föstudagur, júlí 23, 2004

Hvað er skemmtilegra heldur en að fara í fýluferð upp í Heiðmörk í rigningunni?  Tvisvar?!

Hnuss!

Kom á daginn að frilluhlutverkið sem ég átti að taka að mér var mannað og ég skyndalega komi í hlutverk illa gerðs hlutar.  Verð því seint í sjónvarpinu og er merkilega sátt við það.  Útvarpið dúkkaði hins vegar óvænt upp þarna og vildi fá smá bút úr leikritinu og tók ég þátt í því.  Hef ekki hugmynd hvenær það verður flutt eða á hvaða stöð.

Má ekki vera að þessu rugli - þarf að einbeita mér að reikningunum.
Hún Sigga mín Lára er orðinn útvarpsbloggari með meiru eins og sjá má.  Þeir sem taka vel ígrundað útvarpsefni fram yfir upplognar fréttir og gamanþáttaþunnyldi ætti að stilla á Rás 1 kl. 18:28 næstkomandi laugardag (á morgun.)

Sjálf er ég meira fyrir ljósvakamiðlana og hef verið skikkuð upp í Heiðmörk eftir svona hálftíma til að vera í atriði úr leikritinu fyrir einhverja sjónvarpsstöðina.  Er annars kominn á skrítinn, rólegan stað sem mér dettur aðeins í hug að kalla stilluna fyrir storminn.  Er með myndarlega reikningabunka fyrir framan mig sem ég þarf að klára pronto - helst áður en ég fer upp í Heiðmörk - og er svo bara að blogga í mestu makindum. 

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Þá er best að byrja að plögga - áður en ég fer í frí og inn í tölvulausa tilveru.

Smellið á myndina til að sjá stærra kort af leiðinniLeikfélagið Sýnir frumsýnir hina arfafyndnu Stútungasögu undir berum himni í Furulundi í Heiðmörk (afleggjari frá Suðurlandsvegi).   
 
Frumsýning laugardaginn 24. júlí kl. 15:00 í Furulundi í Heiðmörk   
2. sýning sunnudaginn 25. júlí kl. 16:00 í Furulundi í Heiðmörk   
3. sýning fimmtudaginn 5. ágúst kl. 20:00 í Furulundi í Heiðmörk   
4. sýning laugardaginn 7. ágúst kl. 10:00 á Dalvík   
Lokasýning laugardaginn 14. ágúst kl. 16 í Furulundi í Heiðmörk
 
Aðgangseyrir 500 kr. seðill (ATH getum ekki tekið kort). Frítt fyrir börn 12 ára og yngri.
 
Miðapantanir í síma 616-7191 eða í tölvupósti
synir@visir.is
 
Um leikritið og leikhópinn (sjá einnig frétt á
www.leiklist.is):Í leikritinu er að finna ýmsar nýstárlegar kenningar um Íslandssöguna og það hvernig stóð á því að Ísland varð hluti af norska konungsveldinu áSturlungaöld. Þar er hulunni t.d. svipt af því hver skrifaði Njálu og því hvers vegna íslensk skáld voru alltaf að semja drápur til að flytja fyrirkóngafólkið í Noregi.  Áhorfendur kynnast einnig frillulíferni biskups, berdreyminni yngismey og blómalestri. Húskarlar vega hver annan með sverðum,kyndlum er brugðið á loft og eldur lagður í bæi. Um þrjátíu manns taka þátt í uppfærslunni.
 
Leikfélagið Sýnir samanstendur af áhugaleikurum víðs vegar að af landinu, og er starfsemi félagsins fyrirferðamest yfir sumartímann en síðustu fimm árhefur félagið sett upp stóra útisýningu á hverju sumri. Í fyrra var Draumur á Jónsmessunótt, eftir William Shakespeare, sýndur í Elliðaárdalnum ogkomust færri að en vildu. 
 
Leikstjóri sýningarinnar er Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, sem lauk nýlega námi í leik við ArtsEd í London í Bretlandi og er þetta fyrsta stóraleikstjóraverkefni hans hér á landi. Hann mun fara með hlutverk Úlfhams í verki byggðu á Úlfhamssögu, sem Hafnarfjarðarleikhúsið ætlar að takast á viðí haust.Stútungasaga var fyrst sýnd af Hugleik vorið 1993 og hefur frá því verið sett upp af áhugaleikfélögum víða um land. Leikritið er eftir ÁrmannGuðmundsson, Hjördísi Hjartardóttur, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason.
 
Leikfélagið Sýnir

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Búningarnir eru komnir!  Hjúkk - nú getum við loksins farið að æfa fyrir alvöru.  Ég fæ þröngan grænan kjól með gullbryddingum á ermum og hálsmáli.  Verð ofboðslega frilluleg og engin tjöld í sjónmáli.  Ætla annars ekkert að tjá mig um æfinguna í gær - fá orð - lítil ábyrgð o.s.frv.

Mér til mikillar hrellingar heldur lífið áfram að gerast þótt ég sé að fíflast í einhverju leikriti.  Ég á t.d. heimili sem þarf víst að hugsa um.  Ég hef tekið þá ofur heilbrigðu ákvörðun að ekkert verði tekið til fyrr en ég sé farin í frí og er ég mjög sátt við hana.   Það er öllu verra með kjallarann þar sem pípur eru að gefa sig og ekkert heitt vatn að hafa.  Ég hef bara ekki tíma til að standa í þessu.  Hringdi samt í ofurbissí pípara sem stofnunin skiptir mikið við og get sennilega fengið hann á föstudaginn.  Verð líklegast að láta Helgu nágrannakonu sjá um öll smáatriði við að díla við hann.  Nema Sigga Lára hafi einhvern tíma.  Meh - þetta reddast.  Á meðan geta strákarnir í kjallaranum bara skellt sér í sund - nógu gott er veðrið.

Hvað umheiminn almennt varðar - pólitíkst veðurfar og menningalega strauma - veit ég ekki betur en að hann sé ekki lengur til.  Miðpunktur alheimsins er uppi í Heiðmörk og þeir sem mæta ekki og kíkja á listaverkið skulu fá að eiga mig á fæti (eða taka um fót minn - hvort heldur sem er.)

Góðar stundir.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Ég er vond frænka og hef ekki sinnt tilkynningaskyldunum sem ... ja skyldi.  Ég var búin að minnast á að bróðir minn hefði eignast dóttur 8. júlí og að hún heitir Sigrún í Ýr í höfuðið á móður minni og móður sinni.  En ég hef ekki komið með neinar myndir sem er auðvitað argasta hneisa.  Verð að sjálfsögðu að bæta úr því í hvelli:
 
 Ég verð að hætta að tala um leikmeiðsl mín - ég fæ sorglega litla samúð út úr því og hrín svo bara á mig meiri meiðslum í leiðinni.  Sem dæmi: í gær tjáði ég mig um að ég yrði að hætta að leika áður en ég slasaði mig alvarlega.  Síðan fór ég á leikæfingu þar sem ég flæktist í einhverrum rótartjáum og flaug á hausinn.  Fyrsta hugsunin var að buxurnar hefðu rifnað og var mikill léttir að sjá að svo var ekki (bara soldið skítugar).  Svo tók ég eftir hægri lófanum.  Þetta er ekki skráma - það einfaldlega vantar myndarlegt stykki í holdið fyrri neðan þumalinn.  Sem betur fer var hægt að redda pappír til að stöðva blóðrennslið og svo almennilegum plástri.  Ég hef smá áhyggjur af því að ég eigi eftir að vera með holu í lófanum um alla framtíð en þó truflar það mig meira að einhvers staðar uppi í Heiðmörk (og ég veit nákvæmlega hvar) liggur lítill rotnandi bútur af mér.


mánudagur, júlí 19, 2004

Þetta er nú gæðamyndefnið sem Mogginn býður upp á.  Ég tek það fram að ég hef ekkert minnkað myndina - hvorki að stærð né gæðum - svona er hún beint úr kúnni (Moggavefnum)
  
LEIKFÉLAGIÐ Sýnir notaði góða veðrið í gær til að taka eina æfingu á leikritinu Stútungasaga í Heiðmörk.
Leikfélagið samanstendur af leiklistaráhugafólki úr leikfélögum um land allt sem sameinast á sumrin í Sýni, sem setur upp eina leiksýningu á sumri undir berum himni.
Stútungasaga er leikrit eftir þau Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson, Hjördísi Hjartardóttur og Þorgeir Tryggvason. Sagan gerist á Stútungaöld og gerist á þeim tíma er Íslendingar ganga Noregskonungi á hönd.
Á myndinni gefur að líta brúðkaup þeirra Jórunnar Ásgrímsdóttur og Haka Granasonar en þau Anna Bergljót Thorarensen og Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson eru í hlutverkum þeirra. Guðjón Pálmason leikstýrir sýningunni.
Stútungasaga verður frumsýnd í Furulind í Heiðmörk næstkomandi laugardag klukkan 15.

 
Það var s.s. þessi líka dýrindis 6 tíma æfing í Heiðmörkinni í gær - glampandi sól, gargandi krakkar og ljósmyndari frá Morgunblaðinu.  Ég er pínu útitekin.
 
Það er reyndar heila sannleikur - var dugleg að maka á sólarvörninni og er ekkert bruninn þrátt fyrir viðveru hinnar stórhættulegu Íslandssólar.   En hvernig var máltækið aftur ... þegar Guð opnar einhvers staðar glugga skellir hann aftur hurð með svo miklum látum að glymur um allt himnaríki og englar detta á bossann.  Eitthvað í þá veru.  Er blessunalega brunalaus - og meira að segja óðelilega spræk í bakinu - en er komin með glæsilegt mýbit á vinstri öxl og er með svo miklar harðsperrur í hægra (og bara hægra) læri að ég er varla gangfær.  Hef komist að þeirri niðurstöðu að leiklist er íþrótt og þar sem íþróttaiðkunargenið er ekki til í minni fjölskyldu er mál komið að ég dragi mig í hlé áður en ég slasa mig virkilega alvarlega.  Auðvitað ekki fyrr en eftir þessa sýningu.  Frillur Geirs bjúga eru jú lykillinn að öllu verkinu.
En það var líka gott veður á laugardaginn og þar sem okkur hafði verið bolað úr Furulundinum fundum við annan lund til að vera í og héngum þar í hálfgerðu skipulagsleysi fram eftir degi.  Kannski var veðrið bara of gott:
 


fimmtudagur, júlí 15, 2004

Við Sigga Lára vorum um daginn að ræða um ... ja hvað vorum við að ræða um? Heilinn á mér er álíka áreiðanlegur og ryðguð sigti þessa dagana. Mig rámar í að um hafi verið að ræða eitt stykki samtal. Eitthvað held ég að það hafi tengst kaupum okkar á DVD pökkum. Eina sem ég veit með vissu að eftir liggur löngun til að linka á Amazon óskalistann minn (sjá linka hér á hægri hönd) í þeirri veiku von um að góðhjörtuð sál muni aumka sig yfir mér og kaupa handa mér dót algjörlega að óþörfu. Gæti gerst! Litli bróðir minn er farinn að drekka kaffi þannig að ekkert er ómögulegt.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Af hverju get ég ekki haldið úti almennilegri fýlu svona einu sinni? Þessi varði rétt svo í sólarhring og gufaði síðan upp eins og dögg fyrir sólu. Og það þótt að slagveður hafi verið í Heiðmörk í gærkvöldi. Endurskoðum listann:

- bak sem vill ekki lagast (ekki svo slæmt eins og er)
- óklífanlegt reikningafjall (reikningar smeikningar)
- æfingar á hverju kvöldi næsti 10 daga þar sem ég fæ að sitja og frjósa úr kulda í þrjá tíma í senn (þá klæðir maður sig bara vel unga stúlka - svo vel að maður á föt afgangs til að lána illa klæddum vesalingum)
- engan möguleika á að taka frí þessa viku eða næstu (en svo fer ég líka í tveggja vikna frí - ekki amalegt)
- ennþá enga heimatölvu (en er með glænýja vinnutölvu)
- enga peninga (hver getur ekki lifað á loftinu?)
- enga sól (eins gott - þetta er stórhættulegur andskoti)
- enga glætu (tralalala)
- engan sundbol (ég á tvo gamla sundboli sem ég nota bara í neyð - og ætti að geta náð í þann þriðja til Nönnu í hádeginu)
- ósamstarfsfúsa ketti (þetta eru ágætis grey)
- vælulegan tón í röddinni og þunglamalegt yfirbragð (smæl!)

Ekki að allt sé sólskin og spékoppar þessa dagana. Ég stend sjálfa mig að því að stressa mig út af smáatriðum í samandi við leikritið nú þegar það eru bara 10 dagar í frumsýningu. Smáatriðum sem ég hef enga stjórn á og eru engan veginn mín ábyrgð - hlutum eins og skiptingum, tæmingum, staðsetningu áhorfenda, leikmunum og búningum. Ekkert sem er í mínum verkahring að hafa áhyggjur af. Í raun þarf ég bara að muna mína söngtexta og þessar tvær og hálfa setningu sem mér voru úthlutaðar og mæta á réttum tíma. Kannski er ég bara vön að vita meira hvar hlutirnir eru staddir á þessum tímapunkti. Ég er a.m.k. búin að venja mig á það að hafa áhyggjur af gervunum og þar sem engir búningar hafa sést ennþá - engin mál hafa t.d. verið tekin af leikurum og ég er manneskja sem þarf helst að taka mál af ef vel á að fara1 - er mig pínulítið farið að klæja í puttana að skipta mér af. Sem er auðvitað helber flónska. Ég er loksins búin að koma mér í þetta fína ábyrgðarlausa hlutverk og er svo að sækjast eftir óþarfa hausverk!

1Kannski er hugmyndin af setja mig í tjald eins og í Sirkus. Ég sem var að vonast eftir því að þar sem ég leik nú frillu fengi ég að hafa mitti svona einu sinni.

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Ég vildi bara koma því til skila að lífið er ömurlegt. Því til sönnunar hef ég:

- bak sem vill ekki lagast
- óklífanlegt reikningafjall (fyrir hverja 20 sem ég klára fæ ég svona 50 nýja í andlitið)
- æfingar á hverju kvöldi næsti 10 daga þar sem ég fæ að sitja og frjósa úr kulda í þrjá tíma í senn
- engan möguleika á að taka frí þessa viku eða næstu
- ennþá enga heimatölvu
- enga peninga
- enga sól
- enga glætu
- engan sundbol
- ósamstarfsfúsa ketti
- vælulegan tón í röddinni og þunglamalegt yfirbragð

Einnig er mig farið að gruna að ég sé að verða veik - annað hvort það er bara dauðþreytt á sál og líkama. Í öllu falli hefði ég gott af almennilegu fríi og góðri hvíld en alas það er ekki á dagskrá. Venjubundið félags og fjölskyldulíf verður líka að fá að bíða betri tíma. Vill einhver rota mig næst þegar mér dettur í hug að taka þátt í leiksýningu?

Takk fyrir áheyrn

mánudagur, júlí 12, 2004

föstudagur, júlí 09, 2004

Ég held að ég sé búin að átta mig á þessum bakveikisvandamálum - þ.e.a.s. er komin með líklega orsök. Er með skrifstofustól dauðans. Ég var í fríi í gær á meðan ég passaði Gísla Hrafn og Hebu (foreldrar þeirra fóru á spítalann að eiga barn - sem fæddist í gærkvöldi - Sigrún Ýr, 18 merkur!) og bakið mitt snarbatnaði. Svo í morgun var ég búin að sitja í vonda stólnum í svona korter þegar ég fann að bakið var allt að stífna upp á nýtt. Fór því og náði í gamlan skrifstofustól inni í geymslu og það er allt annað líf. Þarf að vísu að taka armana af honum og ég hefði örugglega bara gott af því að fara í sund en þetta horfir allt á bjartari og betri veg.

Næst á dagskrá er að kíkja aftur út á nes og heilsa upp á nýju frænkuna (þau koma heim af spítalanum í dag) og svo held ég svei mér þá að ég komist á æfingu í kvöld.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Jæja ágæta bakveika fólk - nú vantar mig ráðleggingar. Þannig er að ég byrjaði að fá í bakið fyrir rúmum tveimur vikum og það virðist ekkert ætla að lagast. Fram að þessu hef ég þó getað haldið verkjunum í skefjum með ABC hitaplástrum. En eitthvað gerðist um helgina. Sennilega hefur álagið við langt ferðalag fram og til baka svo og lega á hörðum dýnum haft sitt að segja. Ný er ég nefnilega ómöguleg - bakið allt stíft og aumt - mjóbakið allra verst - og plástrarnir gera lítið sem ekkert gert. Er að bryðja ibúfen og naproxen en er samt illt. Spurningin er hvort ég eigi að fara til læknis og láta hana segja mér að taka íbúfen og fara í sund eða hvort ég eigi að koma mér til sjúkraþjálfara. Er ég að gleyma einhverri töfralausn? Hvað mundu þið gera?

mánudagur, júlí 05, 2004

Trékyllisvík við sólarupprásStatus:

Tölva: í lamasessi

Bak: ónýtt

Þreyta: 96% (ef 100% er dásvefn)

Ánægja með helgina: 124%

Fjöldi fyrrum skólasystkina sem kynni voru endurnýjuð við: 2 (Ásaskóli, Verzló)

Dagar þangað til bróðurdóttir mín fæðist: 4

Vilji til að mæta á æfingu í kvöld: 13%

Vinna sem bíður mín: of mikil til þess að ég geti dúllað mér við blogg alveg strax

Þarf líka að koma myndunum inn áður en ég get sagt almennilega frá helginni.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Ég get svarið það að ég svindlaði ekki!

Þú hefur hlotið 51 stig

Persónuleiki þess sem fær á milli 51-60 stig:
Fólki finnst þú spennandi, mjög hviklynd og hvatvís persóna sem búir yfir sönnum hæfileikum til stjórnunar. Þú ert fljót að taka ákvarðanir, þó þær reynist ekki alltaf réttar. Fólki finnst þú djörf persóna sem sért tilbúin til að taka áhættu og njótir ævintýranna sem þú tekur þátt í. Fólk nýtur návista við þig vegna orkunnar sem er allt í kringum þig.

"Persónuleikaprófið"

Orð á borð við "hvatvís", "stjórnun", "djörf" og "orka" notuð í tengslum við mig? Augljóslega ekkert að marka þetta.