miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Athugið: í dag er Ásta sem útspýtt hundsskinn. Sýnið aðgát. Var sífellt að vakna í nótt og þurfti þar að auki að díla við ansi ósléttar daumfarir. Smáatriðin eru dofnuð - sem er allt eins gott því fátt er jafn leiðinlegt og draumaþus í bloggum - en þó veit ég að ég var að reyna að leika í leiksýningu og gerði það illa. Þó tókst mér að dröslast í gegnum hlutverkið og fólk reyndi að segja mér að það hefði ekki verið svo slæmt. Sem er skref upp á við frá því fyrir nokkrum vikum þegar ég mig dreymdi svipaða draum nema þar gleymdi ég innkomum, lét fólk bíða eftir mér á meðan ég leitaði að handritinu baksviðs því ég var búin að gleyma textanum og stóð síðan fyrir miðju sviði og blaðaði í textanum án þess að finna rétta staðinn. Það var verra.

Nú spái ég í því hvers vegna undirmeðvitundin er markvisst að reyna að grafa undan sviðsöryggi mínu. Kannski er of langt um liðið síðan ég lék í einhverju - rúmt ár(Margt smátt telst varla með því það var framkvæmt með aðeins hálfri vitund) en líklegra er þó að þarna sé heilaófétið að beita hentugri og nærtækri táknmyndir með vísun í eitthvað allt annað. Sennilega leikstjórnina. Og bið ég það hér með pent um að hætta því hið snarasta. Leikstjórnin gengur vel - ég þarf bara að redda fullt af litlum smáatriðum og er hrædd um að gleyma einhverju mikilvægu. Líkurnar á því aukast bara ef ég þarf að muna eftir hlutum alvarlega svefnvana.

Og nú er ég farin til að brjótast inn í Þjóðleikhúskjallarann og mæla sviðið.

mánudagur, nóvember 26, 2007

Ég er þreytt. 20 villtir hestar gætu ekki fengið mig til að endurskrifa allt það sem blogger var að enda við að glutra niðrum klofið á sér.

Í stuttu máli:

1. Heimasími óáreiðanlegur - best að hringja bara í gemsa

2. Setti ljós yfir vaskinn - minnka hættu á magakveisu

3. Fór í klippingu - heysáta horfin.

4. Hraun að rokka feitt. Feitar en flestir aðrir. Og hana nú.

Óverendát.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

Óperunni er þá lokið og tókst bara með glæsibrag. Ennþá er smá frágangur eftir - koma búningum aftur á sína staði o.þ.h. - en að öðru leiti get ég loks snúið mér alfarið að öðrum hlutum. Ég ætla mér að leikstýra í fyrsta skipti og svo er kominn tími til að bretta upp ermar og taka almennilega rispu í klippingum. Bæði myndbanda- og hárslegs eðlis. Ég leyfði klippingum á Hugleiksleikritum að frestast fram yfir óperu og höfuð mitt var síðast rúið af einhverri fagmennsku í janúar síðastliðnum. Það er ekkert sem hindrar mig í setjast við tölvuna en hvað hárið varðar... ég veit bara ekki hvert ég á að fara til að fá almennilega klippingu. Og er ekki alveg tilbúin til að borga morðfjár fyrir slíkt. Veit einhver um ódýra og góða hársnyrtistofu? Er slíkt kannski oxymoron? Get ég allt eins brugðið skærum á mig sjálf yfir baðkarinu?

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Vita ekki allir af Schubert óperunni sem ég er í - og ætla að mæta? Frumsýning er á morgun og generalprufa í kvöld og ég á ennþá eftir að klára einn kjól. Þetta væri svo miklu einfaldara ef ég þyrfti ekki að vinna eða mæta í skóla. Sem betur fer er mjög skynsamlegt sýningaplan á verkinu þar sem sýnt verður í þrjá daga samfleytt - frí í einn - og svo lokasýning á þriðjudag. Laugar- og sunnudagssýningarnar eru kl. 3 um daginn.

En myndir segja vonandi meira en orð:




Dr. Tóta smalar riddurum



Rannveig er greifynjan Ludmilla



Rakel, Anna Vala og Laufey



Já. Úff. Eftir að ég sá þessa mynd fór búningur Benedikts (Udolin) í yfirhalningu og Tinna (Isella) fékk nýjan kjól (eða fær þegar ég klára hann).