föstudagur, september 29, 2006

Ég klifraði upp á hitaveituhólinn hjá Sjómannaskólanum í gærkvöldi ásamt nágrönnum mínum og horfði á borgarljósin. Og komst að því að alltof margar stofnanir, skólar, kirkjur og húsfélög hafa gaman af því að flóðlýsa bílastæðin sín. Ég stóð samt þarna í hálftíma og hlustaði á ipoddinn og beið spennt eftir því að kveikt yrði aftur á götuljósunum svo ég gæti kannski séð hverjir stæðu þarna uppi á hólnum með mér en þegar til kom bættu götuljósinn engu við birtustigið. Ég var þó ekki sammála einum samferðamanni mínum þarna sem tilkynnti þegar ljósin komu á: "Ég veit ekki með ykkur en mér fannst þetta gjörsamlega misheppnað." Ef ekkert annað þá gaf þessi viðburður borgarbúum sjaldgæft tækifæri til að slökkva á sjónvarpinu um stund og njóta kvöldblíðunnar í rólegheitum. Það var líka samt skemmtilega spúkí þegar slökkt var á götuljósunum. Þá var ég ennþá á leið upp að hólnum og skyndilega varð gatan mín almyrkvuð og stundi í kór yfir áhrifunum. Sennilega voru áhrifin mest og best í návígi en týndust við yfirsýnina.

mánudagur, september 25, 2006

Seinfeld - OZ Prison


Ég hef aldrei verið eitilharður Seinfeld aðdáandi - ólíkt Oz - satt best að segja hafa þættirnir alltaf haft sérstakt lag á að fara í mínar fínustu. En síðustu vikur hef ég gjarnan dottið inn í gamlar Seinfeld endursýningar og þær hafa ekki verið svo slæmar. Vöktu m.a. upp fagrar minningar um þetta sketch.

miðvikudagur, september 20, 2006

Bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt


Ég veitt satt að segja ekki hvort ég á að hlægja eða gráta.

föstudagur, september 15, 2006

Storm & The Balls - What The Fuck Is Ladylike

Hvað sem öllum þjóðrembing og vandræðagangi líður þá breytir það ekki þeirri einföldu staðreynd að þetta var besta lagið sem kom fyrir í Rock Star: Supernova. Í sinni upprunnalegu og sönnu mynd. Hljóðið að vísu ekki upp á marga fiska en því má redda með einum mp3:

Storm and the Balls - What the Fuck is Ladylike

Ég legg svo til að þetta verði þjóðsöngur feministahreyfingarinnar.
Átti gott spjall við skattinn í hádeginu. Mikil ósköp er allt kristalstært núna. Í stuttu máli - á meðan neysluvörur og lán hækka upp úr öllu valdi eiga launin í vandræðum með að halda í við þensluna. Á sama tíma hækkar fasteignaverð meira en góðu hófi gegnir. Þar af leiðandi hækkar fasteignamat. Og eignahluti minn í blessaðri fasteigninni. Sem gerir það að verkum að það eina sem lækkar eru vaxtabæturnar. Því stjórnvöld eru ekkert að flýta sér að hækka viðmiðunartöluna (rétt undir 6 milljónum - einhvern veginn þarf Guðni að hafa efni á hesthúsunum sínum) og af því að einhver lúsablesi seldi sambærilega íbúð í götunni á 13,4 er ég núna orðin forrík á pappírum. Ekki nóg með að greiðsluþjónustan vilji 22 þús. krónum meira á mánuði frá mér heldur hefur ríkið núna minnkað einu greiðsluna sem ég fæ frá því (fyrir utan laun) um meira en helming. Dásamlegt. Það fer alveg að koma tími á að selja allt heila klabbið og flýja land. Ég bið ekki um mikið - bara getu til að lifa á laununum.

Hmm... veðflutningur skyndilega orðinn mögulegur...

fimmtudagur, september 14, 2006

Mikið ofboðslega er ég fegin að þessi Rockstar vitleysa er búin. Loksins getur maður farið að stunda almennilegan svefn í miðri viku.

Það var vitað frá fyrstu viku að íslenskur sveitaballarokkari mundi ekki fitta inn í band með uppþornuðum amerískum glysgaurum (Tommy og Gilby - Jason virkar á annarri bylgjulengd) og því var aðalfjörið að fleyta honum fram í lokaþáttinn. Sem og tókst. Verði þeim vel að Lukasi. Ekki á ég eftir að hafa þolinmæði í að hlusta á þetta garg en það virðist vera sá regin munur á amerískri og evrópskri rokkstefnu að hafa skal það sem lúkkar betur - tónlistin má gjöra svo vel að troðast í aftursætið.

Stóra spurningin er svo hvað tekur við. Er það ekki bara hin glimmrandi nýpússaða Stundin okkar? Tímasetningin svo óvenju svefnvæn og lögin víst skemmtilega kunnugleg.

Og til hamingju Rannveig og Kjartan með nýju dótturina!