miðvikudagur, janúar 30, 2008

Æfingar á "39 og ½ viku" eru hafnar með trukki og er í nógu að snúast. Áhugasamir geta fylgst með framgangi mála í nýrri hugleikskri æfingadagbók.

Það hefur afskaplega lítið annað komist að hjá mér undanfarið nema ef vera skyldi fyrirhugaðir tónleikar í Norræna húsinu næstu helgi. Þetta ku vera sams konar tónleikar og haldnir voru í fyrra - s.s. ýmsir Tónó nemendur að flytja þematengt efni. Breytingin í ár felst fyrst og fremst í því að taugar mínar liggja ekki í rjúkandi rústum yfir þessu öllu saman. Í fyrra voru það 1 eða 2 angurvær sönglög ala Britten sem ég réð eiginlega ekki við við bestu fáanlegu aðstæður og alls ekki í dimmum og gluggalausum helli Norræna hússin fyrir framan geispandi áhorfendur. Nú í ár syng ég eitt lag - það er skemmtilegt - ég ræð vel við það þótt það sé faktískt erfiðara en hin voru (margt getur breyst á einu ári) og þetta verður bara gaman.

Annars veit ég ekki hvað hefur á daga mína drifið. Síminn reynir að féfletta mig sem mest og best hann getur. Heldur því fram að ég eigi að borga fyrir aðgang að sjónvarpsefni sem ég bað aldrei um. Ég átti víst að telja dagana í þessum frímánuði og hringja síðan og segja þeim að hætta um leið og hann var liðinn. Frá mínum bæjardyrum séð er það argasta ósvífni að gefa mér eitthvað sem ég bað ekki um og senda svo reikning. Ætti ég að prófa þetta sjálf? Hringja í alla yfirmenn Símans, lesa upp fyrir þá úr stjörnuspá Moggans og rukka fyrir lífsfærni? Ég er búin að neita formlega að borga í tvígang og þeir segja bara jú víst. Hvað gerir maður þá?

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Þegar ég var unglingsstelpa að uppgötva Bowie var eitt lag mér sérstaklega hugleikið. Það var coverlag sem poppar upp á hinum og þessum stöðum á ferli Bowie en ekki á neinni "almennilegri" plötu. Það er á Pinups diskinum en ekki á upprunalegu plötunni - á Rare plötunni (þar sem ég heyrði það fyrst) sem var aldrei endurútgefin því hún var víst kolólögleg og á ýmsum B-hliðum. Hvað um það... ég og Embla vinkona mín hlustuðum á það í tætlur og það hefur alltaf verið mér hugleikið þessi síðustu 20 ár eða svo.

Og í dag datt mér í fyrsta skipti í hug að finna upprunalegu útgáfuna.

Hér er höfundurinn að flytja lagið á frummálinu:

Jacques Brel - Amsterdam



Eitthvað segir mér að kvennafarir hans hafi ekki verið alsléttar. Lagið verður allt miklu persónulegra og erfiðara í meðförum Brel. Bowie virtist aldrei beinlínis vera að setja sig í spor sjóaranna - hann virtist miklu frekar vera í hlutverki sögumanns. En dæmi hver fyrir sig:

David Bowie - Port of Amsterdam

mánudagur, janúar 14, 2008

Ég var að uppgötva að ég hef barasta ekkert bloggað á nýju ári - og ekkert í heilar 3 vikur! Uggvænlega þróun þar. Það hefur reyndar verið feyki nóg að gera - sérstaklega hefur Hugleikur gert sig líklegan til að gleypa allan minn tíma á komandi mánuðum.

Ég ákvað á nýju ári að gerast hugrökk og mætti galvösk á minn fyrsta höfundafund. Gróf meira að segja upp tvo aldraða einþáttunga til að hafa með. Gó mí.

Ég, Júlía og Siggi Páls ætlum að leikstýra "39 1/2 vika" eftir Hrefnu Friðriksdóttur og hömumst þessa dagana - eftir tvo velheppnaða samlestra - að hnoða saman leikhóp sem við getum öll verið sammála um. Síðan munu taka við stífar æfingar því það eru réttir tveir mánuðir í frumsýningu. Meira um það síðar.

Því fyrst verður Útsýni eftir Júlíu Hannam frumsýnt í Möguleikhúsinu - nánar tiltekið næstu helgi. Ég hef ekkert verið að skipta mér af þeirri sýningu - nema hvað ég verð eitthvað í miðasölu - en á von á miklu enda leikstjórarnir tveir - Silja og Rúnar - sérlega efnilegir.

Niðurstaðan er sú ég hef ekki fundið mikinn tíma til að æfa mig fyrir söng og píanó og ég sé fram á að þurfa að hætta í tónheyrn því bæði finn ég ekki nauðsynlegar bækur heima hjá mér frá því að ég reyndi að taka þetta ógeðsfag fyrir tveimur árum með frekar slökum árangir og svo er ég orðin algjörlega uppiskroppa með tíma og orku. Ef ég hefði ekkert betra að gera gæti ég kannski sest fyrir framan píanó, slegið tónbil og giskað á það um leið og ég reyni að fatta ekki hvar ég í raun sló. Er ekki hægt að skella í sig einhverjum sterum til að þjálfa tónheyrnarvöðvana? Ég sver að ég stefni ekki á keppni.