mánudagur, janúar 26, 2009

Ég hef hangið heima í allan dag að jafna mig á tannbrottnámi. Í morgun var dregin úr mér framtönn og það er bara soldið mál. Ég verð líka alltaf frekar dofin af parkódíni og munnurinn er aðeins of slappur til að ég geti sleppt því að taka það. En ég hef ekkert getað lært. Og það er mjög ákveðin ástæða fyrir því.



Þetta er Móri. Hann er fjörugur 2 mánaða kettlingur með hægðavandamál og snúrublæti. Hann er líka mjög bókhneigður og allur af vilja gerður að aðstoða mig í námi.



















Og þess vegna fer ég alltaf upp í skóla að læra.

laugardagur, janúar 10, 2009



Kannski spurning um að fara að hætta þessu. Skemmtilegra en að leyfa því að deyja drottni sínum eins og þróunin virðist stefna mjög markvisst í. Ég uppfæri svo sjaldan að ég þykist þess fullviss um að enginn lesi þetta. Og þá er það soldið eins og að tala við sjálfa sig. Upphátt. Og handan næsta horns liggur geðveiki.
Nú er brett-upp-á-ermar tími í ritgerðarvinnunni og það er fjandanum erfiðara að drösla sér í gang. Ég er komin með einhvern slatta af blaðsíðum - og ef ég er óhóflega bjartsýn get ég haldið því fram að ég sé búin að skrifa eitthvað í alla kaflana - en það er heljarinnar vinna eftir ef þetta á að verða eitthvað almennilegt og mínir bókmenntafræðigírar eru orðnir soldið ryðgaðir.

Það er samt fínt að vera með aðstöðu í Gimli. Þar er netaðgangu og þægilegur stóll. Þar hef ég mitt eigið borð og skúffur og skáp sem ég get læst. Og Auði á næsta borði sem ég get truflað í tíma og ótíma. Maður verður að vísu að ganga hljóðlega um og helst hvísla ef við viljum eitthvað tala saman en það á yfirleitt bara við fyrir kvöldmat á virkum dögum. Kvöld og helgar eru fáir á svæðinu og jafnvel stundum hægt að hafa músík í gangi og haga sér eins og heima hjá sér.

Að skrifa mastersritgerð er soldið eins og að teikna hús sitjandi á stól niðri í kjallara. Þegar maður byrjar hefur maður bara grófa hugmynd um hvernig heildin lítur út. Svo færist maður upp um hæð eftir því sem vinnan mjakast en heldur áfram að þreifa fyrir sér. Á þessari stundu sit ég sem fastast inni í skáp undir stiganum á fyrstu hæð. Er treg til að færa mig upp því stiginn gæti brostið.