laugardagur, apríl 26, 2008

Úps - gleymi ég aðaltilgangi þessa bloggs: að plögga.

Fyrsti þáttur af þremur sem við Auður erum að gera um konur og vísindaskáldskap verður fluttur á Rás 1 á morgun - kl. 10:13. Hann var tekinn upp fyrir svona 10 dögum og er ég skíthrædd um að það sé óttalegur byrjendabragur á flutningi mínu. Auður er fyrir löngu orðin útsjóuð í þessu en ég virðist hins vegar fá bráðakvíðakast þegar ég kem í námunda við hljóðnema. Þetta tókst auðvitað en bara af því að allt er tekið upp aftur og aftur. Og aftur.

Ég veit ekki hvort ég hlusta á þetta sjálf - þetta er auðvitað svo ferskt í minningunni að það er algjör óþarfi *hóst* En hvet auðvitað alla aðra til.

1. hluti - Í öðrum heimum – vísindaskáldskapur kvenna
Í fyrsta þætti verður litið á ýmsar skilgreiningar á hugtakinu vísindaskáldskapur og stöðu kvenna innan greinarinnar.

Konur hafa frá fyrstu tíð verið brautryðjendur á sviði vísindaskáldskapar en þar gefast meðal annars tækifæri til að kanna möguleikann á annars konar heimum. Í þáttunum verður framlag nokkurra kvenna til þessarar merku bókmenntagreinar kannað.


Lesarar eru Vigdís Másdóttir og Sigurður H. Pálsson.

Við tókum upp annan þáttinn í dag og gekk það bara eins og í sögu. Vorum með æðislegan hlóðmann(konu) og handrit sem fór ekki yfir tíma eins og síðast. Ég hikstaði reyndar all svakalega á einni málsgrein (erfitt að segja "nefndu tungl" þegar maður er orðinn skraufaþurr í munninum) en restin gekk smurt.

One to go...

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Hinn kviðslitni Hjalti þarf að vera kviðslitinn miklu lengur en hann átti að vera sökum skipulags- og andleysis heilbrigðisstéttarinnar og því gerist þetta:



Nú er tækifærið - það var troðfullt á síðustu sýninguna.




Btw - helvítis eldrefurinn vill ekki leyfa mér að gera skástrik og heldur því blákalt fram að shift 7 sé leit í skjali. Pílurnar virka ekki heldur. Asni.
Vorið er komið og beljuhamurinn sprettur á. Hér á árum áður - kannski 10 árum - fylgi þessu tímabili þrá eftir útlöndum og seiðingur í útlimum. Lausnin var að skella sér á húrrandi fyllerí - hérlendis eða erlendis. Eins og belja að vori lýsti ástandinu ansi vel.

Í dag vaknar maður með þrá eftir uppþvottavél og flengist um bæinn þveran og endilangan að leita að einni nógu ódýrri. Ég finn líka fyrir löngun til að finna öllum slæðum og treflum almennilegan stað í íbúðinni. Þessar tuskur eru eins og æxli út um allt og vonlaust að finna þá einu réttu þegar mikið liggur við og maður er orðinn of seinn í vinnuna.

Þegar fylleríistækifærin lenda í fanginu á manni hristir maður hausinn þreytulega og hugsar til þess með unaðshrolli hversu gott það verði nú að vakna óþunn á sunnudagsmorgni með alla orku til reiðu tilbúin að tækla garðinn eða þvottinn.

En hvað það er gaman að verða miðaldra.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

1. Mmm... ég ætla að kaupa mér kort í Hreyfingu. Loksins sé ég fram á að hafa tíma til að stunda líkamsrækt. Ég hlakka meira að segja til! Hefur einhver farið í þessa nýju stöð hjá þeim? Er komin einhver reynsla á þetta?

2. Ég er nefnilega komin í smá pásu frá Hugleik - a.m.k. þessa vikuna. Nú verða brettar upp ermar og útvarpsþættirnir tæklaði. Sá fyrsti af þremur verður tekinn upp í næstu viku og er þemað það sama í þeim öllum: Vísindaskáldsögur kvenna. Það verður stuð. Allir sem hlusta á Gufuna á sunnudagsmorgnum munu hafa gaman af. Ef þú ert eldri kona eru víst meiri líkur á að þú verðir að hlusta.

3. Ég hitti loksins Svandísi í gær eftir alltof langan tíma. Mig grunar að meira en tvö ár séu liðin frá því að við sáumst síðast og mál að tryggja að þetta langur tími líði ekki aftur. Við spjölluðum um heima og geima í rúma tvo tíma og eiginlega grábölvað að vita til þess að það sé bið í það að við getum endurtekið leikinn. Tel það brýnt að stofna einhvers konar "Svandísi heim" samtök.

4. Fann vorlykt í lofti í gær og réðst á garðinn í kjölfarið - reyndar bara í hálftíma því ég var tímabundin. Rakaði saman öllum gróðurleifum og rusli sem kom undan vetrinum og bjó til risastóra hrúgu í miðjum garðinu. Planið var svo að klára bakgarðinn áður en herlegheitunum væri troðið í poka og ofan í Sorpu. Jamm. Kannski kemur hláka á morgun.