mánudagur, apríl 30, 2007

Ég veit ekki með ykkur en mitt atkvæði fer til Úkraínu í árMyndband mögulega vinnuóhæft (NSFW).

Viðbót: Einnig með texta

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Mikið svakalega hefur visir.is dalað undanfarin ár. Einu sinni vann þarna fólk sem lagði metnað sinn í koma með vel skrifaðar og tímabærar fréttir en ég veit ekki hvaða sauðir eru við stjórnvölin þarna núna. Ekki finn ég upplýsingar um það á síðunni.

Það er svosem engin ein frétt sem er að fara fyrir brjóstið á mér heldur samansafn af ýmsum illa skrifuðum fréttum undanfarna mánuði þar sem málfarið og úrvinnslan var ekki samboðin illa ritandi örvita á huga.is. Þó fékk þessi frétt þann vafasama heiður að fylla mælinn. Til samanburðar má líta á sömu frétt á mbl.is - þar sem ennþá virðist vera til eitthvað sem heitir vinnubrögð.

Sömu hlutir að koma fram í báðum fréttum og þessi á vísi reyndar aðeins betur skrifuð en margar hafa verið upp á síðkastið (engar enskuslettur í þetta skipti) en lítil atriði í framsetningunni geta haft svo mikið að segja. Þannig virðist Vísis fréttin hafa gefið einhverjum geðsjúklingi leyfi til að réttlæta nauðganir í kommentunum og jafnframt segir valið á myndinni - og textanum undir henni - þeim sem eru móttækilegur fyrir slíkum skilaboðum að þær séu nú allar ýlandi dræsur hvort eð er og kannski hafi norsku perrandi bara rétt fyrir sér.

Glæsilegt.

Það skiptir líka ansi miklu máli á hvernig orðum frétt er lokið - því það eru gjarnan þau sem sitjast fastast í lesendum. Mbl.is klikkir út með vonbrigðum norskra stjórnmálamanna á meðan Vísir.is talar um að há prósenta telji að ef konur klæði sig djarflega "sé nauðgun að hluta eða alveg henni að kenna".

Ekki vil ég hafa þá yfirlýsingu sem mín lokaorð. Fyrst ég get ekki sagt upp fríum vefmiðli verð ég láta mér duga að taka hann út sem aðalsíðu í vafranum og sverja og sárt við leggja að fara aldrei þangað aftur.

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Beljurnar vita hvað þær syngja. Nú er ég að koma undan vetri og eirðarlaus sem aldrei fyrr. Þolinmæðin gjörsamlega á þrotun og löngun til að gera eitthvað að heltaka mig. Brjótast út úr fjósinu og dansa á túnum. Fjósið verandi Ísland og/eða vinnan mín í þessu samhengi.

Ég var kölluð "vinan" í 600raðasta skipti í símanum í morgun. Eitthvað snappaði.


þriðjudagur, apríl 17, 2007

Það eru allir svo fjári aktífir og hæfileikaríkir í kringum mig þessa dagana:

* Gummi Erlings frumsýndi fallegu og skemmtilegu heimildamyndina, Tímamót sem öllum er hollt að kíkja á.

* Bingó er að sjálfsögðu snilldin ein og skyldumæting takk fyrir.

* Sýningum á Epli og eikum fer að ljúka og firra að missa af því frábæra verki.

* Stúdentaleikhúsið frumsýndi, um leið og "Bingó", leikritið Examinasjón í leikstjórn Denna og undir tónlistarstjórn Bibba. Brjálæðislega fyndin, vel unnin og hæfilega grótesk sýning um rassfasisma og mannlegt eðli. Ég sá ekki Allra kvikinda líki hjá LK á sínum tíma - sem var unnin upp úr sama efnivið og undir stjórn sömu manna - en ef hún var lík þessari þá missti ég af miklu.

* Það var svo gaman að sjá leikstjórana á öllum þremur ofangreindum sýningum skemmta sér manna best yfir eigin verki :)

* Auður eignaðis 16 marka strák á sunnudaginn og nefndi Steingrím. Ég á eftir að kíkja á gripinn sem ku vera líkur bróður sínum. Ég vona hennar vegna að þessi verði aðeins lágstemmdari í röddinni. Aðalsteinn eyddi fyrsta ári ævi sinnar í máta háa séið lon og don (þó ekki grátandi nb - þetta var bara almenn tónun.) Hátíðnin getur tekið á taugarnar þegar á líður.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Auður og Raggi eignuðust son nr. 2 í morgun kl. 9. Ég veit ekki meira fyrir utan það að móður og barni heilsast vel.

Aðalsteinn var búinn að panta bróður og hlýtur því að vera mjög sáttur nú.

Ég skipaði þeim í leikhús - á Bingó - á föstudagskvöldið og þegar þau fóru voru samdrættir að byrja. Fyrir nú utan allt annað reynist leikritið því hafa þessi prýðisgóðu losandi áhrif á óléttar konur. Samúðarsamdrættir kannski ekki svo vitlaus hugmynd.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Það er einhver kona sem vinnur í banka í Hafnarfirði sem ræður því alfarið hvenær ég kemst í frí. Ég þekki þessa konu ekki neitt en maðurinn hennar vinnur með eiginmanni samstarfskonu minnar og öll þurfum við að dansa eftir skipulagi þessarar einu hafnfirsku konu. Ef hún vill taka sér þriggja vikna frí í ágúst gerir maðurinn hennar það einnig. Það þýðir að samstarfsmaður hans kemst ekki frá í ágúst og fer í staðinn í júlí - sem og samstarfskona mín. Og þá kemst ég ekki spönn frá rassi. Ætli þessi kona viti hversu víðtæk áhrift sumarleyfisplön hennar hafa? Ætti ég að semja við hana beint?

Annars hef ég ekki miklar áhyggjur af sumarleyfinu þessa dagana. Ég hef verið að narta í frídagana í heilum og hálfum bitum í allan vetur hvort eð er. Núna er ég upptekin við að spígspora um eins og roggin hæna yfir myndbandasigrum mínum og finnst ég gasalega flink að splæsa sundur og saman myndum og hljóði með hjálp einföldustu forrita. Það hvarflar nefnilega að mér, seint og síðarmeir, að þarna er eitthvað praktískt sem ég hef gaman af að gera. Og hversu týpískt - og kvenlegt - það væri af mér að spá ekkert í því og snúa mér aftur að því sem ég geri daglega. Eða kannski er það ekki svo kvenlegt - ekki lengur. Ég var nefnilega ekkert að gantast hérna fyrir neðan þegar ég var að spá í klippinámi. Ég á auðvitað gríðarlega langt í land en ... hví ekki? Af hverju ekki ég frekar en einhver annar? Nú þarf ég bara að snúa mér í nokkra hringi og reyna að stefna í rétta átt án þess að detta á rassinn.

Æi - maður má láta sig dreyma.
Já það fylgir - frumsýningarvikunum - látlaust plögg á bloggsíðum. Þið verðið bara að sýna biðlund. Og auðvitað mæta á þessa stórgóðu sýningu.Hugleikur og Leikfélag Kópavogs sýna leikritið Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Í leikritinu hittast fimm manneskjur reglulega og spila hinn stórskemmtilega leik – Bingó – sem allir þekkja og svo ótalmargir hafa spilað. Þessar fimm manneskjur bregðast við þeim tölum sem bingóstjórinn kallar upp og dreymir um að vinna stóra vinninginn. Skiptir það ekki mestu máli? Hver og einn verður að spila úr því sem honum er rétt - tölurnar vekja ýmsar minningar og við kynnumst persónunum og örlögum þeirra.

Komdu og við leikum Bingó fyrir þig!

Sýningar eru í Hjáleigunni, Félagsheimili Kópavogs, í Fannborg - hefjast kl. 20:30:

Laugard. - 14. apríl - Frumsýning - uppselt
Sunnud. - 15. apríl - 2. sýning
Fimmtud. - 19. apríl - 3. sýning
Laugard. - 21. apríl - 4. sýning - ath. sýningin byrjar kl. 23:00
Sunnud. - 22. apríl - 5. sýning
Miðvikud. - 25. apríl - 6. sýning
Mánud. - 30. apríl - 7. sýning
Fimmtud. - 3. maí - 8. sýning
Föstud. - 4. maí - 9. sýning
Laugard. - 5. maí - 10. sýning
Föstud. - 11. maí - 11. sýning
Sunnud. - 13. maí - 12. sýning
Föstud. - 18. maí - 13. sýning


Miðapantanir á hugleikur.is eða í síma 823-9700.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Bingó! Bingó. BINGÓ!Í síðustu viku elti ég Bingóleikhópinn með vídeókameru og hérna er afraksturinn. Þetta er hugsað sem kynning fyrir sýninguna og væri ekki leiðinlegt ef fólk gæti skellt inn á blogg sín hvar sem þau kunna að finnast. Hægt er að blogga í gegnum youtube ef maður skráir sig þar inn en einnig er hægt að setja þennan link beint inn:


Nú eru bara 3 dagar í frumsýningu (14. apríl í Hjáleigunni!) og ekki seinna að vænna að brúka réttu plögggírana.

Btw - hvert fer maður til að læra klippingar? Þetta var ekki leiðinlegt.