þriðjudagur, desember 30, 2003

Ok þetta með sundið var kannski fullmikil bjartsýni. Þegar ég kom heim eftir vinnu í gær þufti ég að byrja á því að moka mig inn í bílastæðið mitt og tókst samt að festa mig og þurfti hjálp þriggja nágranna til að komast inn í stæðið. Fyrst þurfti ég þó að opna dyrnar að útigeymslunni til að ná í mokstursgræjurnar en hurðin hafði tekið upp á því að frjósa föst við dyrnar. Hafði það loksins með því að berja skrúfjárni milli stafs og hurðar. Skenkurinn ógurlegi - svona var nú stofan mín falleg einu sinni... allt svo slétt og fellt ... Hawaii rósin enn á lífi ...Allar barsmíðarbarnar og moksturinn tók einn og hálfan tíma og var ég að drepast í bakinu sem aldrei fyrr þegar ég hætti. Tíu villtir folar með tólf sterka kokteilar hefðu ekki getað dregið mig út úr húsi það sem eftir var dags.

Ef satt skal segja veit ég ekki hvar ég fann orkuna í þetta þrekvirki. Ekki hef ég haft hana til að taka til í íbúðinni minni. Sigga Lára kemur eftir þrjá daga og herbergið hennar enn óíbúðarhæft. Það er helvítis skenknum að kenna. Mér vex það svo í augum að ætla að færa hann. Þetta er nú nokkuð flottur skenkur. Viltu ekki bara hafa hann inni í herbergi hjá þér, ha Sigga? Mikil stofuprýði! Einnig stutt í rauð/hvítvíns/púrtvíns/bjórglösin!

mánudagur, desember 29, 2003

Hver vill koma með mér í sund? Ég nenni ekki ein en er að drepast í bakinu eftir letilíf síðustu daga. Er ekki bara rosa kósí að svamla í heitri laug á meðan snjóbreiða leggst yfir borgina?

mánudagur, desember 22, 2003

Íslenskt aðfangadagskvöld árið 1975Við Svavar vinnufélagi minn (og ekki Hr. Muzak enda ekki einu sinni hægt að rugla þeim tveimur sama á myrkasta degi ársins) ætlum að skella okkur í verkalýðsmálin á nýju ári. Þegar farið er að rýna í kjarasamninga síðustu ára kemur nebblilega ýmislega misjafnt í ljós. Vinna á aðfangadag og gamlársdag! Hverjum datt þessi vitleysa í hug? Nú vill til að ég starfa hjá skynsamri stofnun sem dettur ekki í hug að láta starfmenn sína mæta í eitthvað tilgangsleysi og hangs á þessum dögum en ef ekki fyrir slíka náð og miskunn væri ég tilneydd til að dröslast fram úr rúmi fyrir alla aldir á þessum hátíðisdögum og jafnvel neyðast til að leggja nafn Guðs við hégóma. Á meðan farið er svona svínslega með hið vinnandi fólk í landinu yfir hátíðirnar er 1. maí talinn merkari dagur. Á skírdag og föstudaginn langa er víst ótækt að vinna svo fólk getið setið heima við bænahald. Það sama á við um uppstigningadag, sumardaginn fyrsta, annan í páskum og annan í hvítasunnu. Á meðan allt lék í lyndiHvar er hálfvitinn sem ákvað að þessir daga væru allir sem einn heilagri heldur en aðfangadagur? Er verið að apa eftur útlendum fyrirmyndum sem neita að viðurkenna hinn eina rétta "jóladag"? Að maður tali nú ekki um frídag verslunarmanna sem allir landsmenn fá að njóta fyrir utan - oftar en ekki - verslunarmenn. Fyrir hönd jólanna er mér misboðið og mun krefjast réttlætis - að minnsta kosti jafnréttis - með hækkandi sól.
Nú er gamlársdagur mjög sérstakur dagur í þjóðarvitund en sækir hins vegar ekki í hina kristnu tilbeiðsluhefð og er því kannski sök sér ef kjarasamningar krefjast viðveru í vinnu. Það er bara svo leiðinlegt að vera geispandi í partýinu.

sunnudagur, desember 21, 2003

Ég og Honest Abe - tvíburasálir:

laugardagur, desember 20, 2003

Lítið í fréttum. Fór á LOTR: ROTK í gærkvöldi. Ágætis ræma. Alls ekkert hýrasta mynd sem sést hefur í háa herrans tíð. Nei nei.

Annars góðar fréttir - ég er ekki lengur með klósett og vask á tröppunum. Illi leigjandi dragnaðist loksins til að fjarlæga draslið í gærkvöldið. Ég er ekki lengur í beinni samkeppni við ruslahaugana um "sérstakasta" garð Reykjavíkur.

Ég hefði unnið.

Eru annars einhverjir ruslahaugar eftir? Er ekki öllum úrgangi smekklega raðað til Sorpu í dag? Þá get ég sagt ykkur það með fullvissu að síðasta almennilegi ruslahaugurinn var að hverfa úr bænum í gær.

Er að fara núna í hádeginu á Ask að borða með foreldrunum. Síðan mun dagurinn (vonandi) fara í hreingerningar á heimilinu (oft var þörf...) og kokteildrykkju í kvöld. Sjáumst.

fimmtudagur, desember 18, 2003

Ég hef ákveðið að senda ekki jólakort þetta árið. Skyndilega er bara kominn 18. desember og ég gæti svarið að það sem af er þessu mánuði tók í mesta lagi viku að líða. Veikindi undanfarinna daga hafa heldur ekki hjálpað upp á og nú þegar ég er að byrja að skríða saman fá aðkallandi verkefni í vinnunni og jólagjafainnkaup allan forgang.

Afmælisáætlanir standast ennþá og planið er að kíkja í bíó á morgun. Á mynd sem heitir Lord of the Rings: The Return of the King. Liggaliggalá! Þeir sem þurfa að bíða eftir myndinni fram yfir jól - jafnvel áramót (greyin) - geta skemmt sér yfir þessu á meðan. Eða þessu.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Finnst ekki öllum gaman að spila? Það er a.m.k. alltaf að bætast í spilaflóruna um hver jól. Það nýjasta sem ég sé í búðum er Idol spilið og hnýsispilið Mr. & Mrs. Spurningaspilin eru þó alltaf jafn vinsæl og ef ég man rétt er verið að endurútgefa Gettu betur spilið með nýjum spurningum. Gott og blessað. Það sem mér finnst bara svo pirrandi eru öll hin röngu svör við spurningum. Þau eru að vísu ekki mörg en alltaf jafn óþolandi. Meg Ryan og Tom Hanks hafa leikið saman í ÞREMUR myndum - ekki tveimur. Naked Gun spurningarnr eiga við allar þrjár myndirnar - ekki bara einhverja eina. Þórhallur Sigurðsson (Laddi) er ekki sami maðurinn og Þórhallur Sigurðsson leikstjóri. En stundum þarf maður að bíta í það súra og svara eins og stendur á spjaldinu þótt maður viti betur. Ég er hins vegar með lausnina. Ég er búin að finna upp nýtt spil í spilaflóruna: ég sé fram á að það komi út fyrir jólin 2004 og það heitir Hálfviti.

Markmiðið með Hálfvita er ekki að sýna hvaða visku þú býrð yfir heldur þarftu að afsanna að þú sért, í raun, hálfviti.

Á yfirborðinu virkar það eins og Trivial Pursuit- þú færð spurningu sem þú síðan þarft að svara - spurningin má jafnvel vera flokkuð eftir landafræði, sögu, bókmenntum o.s.frv. En þegar kemur að svarinu birtist hið hálfvitalega tvist. Aðeins ca. helmingur svaranna er í raun réttur - hinn helmingurinn er vísvitandi rangur. Það er svo undir hverjum hálfvita komið að vita hvort um rétt eða rangt svar er að ræða.

Dæmi:

Hálfviti: "Æi fæ bara landafræðispurningu"
Spurning: "Í hvaða heimsálfu er Argentína
Hálfviti: "Æi ég man það ekki"
Svar: "Asíu"
Hálfviti: "Ó."

Eins og allir heilvita menn og konur vita er Argentína í Suður-Ameríku og kemur það fram á spjaldinu þótt vitlaust svar sé lesið upp. Ef hálfvitinn hins vegar véfengir ekki svarið fær hann einhvers konar mínusstig. Ef hann véfengir svarið en kemur með ennþá heimskulegra svar fær hann enn fleiri mínusstig. Ef hann hins vegar véfengir svarið og kemur með rétt svar fær hann plússtig. Sá vinnur sem er minnsti hálfvitinn.

Ég mundi kaupa það.

mánudagur, desember 15, 2003

Veik. Vil ekki blogga. Hafði rænu á að setja upp litlu myndina hér til hægri og svo var orkan búin. Er í vinnunni en ætla heim fljótlega. Helgin var góð - mikið af góðum mat og ennþá meira af víni. Sé fram á það að missa af Survivor í kvöld vegna samlestrar. Heilsan gæti hins vegar tekið þá erfiðu ákvörðun af mér.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Leiðinda kommentkerfi. Það er nógu slæmt þegar enginn tjáir sig á blogginu manns en það er jafnvel sýnu verra þegar fólk kommentar en alltaf stendur "Ekkert(0)" fyrir neðan allar færslur. Þá er fólk kannski að búast við svari og maður rekst á þetta seint eða alls ekki. Þannig að - eins og staðan er í dag er ekkert að marka kommentnúmerin - fólk er kannski og kannski ekki búið að kommenta.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Mér verður óglatt af að sjá svona. Þetta er fyrir svo lifandis löngu hætt að vera fyndið.
Nú líða fer að jólum.

Ég á hálf bágt með að trúa því sem ég er að fara að gera. Eftir því sem líður á mánuðinn ágerist jólastemningin og er það eðlilegt. Skyndilega er þetta allt að bresta á og kominn tími til að hysja upp brækurnar og klára jólagjafainnakaupin. Siggalára bryddaði upp á því um daginn að ég væri svo gjörn á að gefa fólki það sem það langar í frekar en það sem það vantar. Ekki veit ég hvort það stenst í öllum tilfellum - galdurinn við að gefa fólki jólagjafir sem það fílar er einfaldlega að hlusta á fólk, muna eftir einstaka áhugasviðum og reyna soldið að setja sig í þeirra spor. Það tekst þó auðvitað misvel en maður verður bara að vona hið besta.

Ég fór í það minnsta að reyna að setja mig í spor þeirra sem ætla að gefa mér jóla/afmælisgjafir. Hef ég verið nægilega dugleg að láta mínar skoðanir í ljós? Þegar ég hugsa málið hef ég ekki hugmynd um hvað aðrir mundu telja vera hina fullkomnu gjöf handa mér. Er það ekki bara uppgerðar hógværð og lítillæti að láta ekkert uppi? Eða kemst maður í hóp með gráðugum 8 ára krökkum í Pokemon vímu ef maður býr til lista (er Pokemon-æðið annars ennþá í gangi - hefur nýtt æði tekið við?) Er bjartsýnin/græðgin alveg að gera út af við mann ef hlutir á listanum kosta meira en 2000 kr?

Hér er í öllu falli listinn. Hann inniheldur alla þá hluti sem mig bæði langar og í og ég tel mig vanta. Fólki er að sjálfsögðu frjálst að hunsa hann með öllu:

Kryddhilla (til að setja upp á vegg)
Sódastreamtæki
Svunta (ekki mittissvunta)
DVD spilari (þeir eru orðnir svo ódýrir)
Diskamappa (fyrir svona 240 stk. - til að byrja með)


Bækur/plötur/dvd/spil/dót er síðan alltaf vel þegið og hef ég engar sérstakar óskir í þeim efnum (dreg mörkin við að troða Amazon óskalistanum upp á fólk) og er opin fyrir öllu því sem fólki finnst skemmtilegt.

Þá er þessi vandræðalegi kafli úr vegi og ég get farið að hlakka skammlaust til jólanna.

mánudagur, desember 08, 2003

Vaknaði kl. 9:22 í morgun og var mætt til vinnu 8 mínútum síðar þar sem ennþá átti eftir að ganga frá matnum frá því á föstudaginn. Machintosh og laufabrauð út um allt. Enginn tók eftir því að ég mætti of seint enda erfitt að einbeita sér þar sem Einar Har. var að blasta nýja jólalagi Baggalúts á 150 desíbelum. Ég lét hann lækka - sem betur fer því það hefur verið nokkurn veginn stanslaust á repeat síðan þá. Iron Maiden-leg lög eru full orkurík fyrir mig svona nývaknaða.

Helgin var ósköp róleg og notaleg.1 Mikið borðað. Kíktum í jólahúsið og búðir. Akureyringum finnst miklu skemmtilegra að skreyta húsin sín heldur Reykvíkingum. Rakst á Júlla fyrir utan Nettó þar sem hann var að selja nýja geisladiskinn sinn. Ég kenndi fólki backgammon og fór að sofa kl. 11 bæði kvöldin. Fór í sund á sunnudeginum og missti mig í the Body Shop seinna um daginn. Fann ekki nýtt aðventuljós þrátt fyrir ítrekaða leit í bæði Rúmfatalagernum og Byko. Ætli ég verði ekki að kíkja í almennilega búð og kaupa almennilegt ljós þótt það verði aðeins dýrara heldur en Byko draslið. Á reyndar Ikea eftir.

Hef annars frá litlu að segja og er að reyna að fresta árás minni á reikningaturnana sem bíða mín með þessu stefnulausa röfli.

Þeir eru háir og boða fátt gott.

*hrollur*

1 Fyrir þá sem ekki vita þá átti pabbi afmæli á laugardaginn og öll fjölskyldan skellti sér því í helgarferð til Akureyrar.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Ég fæ ekki séð að ég komist undan því að halda upp á afmælið mitt. Það verður hins vegar allt á lágstemmdu nótunum enda ekki um merkisafmæli að ræða. Ef fólk kýs að hitta mig þennan dag getur það fundið mig heima með kokteil í hönd laugardaginn 20. desember - svona upp úr átta. Má vera að það hafi eins og einn kokteil - eða tvo - upp úr ferðalaginu. Engar frekari ráðstafanir verða gerðar.

miðvikudagur, desember 03, 2003

Mér tókst ekki að finna mér eiginmannsefni á einni viku og þurfti því að drösla fjandans dekkjunum inn í geymsluna sjálf. Einstaklega skemmtilegt verkefni þar sem geymslan var yfirfull af málningardollum, íþróttatöskum fullum að köðlum (!), bílstuðurum og ryðguðu brjotajárni. Illi leigjandi segir til sín enn á ný. Öllu þessu var vandlega pakkað inn í þetta litla pláss og dekkin (5 stk.) þurftu að fara á bakvið allt draslið. Ég var rétt búin að drepa mig í öllum hamagangnum - ef ekki vegna hrynjandi stuðara á hausinn eða blóðeitrunar af ryðgaða járninu þá var ég við það komin að hengja mig - fúslega - með kaðlinum. Eins og það væri ekki nóg kom leigjandi minn til mín í miðjum klíðum og kvartaði undan útidyralyklinum sínum. Hann var víst hættur að virka eins og hvert annað rafmagnstæki og hún hafði þurft að skríða inn um glugga til að komast í herbergið sitt. Við nánari skoðun kom svo auðvitað í ljós að henni hafði tekist að beygla lykilinn svo hann gekk ekki lengur í skrána. Hófst nú dauðaleit í íbúðinni minni að aukalykunum svo hún þyrfti ekki að halda áfram að skríða inn um kjallaragluggann eins og hver annar óþægur köttur (Gabríel.) Ég fann enga lykla og þurfti að láta hana hafa mína. Ætlaði svo að heimsækja foreldarana og fá lykla hjá þeim en nágranninn kom heim og ég fór að betla lykla af henni. Kom á daginn að hún hafði aldrei skilað mér aukalyklunum (grr) - ég hirti þá og kjallaralykilinn af henni og er ég nú vel lykluð og með stefnumót við Kringluna seinni partinn í dag til að ná mér í aukasett.

þriðjudagur, desember 02, 2003

Ég get ekki sagt að jólamánuðurinn byrji neitt sérstaklega skemmtilega. Það er borað í alla veggi í vinnunni sem aldrei fyrr, kettirnir hatast ennþá, allt í kringum mig er skítugt, ég er alltaf þreytt og klósettið situr ennþá á tröppunum mínum - nú með vask sem félagskap.

Nú verður eitthvað drastískt að gerast! Ég er farin í ljós. Veit einhver um góða og ódýra stofu til slíks? Ég var að spá í svona 4-5 tíma - ná af mér mesta sleninu. Helst vildi ég eyða næsta mánuði á strönd í Flórída en það verður ekki á allt kosið.

Þessir ljósatímar eru liður í því að koma mér í meira jólaskap. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun í nóvember að ég ætlaði ekki að byrjað á jólaundirbúningnum fyrr en á aðventu en nú er eitthvað svo erfitt að koma sér í gír. Sérstaklega þar sem allur snjórinn er horfinn. Aðventuljósin eru kominn út í glugga og jólakortapokinn á nagla. Ég hef meira að segja verið iðin við að baka - þótt kökurnar hafi staldra stutt við. Jólalögin hjálpa til - meira að segja Helga Möller! Kíkið á síðuna hennar Jóhönnu Ýr ef þið þjáist af jólalagasvelti.

Klukkan er orðin 4 - boranir byrjaðar fyrir alvöru og ég er flúin. Þið getið fundið mig seinni partinn í afslöppun á Unganum.