þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Ömurlegt ömurlegt ömurlegt.

Ég er ekki-veik. Ég hef verið ekki-veik núna í 3 daga. Ég mætti galsvösk til vinnu í gærmorgun sannfærð um að ég væri ekki ekki-veik en fór heim í hádeginu og fannst það viðeigandi að taka hálfan veikindadag í þessum ekki-veikindum. Nú er ég mætt aftur - með hálfum hug - og staðráðin í að vera fullfrísk á viljanum einum saman.

Ég gæti ekki komið mér upp almennilegu þunglyndi í stöðunni ef ekki væri þessi skemmtilega viðeigandi rigning og þungbúni himinn. Ef það væri aðeins kaldara gæti ég réttlætt það að vera með trefil innan dyra, gengið um og lokað gluggum og kvartað undan dragsúg - ekki-veikindamáli mínu til stuðning.

Er það til of mikils mælt að krefjast þess að geta annað hvort slugsast fullfrísk í vinnunni ellegar hangið heima í móki yfir sjónvarpinu með skínandi hreina samvisku (og hor í nös)?

laugardagur, ágúst 28, 2004

Hallelúja!!

Og englarnir taka gleði sína á ný!

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Engin tölva handa Ástu.

Afsakið mig á meðan ég fleygi mér skælandi fyrir björg.
Jæja - ég réðst loksins í tímabæra andlitslyftingu á þessu bloggi. Ég veit nú ekki hvort ég ætlað að hafa þetta svona - þessi nýju template eru full fancy og "sniðug" fyrir minn smekk. Erfitt að breyta nokkru án þess að allt fari í klessu. Ég gafst t.d. upp eftir nokkrar tilraunir á að segja gamla kommentkerfið inn - þ.e.a.s. ég kom því inn en uppsetningin varð öll undarleg. Við sjáum til með það.

Nú er ég farin að telja mínúturnar þangað til ég fæ tölvuna aftur. Allir puttar og tær hafa verið krosslagðir og gripurinn skal koma heim í dag. Annars fær ég taugaáfall.

Besta leiðin að bægja slíkum óþægindum frá er að hafa nóg fyrir stafni. Gærdagurinn var viðburðarríkur í mínu annars snauða lífi. Fór á útsölu í Kringlunni í hádeginu og fann þar alklæðnað (pils, topp, buxur, jakka) á samtals 3000 kr. Fannst ég ofboðslega rík í kjölfarið og réðst í það að kaupa loksins afmælisgjöf handa Siggu Viggu sem varð sex ára þann 3. ágúst. Fór í Ikea og keypti þar trönur sem hægt er að mála, kríta og tússa á handa barninu sem varð himin lifandi. Sjálf hentist ég svo út á Granda um kvöldið þar sem ég málaði veggi Hugleikshússins svarta ásamt Einsa og Dr. Tótu þar til klukkan var langt gengin í ellefu. Rotaðist í sófanum heima nær dauða en lífi af þreytu á miðnætti.

Tölva? Hvaða tölva?

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Fyrir þá sem fylgjast spenntir með heimkomu tölvunnar minnar (ekki ólíkt heimkomu handritanna eða Keikós) og hafa ákveðið að gera þetta soldið spennandi eru komnar nýjar veðbankatölur:

Í kvöld: 1/365
Á morgun: 1/2 (var að tala við lillebro sem taldi það mjög líklegt)
Á fimmtudaginn: 2/9
Á föstudaginn: 1/365 (eða það verða læti)

Skannaði inn myndir - Verzló fyllerí og ýmsar fjölskyldumyndir - sumar kunna að vera vandræðalegar - sérstaklega fyrir mig en mér er bara hjartanlega sama og ef einhver barmar sér og ætlar að kvarta: díl.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Ég fæ bráðum tölvuna mína aftur. Nú er allt að gerast! Eftir tveggja mánaða kvöl og pínu kemur barnið loksins heim til sín. Hvað úr hverju. Greyð litla hafði ofhitnað all svakalega og brætt úr sér bæði harða diskinn og örgjörvann. Ég er að vísu ekki með afhendingardag nákvæmlega á hreinu en er að vonast eftir að það gerist í þessari viku. Fer allt eftir því hvað litli bróðir hefur mikinn tíma. Veðbankar hafa verið opnaðir og líkur sem hér segir:

1/20 í dag
3/7 fimmtudag
1/2 sunnudag

Frekari tölur verða gefnar upp eftir því sem líkur eru reiknaðar.

föstudagur, ágúst 20, 2004

Mér varð litið á Esjuna áðan og var talsvert brugðið í brún. Ekki eitt einasta einmana snjókorn að sjá á öllu fjallinu. Hefur það nokkurn tímann gerst áður - meira að segja í ágúst?

Það sem ég vildi sagt hafa: fyrst að snjórinn er farinn af Esjunni á Grænlandsjökull álíka mikinn séns og Íslendingar á Ólympíuleikum.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Ég hef verið umkring fólki, fjöri, fíflaskap og ferðalögum í allt sumar og nú er það bara búið! Öllu kippt úr sambandi og skyndilega ætlast til þess að maður hverfi inn í grámyglu hversdagsins cold turkey. Hvar eru allir? Hvað á ég nú af mér að gera?

Þetta var að síast inn í vitundina rétt í þessu.

mánudagur, ágúst 16, 2004

Eftir 8 daga hef ég verið tölvulaus heima hjá mér í tvo mánuði. Hvern hefði grunað að ég gæti þetta? Nú vil ég samt fara að fá gripinn heim. Aðallega vegna þess að ég tími ekki að borga Margmiðlun endalaust fyrir ADSL tengingu sem ég nota ekkert. Tólf þúsund krónur í súginn er alveg nóg takk fyrir.

Leikritið er búið - engar fleiri sýningar - þeir sem misstu af verða bara að barma sér og bíta í það súra. Lokasýningin var á laugardaginn og þótt einhver gestur á svæðinu hafi verið svo elskulegur að fjarlægja húskarlabúninginn minn frá þeim stað sem ég hefði komið honum fyrir á (ég skelli mér í hann inni í kjarrinu eftir upphafslagið) kom það ekki mikið að sök.
Lokapartý um kvöldið - í bland við kveðjuhóp Nínu og Tóró sem eru að halda til sitt hvors landsins fljótlega í nám - að Eyjaslóð þar sem ég fékk loksins fyrir tilstilli örlætis Hjalta að smakka Absinthe. Ég var nú annars öll í skynseminni og þar sem ég hafði aðeins tekið á því kvöldið áður ásamt Auði var ég kominn heim til mín bara nokkuð hress um hálffjögurleytið.

Gærdagurinn fór strætóferð út á Granda til að ná í bílinn og svo misheppnaða berjatínsluferð í kjölfarið undir rótum Esju. Það var reyndar fínt að hlaupa pínu um hóla og hæðir en lítið fann ég af berjum.

Haldið var upp á afmælið hennar Nönnu með talsvert meiri pragt heldur en pompi í gærkvöldi en sæmilegur hópur (ég, Nanna, Jón Geir, Stebbi, Ragnheiður, Elva, Gunni) hittist uppi í Keiluhöll og reynt var að fella bévítans keilurnar með mjög misjöfnunum árangri. Þetta var hin besta skemmtun og rúllað var upp og niður allan tilfinningaskalann á meðan á stóð.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Hvaða rugl er í teljaranum mínum? Hann virðist hafa núllstillt sig upp úr þurru. Hvaða gagn er í því að hafa teljara ef hann tekur upp á slíkum tiktúrum?

Er búin að komast að því að ég á við alvarlega fötlun í starfi að ræða - hún kallast að vera kvenmaður. Hér sitjum við tvær - einu konurnar hjá fyrirtækinu og erum ekki í fríi í mestu hitabylgju sem komið hefur á Íslandi frá því mælingar hófust. Karlarnir létu sig svotil allir hverfa um leið og mælirinn þokaðist upp fyrir 17 gráður og voru ekkert að spá í það að við vorum nýbúin að opna skrifstofuna eftir tveggja vikna lokun og verkefni höfðu að sjálfsögðu hlaðist upp á meðan. Því sitjum við sveittar og reynum af óhóflegri samviskusemi að vinna upp glataðan tíma á meðan karlarnir firra sig allri ábyrgð og tjilla sennilega í einhverjum sumarbústaðnum með bjór í hönd.

Ekki að ég sé öfundsjúk.

Það sem er sennilega mest pirrandi er að ég veit upp á hár hver viðbrögðin væru ef ég hagaði mér eins og stingi bara af í frí. Almennt svekkelsi og fýla í minn garð ásamt hæfilegum skammti af vænissýki og taugaskjálfta. Hvað kallana varðar virðist þeim vera alveg sama um slík viðbrögð en ég - verandi haldin þessari óheppilegu fötlun - sit sem fastast af heimskulegri skyldurækni og vilja til að gera fólki til geðs.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Er að hlusta á Black Hole Sun og finnst það óvenju viðeigandi undirspil fyrir daginn í dag.
Ég fékk loksins að borða og er nú talsvert sáttari.

Svo ég vendi kvæðum...

Var að horfa á lokaþáttinn af þeim ágæta "raunveruleikaþætti" Joe Schmo í gær. Framleiðendum var greinilega mikið í mun að koma því til að skila að allt í þættinum væri feik - allt planað og allt leikið - fyrir utan auðvitað Joe Schmo sjálfan - hann Matt - sem hélt að hann væri staddur í frekar útvatnaðri útgáfu af Survivor og Paradise Hotel. Ég er hissa á að enginn skyldi minnast á tengslin við "The Truman Show" í kynningum á þáttunum sem eru ekki lítil og stór þáttur í því að þessi tilraun skyldi heppnast svo vel. Því að þótt á yfirborðin virðist um frekar ömurlega leið til að hafa einn veslings mann að fífli trekk í trekk varð reyndin ekki sú. Matt - ósköp hrekklaus og ljúfur náungi - var ekki hinn týpíska raunveruleikastjarna. Hann hefði sennilega aldrei verið valinn í "alvöru" raunveruleikaþátt því til þess er hann alltof normal. Þegar leikararnir fóru síðan að haga sér heimskulega á yfirkeyrðan hátt samkvæmt handriti brást hann við eins og eðileg manneskja. Hann brást við eins og við flest hefðum sennilega brugðist við; hristi bara höfuðið og reyndi að róa liðið. Þannig að sem áhorfandi fór maður að halda með honum - maður fór að óska þess að hann fattaði djókið - maður beið eftir því að leikaranir og framleiðendurnir klúðurðu blekkingunni á einhvern hátt. Baktjaldamakkarnir voru komnir í hlutverk fíflsins og við áhorfendur í lið með Matt. Enda veitti honum ekki af liðstyrknum. Leikararnir gerðu að sjálfsögðu sitt ýtrasta til að réttlæta sig - töluðu um það trekk í trekk hvað Matt væri æðislegur og þegar allt var yfirstaðið og ringlaður Matt stóð með risastóru ávísunina sína voru þau hársbreidd frá því að lúta í gólfið fyrir mikilfengleika gæsku hans og kyssa tær hans. Sennilega væri hægt að skrifa arfavonda bókmenntaritgerð um kristsfígúru í Joe Schmo. Loka djókurinn hans Matt er svo sá að hann er langt frá því að vera þessi guðumlíka vera sem leikrarahópurinn var búinn að búa til í brengluðum hugarskotum til að bæta uppi samviskubitið. Það fer ekki á milli mála að hann er góður gæi en eins og allt eðilegt fólk í hans sporum setti hann upp rétta andlitið fyrir myndavélarnar og passaði sig að segja og gera réttu hlutina. Hvaða hálfviti mundi gera nokkuð annað?
Kjúklingur í hádegismatnum í mötuneytinu og ég í röð á eftir manninum sem fær allra síðasta bitann.

Ég er glorhungruð, að bráðna og kemst ekki í sund.

Ó mig auma.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Ég er alltaf að gleyma hvar í tíma ég er og hvað ég á að vera að gera. Núna er ég stödd á skrifstofunni að tölvast pínulíti áður en ég fer með flöskur í endurvinnslu, kaupi grunn á nýja kjallaravegginn og mála síðan fyrrnefndan grunninn á fyrrnefndan vegginn. Þetta eru næstu 3-4 tíma sem ég ræð nokkuð léttilega við. Allt annað veldur mér talsverður vankvæðum. T.d. morgundagurinn. Ég er í fríi þessa dagana og hef verið nú í ca. 10 daga. Annað kvöld er rennsli á Stútungasögu í Heiðmörk vegna þess að það er sýning á fimmtudagskvöldið (kl. 8 - miðaverð 500 kr.) Þetta man ég núna en aðeins vegna þess að faðir minn minnti mig á það fyrr í dag. Fljótlega eftir reyndi ég að skipuleggja kjallaraviðgerðir (í alvöru kjallara) um helgina og var rétt í þessu að muna eftir því að ég verð soldið upptekin þar sem ég er víst á leiðinni til Dalvíkur á föstudaginn (hinn mikli Fiskidagur - það verður sýning hjá okkur kl. 10 á laugardagsmorguninn) og kem aftur á sunnudaginn. Það gengur illa að halda þessum upplýsingum inni í hausnum og fremst í vitundinni því í hvert skipti sem ég einbeiti mér að einhverju öðru lekur út öll vitneskja um vikudaga og framtíðarplön. Það er víst kominn tími til að krota í lófana.