fimmtudagur, maí 24, 2007

Mig grunar að ég sé alls ekki sú eina sem er að láta þetta sumarlíki sliga sig. Alla daga jafn þreytt og mygluð - og núna upp á síðkastið óeðlilega pirruð. Og það þótt ég borði (nokkurn veginn) rétt og taki vítamínin. En ef ekki á að kenna veðrinum um er smá séns að hreyfingarleysið sé sökudólgur. Í hádegisþunglyndiskasti var því fjárfest í korti í Baðhúsinu. Þar er sumartilboð í gangi - þriggja mánaða kort á kr. 13.900 sem er það mesta sem samviskan tímir að borga fyrir eitthvað sem verður að öllum líkindum illa nýtt. Eins og sést er hádegisþunglyndiskastið enn við lýði enda kunnuglega haglélið byrjað enn á ný og ég ekki farin að mæta í tíma. Nú væri ekki leiðinlegt ef fleiri sæju sér fært að nýta þetta góða tilboð og sparka síðan í óærði endann á mér svo ég mæti sem oftast. Ég er að sjálfsögðu bara að hugsa um velferð og heilsu vina minna.

Fyrst ég er á þessum nótum... á einhver hjól sem hann eða hún þarf að losna við? Jafnvel gegn vægu gjaldi? Ég geri engar kröfur aðrar en þær að það tolli undir mér.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Alveg makalaust.

Fjárhagurinn var orðinn soldið illvígur og ljótur á að líta upp á síðkastið og sá ég fram að á þurfa að koma mér í aukavinnu einhvers staðar út þennan mánuð ef ég átti ekki að enda á hvínandi kúpunni. Ekki bætti það lundina tilhugsunin um að ég átti eftir að borga fyrir meirihlutann af Húsabakkanámskeiðinu og sátu þær saman, kreditkortaskuldinn og skólaskuldin, eins og mörur á bakinu á mér og ekkert líklegar til að hypja sig í bráð.

Kemur þá til sögu Skatturinn - eins og guðinni í vélinni - færandi hendi með vaxtabætur sem nema ríflegri upphæðinni á kreditkortaskuldinni og feykja óvættinni út í buskann. Ég átti von á smá pening en ekki þessu. Skólaskulding er frekar sneypin og einmana núna og verður auðveld að tækla þegar þar að kemur.

Einhvers staðar átti ég uppsafnað gott karma það er ljóst. Við svo bætist að ég fékk fínar einkunnir fyrir bæði kontrapunkt og stigsprófið í píanó og er því bara hæstánægð þessa dagana.

Kók og prins á línuna!
Ég viðurkenni fúslega að hann er stundum frekar stuttur á mér fattarinn.

Ég var því bara að átta mig á því núna hvers vegna úkraínska lagið hljómaði strax svona kunnuglega.

Er þetta nokkuð annað en Rebellinn í nýrri og glitrandi mynd? Sama orka, svipuð geðveiki, fagrar bakraddir, einkennisdansinn í sams konar stíl og áköf danskrafa á alla sem hlýða. Hið úkraínska aðeins meira diskó og gay á meðan Rebellinn gæti best kallast írónískt gleðipönk en grunnhugmyndin skugglega svipuð.

Held ekki svei mér þá.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Bingó er búið í bili. Síðast sýning var í gær - bæði fyrir leikritið og leikhúsið sem er verið að rífa í tætlur í þessum orðum skrifuðum. Hún tókst með eindæmum vel og áhorfendur eðlilega hrifnir. Ég hafði ekki horft á frá því á þriðju sýningu og frábært að sjá hversu þétt og snuðrulaus hún var orðin. Ég veit ekki hvort, hvenær og hvar hún verður tekin upp aftur - held að málið sé athugun - en það er virkileg synd að kippa henni svona úr umferð þegar hún er komin á almennilegt flug.

C'est la vie. Áhugaleikfélög eru víst vön að sníða sér stakk eftir vexti.

Á meðan ég man: hvernig væri að brýna fyrir leikhúsgestum að setja ekki aðeins símana á "silent" heldur slökkva alfarið á þeim. Og alls ekki vera að senda sms út alla sýninguna! Manneskjan sem sat við hliðina á mér ótrúlega ræðin og gat ekki haldið athyglinni við það sem fyrir augu bar. Hún var með einn af þessum símum með stórum, björtum skjá - mun bjartari en á símanum mínum og þó hef ég átt það til að nota skjáinn sem vasaljós. Í aldimmum sal verður þetta "pínku" truflandi. Að maður tali nú ekki um vanvirðingu við sýninguna sjálfa.

Ég tók stigspróf í gær. Annað stig á píanó. Það gekk bara ágætlega. Síðasta lagið fékk að vísu allan stressskammtinn sem hafði safnast upp út prófið. Ég vissi að maður ætti að taka þau lög sem maður kann síst fyrst. Klára það sem veldur mestum áhyggjum strax af. En restin gekk ágætlega. Ég ber engar svakalega væntingar til píanónáms míns. Verð ánægð að ná.