sunnudagur, október 31, 2004


Afmælisbarnið (Áslaug) og Hördur gagnrýna partýmyndir kvöldsins

Myndina sendi ég
Powered by Hexia


Halló vín!

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

fimmtudagur, október 28, 2004

Gerði soldið í gærkvöldi sem ég geri annars aldrei. Ég fór í bíó. Það sem meira er: ég sá íslenska kvikmynd! Ójá.

Og nú man ég hvers vegna ég er svona treg til að a)fara í bíó, b)fara á íslenskar myndir. Miðinn kostaði 1000 kr. og myndin var bara ekki nógu góð. Við Auður skelltum okkur s.s. á Dís í Regnboganum. Æi. Aumingjahrollurinn byrjaði strax og varði alveg fyrsta fjórðung myndarinnar. Svo fór hún reyndar aðeins skánandi. En það dugði ekki til. Þrátt fyrir nokkra góða spretti (t.d. allir litlu punktanir um stelpur sem kunna ekki að velja sér kærasta og vita ekki hvað þær vilja, einnig var Þórunn Erna Clausen sem brúður á barmi taugaáfalls sérlega eftirminnileg) var alltof mikið sem hægt var að setja út á. Undarlega mikil áhersla á klisjukennda sýn útlendinga á Íslandi (stelpur eru hórur, landið svo fagurt, nöfnin svo óvenjuleg) sem hafði svo ekkert með efni myndarinnar að gera. Það sem var kannski verst var að þarna mátti glitta í prýðismynd undir niðri - hún var bara ekki fullunnin. Því miður.

þriðjudagur, október 26, 2004

Gífurlegt sjálfsbætingarátak á sér stað þessa dagana. Í kjölfar þess að ég hóf söngnám (sem kærasti Siggu Láru segir að sé svo gott fyrir sálina) ákvað ég að bæta líkamanum á listann og hef keypt mér sex mánaða kort í líkamsrækt og verður nú tekið á af alefli. Eins og alltaf þegar fólk kaupir sex mánaða kort í líkamsrækt. Ég er þess sannfærð að forvitnir geti barið mig augum púla í hinum ýmsu tækjum Slippsins alla daga vikunnar næstu sex mánuði. Eða að minnsta kosti við og við. Slippurinn við Mýrargötu er forvitnileg líkamsræktarstöð og sker sig úr fyrst og fremst fyrir það sem hún hefur ekki:

* enga spegla
* enga sjónvarpsskjái
* enga tónlist í hátölurum
* enga sprikltíma
* enga kvenmenn

Þarna er að jafnaði tylft karlmann að lyfta afskaplega stórum og þungum lóðum. Kannski má glitta í eins og tvo kvenmenn trítlandi á göngubrautum - hafa sennilega mætt með köllunum sínum sem eru að taka á því milli prótínsjeikanna. Það sem lokkar mig er fyrst og fremst upptalningin hér að ofan. Engir speglar sem maður er stanslaust að firra sig yfir, enginn hávaði að valda hausverk, engar kellingar fyrir manni í tækjunum eða sturtunum, engir samviskubitsvaldandi sprikltímar sem ég hata hvort eð er að mæta í. Gott mál.

mánudagur, október 25, 2004

Ég gef hérmeð út þá yfirlýsingu að ég ætla í sund eftir vinnu í dag. Hef verið að humma það fram af mér síðustu vikur og hreint út sagt ekki látið það hvarfla að mér vegna veðurs en í morgun mundi ég svo skyndilega eftir Sundhöllinni. Ég var hætt að fara þangað því það var alltaf allt morandi í krökkum að koma úr skólasundi að dýfa sér af köntum og almennt láta öllum illum látum en nú eru þau öll í verkfalli og þ.a.l. ekki í aðstöðu til að gera mér lífið leitt! Sundhöllin getur verið mín á ný!

sunnudagur, október 24, 2004


Ef thad er til betri leid til ad heidra hvildardaginn en ad hanga i baelinu tha vil eg ekki vita af henni. Eg tharf ekki einu sinni af fara framur til ad blogga!

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

miðvikudagur, október 20, 2004

Ég er að hugsa um að setja mér nýja lífsreglu. Þessi er einföld sem aldrei fyrr enda nauðsynlegt þegar ég á í hlut. Breytingar á lífstíl hafa hingað til ekki verið mitt aðalsmerki. Hún felst í eftirfarandi spurningu: kem ég til með að sjá eftir þessu? Ólíkt öðrum lífsuppskriftum sem segja manni í smáatriðum hvað á og á ekki að gera (fara í ræktina, borða hollan mat, ekki slugsast, ekki éta nammi, hitta vini sína, ekki drekka of mikið, fylgjast með stjórnmálum, vera virk, rækta hugann, vinna í garðinum, fara snemma að sofa, eignast börn, spara o.s.frv.) byggist þessi á að kæfa í fæðingu grunnhugmyndina sem kemur í veg fyrir að gera allt sem maður á að gera - eða finnst að maður eigi að gera - þ.e. "ég nenni ekki." Það góða er svo að þessi heimspeki kemur ekki í veg fyrir almenna afslöppun og regluleg letiköst og eftirgjöf. Því ef rétt er farið með stóru spurninguna segir það sig sjálft að stundum sjái maður alls ekki eftir hinu góða og þægilega í lífinu. Ef maður sér ekki eftir því er það gott. Þetta er eiginlega of einfalt til að vera ekki satt og eina sem getur komið í veg fyrir ótakmakraða framtakssemi og fullnýtingu auðlinda er hreinlega tímaskortur.

Sem dæmi:
Ég fæ þá flugu í höfuðið að kannski værir vissast að taka til. Þá beit ég SpurningunniTM: mun ég sjá eftir því. Líklegt er að svarið sé nei og þá verð ég að taka til ekki satt?

Þetta virkar líka á hinn veginn. Mig langar að hanga fyrir framan sjónvarpið, prjóna og éta nammi. Skellu SpurningunniTM á þetta - og ekki stendur á svarinu. Svo lengi sem það stangast ekki á við annað í forgangsröðinni sem búið er að beita SpurningunniTM á er það í góðu lagi.

En að vísu ... ég er ennþá bara að hugsa.
Mig langar að blogga en hef ekkert eins spennandi og ný íbúðarkaup og ofur-rómantíska kærasta að segja frá eins og sumir.

Það er hins vegar eitt og annað að bresta á (þó ekki á íbúðar eða kærasta vígstöðvunum). Sigga Lára flytur hvað úr hverju og þá þarf ég skyndilega að fara að koma stofunni í minni í einhvers konar horf sem móðir mín hefur ekki ástæður til að agnúasta út af. Tölvan fer samt ekki fet sama hvað mútter tuðar. Það eru alls konar skemmtilegir hlutir að gerast næstu helgi og hef ég fyllilega hugsað mér að taka þátt í því enda athafnasemi eina leiðin til að halda á sér hita. Margt smátt í Borgaleikhúsinni verður áreiðanlega jafn skemmtilegt og í fyrra og svo verður Reykjavík gjörsamlega að springa úr tónleikahaldi þótt ég sé nú reyndar gjörn á að sniðganga svona atburði og sækja í sömu hljómsveitirnar.

Ég man ekki hvort ég hef eitthvað bloggað um bíókvöldin okkar Auðar - eða hvort hún hefur gert það - en síðustu vikur höfum við haft það fyrir reglu að hittast á þriðjudagkvöldum, horfa á "Amazing race" og einhverja vel valda kvikmynd. Helst með feminísku ívafi. Þessi iðja hefur mælst vel fyrir hjá okkur báðum og hefur endurvakið áhuga minn á hinum ýmsum kvikmyndum - áhuga sem annars var við það að drukkna í raunveruleikaþáttaflóði. Eftir nokkurra vikna seti er listinn sem hér segir (í áhorfstímaröð):

Iron Jawed Angels
The Stepford Wives (1975)
The Eternal Sunshine of the Spotless Mind
The Revenge of the Stepford Wives
Ginger Snaps

Sú síðasta er reyndar á listanum fyrir smá svindl því við höfum ekki horft á hana ennþá. Bíókvöldið okkar féll niður í gær sökum utan að komandi áhrifa og verður því haldið í kvöld. Ég er með divx útgáfu af Ginger Snaps tilbúna í tölvunni því DVD diskurinn minn er týndur einhvers staðar heima hjá Nönnu. Sem er í góðu lagi þegar svona auðvelt er að dánlóda því sem maður vill. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að það ætti að vera rétt og gott. Ég er búin að borga fyrir myndina og ætti alveg að mega dánlóda henni eins og mér sýnist!

Úps hvernig lenti ég upp á þessum sápukassa?

þriðjudagur, október 19, 2004

Einhvern tímann fyrir langa, langa löngu vantaði mig aukapening og skráði mig því á vinna.is með von um að hreppa aukavinnu. Hef ég síðan fengið reglulega sendan til mín póst um vænleg störf í boði. Á tímabili fylltist inboxið mitt reglulega af gylliboðum frá Kárahnjúkum en í seinni tíð hefur aðallega verið að bjóða upp á hin ýmsu lagerstörf svo og afgreiðslu og mötuneytisstöður. Ég hef ekki bitið á agnið ennþá. Þangað til í dag. Hvernig er hægt að láta svona atvinnutækifæri framhjá sér fara?

Smellið hér til að sjá stærri mynd

Ég hef ekki kynnst kjúklingum náið í gegnum tíðina en ég er viss um að okkur mundi koma glimmdrandi vel saman. Svo er þarna líka lokkandi fyrirheit um vera ferjuð á milli staða:

Fyrirtækið sér um að koma starfsmönnum á tínslustaði.
Sláturplan liggur fyrir með töluverðum fyrirvara.


Af hverju við þyrftum að vita sláturplan með fyrirvara veit ég ekki en það er greinilega í rökréttu samhengi við ferjunina og getur bara verið gaman. Og ég bara spyr: hversu oft í lífinu fær maður tækifæri til að handfjatla kjúklinga á köldum vetrarkvöldum?

mánudagur, október 18, 2004

Við Auður erum á leið í lýtaaðgerð. Það er ekkert annað hægt í stöðunni. Á laugardagskvöldið vorum við rauðar, rjóðar og sællega á 22 og í sæluvímu yfir eigin fegurð og glæsileika fannst okkur tilvalið að smella af okkur mynd og setja á bloggið (sjá mynd hér fyrir neðan). Í dag skvettist svo holskefla ískalds raunveruleikans yfir okkur með látum. Við erum víst eftir allt saman ljótar sem rass og aðhlátursefni í þokkabót. Á hin 15 ára gamla breska skjaldbaka Tasha Baker margar þakkir skyldar fyrir augljóslega löngu tímabært komment við myndina góður. Ég vona bara að hún haldi áfram að veiti fólki í neyð bráðnauðsynlega leiðsögn um óravegi veraldarvefsins.

sunnudagur, október 17, 2004


Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia


Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia

föstudagur, október 15, 2004

Guð hvað ég er fegin að það er komin helgi. Þessi vika hefur einkennst að sleni og nennuleysi sem aldrei fyrr. Ég líka hrædd um að ég sé að breytast í félagsskít af verstu gerð sem að flestir vinir mínir geta sennilega frætt mig á að er ekki andlega heilsusamlegt. Ég nenni bara svo afskaplega lítið út úr húsi. Vil ég gjarnan kenna leiðinlegu haustveðri um en kemst sennilega ekki upp með það til lengdar. Því skal slett úr stirðnuðum klaufum þessa helgi. Ég býst fastlega við því að ég stefni á Idol setu heima hjá Nönnu í kvöld ef það er í boði og svo verður bærinn málaður rauður - næstum því bókstaflega - í kjölfar mega-þema-afmælisveislu Auðar annað kvöld.

Það hefur víst fjölgað í húsinu okkar um einn. Strákarnir í kjallaranum hafa ákveðið að ættleiða litla, sæta, loðna og ómerkta læðu sem hefur verið að flækjast um húsið. Hún er svo blíð og mannblendin að ég er þess fullviss um að hún eigi heima einhvers staðar en þeir eru sannfærðir um að hún sé flækingsköttur. Ætti ég láta þá fara með hana í Kattholt? Ef hún er flækingur þarf hún örugglega að fá sprautur og ormalyf o.þ.h. Ég hef smá áhyggjur af því að strákarnir flytji burt einhvern tímann í náinni framtíð en skilji hana eftir - háða kjallaranum. Og hvað geri ég þá? Ég sé ekki fyrir mér að Lísa og Gabríel sætti sig við þriðja köttinn á heimilið. Svo eru tveir kettir á heimili alveg nógu slæmt fyrir piparjúnku ímynd mína - sérstaklega þar sem hægt er að finna mig hvert kvöld fyrir framan sjónvarpið hálfgrafna í prjónahrúgu - þrír, er ég hrædd um, myndu endanlega gera útslagið.

miðvikudagur, október 13, 2004

Nýlegar uppgötvanir:

Yahoo!Messenger er stórhættulegt forrit. Sérstaklegt er pool leikurinn viðsjálverður en kotran og skákin eru líka hættulegir tímaþjófar.

The Revenge of the Stepford Wives er ein versta mynd sem gerð hefur verið. Þó ekki eins vond og Highlander 2: The Quickening.

Stundum er nauðsynlegt að horfa á vondar myndir til að kunna að meta þær góðu - eða bara þær sæmilegu.

Á þremur vikum hefur raddsvið mitt stækkað um eina og hálfa áttund. Það er gott.

Ég kem aldrei til með að losna við fjandans raddæfingarlaglínurnar úr hausnum. Það er slæmt.

Stundum á maður bara að kýla á það og skella sér til útlanda. Best að hugsa ekkert um alla peningana sem maður á ekki. Á pantaðan miða til London þann 8. desember þar sem ég hef hugsað mér að heimsækja Skottu og haga mér sem ég væri 28 ára. Verð í Englandi í viku. Hver vill passa kettina?

Anna samstarfskona mín er að hlusta á "Mary" með Scissor Sisters í útvarpinu :)

mánudagur, október 11, 2004

Ég sé glitta í ákveðin tímamót í lífi okkar allra. Klíku- og kommúnutíminn er liðinn. Þessi hugljómun þarfnast forsögu. Á laugardagskvöldið sat ég ein heima hjá mér og prjónaði. Þetta hljómar vissulega sorglega; 31 árs kelling situr ein heima hjá köttunum, glápir á sjónvarp og prjónar vettlinga á meðan alþjóð skemmtir sér. Ég hefði vissulega getað farið eitthvað og gert eitthvað ef ég hefði borið mig eftir því en ég tók ákvörðun um að gera það ekki. Ég hugsaði sem svo að ef eitthvað skemmtilegt væri að gerast einhvers staðar og fólk óskaði eftir félagsskap mínum mundi það hafa samband. Auður hafði að vísu samband kl. 1 um nóttina en mér fannst það fullseint og fór því hvergi. Ég vorkenni ekki sjálfri mér fyrir þessa þróun mála. Svo virðist bara sem fólk sé almennt að hægja á sér, leita í mismunandi farvegi og sækja í sérsniða vinahópi og afþreyingu. Það er auðvitað hið besta mál og þegar hér er komið við sögu vil ég taka það fram að ég á fullt að af skemmtilegum vinum sem ég vil gjarnan umgangast og vilja gjarnan umgangast mig. Það er ekki málið. Það er bara ekki lengur hægt að hóa í hóp af fólki og láta hann ná saman. Það eru ekki lengur allir á sama hraða. Hverjum hópi virðist nú til dags fylgja sundrung í bið.

Nú skil ég loksins af hverju fólk sækir í að eiga maka. Því þegar vinirnir eru skyndilega allir komnir í nám erlendis, farnir í meðferð, lagstir í barneignir, fluttir út á land og komnir í æsispennandi harmonikkuklíku er gott að hafa einhvern innan seilingar sem fer ekki fet (nema auðvitað þegar helvítin púlla Þ******* - en það er allt önnur saga.)

laugardagur, október 09, 2004

Ég fór að rifja upp alla þá leigjendur sem hafa hírst í litlu kjallaraholunni minni frá því að ég keypti þessa íbúð. Mér telst til að þeir séu 7. Flestir hafa látið sig hafa það að hanga þarna niðri, ekkert kvartað og látið fara lítið fyrir sér. Það eru þó alltaf undantekningar:

1. Fyrsti leigjandinn minn var sænsk stelpa. Hún var hjá mér í svona tvo mánuði og leið bara vel held ég. Hún var að vinna (eitthvað lítið) í Baðhúsínu og staðsetningin hentaði henni. Ég gerði allt sem ég gat til að láta henni líða sem best og lánaði henni meira að segja einu sinni bunka af spólum til að horfa á. Hún sagði upp herberginu eftir tvo mánuði með stuttum fyrirvara og flutti aftur til Svíðþjóðar. Hún skildi eftir sig slatta af tepokum, grænan vasa, stóran stauk af þurrkuðu parsley og svarta kommóðu en hirti hins vegar spólurnar mínar.

2. Leigjandi númer tvö var Svandís. Það þarf ekki að taka það fram að hún er besti leigjandi sem dvalið hefur þarna niðri. Hún entist í þá 5 mánuði sem liðu frá sölu íbúðar hennar og þangað til hún flutti til Frakklands. Ég held að hún hafi verið fegin að fara og lái ég henni það ekki. Það getur varla hafa verið auðvelt að búa við hliðina á gamla karlinum sem strompaði pípu allan liðlangan daginn og lokaði ekki hurðinni þegar hann fór á klósattið.

3. Þriðji leigjandinn var önnur stelpa - að þessu sinni argentínsk. Hrikalega horuð manneskja. Hún var víst að flýgja ómögulegan eiginmann og vann á veitingastað. Hún entist í 2-3 mánuði og hvarf rétt fyrir mánaðarmót án þess að kveðja kóng eða prest. Hún hirti ekkert en skildi eftir sig póst frá Landsspítalanum vegna lifrarbólurannsókna.

4. Fjórði leigjandinn var strákur og fannst mér mál til komið því mér fannst líklegra að strákur sætti sig við að búa við hliðina á gamla karlinum heldur en stelpa. Hann entist í tæpt ár og var aldrei vesen á honum. Ja, nema þegar hann og vinur hans gerðust boðflennur í þrítugsafmæli mínu, útúrspíttaðir og nærri drápu vini mína úr leiðindum með lygasögum. Ég fékk hann þó til að laga loftnetstenginguna í húsinu. Hann sagði einnig upp með dagsfyrirvara, skildi ekkert eftir en hirti loftnetssnúruna úr herberginu.

5. Þegar þarna var komið við sögu var gamli karlinn fluttur út og enginn í hinu kjallaraherberginu. Fannst mér mál til komið að fá stelpu inn og fimmti leigjandinn var rúmlega tvítug stelpa í iðnskólanámi. Hún virkaði feimin og indæl og fannst mér ómögulegt að láta hana búa við viðbjóðinn sem baðherbergið var orðið og því var ráðist í löngu tímabærar aðgerðir við að gera það upp. Hún þakkað fyrir sig með því að ná sér í kærasta sem kom henni upp á hassbragðið og laðaði að sér handrukkara. Þegar sæt stybban var farin fylla hvern krók og kima í húsinu fannst mér nóg komið og losaði mig við hana.

6. Nú vildi ég fá smá öryggi og þegar nágrannakona mín á efri hæðinni sagði mér að frænda hennar vantaði herbergi vildi ég ólm fá hann því ég þóttist viss um að hann yrði ekki með vesen í húsi frænku sinnar. Svo varð heldur ekki og var hann sjötti leigjandinn minn í 4 mánuði. Þá skipti hann að sjálfsögð yfir í herbergi frænku sinnar sem er stærra en hann fær fyrir sömu leigu. Hann tók með sér kommóðuna sem sænska stelpa skildi eftir.

7. Ég veit ekki hvort hann skildi eitthvað eftir í herberginu því að um leið og hann flytur út flytur vinur hans inn. Sá er bandarískur og með honum í námi. Þeir eru þarna niðri kumpánarnir og nota kjallarann mikið sem eina "stóra" íbúð. Þegar þeir komu upp eldhúsaðstöðu á ganginum fannst mér nóg um og lét útbúa eldhús í geymslunni minni. Þeir eru duglegir að elda en ekki svo mjög að þrífa. Kjallarinn hefur aldrei verið jafn skítugur en þeir eru ekki á leiðinni út í bráð og það er þó ekkert vesen á þeim. Og þá er ég (loksins) sátt.

Viðauki: þegar ég tala hérna um leiðinlega leigjandann á ég ekki við neinn af mínum þótt misjafnir séu heldur mann sem bjó á tímabili í hinu herberginu. Hann notaði aðstöðuna til að dömpa dóti sínu um gangana og garðinn og gerir enn þótt hann sé löngu fluttur. Það má vera að ég hati hann.

föstudagur, október 08, 2004

fluffymack
You are Fluffy Mackerel Pudding!! You somehow
manage to combine seafood and dessert into your
wonderfully fluffy world. We should all be as
tolerant of New Taste Sensations. And of
big-yolked eggs.


What Weight Watchers recipe card from 1974 are you?
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, október 07, 2004

Aðgerð: Menn í húsinu setja plastfleka meðfram stigahandriði
Gróði: Handriði sem börn geti ekki dottið í gegnum og hrapað niður um fjórar hæðir svo litlu hausarnir splundrist á steingólfinu í kjallaranum
Fórn: Stanslausar boranir sem gæti allt eins farið fram innan í hauskúpu minni
Afleiðing: Ég er farin snemma í mat

miðvikudagur, október 06, 2004

Ég var að tékka á vildarpuntastöðu minni og komst að því að ég á nógu marga punkta til að ferðast fram og til baka innanlands. Rétt svo. Helst vildi ég nú fara til London, París, Róm en verð víst að láta mér nægja Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði. Verst að ég á ekkert erindi til þessara staða. Vill einhver koma með mér og búa til erindi?

þriðjudagur, október 05, 2004

Úff, er bloggleti að leggjast yfir mig í bland við alla aðra leti? Veðrið hefur a.m.k. ekki verið framkvæmdahvetjandi og í gær var ekki um neitt annað að ræða en að skríða upp í rúm þegar heim var komið inn úr fárviðrinu. Hefði sennilega húkt þar það sem eftir lifði dags ef ég hefði ekki vaknað við Sigguláru í símanum um kvöldmatarleytið. Síðan tók við ófréttnæm sjónvarps- og prjónaseta.

Söngnámið gengur glimmrandi vel - eða mundi gera það ef ég væri duglegri að æfa mig. Mér finnst einhvern veginn ég bara geta æft mig þegar ég er ein heima - mér finnst ennþá hálf asnalegt að vera að góla svona - og ef ég nýti ekki þann tíma sem ég er ein heima nógu vel verður lítið úr æfingum.

Leiðinda fyrrverandi leigjandinn fékk í hausinn það sem hann átti skilið í gær. Hann hafði skilið eftir risastóran skáp á ganginum niðri í kjallara og mér tókst seint og síðar meir að fá ættingja hans til að flytja hann út. Skápræksnið fór nú samt ekki mjög langt og endaði á bakvið hús - beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn - vafinn inn í plast. Marga nóttina hef ég sofnað út frá regninu berja plastið með látum eða vindinn feykja því. Marg oft var ég búin að ganga á ættingjana og biðja þá um að fjarlægja ferlíkið þar sem það lægi undir skemmdum þarna úti. Því þótt að skápurinn væri vel hulinn plasti á öllum hliðum var ekkert undir honum og ekki líklegt að regnið færi mjög vel með viðinn. Það var eins og rökræða við athyglisskertan gullfisk og skápurinn sat sem fastast. Þar sem ég lá uppi í rúmi í gær og fann hverja hviðuna á eftir annarri hrista húsið tók ég eftir hljóði sem vantaði. Ekkert plast. Ég kíkti út og þar lá skápurinn - eða leifarnar af honum - innan um plasttjásur - mölbrotinn og dreifður um garðinn. Og ég fann vandlætinguna og sjálfumgleðina hríslast um kroppinn. Ég hefði sjálf ekki geta skipulagt betri dauðdaga fyrir skáphelvítið. Ennþá er smá réttlæti til í heiminum. Hins vegar hafa líkurnar á því að eigandi komi og hirði brakið snarminnkað.