miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Hafiði heyrt nýjasta brandarann? Meðlimir Feministafélagsins mótmæla klámráðstefnu. Það má endalaust hafa gaman af þessu. Jafnvel hægt að líkja þeim við nasista - slík er fyndnin.

Er ekki stórhættulegt að láta bendla sig við þessa hreyfinu? Eiga ekki allir hugsandi kvenmenn að stinga höfðinu í sandinn og kalla sig "jafnréttissinna" - svona til að enginn misskilji örugglega?

Afneitar fólk kristnidómi og segir sig úr þjóðkirkjunni umvörpum í hvert skipti sem Gunnar í Krossinum segir eitthvað heimskulegt? Hættir fólk afskipum af stjórnmálum þegar ráðherrar stíga upp í kokið á sér? Mér er spurn.

Ekki að ég sé að líkja konunum í Feministafélaginu við Gunnar í Krossinum - né kalla viðhorf þeirra heimskulegt sem það er alls ekki. En ég má alveg kalla mig feminista án þess að gangast undir og taka þátt í öllu því sem Feministafélagið tekur sér fyrir hendur. Síðast þegar ég gáði var feminismi hvorki trúfélag né stjórnmálaflokkur - heldur hugmyndafræði.

Og ég er orðin afskaplega þreytt á því að í hvert skipti sem Feministafélagið vekur athygli á einhverju sem misbýður þeim snýst öll umræðan um réttmæti feminista til að segja skoðun sína og sama bitra tuggan tuggin enn á ný.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Hvernig á maður að koma á laggirnar almennilegum alkóhólisma með tilheyrandi sjálfsblekkingu, niðurbroti og afvötnun ef maður kemst aldrei úr sporunum inn á breiðu og brengluðu brautina?

M.ö.o.: Hvar eru allir?

Viðbót: Hún Björg gamla vinkona er loksins byrjuð að blogga. Allir veifa Björgu.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Siggi, formaður Hugleiks, og Íris kona hans eignuðust stúlku í gær. Sýnist mér vera orðin mjög áberandi kvenleg stefna í stjórn þessa leikfélag þar sem þrír núverandi stjórnarmeðlimir hafa framleitt stúlkubarn stuttu eftir að hafa hafið störf. Klárlega verið að undirbúa uppsetningu á "Öskubusku" - eða "Ásu, Signýju og Helgu" eftir 20 ára eða svo. Svona eru þau nú skipulögð og framtakssöm. Til hamingju.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Bloggið mitt hefur verið í hálfgerðri tilvistarkreppu undanfarið. Og hefur kannski liðið fyrir að fá að vera birtingarmynd minns eigin lífsóróa. Það er svo margt sem mig langar til að gera en kem ekki í verk. Það er svo ennþá meira sem ég vildi ekki gera en kemst ekki undan. Í staðinn réðst ég á mygluna í kjallaranum.

Við myglan eigum okkar langa sögu. Ég veit ekki hvaðan hún kemur en pabbi virðist halda að sprunga í útvegg sé orsökin. Ég held að húsið sé að hefna sín á þeirri endulausu runu af mis skemmti- og þrifalegum leigjendum sem ég hef troðið þar inn. Einn tók upp á því að mála stigaganginn í kjallaranum fyrir ca. 2 árum. Áður en hann málaði var engin mygla - nú er mygla. Hann gerði það afskaplega illa. Fór aðeins eina umferð yfir veggina, sletti málningu út um allt gólf - þ.á.m. trétröppurnar og hefur sennilega ekkert þrifið áður en hann byrjaði. Hann var síðan svo eftir sig eftir þessi átök að hann hvorki þreif né tók til það sem eftir var af dvöl hans í kjallaranum (kannski ár?) Regluleg hef ég hlussast niður á kjallaratröppurnar og reynt að þrífa myglublettinn sem gerjast þar í einu horni og étur sig upp eftir veggnum. Í hvert skipti kemur bara meira. Reyndur málari sagði mér að notast við klór þar sem sápa mundi bara virka sem æti fyrir mygluna. Það hafði ekkert að segja. Ég var hætt að nenna þessu og kvíða ferðum niður í þvottahús því það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði kjallaradyrnar var nýjasta gæludýrið - undir það síðasta farið að daðra við loftið.

Fyrir

Loksins tók ég eftir því að þar sem málningin hafði flagnað af við þvottatilraunir mínar var engin mygla - á meðan hún grasseraði vel á nýjasta málningarlaginu. Eina rökrétta skýring var því sú að undir eða inní slettunum sem leigjandi hafði klesst á vegginn var einhver drulla sem myglan mín gat maulað á dagslangt. Nú dugðu engin vettlingatök. Með skröpu að vopni réðst ég á óargadýrið og náð því loks í burtu - algjörlega bara með illu. Við bíðum nú - ég og skrapan - eftir að ófyglið láti kræla á sér á ný. Það rétt ræður.

Eftir

Ath. allur allegórískur lestur á ofangreindu er á ábyrgð lesenda.

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Hér sé fikt. Vinsamlega sýnið þolinmæði.