunni er nú mjó einstefnugata sem liggur niður úr Laugarveginum, meðfram lögreglustöðinni og inn í Hverfisgötuna. Þvert á upphaflega einstefnuleið. Þannig að nú er Laugarvegurinn ekki aðeins búinn að loka fyrir allt flæði og uppstokkanir heldur er hann byrjaður að þröngva sér leið inn í hina áður óspjölluðu en frökku götu.

En týpískt.