þriðjudagur, maí 30, 2006

Uss uss - er þetta nú hægt?Hann er svosem ekki ólaglegur í dragi, segi það ekki, en er ekki skemmtilegra að kyngreina fólk rétt? Flestir virðast kjósa það og örugglega leikarinn Cillian Murphy.

Viðbót: Ekki fyrr búin að ýta á publish en þeir drattast til að laga þetta á Vísi. Og eyðileggja fyrir mér fullkomlega tilgangslausa bloggfærslu. Hnuss!
Mig langar svo í nýtt hjól. Ég hef átt þrjú hjól um ævina (fjögur með þríhjóli) - og það síðasta fékk ég þegar ég var 13 ára. Glæsilegur hvítur fákur með þremur gírum sem fyrir löngu genginn til feðra sinna. Ég sakna þess að eiga ekki hjól - ég og hjól pössuðum saman eins og flís við rass. Ég var alltaf nokkuð óheppið barn og gjörn á að missa undan mér fæturna við bestu skilyrði - held að hnén hafi fyrst gróið almennilega um fermingu - en þegar ég hjólaði var jafnvægið fullkomið, valdið ótvírætt og þrótturinn óendanlegur.

Þau eru bara svo fjandi dýr. Þannig að ... veit einhver hvar er best að leita að hjólum - notuðum jafnvel - sem eru sterk og endingargóð og kosta undir 20. þúsundum?

föstudagur, maí 26, 2006

Framtakssamir kaupmenna hafa loksins lagt saman tvo og tvo og er tækni sem gjarnan hefur verið nýtt til að halda músum frá lokkandi skemmum nú notuð til að fæla frá unglinga.

Það er vitað mál að hreyrnin dofnar með aldrinu og með því að setja upp búnað sem gefur frá sér hátíðni hljóð sem aðeins unglingar heyra er hægt að gera viðveru þeirra óbærilega á ýmsum stöðum.

Ekki alltaf tekið út með sældinni að vera með viðkvæma heyrnUnglingarnir, sem eru gjarnan með aðeins meira ímyndunarafl heldur en fýlda fullorðna fólkið, hafa nú komið til móts við þessa tækni og eru farnir að nota þessi hljóð sem hringitóna í síma - án þess að heyrnadaufir kennarar verði nokkurs varir.

Þetta hér ku vera dæmi um slíkt hljóð:Þeir segja að enginn eldri en 20 eigi að heyra nokkuð - að vísu heyrist djúpur bassahljómur þegar hátalarnir eru stilltir á mesta styrk en hátíðni ýlfrið á alltaf að heyrast - þ.e. ef þú ert með nógu spræk eyru.

Ég heyri ekki bofs en hin þrítuga sumarafleysingastúlka segist heyra pirrandi gaul. Hún er ennþá í skóla. Ætli í því felist munurinn?

miðvikudagur, maí 24, 2006

Sá þetta hjá Skottu og Ástþóri:

1. Með hvaða hljómsveit eða flytjanda áttu flestar hljómplötur?
- David Bowie - og það er langt í annað sætið.
2. Hvað var síðasta lagið sem þú hlustaðir á?
- Þetta hér
3. Hvaða hljómplata er mest á fóninum hjá þér þessa dagana?
- War of the Worlds
4. Spilarðu á eða langar þig að læra á eitthvað hljóðfæri?
-Ég lærði á blokkflautu á sínum tíma og píanó. Er stundum að glamra á píanóið og rifja upp glutraða þekkingu en sé ekki fyrir mér mikinn frama á á því sviði.
5. Hver er uppáhalds íslenska hljómsveitin þín?
- Ég hlusta skelfilega lítið á íslenska tónlist þannig að Ampop og Hraun eiga í raun auðvelt með að komast í efstu sæti. Það er líka ákveðið og viðvarandi attitút hjá mörgum íslenskum hljómsveitum sem fælir mig frá.
6. Hvaða hljómsveit sástu síðast á tónleikum?
- Uh... seldi boli á Ampop tónleikum um daginn en sá ekki mikið.
7. Hvað er bestu tónleikarnir sem þú hefur séð?
- Ég er ekki mikið fyrir tónleika - hef tilhneigingu til að pirrast út í of margt til að njóta tónlistarinnar. Það var samt ákv. upplifun að sjá Sigur Rós í höllinni ásamt The No Smoking Orchestra fyrir þó nokkrum árum.
8. Hver er lélegasta hljómsveit sem þú hefur séð á tónleikum?
- Ég hef einfalda reglu: ef hávaðinn er það mikill að ekki greinist eitt einasta orð hjá söngvaranum þá er það vont.
9. Hefurðu verið í hljómsveit?
- ó nei
10. Hvaða tónlistarmann, bæði dáinn og lifandi, myndirðu helst vilja hitt?
- Engan svosem
11. Hvaða tónleikar eru á döfinni sem þú hlakkar til að sjá?
- Ekkert á döfinni
12. Hver er uppáhalds tónlistarbolurinn þinn?
- Hraun - og hefur ekkert með það að gera að það er eini tónlistarbolurinn minn ;)
13. Hver er elsta tónlistarminning þín?
- Pabbi að spila á harmonikku á kvöldin - mér finnst ennþá svo þægilegt að sofna út frá polka tónlist.
14. Hvaða tónlistarmaður eða tónlistarkona myndirðu vilja að væri ástfangin(n) af þér?
- Uh... ég er ekki þrettán ára...
15. Hvaða tímabili sem tónlistarunnandi ertu ekki stoltur af?
- Stórum hluta af tíunda áratugnum (sjá næstu spurningu)
16. Hvort hélstu með Blur eða Oasis á sínum tíma?
- Hvorugu. Nema hvað ég hataði ekki Blur meira en lífið sjálft og fann fyrir ógleði og svitaköstum þegar vinasælasta lagið þeirra var ofspilað við öll tækifæri (Wonderwall)
17. Hvaða þrjár hljómsveitir myndirðu kalla þínar uppáhalds?
- Franz Ferdinand, Scissor Sisters, Gorillaz
18. Hver er uppáhalds hljómplatan þín í plötusafninu þínu?
- Feline með The Stranglers, Les Retrouvailles með Yann Tiersen
19. Hvaða áratugur í tónlistarsögunni var bestur?
- Þessi
20. Hvað er uppáhalds kvikmynda sándtrakkið?
- Arizona dream - eða Pink Floyd - The Wall (telst það með?)

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ég fékk SMS í nótt með tilkynningunni um að Úlfhildur Stefanía hefði fæðst foreldrum sínum, þeim Nönnu og Jóni Geir. Meira veit ég ekki en sjálfsagt hafa margir fengið þessa tilkynningu (og rumskað að værum blundi kl. hálf 3 en það er nú allt í lagi.)

Martini og Kafbátur vildu því báðir vera stelpur og lái þeim hver sem vill.

Miðað við hvað þetta barn var kyrfilega tímasett við getnað ætti ekki að koma neinu á óvart að það var fæddist stundvíslega upp á dag. Nú er auðvitað pressa á Úlfhildi litlu að halda út álíka stundvísi það sem eftir er.

Innilega til hamingju öll sömul.

mánudagur, maí 22, 2006

Yfir 30 tus. krona kjarabot a manudi.

Kjosum Samfylkingu, kjosum gjaldfrjalsan leikskola

XS - Samfylkingin


SMS sem mér barst rétt í þessa - meira að segja tvö eins. Nú er tveir flokkar svo ég viti búnir að falast eftir atkvæði mínu með beinhörðum peningum. Ég er alveg handviss um að þarna hafi ég lent í einhverju gasalega útpældu úrtaki. Verst að þetta nýtist mér ekki neitt - engin kjarabót handa þeim barnslausu. Það er frekar að á mig leggist aukin gjöld. Þarna var laglega skotið yfir markið.

Endar með því að ég kýs Frjálslynda - ég er ekki sammála öllum þeirra málefnum - en það á við um alla flokkana. Aldrei þessu vant virðast þeir vera sá flokkur sem er með fæturna hvað næst jörðu og þeir vilja afmá aldursþakið í tónlistarskóla sem er eitthvað sem hefur bein áhrif á mitt líf. Ég er nenni a.m.k. ekki að púkka upp á lið sem stráir um sig jöfnum skrefum óraunhæfum gylliboðum og skít yfir aðra flokka - og alveg sérstaklega ekki þá sem finnst þeir hafa heimtingu á mínu atkvæði til þess eins að tryggja að þeirra óvinaflokkur komist ekki til valda.

Mikið ofboðslega á ég eftir að komast í betra skap að þessum kosningum afstöðnum.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Allir svo taugaveiklaðir út af Eurovision. Hvernig er það, gefum við ekki frat í þessa keppni á hverjum ári þegar við komumst ekkert áfram? Man ekki betur en Gísli Marteinn hafi riðið á vaðið með blammeringar og fýluskap um leið og úrslitin voru lesin upp í undankeppninni í fyrra. Nágrannaklíkur og leiðindapakk o.s.frv.

Ég stóð því fastlega í þeirri meiningu að þegar íslenska þjóðin kaus gervipersónuna Silvíu Nótt með gervilagið sitt að hún vissi að þar fengi hún gervikeppanda. Að við værum þreytt á að senda litlaus og falleg lög sem væru hunsuð út í eitt og vildum að einhver tæki eftir okkur - sama hvað það kostaði. Jæja, þeir tóku eftir okkur - við megum klappa okkur á bakið með það.

Hvað ætli hefði gerst ef Silvía hefði haldið að sér höndunum - ekki verið með neina stæla og flutt lagið án nokkurs umtals? Hefði fólk ekki gagnrýnt hana umvörpum fyrir að sýna ekki sína réttu liti og ganga alla leið með brandarann? Og hver man ekki hver fyrstu viðbrögðin við þátttöku hennar hérna heima voru: þ.e. mun Evrópa fatta brandarann? Allir búnir að gleyma því? Við kusum hana samt - og við berum því ábyrgðina.

Allt þetta út af sjálfhverfu og sakleysislegu grínlagi með ágætis hrynjandi. Þegar öll kurl eru komin til grafar þá er allt betra en "Birta."

Hvað mig varðar þá er ekkert sem íslenska framlagið getur gert til að skemma stemninguna. Það er jú gaman að bíða eftir "sínu" lagi með hjartað hálfa leið niður í buxur en það er svo mikið að gerast þarna og okkar framlag aðeins hluti af risastórum pakka. T.d. að setjast niður í góðra vina hóp og upphefja og úthrópa keppendur af mikli kappi. Þannig hefur það verið síðustu ár og aldrei klikkað hingað til. Og sem er það sem ég ætla að gera heima hjá Siggu Lára seinna í dag - með glöðu geði.

mánudagur, maí 15, 2006

Svei mér ef það er ekki komið sumar. Það er a.m.k. komið sumar í mínu lífi; Hugleikur slúttaði vetrarstarfinu á föstudaginn og ég tók síðasta prófið mitt (Hljómfræði II) í morgun. Lítur líka út fyrir að ég hafi náð ef marka má kennarann sem renndi augum yfir prófið. Ég fæ betur úr því skorið í kvöld eða á morgun.

Þannig að: skyldur allar á bak og burt og mér ekkert að vanbúnaði að klára að taka til á heimili mínu (stend í umbótum og breytingum.) Tók endanlegt geðvonskukast síðasta laugardag á ljósakrónuna í stofunni sem ég hef hatað frá því hún var keypt, fór og verslaði nýja og henti upp. Sjaldan spandera eins litlum tíma og orku í eins þarft verk. Má bjóða einhverjum notaða ljósakrónu í góðu ásigkomulagi? Næst á dagskrá: bókahillur í svefnherbergið. Er að spá í að smíða þær sjálf. Er hugsanlega sturlast af óvenju miklum tíma milli handanna.

Já og tónleikarnir í gær gengu bara ágætlega. Mamma og pabbi mættu með Gísla Hrafn sem hélt fyrir eyrun á meðan frænka hans söng. Kann hún honum mikla þökk fyrir.

sunnudagur, maí 14, 2006

Þeir sem hafa ekkert betra að gera á sunnudagseftirmiðdegi en að rýna í bloggsíður eru hvattir til að mæta í Salinn í Tónlistarskóla Reykjavíkur í Skipholti kl. 16 og veita mér andlegan stuðning þar sem ég syng fjögur stutt lög. Ég lærði það á sams konar tónleikum í fyrra að það hjálpar gífurlega að hafa vinsamleg andlit í áhorfendahópnum. Þessi ókunnug gætu allt eins verið óvinveitt og líkleg til að éta þig. Eða púa...

Annars ætti mér nú að hafa aukist eitthvað kjarkur og áræðni á síðasta ári. Maður skyldi vona.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Ég er farin að vakna kl. hálf sjö á hverjum morgni - algjörlega óháð því hvenær ég fór að sofa.

Vill einhver segja líkama mínum að hann sé Íslendingur, hafi alltaf verið og ég taki það ekki í mál að hann fari að standa í þessari vitleysi á 34. aldursári þótt það sé orðið albjart á morgnana?

miðvikudagur, maí 10, 2006Þetta gekk nú bara furðuvel hjá okkur í gær. Svona í ljósi þess að Þjóðleikhúsið vildi ógjarnan gera ráð fyrir okkur. Verður örugglega ennþá betra annað kvöld. Þá er síðasti séns til að sjá hugleikskar afurðir á þessu leikári. Sjá nánari útlistun á dagskrá hér.

Mynd miskunnarlaust rænt frá kynni kvöldsins, honum Birni M, og vondandi sér hann í gegnum fingur sér með það.

mánudagur, maí 08, 2006

Ég rak nefið inn á mitt fyrsta bandalagsþing um helgin og það var forvitnileg reynsla. Reyndar var ég nú þarna aðeins til að hlýða á umræður um einþáttungana (eða stuttverk) á "Margt smátt" sem fór fram kvöldið áður svo og val gagnrýnenda á bestu þáttunum. Lét ég mig hverfa að því loknu. Síðan var hátíðarkvöldverður um kvöldið þar sem tilkynnt var um athyglisverðustu áhugasýningu ársins. Hugleikur reið feitum hesti frá fyrra vali (Nanna/Júlía og Gummi/Siggi unnu fyrir þættina sem þau leikstýrðu/skrifuðu og þrefalt húrra fyrir þeim!) en ekki því síðara. Sem var sjálfsagt allt hið sanngjarnasta. Ég hef ekki séð Þuríður og Kambsránið en sú sýning hljómar mjög spennandi og ég hef enga ástæðu til að halda að hún sé nokkuð annað en framúrskarandi og vel að sigrinum komin.

En þótt valið væri búið hélt fólk áfram að viðra sínar skoðanir og hlustaði ég á marga og misjafna dóma um þetta allt fram eftir nóttu. Ég ætla ekki hafa eftir það sem mis-biturt fólk lét frá sér fara undir áhrifum enda sjálfsagt að hver og einn hafi sína lituðu og ólituðu skoðun.

Það vöknuðu hjá mér hins vegar spurning um hvað "atvinnumönnum" þættu athyglisvert. Þ.e. hvernig þeim fannst að áhugaleikhús ætti að vera. Því það fór ekki framhjá mér að þeir virtust vera með einhverjar kröfur - um það sem á og má. Og þótt allir hömruðu á mikilvægi áhugaleikhúsanna í menningarflórunni var ekki laust við að talsverðan yfirlætisblæ væri að finna á viðhorfunum. Það er samt ekki við þessa einstaklinga að sakast - þau eru skipuð í þetta hlutverk og þeirra viðhorf hljóta að mótast af atvinnumennskustatus þeirra. Gagnrýnin á einþáttungana var t.d. bæði sanngjörn og uppbyggilega þótt auðvitað væri ég ekki alltaf sammála henni. Því það er alltaf þessi gjá á milli áhuga- og atvinnuleikhúsa - hvort sem fólk vill bekena hana eða ekki - og einhver staðar í ferlinu virðist hafa fæðst sú skoðun að atvinnuleikhúsin viti betur heldur en áhugaleikhúsin sjálf hvernig ber að skilgreina þau. Og þar set ég stórt spurningarmerki. Viljum við í alvöru sífellt leitast eftir náð í augum atvinnuleikhúsanna? Erum við börnin sem þau eru að ala upp? Þurfum við eitthvað á þeim að halda? Hvernig væri að við héldum einhverja seremóníu og veldum athyglisverðustu atvinnuleiksýningu ársins og kvörtuðum síðan undan einþáttungaskorti? Bara hugmynd.

Úff - nú hljóma ég bitur sem ég er alls ekki. Hin hliðin á málinu eru auðvitað sú að það getur virkað hvetjandi á áhugaleikfélögin að hafa að einhverju að keppa. Svo lengi sem reynum ekki að eltast við einhverja pro-stimplaða gæðastaðla.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Nornaspá mín fyrir daginn í dag:

Diskurinn
Gott er að borða gulrótina, grófa brauðið, steinseljuna.
-þetta er ábending örlaganna til þín um að taka upp hollara fæði

Ég dreg mörkin við steinseljuna. Við höfum öll okkar stolt.

Heilsutilburðir mínir hafa annars skapað stríðsástand á mínu heimili. Heyrði undarlega dynki í eldhúsinu í gærkvöld og koma að Gabríel þar sem hann hafði hent poka af eplum niður á gólf (ég geymi allt grænmeti og ávexti uppi á borði nálægt glugga því þetta vill frjósa í ísskápnum mínum og skemmast þ.a.l. mun hraðar en uppi á borði.) Ekki skildi ég mikið í þessari eplaárás og setti þau á sinn stað og köttinn niður á gólf.

Fór aftur inn í stofu að glápa á sjónvarp. Aftur dynkir. Ég rýk inn í eldhús sé þá að Gabríel hefur misst áhugann á eplunum um leið og þau rúlluðu yfir borðbrúnina og er nú í óðaönn að grafa sig í gegnum plastið sem skilur hann frá harðfiskstykkinu ég hafði daginn áður stungið undir eplin til að varna kattarárás. Ég sting harðfiskinum í snatri inn í ísskáp og hrasa næstum um Lísu sem hafði vomt skammt undan - augljóslega sett í starf skimara* en er ekki að standa sig í stykkinu sökum eigin hraðfisksgræðgi. Yrði ekki góð í bankaránum. S.s. samvinna af lævísustu gerð og hvert tækifæri nýtt til að ná fengnum af réttum eiganda. Daginn áður höfðu þau bæði sótt hart að diskinum mínum með örvæntingarglampa í augum sem olli þessum eplafeluleik til að byrja með.

Nei ég er ekki að tapa mér í misáhugaverðum sögum af köttunum. Er að nálgast punkt hérna. Ég hafði nefnilega keypt þennan blessaða harðfisk og hugsað sem heilsusamlegt snakk. Og þótt mér þyki hann góður er ég ekki viss um að það sé erfiðisins virði að reyna að snæða og bægja frjá ágengum dýrum um leið. Þau hafi komið og hnusað af matnum áður en ekkert í líkingu við þetta. Þannig að - þegar kemur að heilsusamlegra fæði og breytingu á neysluvenjum þarf að huga að ýmsu. T.d. að æsa ekki upp hungur í saklausum dýrum sem eigandinn hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að svala.


________________
* Sá/sú sem er á "lookout" ala bandarískar hasarmyndir. Má vera að til sé almennilegt íslenskt orð en ég get ómögulega munað það og þá býr maður bara til nýtt. Það er íslenska aðferðin.