mánudagur, júní 25, 2007

Ein af vinsælli gönguleiðum Reykjavíkurborgar er í gegnum garð einn austan við Hlemm. Hvort sem þú ert í göngutúr með hundinn, barn að leik, á leið heim af djamminu eða klifjuð farangri er fátt skemmtilegra en að stytta sér leið í gegnum hinn fagra og vel hirta garð hinna tveggja virðulegra piparjúnka, sem búa svo vel að hafa gat í grindverkinu í bakgarðinum, inn á leikvöllinn sem liggur á milli Háteigsvegar og Meðalholts. Stórtækar framkvæmdir og uppgröftur á leikvellinum hefur ekkert dregið úr vinsældum þessarar hjáleiðar og ef þú ert heppinn geturðu séð glitta í tortryggnar augngotur eins og einnar júnku í gegnum eldhúsgluggatjöldin.



En ekki láta þér bregða þótt á morgun verði komið læst hlið.

föstudagur, júní 22, 2007

Bæðevei...

Hefur einhver hérna séð Slings and Arrows? Bráðskemmtilegir kanadískir gaman/dramaþættir um hysteríu í snobbuðu leikhúsi í litlum bæ. Fantavel skrifaði og frábærleg leiknir þættir sem sýna mikla ást á leikhúsinu án þess að taka það hátíðlega. Ég veit ekki til þess að þeir hafi verið sýndir hérlendis sem er mikil synd. Eiginlega algjört möst fyrir leikhúsnördana. Gerðar voru þrjár seríur alls (6 þættir í hverri) og eru allar til á DVD (sjá link hér til hægri). Ég fór reyndar ódýru leiðina og komst yfir þá eftir smá vafasömu leiðum. Þeir sem rata á torrent - íslensk sem erlend - ættu að geta fundið líka.

Ég ætla að klára fyrstu seríuna í kvöld - á bara einn þátt eftir. Bíð spennt eftir að vita hvort Hollywood hunkið öðlast kjark til að tækla hlutverkið eða hvort geðveiki leikstjórinn þarf að sigrast á Hamletfóbíunni og stíga inn í verkið á síðustu stundu. Það er nefnilega frumsýning og kameljónið ennþá laust í áhorfendasalnum...

"Já þið segið nokkuð"

Segir maðurinn þegar hann gengur fram hjá skrifborðinu mínu og horfir eitthvert allt annað. Ég hef nokkrum sinnum reynt að segja honum nokkuð og finnst það sjálfsögð kurteisi: "Já það rignir", "Nei það gerum við ekki", "Ég braut nögl", "Dettum í það" en hann virðist ekki vera að hlusta. Á leiðinni til baka (hann var að ná í kaffi) brýst kannski fram eitt "Jájá" þegar hann er svo til kominn framhjá - alltaf svarandi óspurðum spurningum og staðhæfingum.

Ætli þetta sé n.k. form af Tourettes? Ósjálfrátt og tilefnislaust samræðuhjal fyrir fólk sem fær það ekki af sér að blóta?

mánudagur, júní 18, 2007

Þegar ég var barn var það besta sem ég fékk appelsína sem skorið var í miðjuna á og fyllt í með sykurmolum. Svo saug maður vökvann í gegnum sykurmolana og þegar hann var nær uppurinn borðaði sætt kjötið í kramda ávextinum.

Ég var bara að spá í hvernig maður glutrar niður gömlum og ánægjulegum fýsnum. Eins og að fara í gufu á hverjum degi. Eða spila blak. Eða lemja fólk af tilefnislausu.

Skólinn var gaman. Einn sá besti held ég bara. Samt með öðru sniði. Erfiður á lappirnar sem endra nær - sérstaklega þegar ég fór að snúa upp á þær - og stundum frústrerandi. En maður fær ekkert gott í þessu lífi án einhverra átaka.

Væmnin var í lágmarki þökk sé miklu magni af neðanbeltis húmor og ofbeldi. Það fannst mér fínt því hitt getur verið svo déskoti erfitt þegar líða tekur á vikuna. Marblettina og misboðna sómatilfinningu kann ég betur að díla við.

Ekki það að hvíldin frá kláminu verði ekki kærkomin. Og ég er alveg hætt að borða kokteilsósu. Það verður samt tilbreyting að hlæja sig ekki máttlausa á hverjum degi.

Hérna var "bloggað" um ævintýrið fyrir áhugasama.

Ég setti inn nokkrar myndir. Aðeins brot af þeim sem ég tók en af því að ég var nú bara með símann minn þurfti valið soldið að miðast af því hvaða myndir heppnuðust og hverjar fara beint í tunnuna. Það er því tilviljun og dyntir Sony Ericsson sem ráða öllu hér (þarna er líka "official" skólamynd sem við fegnum senda frá Vibbu).

Næstu dagar fara svo í það að sofa í heila öld.

mánudagur, júní 04, 2007

Fjandans kvef - tekur yfir lífið og sýgur úr manni alla orku. Ég verð víst bara að vona að það verði að mestu búið þegar ég fer norður næstu helgi.

Ég fann að þetta var að hellast yfir mig síðast föstudag. Rétt tókst að merja tónlistardagskrá Hugleiks þar sem ég fann að röddin var á síðasta snúning og byrjuð að bresta við minnsta álag. Hefði hún verið haldin degi seinna er ekki séns að ég hefði getað sungið. Að öðru leiti gekk þetta bara vel og var gerður góður rómur að.

Helgin var því með rólegra móti. Heimsótti fjölskyldu og vini á laugardag og hélt mig kyrfilega heima við á sunnudag. Lá uppi í rúmi og brynnti músum endurnýjaði kynni mín við Önnu í Grænuhlíð þökk sé internetinu. Komst að því að gerð var framhaldsmynd árið 2000 sem ég hef ekki enn þorað að horfa á. Sömu leikarar í sömu hlutverkum - bara 17 árum eldri að leika niður fyrir sig. Það er orðið langt síðan ég las bækurnar en ekki man ég eftir ævintýrum Önnu í fyrri heimstyrjöldinni. Aldrei grunaði mig að hún Anna gamla, af öllum, ætti eftir að stökkva yfir hákarl...

föstudagur, júní 01, 2007

Í kvöld er allra síðast séns til að upplifa restina af leikrári Hugleiks. Tónlistardagskráin glæsilega verður endurtekin - og eins vel heppnuð og hún þótti á þriðjudaginn verður hún ennþá betri í kvöld. Byrjar kl. hálf ellefu sem er auðvitað hinn besti tími fyrir föstudagsdjamm.

Aðalfundur Hugleiks var í gær og var mikið skrafað - en þó ekki þrætt og lauk honum á mjög skynsamlegum tíma. Gummi og Siggalára létu sig hverfa úr stjórn en ég, Jenný og Tóró komum inn í staðinn. Eftir fundinn vildi reykþyrsta liðið upplifa hina fullkomnu kaffihúsastemninu í síðasta skipti og því var reynt að finna hentugan vettvang. Andarunginn hafði þjófstartað sínu reykleysi en The Highlander tók við hópnum opnum örmum. Ég fékk mér Pepsi Max til samlætis því ég hef hugsað mér að gera heiðarlega tilraun til að hætta neyslu gosdrykkja og gat svona næstum því sett mig í þeirra spor.

Og nú ætlum við Auður að hittast á Vegamótum í hádeginu og halda uppá það að hún getur farið með 6 vikna guttann sinn inn á hvaða stað sem er hér eftir.

Það er fínt að hafa balans á hlutunum.