fimmtudagur, júlí 19, 2007

Síðustu tveir dagar fyrir frí eru helvíti á jörð. Tíminn sniglast áfram og heilinn reynir í sífellu að halda því fram að sé föstudagur þótt hálfsofandi vitundi viti betur.

Bráðum – og alls ekki nógu fljótt – get ég leikið mér að vild og gert allan fjandann í heila viku. Síðan fer ég út til Danmerkur og endurtek leikinn þar.

Ég þarf bara að finna upp á einhverju skemmtilega rigningavænu.

Og af því tilefni að ég þarf ekki lengur að telja saman klink til að eiga fyrir nauðsynjum:Flight of the Conchords

Ég þarf að kíkja á þessa.

Einnig: ég er húkkt á þessum leik.

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Um áraraðir hafa Húsasmiðjan og BYKO metast um hver sé stæstur og bestur og virðast engu nær. Það tók mig ca. klukkutíma í gær að komast að endanlegri niðurstöðu. Finnst að einhver ætti að borga mér fyrir. Ætti að vera billegra en endalausar Gallup kannanir.

Segið mér; hvað er nú það eftirsóknaðverðasta í fari hverrar verslunar? Staðsetning, vöruúrval, verð og kunnátta starfsmanna - ekki satt?

Ég var nú bara á höttunum eftir læsanlegri loku á hliðið og hafði álpast til að festa kaupa á renniloku og hengilás hjá Húsasmiðjunni:

Staðsetning
Það er dágóður spölur í næstu búð fyrir mig - hvort sem ég fer í austur eða vestur. Mér finnst einhvern veginn styttra í Húsasmiðjuna en BYKO er varla mikið lengra í burtu. Munurinn er sennilega vart mælanlegur.

Vöruúrval
Húsasmiðjan Tvær gerðir til - báðar kölluðu á mikla endurhönnun á hliðinu.
BYKO Mikið úrval og þ.á.m. einmitt það sem mig vantaði.

Verð
Húsasmiðjan Keypti renniloku á 2200 kr. sem svo passaði ekki
BYKO Seldi sömu loku á 1900 kr. - ég keypti aðra sem passaði á 670 kr.

Kunnátta starfsmanna
Húsasmiðjan Lúrulegur gaur sem dróst með semingi að lokurekkunum og reyndi að selja mér klósetthespur. Lét aðra kúnna í búðinni benda sér á hvar hluti væri að finna. Ráfaði í burtu í miðju samtali og sást ekki aftur.
BYKO Eldhress miðaldra maður sem sem var strax með á nótunum og fann ódýra lausn.

Það besta sem ég get sagt um Húsasmiðjuna að þessu loknu er að ég fékk endurgreitt. Og hún rukkaði mig bara fyrir helming af því sem hengilásinn átti að kosta. Samviskubit mitt er í sögulegu lágmarki.

mánudagur, júlí 02, 2007Ójá.

sunnudagur, júlí 01, 2007

Við bjóðum aftur til leiks, eftir langa fjarveru, sólarofnæmið mitt. Hér áður fyrr lagðist það eingöngu á lappir, hendur og, fyrst og fremst, handbök en virðist í ævintýrahug og hefur nú hreiðrað um sig eingöngu á bringunni. Rauðar bólur sem mig klæjar í - geðslegt er það. Þannig hefnist manni víst fyrir fylleríin því ég rölti heiman frá mér í dag og út á Eyjarslóð í blíðviðrinu og sumarkjól til að ná í bílinn eftir fjör gærdagsins og uppskar hæfilega hegningu fyrir.

Og hvílíkt fjör var það. Ljótu hálfvitarnir héldu í Borgarleikhúsinu stærstu útgáfutónleika sem ég hef séð 6 mánaða gamla hljómsveit halda og með glæsibrag. Skemmtu þar á fjórða hundrað manns í tvo og hálfan tíma og buðu síðan í partý að því loknu. Ég sagði þetta gott um þrjúleytið og fór heim enda búin að ákveða að klára garðshliðið mitt í dag (og reisti víst fleiri en eina augabrún við þá tilkynningu - eins og smíði á hliðum sé eitthvað sérstaklega undarleg iðn). Hliðið er nú tilbúið og á ég bara eftir að redda mér borvél til að festa það á sinn stað.

Framkvæmdagleðin - hún kemur endrum og eins. Jafnvel aðeins oftar en fjandans sólarofnæmið - ég leyfi mér að vona.