miðvikudagur, mars 29, 2006

þriðjudagur, mars 28, 2006

Af því bara...

Lordi mun stíga á stokk í Aþenu í maí næstkomandi sem framlag Finna í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva:

Smellið að myndina til að sjá stærri

Ég var búin að sjá myndbandið en það var ekki fyrr en ég sá þessa mynd að ég fattaði að það er kona í hljómsveitinni.

Nú er bara spurningin - hvor verður meiri senuþjófur: Lordi eða Silvía Nótt?

Kannski ekki svo flókin spurning...

mánudagur, mars 27, 2006

Auður sökkti blogginu sínu með manni og mús og því lítill tilgangur í að kíkja þangað. Við það vaknaði í brjósti sú gamla tilvistarlega spurning:

Að blogga eða blogga ekki...

Þegar grannt er skoðað virðast nefnilega flestir vera komnir á nokkuð gott ról sem sín einstöku blogg. Fólk hefur komið sér upp kerfi og hrynjandi og ókvæðisorðið bloggleti hefur ekki heyrst svo mánuðum skiptir. Það er s.s. enginn að pína sig til að skrifa og fæstir að velta sér upp úr því hver gæti mögulega verið að lesa.

Sjálf veit ég ekki alveg af hverju ég er að þessu. Það virðist ekki vera neinn beinn tilgangur með þessu bloggi og það gæti allt eins ekki verið til. Þetta er soldið eins og að vera með GSM síma. Maður fær sér einn til að aðrir geti náð í mann - þ.e. forðað sér frá félagslegu sjálfsmorði - og svo venst maður því að hafa hann innan seilingar. Aðrir fara svo að treysta á að komast að upplýsingum á greiðan hátt.

Já, blogg blogg blogg... Mér liggur ekkert á að finna réttlætingu á tilvist þess. Ég held því áfram þar til ég hætti að nenna því. Mér er slétt saman hver les og finn mig ekki knúna til að standast neinar væntingar.

Ef ég væri ekki með blogg væri miklu erfiðara að gera þetta:

Öll Eurovision myndbönd sem komin eru fyrir keppnina í ár

Er það bara ég eða er þýska lagið soldið sætt? Og það pólska svo skelfilegt að það fer næstum heilan hring yfir í súblemíska Eurovision vímu...

fimmtudagur, mars 23, 2006

Þetta átti að koma í gær en frestaðist vegna tæknilegra örðugleika:


Plöggedí plögg plögg...

Allir sem vettlingi og veski geta valdið skulu nú mæta í Þjóðleikhúskjallarann í kvöld eða á sunnudagskvöldið til að merja augun á 6 meistaraeinþáttungum í boði Hugleiks. Ó já. Þetta Mánaðarlega er brostið á enn á ný. Að þessu sinni tekur gífurlega stór og föngulegur hópur Hugleikara þátt í dagskránni - þ.á.m. ég sjálf - sem mér sýnist af því litla sem ég hef séð ætla að verða ein sú besta hingað til. Enda valin kona (og maður) í hverju rúmi.

Stundum bókstaflega...

mánudagur, mars 20, 2006

Þetta er það sem ég veit:

Ég veit að fuglaflensan hefur fundist í svönum í Svíþjóð og dúfum í Danmörkum og finkum í Finnlandi.
Hún fetar sig hægt og örugglega nær Íslandi.
Taugaveiklað bændur skjóta hænur og ketti.
Fjölmiðlar og landlæknir eru gáttaðir á því hversu lítið fjaðrafok er um mestalla heimsbyggðina.


Þetta er það sem ég veit ekki:

Hvernig smitast fuglaflensan?
Hver eru einkenni hennar?
Hversu bráðsmitandi/drepandi er hún?
Hvað tekur það langan tíma?
Eru til bóluefni?
Eru einhverjir líklegri en aðrir til að fá hana?
Hversu margir í heiminum eru smitaðir?
Hvernig er ástandið í þeim löndum þar sem hún kom fyrst upp?


og síðast en ekki síst:

Er eitthvað sem ég á að vera gera?

Ef enginn getur - eða er vill - veita svör við ofangreindum spurningum er ósköp tilgangslaust að vera eitthvað að stressa sig. Á ekki eitthvert geimgrjótið að lenda á jörðinni eftir 15 ár? Maður veit þó a.m.k. hvernig það gæti gerst og getur mótað taugaveiklunina í samræmi við það. Þ.e. maður verður að hafa eitthvað í höndunum til að gera sér mat/veður út af. Annars er hætt við að maður mæti örlögum kjúklingsins vænissjúka.

sunnudagur, mars 19, 2006

Skrattans - ætlaði virkilega að taka til höndum í heimsíðu Nornabúðarinnar í dag eftir leikæfingu og þá þurftu allar innan- og utanhúss tengingar í vinnunni að vera með stæla - og ég ekki með nothæft html forrit heima. Þannig að þarna er mín afsökun fagurlega afgreidd og innpökkuð.

Í staðinn lærði ég fyrir hljómfræði og glápti úr mér augun á ringlaðar fyrirsætur bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi reyna að hljóta náð fyrir augum dómnefndar áður en taugalömun gerði út af við þær. Köllum það rannsóknarvinnu fyrir tilvonandi MA rigerð. Jájá.

Helgin hefur að öðru leiti verið ansi róleg. Fyrir utan Ampop tónleikana á NASA á föstudagskvöldið. Ég var nú bara að selja diska og boli ásamt Nönnu og Stebba bróður hennar og heyrði því meira en ég sá en það reyndist vera heljarinnar mannfræðistúdía út af fyrir sig. Í alla staði áhugvert og böndin mjög góð. Ég hélt ég hefði fengið að heyra mikil fangaðarlæti í Þjóðleikhúskjallaranum þegar Jón Geir tók sína trommutakta en þetta var nú eiginlega bara soldið ógnvekjandi. Hrein og klár öskur sem yfirgnæfðu alla tónlist - og ég sem hef alltaf staðið í þeirri meiningu að íslenskir tónleikagestir væri alla jafnan frekar kuldalegir og til baka. Þeir eru greinlega allir að koma til. Svona líka.

Sötraði einn bjór allt kvöldið til að sýna réttan lit og var launað með mígreni ættað úr dýpstu fylgsnum helvítis frá kl. 8 á laugardagsmorgun og frameftir degi. Bjór er því aftur kominn á bannlistinn. Annað hvort það eða ég þarf að þróa með mér meira þol. Auglýsi hérmeð eftir úthaldsgóðum drykkjufélögum. Langbest að taka á þessu eins og hverju öðru átaki.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Amma Ásta hefði orðið 95 ára í dag. Hún dó fyrir 6 árum. Ég kemst ekki að leiði hennar í dag en geri þetta í staðinn:Heima hjá ömmu á góðri stundu. Glöggir lesendur kannast kannski við rennihurðina.Og gardínurnar! Ég var bara að taka eftir þeim sjálf!

Þegar hún dó reyndi ég að finna orðin til að koma í minningagrein en ég fann þau ekki. Ég finn þau ekki enn til að gera þessari góðlegu, kláru, sjálfstæðu, hugrökku, þrjósku, líflegu, sjálfshæðnu, gamansömu, ósérhlífnu og hjartahlýju konu sanngjörn skil.

Til hamingju með afmælið.

mánudagur, mars 13, 2006

Ég datt ofan í nostalgíupoll.

Stuðmenn - Ég vild ég væri

Ég var búin að gleyma að þetta lag væri til. Og einhvern tímann á lífsleiðinni hef ég lagt það á mig að læra það utanbókar - hvort það var í Verzló uppsetningunni á Stuðmannalögum árið 1992 eða við eitthvað annað tækifæri er mér ómögulegt að muna. Það er greinilega allt of langt um liðið því aðeins slitrur af textanum sitja eftir í minninu (en merkilega miklar þó.) Það er aðeins á tveimur stöðum þar sem ekki er nokkur leið að heyra hvað hann Egill er að tauta - og ég verð að sjálfsögðu ekki í rónni fyrr en ég fæ þessa textabúta á hreint (í öðru erindi þar sem punktarnir eru):


Ég vildi ég væri öðruvísi en ég er
Þegar ég er nakinn vil ég vera ber
Ég vild' að hárið á mér væri öðruvísi litt
Þegar ég fæ þetta vil ég heldur hitt
Aha

Mér líður alltaf best í breytilegri átt
einkum þegar barómetrið stígur nógu hátt
Í sólbaði með úrkomu í grenndinni
veðrið þyrfti að breytast eftir hendinni*


:Á kvöldin lifnar okkar maður við
bregður sér í betri buxurnar og fær sér sviðakjamma
því ekkert liggur á
jólaserían er ennþá uppi frá þv'í hitteð fyrra:

Ég vildi að allt og allir væru hinn seginn
Að gatan sem ég bý við væri á hinn veginn
:Þegar ég er saddur vil ég veitingar
Breytingarnar kalla á meiri breytingar
Svo er það:

Á kvöldin lifnar okkar maður við
bregður sér í betri buxurnar og fær sér sviðakjamma
því ekkert liggur á
jólaserían er ennþá uppi frá þv'í hitteð fyrra

Lalalala...Öll aðstoð vel þegin.

__________________________
* Með þökkum til Sævars fyrir að björgun geðheilsu

Gaman að þessu. Ég vildi óska þess að líkaminn minn gerði upp hug sinn og ákveddi í eitt skipti fyrir öll hvort ég er veik eða ekki. Hef dólað í hvorki-né ástandi núna í 4 daga og er orðin soldið þreytt á þessu. Hélt það væri í alvöru að skella á í gær og hélt mig því heimavið og fór ekki í ferminguna hennar Sögu. En ég var eins í morgun og skrölti því til vinnu. Líður ekki alltof vel - en samt ekki nógu illa til að réttlæta veikindadag. Ég veit að ef ég væri almennilega veik mundi ég auðvitað óska þess að svo væri ekki en mér mundi þó vonandi batna í kjölfarið.

Þessu sé ég ekki fyrir endann á.

Bla bla bla

fimmtudagur, mars 09, 2006

Ég er að tónflytja lag - úr e-moll í es-moll. Spennandi. Það þýðir tipp-ex og reglustika. Kennarinn vill nefnilega að ég flytji "Vísur Vatnsenda-Rósu" í prófinu mínu sem er auðvitað sjálfsagt mál en fær mig til að spá í höfunda. Nú er þetta íslenskt þjóðlag en eitthvað rámaði mig í vesen með höfundarrétt þegar myndin Tár úr steini kom út og 2 mínútna leit síðar er ég komin með þessar upplýsingar í hendurnar: höfundur texta Rósa Guðmundsdóttir, útsetjari Jón Ásgeirsson. Það sem mér finnst svo forvitnilegt er hvernig tregafullt ljóð Rósu hefur verið stytt og tilfært og lagað til - að því er virðist eftir hentugleika Jóns. Frá þessu:

Augað mitt og augað þitt,
og þá fögru steina
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veizt, hvað eg meina.

Trega eg þig manna mest
mædd af tára flóði,
ó, að við hefðum aldrei sést,
elsku vinurinn góði.

Langt er síðan sá eg hann,
sannlega fríður var hann,
allt, sem prýða mátti einn mann,
mest af lýðum bar hann.

Engan leit eg eins og þann
álma hreyti hjarta.
Einn guð veit eg elskaði hann
af öllum reit míns hjarta.

Þó að kali heitur hver,
hylji dali og jökul ber,
steinar tali og allt, hvað er,
aldrei skal eg gleyma þér.

Augað snart er tárum tært,
tryggð í partast mola,
mitt er hjartað sárum sært,
svik er hart að þola.

Beztan veit eg blóma þinn,
blíðu innst í reitum.
Far vel Eyjafjörður minn,
fegri öllum sveitum.

Man eg okkar fyrri fund,
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni.

Yfir í þetta sem allir geta raulað með Ragnheiði Gröndal í vinsælli auglýsingu:

Augun mín og augun þín,
ó, þá fögru steina.
Mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað ég meina.

Langt er síðan sá ég hann
sannlega fríður var hann.
Allt sem prýða má einn mann
mest af lýðum bar hann.

Þig ég trega manna mest
mædd af táraflóði.
Ó að við hefðum aldrei sést
elsku vinurinn góði.

Þarna er s.s. búið að sleppa 5 erindum og víxla tveimur. Og breyta texta hér og þar - t.d. í fyrsta erindi þannig að rímið fær ekki að halda sér. Einnig kannast ég vel við fimmta erindið en ekki í tengslum við hin 7 - og man ekki lengur hvers vegna. Nú veit ég í raun ekki meira um þetta mál en ég hef skrifað en leikur forvitni á að vita hvers vegna farið hefur verið svona frjálslega með texta Rósu.
Sá hina marg(ó)rómuðu Óskarsverðlaunamynd Crash í dag. Ekki voru væntingarnar miklar þegar ég settist niður við áhorf í Háskólabíói. Hafði heyrt um sleggju-aðferð myndarinna við boðskapsdreifingu. Ég get með sanni sagt að ekki varð ég fyrir vonbrigðum þar. Tveir tímar af stanslausum fyrirlestrum um að kynþáttahatur sé slæmt og leynist víða. Hvern hefði grunað? Ég varð bara þreytt. Og afskaplega pirruð út í persónurnar sem virtust velflestar lifa lífi sínu óttaslegnar og hysterískar margvafnar í vef dramatískrar íróníu. Aðeins ein persónar virkaði sannfærandi á mig og það var pólitíkusinn, leikinn af Brendan Fraser, sem var allur sympatískur og rólegur á yfirborðinu en var undir niðri aðeins að hugsa um stjórnmálaferil sinn. Ég keypti hann. Því hans sögu var ekki troðið ofan í áhorfendur - hann var meira bakgrunns persóna. Don Cheadle bargaði líka miklu sem bjargað varð.

Ég skil að margir hafi fílað þetta. Ansi margir fíluðu Magnolia sem mér finnst þessi mynd sækja mikið í. Sjálf kunni ég aðeins að meta froskaregnið. Móðir mín sakaði um að kunna ekki að meta myndir með boðskap og sækja aðeins í ódýra og heilalausa afþreyingu á borð við Serenity. Ég er ekki alveg tilbúin til að viðurkenna að hún hafi rétt fyrir sér. Fyrir það fyrst þá mátti alveg finna boðskap í Serenity - það þurfti bara aðeins að grafa eftir honum.

Ég á örugglega eftir að taka nokkra daga í það melta hvað það var sem fór svona í taugarnar á mér. Kannski mér leiðist bara fyrirlestrar. Það er einhvern veginn miklu skemmtilegra að uppgötva boðskapinn upp á eigin spýtur. Að finna fyrir honum frekar en að fá hann mataðann. Good night, and good luck er dæmi um slíka mynd. Ekki gallalaus en góð engu að síður. George Clooney er að segja alls konar hluti um núverandi ástand í Bandaríkjunum - en það er rammað inn í frásögn af McCarthy tímabilinu frekar en sagt beinum orðum. Skilaboðin komast rétta leið en tilfinningin sem situr eftir er ekki sú einhver hafi messað yfir manni.

Niðustaðan: Crash átti ekki skilið Óskarinn. Kannski fimmta sæti - í best lagi.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Ég hef ætlað að gera þetta lengi en drattaðist loksins til að dánlóda til þess gerðum blogger client. S.s. apparati til að blogga með án þess að þurfa að treysta á duttlunga vafrara og blogger síðunnar. Þetta er fyrsta tilraun. Ef allt gengur að óskum - og reynist sniðugt - ætti fólk að geta náð sér í slíkt forrit hér. Ef það er ekki þegar búið að því (og gleymdi að láta mig vita...)

Blogger forrit

----

Svínvikar. Og lífið allt skyndilega auðveldara.