miðvikudagur, desember 27, 2006

Jólin fór fram - venju samkvæmt - í frið og spekt heima hjá bróður mínum. Krakkarnir voru að springa af spenningi og fengu því að opna jólagjafir frá foreldrunum fyrst og var hamingjan með fenginn slík að þau litu varla við öðrum gjöfum eftir það. Gísli Hrafn varð að stökkbreyttri ninja skjalböku á táningsaldri og duldist engum að hann var ekkert smá flottur - enda spígsporaði hann um allt í múnderingunni og tilkynnti öllum sem heyra vildu einmitt það:
Sigrún Ýr varð húsfrú hin mikla með glænýja fasteign:
Ekki var sama hver fékk að kíkja í heimsókn en mér skilst að seinna um kvöldið hafi hún hleypt þessum lýð inn fyrir náð og miskunn:
Annars var af nógu að taka þetta kvöld - og útbýttað undir öruggri stjórn Hebu:
Og allir fengu pakka - meira að segja krumpaðir kallar:
Engin mynd náðist af mér og mömmu enda var kapphlaupið við að rífa upp pakkana - sem tók rúma 2 tíma - þvílíkt að sáralítill tími gafst fyrir myndatökur. Enda gleymdi ég flassi í flestum tilfellum eins og sést.

föstudagur, desember 22, 2006

Er ekki í lagi með fólk?

Eitthvað segir mér að bókin verði lengi að dröslast út af markaðnum í reynd. Ef þetta á vekja einhvern áhuga hjá mér til að lesa hina aumingja misskildu bók þá verð ég að segja að þeir höfðu ekki gimmik sem erfiði. Vill til að ég veit að við gagnrýnandinn höfum svipaðan smekk á bókum.

En mikið ofboðslega hefur hún hitt á viðkvæman blett. Hver vissi að keisarinn væri svona spéhræddur? ;)

fimmtudagur, desember 21, 2006

Afmælisdagurinn var bara hinn fínasti. Ég tróð brauði og kökum í samstarfsmenn mína, kíkti á sjónvarpsforsýningu á tveimur barnamyndum ásamt Emblu og Auði og þeirra börnum, heimsótti KFC, lærði allt sem ég vildi nokkurn tímann vita um heimafæðingar ;), fékk gjafir og afmæliskveðjur, kvaddi leigjandann fyrir fullt og allt og lognaðist út af af þreytu um ellefuleytið og svaf lengur en elstu menn muna. Sem er eins gott því það ríkir víst aldrei nein lognmolla á þessum síðustu dögum fyrir jól.

En nú þarf ég að skjótast út og reyna að kaupa allra allar síðustu gjöfina sem eftir er. Eins gott að hún sé til...

miðvikudagur, desember 20, 2006

Ammæli í dag.

Þótt undarlegt megi virðast leggst þessi dagur miklu betur í mig heldur en hann gerði í fyrra. Það reynist vera mun auðveldara að verða 34 heldur en 33 - hafið það í huga börnin mín.

Ég hef ekki hugsað mér að halda neitt sérstaklega upp á það - þessi tími býður ekki upp á veisluhöld nema heill tugur standi til. Ég reyni frekar að skála fyrir sjálfri mér á jólatónleikum Hrauns á föstudaginn. Ég er hins vegar alltaf til í að hitta fólk ef fólk vill hitta mig og hægt að koma slíku í kring án mikillar fyrirhafnar. Ég hef hvort eð bara hugsað mér að tjilla heima í kvöld.

Það hjálpar svo kannski að í dag er mér boðið á forsýningu á barnamyndinni Óskabrunnurinn sem ég lék svo eftirminnilega í síðasta sumar. Alveg heilar 10 sekúntur - ef ég hef ekki verið klippt úr. Og þótt að það sé að sjálfsögðu leyndur draumur minn að sjá sjálfa mig á alltof stóru tjaldi í þröngum fötum að púla á stairmaster get ég alveg ímyndað mér skemmtilegri leiðir til að halda upp á daginn. T.d. dansa ballett á Arnahóli á Menningarnótt í jarðskjálfa. Öll mín stressorka beinist a.m.k. að þessu boði og lítið eftir handa aldurskomplexum.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Húsnæðishopp fólksins í kringum mig hefur hreyft við einhverjum eirðarleysishnút í mér. Mig langar líka í nýja íbúð. Sennilega fyrst og fremst vegna þess að ég er búin að fá leið á nágrönnunum og leigjendunum. Og alltof stórum garði. Ég vil ekki þurfa að díla við neitt nema mig, köttinn og það sem gerist innan veggja íbúðarinnar.

Sambærilegar íbúðir eru settar á ca. 100% hærra verð en það sem ég keypti mína á fyrir fimm árum. Nú langar mig til að selja þessa og kaupa mér aðrar - með stærra eldhúsi og hugsanlega baðkari í fullri stærð - svölum og engum garði - og í öðru og óvinsælla hverfi. Kannski Kópavogi. Læt mig svo dreyma um að græða einhvern pening á skiptunum svo ég geti keypt mér píanó.

Verst að ég þyrfti þá að byrja á því að skipta um gler í gluggunum í stofunni og því nenni ég alls ekki.

laugardagur, desember 09, 2006

Það verða allir að leggja sitt af mörkum.

Fyrir réttu ári skelltum við Nanna okkur í heimsókn til Svavars og tókum upp bakraddir fyrir undurfallegt jólalag sem hann hafði samið fyrir jólaplötu Hrauns það árið. Þetta lag er engu minna fallegt ári síðar og er tekur nú þátt í jólalagakeppni Rásar 2. Endilega kíkinn inn á síðuna og kjósið ykkar eftirlæti. Fróðir menn segja mér að peppí lög séu gjarnan líkleg til sigurs í svona keppnum og því er sérstaklega mikilvægt að standa við bakið á þessu lagi. Því það á það tvímælalaust skilið.

Og nú þarf ég að fá nauðsynlegan svefn ef ég á að hafa orku til að takast á við æstan múg í Kringlunni á morgun. Konur í leit að nærbuxum handa eiginmönnunum eru engin lömb að leika sér við.

föstudagur, desember 01, 2006Þessa mynd hlakka ég mikið til að sjá. Ég hef í raun verið að bíða eftir henni síðan ég las bókina fyrst fyrir 19 árum síðan.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Jæja - komin með vinnu. Ég var búin að vera á báðum áttum um hvort ég ætti eitthvað að eltast við það - ætlaði bara að einbeita mér að MA ritgerðinni í desember. En þegar maður er beinlínis beðinn um að vinna og peningastaðan er eins og hún er, er erfitt að segja nei. Ég verð s.s. að hjálpa til í Dressmann í Kringlunni eitthvað í desember. Sem er hið besta mál. Það er erfitt að eiga gleði og friðarjól þegar maður er með andateppu og kvíðaröskum sökum fjárhagsáhyggja.

Prófin eru annars að gera út af við mig. Píanóprófið gekk sæmilega - tónlistarsöguprófið ekki svo vel. Ég mæli eindregið með því að fólk sé vel sofið fyrir svona próf. Óstarfhæfur heili nennir ekki að vinna úr þeim upplýsingum sem hann þó á að búa yfir. Blah. Þá eru bara tónleikarnir/söngprófið eftir á mánudaginn. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Það verður einhvern veginn. Held ég sætti mig bara við það núna að það verður aldrei fullkomið hjá mér. Það skiptir mestu að geta slappað af.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Ég var að komast að því áðan að ég á að fara í píanópróf næstkomandi þriðjudag.

*Ígg*

Og tónlistarsögupróf á miðvikudaginn og, ef ég er rosa heppin, kontrapunktspróf á fimmtudaginn (þótt kennarinn hafi hálflofað að sleppa jólaprófi). Svo eru það tónleikarnir mánudaginn 4. desember sem - ójá - eru líka próf. Jibbí.

Tónlistarsöguna ætla ég að reyna að bulla mig út úr og kannski verður ekkert próf í kontrapunkti. Tónleikunum get ég varla klúðrað nema ég gleymi textanum og ég kann hann nú þegar.

Píanó hinsvegar ...

Ég man óljóst eftir því að hafa spilað á píanó fyrir fólk á einhverri skólafúnksjón í æsku. Ég man ekki hvernig mér gekk. Mamma var að rifna úr stolti en það er við því að búast þegar 10 ára krakkar viðra hæfileika sína. Ekki að ég hafi verið sérstaklega hæfileikarík. Ég nennti a.m.k. aldrei að æfa mig og þótt ég hafi lært í 3 ár var ég búin að gleyma öllu þegar kom á fullorðinsár. Ég stend því á byrjunarreit algjörlega upp á nýtt. Mér finnst reyndar miklu skemmtilegra að æfa mig núna - hvert lag verður að þraut sem gaman er að leysa og mér var ómögulegt að líta þannig á málið í gamla daga. Málið er bara að það er svo miklu auðveldara að feika mistök í söng - maður lætur bara eins og það hafi átt að vera þannig eða sendir óverðskuldaðar og eitraðar augnörvar í átt að píanistanum. Feilnóta í píanóverki verður aldrei neitt annað en feilnóta.

Ég ætti kannsk að bryðja róandi...

mánudagur, nóvember 20, 2006

Mig vantar sundfélaga.

Samkvæmt ráðleggingum sjúkraþjálfara er mér hollast að fara í sund fjórum sinnum í viku til að halda baki og mjöðm í sæmilegu ásigkomulagi. Það getur bara verið erfitt að halda þeirri rútínu gangandi þegar skítakuldi er úti, ég er þreytt eftir vinnu og skóla, myrkur skollið á um miðjan dag og vikudagurinn endar á erri.

Það var fínt að hafa Nönnu og félaga til að fara með í sund á árum áður þótt sumir hafi verið hændari að heita pottinum en djúpu lauginni. Ég nefni að sjálfsögðu engin nöfn. Úlfhildur er hins vegar ekki ennþá tilbúin til að skella sér til sunds í stórhríð þannig að sennilega er vænlegast fyrir mig að leita á önnur mið.

Ég er bara svo miklu líklegri til að dröslast af stað ef einhver annar þarf að dröslast með mér.

Sund er hin besta skemmtun og gríðarlega heilnæm. Og margfallt ódýrari en bansettar líkamsræktarstöðvarnar. Ef ekkert annað trekkir að er hægt að stunda kroppastútíu í pottunum. Er ekki hægt að lokka einhvern með? Fjórum sinnum í viku? Eða þrisvar og ég fer einu sinni ein. Ég er sveigjanleg í samningum...

föstudagur, nóvember 17, 2006

Ég hef ekki efni á að fara í allsherja yfirhalningu - klippingu og strípur - og tek því þörfina út á grunlausu bloggi. Naflalóarlufsan hefur séð sinn fífil fegurri og ekki mikið að gerast á þeim vígslóðum þessa dagana en jafnveg lík fá að berast vel snyrt til grafar.

Smellið til að sjá hina nýstrípuðu og plokkuðu Naflaló.

Kommentin eru reyndar öll horfin en það verður ekki hjá því komist. Ég nennti ekki að troða inn gamla kommentkerfinu.

Endilega vottið virðingu ykkar.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Mitt innlegg í umræðuna:

Þeir útlendingar og innflytjendur sem tekst þrauka þessa viðbjóðstíð og kjósa samt að vera hér áfram hafa unnið sér það inn að dveljast á þessu skeri. Og hana nú!

mánudagur, nóvember 13, 2006

Helgi hinna miklu öfga. Ég eyddi bróðurpartinum af laugardeginu í Hugleikshúsinu að aðstoða við stórfelldar aðgerðir. Mikið þrifið, sorterað, hent, fært, smíðað, brotið og hannað. Það fer að verða ógisslega fínt hjá okkur. Ég var svo gjörsamlega eftir mig eftir þessar aðgerðir að ég stóð varla í lappirnar að þeim loknum og eyddi nær öllum sunnudeginum við flatmögun (rétt stóð upp til að fara í sturtu og æfa mig á píanó.)

Úff - það ætlar að verða þrautinni þyngra að komast í gegnum þetta haust. Ég sé heitar gular strendur í hillingum og eygi enga von um að komast á slíkar fyrr en í fyrsta lagi 2012.

Kannski ekki vitlaust að eyða hinum tvennu örlagaríku tímamótum á einni slíkri...

föstudagur, nóvember 03, 2006Af gefnu tilefni

Nei ég er ekki atvinnulaus. Bara soldið blönk þessa dagana. Þensla og svona. Tannlæknakostnaður og tölvukaup. Lumar einhver á hentugri aukavinnu í desember?

þriðjudagur, október 31, 2006

Nú stendur yfir bráðskemmtileg stuttverkasamkeppni á leiklist.is og geta allir farið þangað inn og lesið þau 15 verk sem valin voru í úrslit og gefið atkvæði. Ég hélt að þetta yrði kannski flókið verkefni en þegar til kom fannst mér nákvæmlega þrjú bera af hinum (og tvö önnur komast næst því) þannig að atkvæðaval var bæði ljúft og auðvelt.

Þar sem það eru ágætis verðlaun í boði gældi ég auðvitað við þá hugmynd að senda sjálf inn verk en ekki varð neitt úr neinu - október búinn að vera þannig mánuður að ég hef ekki getað einbeitt mér að neinu öðru en eymslum og ömurleik. Þ.e. ekki fyrr en ca. klukkustund eftir að frestur rann út en þá fæddist í mér lítill einþáttungur sem meira að segja náði fullum þroska. Byrjun, miðja, endir, hvörf og læti. Og brandari sem aðeins Hugleikarar kynnu að meta. Fylltist ég þvílíku stolti við framtakið að nú langar mig skyndilega til að klára fleiri hluti. Ég er að hugsa um að gerast svo djörf að setjast niður og lesa yfir það sem komið var af MA ritgerðinni í den (heilar 27 blaðsíður!) og athuga hvort eitthvað er nothæft. Hún er víst ekki jafn slæm og mig minnti.

fimmtudagur, október 26, 2006

Það hefur gætt umtalsverðs kæruleysis á þessu bloggi og í mínu lífi undanfarið. En því tímabili mun brátt ljúka.

Ég hef verið að heyja óvenju harða orustu við síðuna mína - og um tíma leit út fyrir að hún hefði vinninginn þar sem ég skakklappaðist um sveitir og héruð og kveinkaði mér óspart út af bakverk. En nú er komið plan. Ég heimsótti sjúkraþjálfara í dag sem blöskraði bólgan og er nú komin með tilskipan upp á sund fjórum sinnum í viku ásamt heimaæfingum og frekari sjúkraþjálfaraheimsóknum. Skal þessi forni fjandi yfirunnin í eitt skipti fyrir öll. Eða í öllu falli haldið kyrfilega kjurrum undir skóhælnum.

Og af því að ég hef einsett mér að ráðast aðeins á hæstu garðana hef ég sett mér annað markmið í lífinu: ég ætla að læra allan texann við Vor í Vaglaskógi. Ó já.

Það forheimskulegt að ætla bara að taka eina spýtu í einu og klára hana: heimsyfirráð eða dauði!

fimmtudagur, október 12, 2006

Dr. Gunni segir farir sínar ekki sléttar á baksíðu Fréttablaðsins í dag er hann reynir að troða menningu inn í barnungan son sinn í Reykjavíkurborg:Nú er ég ekki viss um að Þórdís hafi málað þessar myndir með smábörn í huga en veit þó að 5 ára frændi hennar sá ekkert athugavert við þær. Mér sýnist Doktorinn vera að ala upp óvenju viðkvæmt barn og ég er forvitin að vita hvernig því verður við í fyrsta skipti sem það heyrir Prumpulagið.

þriðjudagur, október 10, 2006

Mig langar heim að sofa.

Svo langar mig til að einhver komi heim til mín, taki til, eldi handa mér súpu, vaski upp, kaupi handa mér uppþvottavél og setji í hana, kveiki á kertum, breiði yfir mig teppi, gefi kettinum, þvoi þvott og slökkvi ljósin. Á meðan ætla ég að liggja í móki.

Fjandans kvef.
Um leið og ég finn nennuna til þess ætla ég að taka til í linkalistanum hér til hægri. Ég veit orðið um alltof mikið af fólki sem á miklu frekar skilið að vera upptalið heldur en ónefnd letidýr. Munið það með mér.

Það er alltaf viss hætta sem fylgir því að blogga þegar maður er latur og aumingjalegur sem er sú allar færslu fara að fjalla um leti og aumingjaskap (og NB skal ekki ruglað saman við þunglyndi sem er allt önnur og stórhættuleg ella.) Ég eyddi allri helginni í að passa börn bróður míns þar sem foreldrarnir skelltu sér út fyrir landsteinana - og var meira eða minna á stanslausri pissu og snýtuvakt. Heba líka. Var síðan svo stórheppin að veikjast á sunnudaginn. Ég vil engum svo illt að fara að segja frá því í smáatriðum. Og ég er búin að komast að því endanlega að ég er handónýtur kandídat í einhleypa móður. Tvö börn á 2-3 ára aldrinum er minnst tveggja manna starf og ég hefði aldrei meikað þetta án Hebu. Börnin eru auðvitað yndisleg en það tók þau alveg 5 daga að venjast því að hafa Ástu frænku þarna í staðinn fyrir mömmu og pabba þannig að flestir morgnar byrjuðu á gífurlegu svekkelsi yfir stöðu mála. Síðasta daginn var komið n.k. jafnvægi á og þá var þetta auðvitað búið. Sigrún Ýr var reyndar fljótari til að haga seglum eftir vindi - enda á hápunkti "ég get sjálf" aldursins - en tilhugsunin um Spiderman inniskó sem mamma hans var búin að lofa honum hélt Gísla Hrafni gangandi. Einn morguninn vaknaði ég við að hann þeyttist inn í svefnherbergið til mín og hrökklaðist frá rúminu þegar hann sá hver lá í því. Hann lét nú samt ekki hugfallast heldur tautaði aftur og aftur fyrir sjálfum sér "Spiderman inniskór ... mamma sagði ... Spiderman inniskór..." Fór síðan aftur inn í sitt herbergi þar sem Sigrún Ýr var að vakna og útskýrði samviskusamlega fyrir henni að mamma og pabbi þurftu að "fljúga yfir allt hafið" og svo fengi hann ... hvað annað ... Spiderman inniskó. "Og ég Bangsímon inniskó" tísti hún hamingjusöm og svo fóru systkinin að fá sér morgunmat. Þetta var reyndar auðveldasti morguninn :)

þriðjudagur, október 03, 2006

Hugleikur hefur ofvirkni vetrarins með Hinu mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld kl. 9. Sex nýir einþáttungar verða sýndir að þessu sinni og sjálf verð ég í tveimur þeirra. Er reyndar hálf ljóskuleg í báðum hlutverkum og fer að óttast að vera typecast en allt er nú skárra en eilífðar móður hlutverkið.

Það fer reyndar að verða deginum ljósara að það gengur ekki upp að reyna að stunda fullt söng- og píanónám, skrifa ritgerð og leika í leikritum á sama tíma. Eitthvað verður að fá að gefa sig og ég er ansi hrædd um það verði að vera leiklistin. Sem er bölvað því það er gaman!

Sem betur fer er lítið að gera í vinnunni þessa dagana. Ríkisstjórnin hefur sett stopp á allar framkvæmdir næsta árs. Eða svo gott sem. M.ö.o. ef stofnanaklósett bila megum við stoppa í gatið en alls ekki kaupa ný. Þetta ku vera lykillinn að stöðvun þenslu í þjóðfélaginu. Frestun viðhalds þýðir reyndar bara að skemmdir verða meiri þegar við fáum loks að gera við, framkvæmdirnar dýrari og hálf þjóðin í fýlu út í okkur en - hey - lítur vel út á pappírum. Aðeins Þjóðleikhúsið (sem fékk sér fjárveitingu) og hesthúsin hans Guðna (ekki á okkar könnu) virðast undanþegin.

En nóg af því röfli. Það eru brýnni mál sem krefjast athygli minnar.

Ég held að ég sé búin að týna litlu kisunni minni fyrir fullt og allt. Hún týndist fyrir tæpum þremur vikum. Hljóp út eitt kvöldið þegar ég var að kalla á Gabríel og hefur ekki sést síðan. Ég var að vonast til þess að hún skilaði sér eftir viku því hún hefur gert það tvisvar áður en þetta er fulllangur tími.

Ef einhver á Háteigsvegssvæðinu verður var við þessa dauðhræddu kisu má hafa samband við mig. Hún er með drapplitaða hálsól með grænu merki og heitir Lísa:föstudagur, september 29, 2006

Ég klifraði upp á hitaveituhólinn hjá Sjómannaskólanum í gærkvöldi ásamt nágrönnum mínum og horfði á borgarljósin. Og komst að því að alltof margar stofnanir, skólar, kirkjur og húsfélög hafa gaman af því að flóðlýsa bílastæðin sín. Ég stóð samt þarna í hálftíma og hlustaði á ipoddinn og beið spennt eftir því að kveikt yrði aftur á götuljósunum svo ég gæti kannski séð hverjir stæðu þarna uppi á hólnum með mér en þegar til kom bættu götuljósinn engu við birtustigið. Ég var þó ekki sammála einum samferðamanni mínum þarna sem tilkynnti þegar ljósin komu á: "Ég veit ekki með ykkur en mér fannst þetta gjörsamlega misheppnað." Ef ekkert annað þá gaf þessi viðburður borgarbúum sjaldgæft tækifæri til að slökkva á sjónvarpinu um stund og njóta kvöldblíðunnar í rólegheitum. Það var líka samt skemmtilega spúkí þegar slökkt var á götuljósunum. Þá var ég ennþá á leið upp að hólnum og skyndilega varð gatan mín almyrkvuð og stundi í kór yfir áhrifunum. Sennilega voru áhrifin mest og best í návígi en týndust við yfirsýnina.

mánudagur, september 25, 2006

Seinfeld - OZ Prison


Ég hef aldrei verið eitilharður Seinfeld aðdáandi - ólíkt Oz - satt best að segja hafa þættirnir alltaf haft sérstakt lag á að fara í mínar fínustu. En síðustu vikur hef ég gjarnan dottið inn í gamlar Seinfeld endursýningar og þær hafa ekki verið svo slæmar. Vöktu m.a. upp fagrar minningar um þetta sketch.

miðvikudagur, september 20, 2006

Bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt bleikt


Ég veitt satt að segja ekki hvort ég á að hlægja eða gráta.

föstudagur, september 15, 2006

Storm & The Balls - What The Fuck Is Ladylike

Hvað sem öllum þjóðrembing og vandræðagangi líður þá breytir það ekki þeirri einföldu staðreynd að þetta var besta lagið sem kom fyrir í Rock Star: Supernova. Í sinni upprunnalegu og sönnu mynd. Hljóðið að vísu ekki upp á marga fiska en því má redda með einum mp3:

Storm and the Balls - What the Fuck is Ladylike

Ég legg svo til að þetta verði þjóðsöngur feministahreyfingarinnar.
Átti gott spjall við skattinn í hádeginu. Mikil ósköp er allt kristalstært núna. Í stuttu máli - á meðan neysluvörur og lán hækka upp úr öllu valdi eiga launin í vandræðum með að halda í við þensluna. Á sama tíma hækkar fasteignaverð meira en góðu hófi gegnir. Þar af leiðandi hækkar fasteignamat. Og eignahluti minn í blessaðri fasteigninni. Sem gerir það að verkum að það eina sem lækkar eru vaxtabæturnar. Því stjórnvöld eru ekkert að flýta sér að hækka viðmiðunartöluna (rétt undir 6 milljónum - einhvern veginn þarf Guðni að hafa efni á hesthúsunum sínum) og af því að einhver lúsablesi seldi sambærilega íbúð í götunni á 13,4 er ég núna orðin forrík á pappírum. Ekki nóg með að greiðsluþjónustan vilji 22 þús. krónum meira á mánuði frá mér heldur hefur ríkið núna minnkað einu greiðsluna sem ég fæ frá því (fyrir utan laun) um meira en helming. Dásamlegt. Það fer alveg að koma tími á að selja allt heila klabbið og flýja land. Ég bið ekki um mikið - bara getu til að lifa á laununum.

Hmm... veðflutningur skyndilega orðinn mögulegur...

fimmtudagur, september 14, 2006

Mikið ofboðslega er ég fegin að þessi Rockstar vitleysa er búin. Loksins getur maður farið að stunda almennilegan svefn í miðri viku.

Það var vitað frá fyrstu viku að íslenskur sveitaballarokkari mundi ekki fitta inn í band með uppþornuðum amerískum glysgaurum (Tommy og Gilby - Jason virkar á annarri bylgjulengd) og því var aðalfjörið að fleyta honum fram í lokaþáttinn. Sem og tókst. Verði þeim vel að Lukasi. Ekki á ég eftir að hafa þolinmæði í að hlusta á þetta garg en það virðist vera sá regin munur á amerískri og evrópskri rokkstefnu að hafa skal það sem lúkkar betur - tónlistin má gjöra svo vel að troðast í aftursætið.

Stóra spurningin er svo hvað tekur við. Er það ekki bara hin glimmrandi nýpússaða Stundin okkar? Tímasetningin svo óvenju svefnvæn og lögin víst skemmtilega kunnugleg.

Og til hamingju Rannveig og Kjartan með nýju dótturina!

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Ég er svo vitlaus. Gasalega ánægð með smá launahækkun sem er svo öll étin í einum munnbita af verðbólgunni. Það eina sem ekki hefur hækkað er leigan í kjallaranum. Nú er tíminn til að segja upp Stöð 2 og huga að sjálfsþurftarbúskapnum sem hefur setið á hakanum (rabbabaragrautur í matinn næstu 2 mánuði.)

Sérstaklega ef ég á að hafa efni á þessari fartölvu.

Óvenjuleg framkvæmdagleði hefur láti á sér kræla svona í rassgatinu á sumrinu. Dröslaði kommóðudruslu, sem einhver leigjandi skildi eftir í fyrndinni, út úr geymslunni - pússaði hana og málaði og gerði að fínasta stofustássi. Og hef nú stað til að troða öllu þessu smádóti sem vill safnast fyrir í kringum mann. Er fyrirmunað að skilja hvers vegna ég var ekki búin að þessu fyrir löngu.

Er að fara í fyrsta söngtíma vetrarins á eftir - hjá nýjum kennara. Ég er líka með nýjan píanista. Og þarf/get kannski farið í píanónám. Það er reyndar ekki komið í ljós ennþá. Endalausar breytingar einmitt þegar maður var búinn að troða lífinu í fastar skorður. Sem er gott. Hvað er gaman af lífinu ef það er alltaf eins? Það sama á augljóslega við um stofuna (heimspekileg samlíking milli ólíkra þátta lífsins: tjekk.)

Smá updeit í lokin - fyrst ég var með óþarfa tilkynningagleði: Embla missti barnið. Hún var komin rétt 4 mánuði á leið.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Sunday Bloody Sunday

Það er í tísku að klína inn á blogg linkum af fróðlegum youtube myndböndum.

Ekki vil ég eftirbátur kallast (enda mun það sennilega verða nafnið á örverpi Siggu og Rannsóknarskipa ca. 2019) og stenst því ekki mátið að birta sennilega besta U2 cover sem ég hef heyrt. Ég er ekkert sértaklega spennt fyrir hljómsveitinni en væri alveg til í að dilla mér við þetta.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Risastórar hamingjuóskir handa Berglindi og Svandís sem eignuðust drengi með tveggja daga millibili - 16. og 18. ágúst. Það var kominn tími á jafna soldið kvenmiðað kynjahlutfallið í krakkaflóru Naflalóar (a.m.k. miðað við það sem komið er á þessu ári.)

Næst í röðinni - ef mér skjátlast ekki - er Embla með sitt fjórða næsta febrúar. Og þannig heldur það áfram.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Sumarvertíðin er búin - og þá tekur vetrarvertíðin við. Alltaf skal eitthvað vera að gerast.

Skólinn byrjar bráðum hjá mér og kannski kominn tími til að tékka á hvað felst í því. Ég hef einhvern veginn ekki haft tíma til að hugsa um það.

Síðan er það MA ritgerði. Ójá. Ég ætla opinberlega að byrja á þeim fjanda aftur. Meðfram fullri vinnu og fullu námi. Það ætti að verða áhugavert. Enn sem komið er þarf að toga upp úr mér umfjöllunarefnið með grettistaki því ég er ennþá nokkuð óviss um hvað hentar til skrifa. Vil rannsaka efnið soldið betur áður en ég stekk út í þessa djúpu. Það er samt all í myndarlegum startholum - er að svipast um eftir skrifstofuaðstöðu (og er með eina í sigtinu sem hefur ekki verið endanlega staðfest) svo og fartölvu (ditto) og vantar núna aðeins 2-3 lausa tíma til að kíkja á bókasafnið. Sem er snúið þegar safnið lokar kl. 5 á daginn. Semsagt - í hnotskurn - MA ritgerð í vinnslu og opið veiðileyfi á sjálfa mig ef ég klára ekki fyrir vorið.

Einnig - ég pantaði bústað (m/potti) yfir eina helgi eftir 3 vikur. Namm...

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Nú er Mávs-ævintýrið senn á enda og síðustu forvöð að berja sýninguna augum annað kvöld kl. 7 eða á Dalvík næstkomandi laugardag kl. 5. Veðurspá er hagstæð þótt hlýr klæðnaður, útilegustólar og regnhlífar séu jafnan góð hugmynd á íslenskum sumarkvöldum.

Þetta er allt kyrfilega merkt þannig að ekkert vandamál ætti að vera að ramba á rétta staðinn.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Jæja - þá erum við frumsýnd. Mér tókst að húrra á hausinn í mínu eina atriði - svo vel víst að margir héldu að það væri með ráðum gert. Nú þarf ég víst að húrra jafn fallega á hausinn í öllum komandi sýningum. Það sem maður gerir ekki fyrir eitt stykki Fynd. Annars var ansi góður rómur gerður að sýningunni og samkvæmt hefðinni var glampandi sól og dásamlegheit út alla sýninguna.

Var að koma heim úr frumsýningarpartýinu sem er ennþá í fullu fjöri á Selfossi í þessum rituðu orðum. Við eyddum kvöldinu í Helli (sjá mynd að neðan) ásamt gömlum Bandalagsskólafélögum þar sem var mikið grillað, drukkið og sungið. Og haldnir mini-Bandaleikar. Reyndar skíttapaði mitt lið sökum tjáningarskorts enda kölluðumst við Liðleskjur og bárum nafn með renntu. Sem dæmi: liðamótaleysi Sævar hefði getað tryggt okkur sigur en í staðinn var hann látinn sitja hjá. Við héldum nokkur í bæinn þegar fjörið stóð sem hæst og það verður dásamlegt að hafa engum skyldum að gegna á morgun. A.m.k. ekkert meira krefjandi en bíóferð og tónleikaskrepp.

Spakmæli kvöldsins koma frá Frosta: "Eins og snigill sem býr um sig í annars skel." Mér var fyrirskipað að muna þetta gullkorn af talsvert ölvuðu en ónefndu fólki.
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Lísa - áræðni að nóttu til.
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

mánudagur, júlí 24, 2006

Þannig er nú það

Eftir nákvæmlega 5 daga frumsýnir Leikfélagið Sýnir Mávinn eftir gleðiskáldið Tjekoff í Elliðarárdalnum í leikstjórn Guðjóns Þorsteins Pálmarssonar Denna.

Frumsýning er áætluð kl. 3 og sagan segir að það sé aldrei slæmt veður á sýnískum sýningum. Allir sem hafa áhuga á að sjá sýninguna eru hvattir til að mæta sem fyrst því þær verða aðeins 3 hér í bænum og ein á Dalvík á Fiskidaginn mikla. Ég veit að sumir lesendur þessa bloggs eru sérlega forvitnir um leikni mína með ákvexti og verður tækifæri til að upplifa það "læf" á sjálfri sýningunni. Plottið þekkja annars allir sem hafa nokkru sinni horft á Bold and the Beautiful:

Glæsileg leikkona sem má muna sinn fífil fegurri eyðri sumri á sveitasetri ásamt fjölskyldu og vinum. Hún hefur togað með sér frægan höfund og kvennabósa sem hefst óðar til við að reyna að fífla unga sveitastúlku sem stjörnur í augum. Til að flækja málin er sonur leikkonunnar, upprennandi skáld sjálfur, yfir sig ástfanginn af þessari stúlku og ekki ánægður með gang mál. S.s. ást og afbrýði í íslenskri rússneskri náttúru.

Í þessari leikgerð er aðeins búið að breyta og bæta og staumlínulaga leikritið. Annars tæki þetta helvíti 4 klukkustundir í flutningu. Nú er það ca. 2 klukkustundir og ætti engum að leiðast.

Frumsýning laugardaginn 29. júlí kl. 15:00
Önnur sýning mánudaginn 31. júlí kl. 20:00
Þriðja sýning fimmtudaginn 10. ágúst kl. 19:00
Fjórða sýning laugardaginn 12. ágúst (á Dalvík - tímasetning auglýst síðar)

Frá æfingum:

Menn, ljón, ernir og akurhænur...

Masha og Trigorín á trúnó

Hljómsveitin

Kvöld í Elliðarárdal

Jakob og Ivan sinna skyldustörfum

Nína færir Dorn falleg blóm

Þetta ætti að kallst dáindis gott dagsverk. Ég var frá æfingu í kvöld sökum bakkvala sem ég er að reyna að tæla í burtu með dópi og sundferðum. Nú sit ég ekki fyrir framan tölvuna sekúndu lengur.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

MávurEr til einhver rótföst regla sem segir til um hvort skrifa eigi “mávur” eða “máfur” – vaff eða eff? Ég veit að báðar útgáfur eru til og að finna í íslensku orðabókinni þótt þar sé “mávur” settur í aðalsæti og “máfur” aðeins = sjá mávur. Enda segir hver titrandi taugafruma í líkamanum mér að “mávurinn” sé hinn eini rétti og þegar ég sé effið frekjast með blóðlangar mig til að kroppa það burt. En hvað segja spekingarnir um málið?

Annars man ég nú ekki betur en að fuglinn í fjörunni heiti már þannig að þessi smámunasemi er kannski óþörf.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Það hvarflaði að mér í eitt augnablik að skrifa vælulegan póst um ástandið þessa dagna en fékk þá heiftarlegt deja vu kast. Hafði því næst upp á þessari færslu - skrifuð við svipaðar aðstæður fyrir 2. árum. Þetta var nú víst ekki svo slæmt því hlutirnir litur ólíkt betur út daginn eftir og þrátt fyrir óþarfalega mikla þreytu er lund mín nú bara ansi létt en ef það er ekki brotið...

Gátlisti lífs míns

- bak sem vill ekki lagast (ekkert að bakinu - hins vegar útbíuð í harðsperrum eftir sataníska hnébeygjuupphitun um helgina)
- óklífanlegt reikningafjall (ekki núna - er að róta í bókhaldi sem virðist samansett af blindum, spastískum púkum)
- æfingar á hverju kvöldi næstu 10 daga þar sem ég fæ að sitja og frjósa úr kulda í þrjá tíma í senn (tjekk - fæ reyndar frí bæði á föstudag og laugardag þannig að það er mikil framför í þeim efnum)
- engir möguleikar á að taka frí þessa viku eða næstu (4 vinnudagar eftir og þá er ég komin í 2 vikna frí- jibbí!)
- ennþá enga heimatölvu (tölvan er þæg núna)
- enga peninga (tjekk)
- enga sól (tjekk)
- enga glætu (tjekk)
- engan sundbol (onei - hef síðan eignast heila tvo)
- ósamstarfsfúsa ketti (þau reyna)
- vælulegan tón í röddinni og þunglamalegt yfirbragð (ég er lika að reyna...)

sunnudagur, júlí 16, 2006

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

No comment
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

laugardagur, júlí 15, 2006

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Það er fallegt á Hellissandi á sumrin
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

föstudagur, júlí 14, 2006

Rockstar Rockstar Rockstar

Ég var ein af fáum sem hafði minna en engan áhuga á Rockstar: INXS þegar þeir þættir voru sýndir - jafnvel þótt ég eigi í fórum mínum einu markverðu plötuna sem sú hljómsveit gaf frá sér. Mér leiðist almennt sýndarmennska rokkaranna og gat ekki skilið þann pól sem útúrkókaðir og nýafvatnaðir dómararnir voru að taka í hæðina. Það hjálpaði sennilega ekki að hafa draug Michael Hutchins svífandi yfir útsendingum.

Nú er komin röðin að Rockstar: Supernova og nú er þó byrjað með næstum því ferskt - a.m.k. nýstrokið - band. Smá endurnýjun og nýting í gangi en þannig er það jú alltaf. Íslendingur með í för sem virðist bara vera nokkuð vel til fundið - þrátt fyrir smá byrjunaraulahrolla.

Ég hef reyndar ekki afrekað það ennþá að sjá heilan þátt sökum leikrita-anna en það skiptir í sjálfu sér ekki máli. Ég heyri eftir á frá því sem markvert er og get séð allt sem ég kæri mig um á netinu á hinni prýðisgóðu heimasíðu þáttanna.

Ég spá því að einhver miðlungs karl-skussinn muni vinna þessa keppni - og að Magni hangi inni nógu lengi til að halda upp heiðri lands og þjóðar. Dilana - sem ber höfuð og herða yfir alla aðra keppendur þrátt fyrir smæð - á ekki að vinna. Ég get ekki ímyndað mér að það sé hollt fyrir hennar frama að sitja uppi með þessa afdönkuðu rokkara. Einhver lævís framleiðandi ætti að sjá sér leik á borði - bjóða henni gull og græna skóga og feitan plötusamning - og hún getur þá látið sig falla úr keppni undir lokin sökum, ja, óviðráðanlegs hiksta kannski? Það er afskaplega lítið rokkað við hiksta.

föstudagur, júlí 07, 2006

Maraþon rennsli í gær - 90% handritslaust - sem þýddi að ég þurfti að "hvísla" sirka helmingnum af textanum í leikara. Þetta er nú samt allt að koma. En ég er dauðuppgefin eftir gærdaginn. Ætla því að leyfa mér að svindla og setja inn þessar myndir í staðinn fyrir innsæisfullar lýsingar á gærdeginum - eins og mér er nú annars tamt.Upphitun - ég er ekki svo viss um að þið viljið vita hvað var að gerast þarnaJá og svo það sé á hreinu þá er þetta ekki rétt leikmynd. Eða leikhús.Masha (Anna Begga) og Trígorín (Tolli) í heimspekilegum vangaveltumArkadína (Júlía) og Tréplev (Gummi) rifja upp fallegar minningarFormaður (Hrund) og leikstjóri (Denni) skeggræða


Frí í dag - guði sé lof - en annað eins á döfinni. En þá förum við líka að færa okkur yfir í Elliðarárdal sem ætti að vera ólíkt meira hressandi. Svo lítur út fyrir að ég sé komin með hlutverk - sennilega eitt það minnsta í bókmenntasögunni frá því að Varríus var og hét. Jafnvel minna því engan texta mun ég hafa. A.m.k. alveg jafn textalaust. Og miðað við hversu gífurlega mikill Shakespeare-fanboy Tsjekoff var þá kæmi ekki á óvart þótt þarna væri enn ein lymskuleg tilvísunin.

mánudagur, júlí 03, 2006

Sjaldséðir eru hvítir hrafnar, sól á sumarhimni og Ásta Gísla á djamminu. Engu að síður var hægt að glitta í eitt af þessu þrennu síðustu helgi. Ég var ofurliði borin af Auði, Áslaugu og Sóleyju, toguð niður í bæ og lét mér bara vel líka. Lét fyrst teyma mig inn á Hraun-laust Rosenberg sem var ný og skelfileg reynsla (þótt viss huggun væri í því að sjá tvær fimmtugar gellur takað sporið af miklu krafti fyrir framan fýldan trúbador.) Síðan var það röðin á Thorvaldssen sem var nokkurn veginn eins upplifun og inni á Thorvaldssen nema þar kostaði bjór 800 kr. Kvöldið allt var hið ljúfasta og eftirköstin lítil sem enginn. Ég afrekaði það meira að segja að taka til og skúra á heimilinu ásamt því að slá garðinn og klippa limgerði. Allt í allt - hin árangursríkasta helgi.

Punkturinn yfir i-ið var svo smá kameo í sjónvarpþætti allra landsmanna - Út og suður - en Gísli og co. höfðu heimsótt Húsabakka á meðan á leiklistarnámskeiðunum stóð í júní. Þeir sem misstu af geta horft hér.

miðvikudagur, júní 28, 2006

Skyndilega allt að gerast:

* Ég hef fengið formlega inngöngu í Tónlistarskóla Reykjavíkur. Loksins! Sjálfstæðismyrkraröflin eru loksins að vinna í mína þágu.
* Er að hvísla að minnislausum leikurum í uppfærslu á Tjekkoffska Mávinum hjá Leikfélaginu Sýnir. Með Sýndar lagi. Þið hafið aldrei séð slíka uppfærslu hjá Þjóðleikhúsinu góðir hálsar.
* Auður er aftursnúin með jafnvel meira eirðarleysi í farteskinu en hrjáir mig sem þýðir ... örugglega eitthvað. Það eru plön - bæði þau sem bíða eftir að verða hrint í framkvæmd og svo þau sem enn eiga eftir að fæðast.

Mig langar að gera milljón hluti en þyrfti helst að komast í frí. Garðurinn er að leggjast í órækt, landsbyggðin í öllu sínu veldi kallar til mín, sjónvarpið hefur tapað aðdráttarafli sínu og ég er með frítt í sundlaugar ÍTR í sumar. Nú hrín ég á gott veður!

föstudagur, júní 23, 2006

Eftir allt spriklið í Bandalagsskólanum hefur eirðarleysi tekið sér bólfestu í kroppnum og því dreif ég mig án nokkurra málalenginga í spinning í hádeginu í dag. Í fyrsta skipti á ævinni. Mesta furða hvernig mér hefur tekist að forðast það fram að þessu. En það er í sjálfu sér ekkert merkilegt - það er sem er merkilegra er að í hádeginu í dag, í Hreyfingu, upplifði ég einn súrrealistíska gjörning sem ég hef orðið vitni af inni á líkamsræktarstöð frá því að Maggi Scheving mætti í eróbikktíma í fyrndinni með hárlengingar. Við höfðum púlað þarna í svona 10-15 mínútur - ég að berjast við að hækka stýrið á hjólinu mínu og að skíttapa orrustunni - þegar kennarinn veifar inn einhverju fólki og við tók hálftíma partý prógram hjá Love Guru og gellunum hans; söngkonu og tveimur dönsurum. Þarna skoppuðu þau fyrir framan sveitta hjólafólkið og tóku öll sín vinælustu cover-lög - að sjálfsögðu læf fyrir utan playbackið - á meðan múgurinn æstist og æstist.

Þetta var nú bara hressandi. Og óstjórnanlega fyndið. Annar dansarinn ku vera að vinna þarna sem var ástæðan fyrir uppákomunni. Ekki amaleg byrjun á spinningferli mínum þar. Þetta býður auðvitað upp á alls konar skemmtilega mögulega; uppistand, trúbadora, trúðaleik, eldgleypa og svo mætti lengi telja.

En ég get ekki haldið athyglinni við þessa vitleysu - ég var að fá dásamlega fréttir frá söngkennaranum mínum. Hin nýja borgarstjórn er búin að afnema heimskulegu aldurstakmörkin í tónlistarskólana. Ég get kannski bara sótt um! Hamingja!

Það má svei mér vel vera að þetta sé besti dagur ársins.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Auður kom heim frá Ástralíu fyrir tveimur dögum ef mér reiknast rétt og hefur ekkert til hennar spurst. Mér líst ekki á blikuna. Slökkt á öllum símum og einu samskiptin síðustu vikur forláta póstkorst sem mér barst í gær þar sem kom fram að hún hafði skroppið í reiðtúr á kameldýri og líkað vel.

Sjálf stend ég í leiðinlegu leigjendastappi og veit ekki hvernig ég á að snúa mér. Helst vildi ég alveg sleppa því. Er einhver til í að borga mér 20 þúsund kr. fyrir að vera ekki með leigjanda?

mánudagur, júní 19, 2006

Jæja - komin heim úr öndvegi íslenskra dala. Ólýsanleg reynsla og upplifun sem ég á aldrei nokkurn tímann eftir að sjá eftir. Fyrstu dagarnir voru reyndar þeir erfiðustu lífs míns en svo datt maður niður í rútínu og langaði ekkert að detta úr henni aftur. Ég ætla ekki að skrifa nákvæma lýsingu á því sem fram fór enda hefur það allt soðist saman í hryllilega dásamlegan hrærigraut í hausnum á mér. Kannski stiklað á stóru...

Bandaleikarnir voru hinir bestu frá upphafi enda fór liðið mitt, Laumupokar, með sigur af hólmi undir öruggri handleiðslu liðstjórans Bylgju Ægisdóttur. Við fengum öll Bónus páskaegg nr. 6 í verðlaun og forláta vinningsmerki. Ligga ligga lá.

Ég lærði að leika (betur) þökk sé besta kennara í heimi.

Endurnýjaði kynni mín við blakíþróttina.

Uppgötvaði alls konar óprenthæfa hluti um samnemendur mína og kennara. Psst, psst, susssss.

Teygði á kálfum og ekki vanþörf á.

Busaði busa.

Fór hvorki í sund né gufu þrátt fyrir fögur fyrirheit.

Fór aðeins einu sinni í brekkuna sem er nú ekki alveg að marka þar sem það var rok og rigning nær allan tímann.

Horfðist í augu við almúgann í París.

Lék í leikriti eftir Siggu Láru (án þess þó að vita það á meðan á stóð - reyndist vera mikill léttir því ég stóð mig alltaf að því að segja setningarnar með hennar áherslum sem mér þótti soldið skringileg tilhneiging.)

Dó og drap.

Varð vitni að versta leik sem sögur fara af.

Spilaði á flautu og frosk.

Söng í þremur kórum.

Var tekin upp í sjónvarpi.

Hélt upp á 17. júní með skrúðgöngu, fjallkonu og þjóðsöng. Og það án þess að yfirgefa skólasvæðið.

Drakk fjarska lítið áfengi - meira segja á lokakvöldinu.

Skrapp til Akureyrar - það var eins og koma til útlanda.

Kvaddi með smá tárum - vitandi að þetta er ekki alveg búið því það verður tekinn aukakennsludagur í haust. Jibbí!

miðvikudagur, júní 14, 2006

Brekkan eftir miðnætti

Brekkan eftir miðnætti
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

laugardagur, júní 10, 2006

Nemar Að störfum í Svarfaðardal

Nemar Að störfum í Svarfaðardal
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Buuuusar

Buuuusar
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Að bíða eftir setningu í minna en 22 sti

Að bíða eftir setningu í minna en 22 stiga hita
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

þriðjudagur, júní 06, 2006

Já og...

Ég er að fara í Bandalagsskólann næstu helgi (jibbí!) á leiklistarnámsskeið. Ég hef bíl til umráða en væri alveg til í að þurfa ekki að keyra þessa leið ein - og jafnvel ekki keyra hana sjálf yfir höfuð. Er einhver sem les þetta blogg og ætlar á skólann til í samflot?
Það er aftur hafist - nú með kvikmyndum. Það muna væntanlega allir eftir myndinni með 100 hljómsveitarnöfnum stráð á myndrænan hátt yfir eina húsalengju. Þetta er það sama - bara með kvikmyndanöfnum. Sum þeirra eru ofur augljós (bók með orðinu "Toy" framan á = Toy story) - önnur alltof óljós (fólkið að dansa tangó - á það að vera ein af þeim 100 myndum sem hafa tangó í titlinum eða kannski Strictly Ballroom? Eða eitthvað allt annað?) Hvað sem því líður stóðst ég að sjálfsögðu ekki mátið og fann þessar í fyrstu atrennu:

The Hand that rock the cradle
Matador
Boomerang
Green eggs and ham
The Crow
Swordfish
Casino
The Lion, the Witch and the Wardrope
12 monkeys
Bad Santa
The Hole
Stealth
Titanic
Flipper
Airplane
Crash
Goal
Castle in the sky
Thirteen
The hills have eyes
1 hour photo
Anchorman
Toy soldiers
Juice
Man in the moon
Mask (eða/og The Mask)
The Money Pit
The Fly
The Scorpion King
The Rock
Th Jacket
Snake eyes
Elephant
Twister
Four weddings and a funeral
Toy story
Phone Booth
Saw
Saw 2
Ghost
A Clockwork orange
The thin red line
Domino
Tears of the sun
21 grams
Hook
The Red Balloon
The Ring
Jarhead
Beethoven


Hmm... aðeins 60. Betur má ef duga skal. Hvur fjandinn á þessi fiskur að tákna (og er þetta þorskur, ufsi, silingur?) og tengist hann eitthvað ilinni? Svo grunar mig að myndin sé of lítil að greini megi öll smáatriði. Aðstoð væri vel þegin.

laugardagur, júní 03, 2006

Ahh - laugardagsmorgnar með PS2

Ahh - laugardagsmorgnar með PS2
Myndina sendi ég
Powered by Hexia

fimmtudagur, júní 01, 2006

Svakaleg þessi lágdeyðu, sudda lægð sem liggur yfir öllu. Við Kata (sumarstarfsmaður) erum a.m.k. að láta þær fréttir berast út að allt framtaksleysi stafi af óhagstæðum loftþrýstingu og vei þeim sem dirfist að kenna leti um.

Það er líka fátt værðarlega en að liggja heima fyrir yfir átakslitum aðgerðum - sérstaklega þeim sem tengjast sjónvarpinu - á fúlum rigningar fimmtudegi.

Nei! Þá er um að gera að finna leiðir til að ná blóðþrýstingnum upp. Kata mælir með barnalandi.is þar sem greindarvísitölur og heilbrigð skynsemi fara til að deyja. Ég er ekki svo kjörkuð og sæki frekar í skemmtun yfir andleysi meðalmennskunnar og í þeirri leit minni rakst ég á þetta eðal ljóðablogg. Sem minnir mig glettilega á annað ljóðablogg...

Getur einhver bent mér á grundvallarmuninn á þessum tveimur síðum?

þriðjudagur, maí 30, 2006

Uss uss - er þetta nú hægt?Hann er svosem ekki ólaglegur í dragi, segi það ekki, en er ekki skemmtilegra að kyngreina fólk rétt? Flestir virðast kjósa það og örugglega leikarinn Cillian Murphy.

Viðbót: Ekki fyrr búin að ýta á publish en þeir drattast til að laga þetta á Vísi. Og eyðileggja fyrir mér fullkomlega tilgangslausa bloggfærslu. Hnuss!
Mig langar svo í nýtt hjól. Ég hef átt þrjú hjól um ævina (fjögur með þríhjóli) - og það síðasta fékk ég þegar ég var 13 ára. Glæsilegur hvítur fákur með þremur gírum sem fyrir löngu genginn til feðra sinna. Ég sakna þess að eiga ekki hjól - ég og hjól pössuðum saman eins og flís við rass. Ég var alltaf nokkuð óheppið barn og gjörn á að missa undan mér fæturna við bestu skilyrði - held að hnén hafi fyrst gróið almennilega um fermingu - en þegar ég hjólaði var jafnvægið fullkomið, valdið ótvírætt og þrótturinn óendanlegur.

Þau eru bara svo fjandi dýr. Þannig að ... veit einhver hvar er best að leita að hjólum - notuðum jafnvel - sem eru sterk og endingargóð og kosta undir 20. þúsundum?

föstudagur, maí 26, 2006

Framtakssamir kaupmenna hafa loksins lagt saman tvo og tvo og er tækni sem gjarnan hefur verið nýtt til að halda músum frá lokkandi skemmum nú notuð til að fæla frá unglinga.

Það er vitað mál að hreyrnin dofnar með aldrinu og með því að setja upp búnað sem gefur frá sér hátíðni hljóð sem aðeins unglingar heyra er hægt að gera viðveru þeirra óbærilega á ýmsum stöðum.

Ekki alltaf tekið út með sældinni að vera með viðkvæma heyrnUnglingarnir, sem eru gjarnan með aðeins meira ímyndunarafl heldur en fýlda fullorðna fólkið, hafa nú komið til móts við þessa tækni og eru farnir að nota þessi hljóð sem hringitóna í síma - án þess að heyrnadaufir kennarar verði nokkurs varir.

Þetta hér ku vera dæmi um slíkt hljóð:Þeir segja að enginn eldri en 20 eigi að heyra nokkuð - að vísu heyrist djúpur bassahljómur þegar hátalarnir eru stilltir á mesta styrk en hátíðni ýlfrið á alltaf að heyrast - þ.e. ef þú ert með nógu spræk eyru.

Ég heyri ekki bofs en hin þrítuga sumarafleysingastúlka segist heyra pirrandi gaul. Hún er ennþá í skóla. Ætli í því felist munurinn?

miðvikudagur, maí 24, 2006

Sá þetta hjá Skottu og Ástþóri:

1. Með hvaða hljómsveit eða flytjanda áttu flestar hljómplötur?
- David Bowie - og það er langt í annað sætið.
2. Hvað var síðasta lagið sem þú hlustaðir á?
- Þetta hér
3. Hvaða hljómplata er mest á fóninum hjá þér þessa dagana?
- War of the Worlds
4. Spilarðu á eða langar þig að læra á eitthvað hljóðfæri?
-Ég lærði á blokkflautu á sínum tíma og píanó. Er stundum að glamra á píanóið og rifja upp glutraða þekkingu en sé ekki fyrir mér mikinn frama á á því sviði.
5. Hver er uppáhalds íslenska hljómsveitin þín?
- Ég hlusta skelfilega lítið á íslenska tónlist þannig að Ampop og Hraun eiga í raun auðvelt með að komast í efstu sæti. Það er líka ákveðið og viðvarandi attitút hjá mörgum íslenskum hljómsveitum sem fælir mig frá.
6. Hvaða hljómsveit sástu síðast á tónleikum?
- Uh... seldi boli á Ampop tónleikum um daginn en sá ekki mikið.
7. Hvað er bestu tónleikarnir sem þú hefur séð?
- Ég er ekki mikið fyrir tónleika - hef tilhneigingu til að pirrast út í of margt til að njóta tónlistarinnar. Það var samt ákv. upplifun að sjá Sigur Rós í höllinni ásamt The No Smoking Orchestra fyrir þó nokkrum árum.
8. Hver er lélegasta hljómsveit sem þú hefur séð á tónleikum?
- Ég hef einfalda reglu: ef hávaðinn er það mikill að ekki greinist eitt einasta orð hjá söngvaranum þá er það vont.
9. Hefurðu verið í hljómsveit?
- ó nei
10. Hvaða tónlistarmann, bæði dáinn og lifandi, myndirðu helst vilja hitt?
- Engan svosem
11. Hvaða tónleikar eru á döfinni sem þú hlakkar til að sjá?
- Ekkert á döfinni
12. Hver er uppáhalds tónlistarbolurinn þinn?
- Hraun - og hefur ekkert með það að gera að það er eini tónlistarbolurinn minn ;)
13. Hver er elsta tónlistarminning þín?
- Pabbi að spila á harmonikku á kvöldin - mér finnst ennþá svo þægilegt að sofna út frá polka tónlist.
14. Hvaða tónlistarmaður eða tónlistarkona myndirðu vilja að væri ástfangin(n) af þér?
- Uh... ég er ekki þrettán ára...
15. Hvaða tímabili sem tónlistarunnandi ertu ekki stoltur af?
- Stórum hluta af tíunda áratugnum (sjá næstu spurningu)
16. Hvort hélstu með Blur eða Oasis á sínum tíma?
- Hvorugu. Nema hvað ég hataði ekki Blur meira en lífið sjálft og fann fyrir ógleði og svitaköstum þegar vinasælasta lagið þeirra var ofspilað við öll tækifæri (Wonderwall)
17. Hvaða þrjár hljómsveitir myndirðu kalla þínar uppáhalds?
- Franz Ferdinand, Scissor Sisters, Gorillaz
18. Hver er uppáhalds hljómplatan þín í plötusafninu þínu?
- Feline með The Stranglers, Les Retrouvailles með Yann Tiersen
19. Hvaða áratugur í tónlistarsögunni var bestur?
- Þessi
20. Hvað er uppáhalds kvikmynda sándtrakkið?
- Arizona dream - eða Pink Floyd - The Wall (telst það með?)

þriðjudagur, maí 23, 2006

Ég fékk SMS í nótt með tilkynningunni um að Úlfhildur Stefanía hefði fæðst foreldrum sínum, þeim Nönnu og Jóni Geir. Meira veit ég ekki en sjálfsagt hafa margir fengið þessa tilkynningu (og rumskað að værum blundi kl. hálf 3 en það er nú allt í lagi.)

Martini og Kafbátur vildu því báðir vera stelpur og lái þeim hver sem vill.

Miðað við hvað þetta barn var kyrfilega tímasett við getnað ætti ekki að koma neinu á óvart að það var fæddist stundvíslega upp á dag. Nú er auðvitað pressa á Úlfhildi litlu að halda út álíka stundvísi það sem eftir er.

Innilega til hamingju öll sömul.

mánudagur, maí 22, 2006

Yfir 30 tus. krona kjarabot a manudi.

Kjosum Samfylkingu, kjosum gjaldfrjalsan leikskola

XS - Samfylkingin


SMS sem mér barst rétt í þessa - meira að segja tvö eins. Nú er tveir flokkar svo ég viti búnir að falast eftir atkvæði mínu með beinhörðum peningum. Ég er alveg handviss um að þarna hafi ég lent í einhverju gasalega útpældu úrtaki. Verst að þetta nýtist mér ekki neitt - engin kjarabót handa þeim barnslausu. Það er frekar að á mig leggist aukin gjöld. Þarna var laglega skotið yfir markið.

Endar með því að ég kýs Frjálslynda - ég er ekki sammála öllum þeirra málefnum - en það á við um alla flokkana. Aldrei þessu vant virðast þeir vera sá flokkur sem er með fæturna hvað næst jörðu og þeir vilja afmá aldursþakið í tónlistarskóla sem er eitthvað sem hefur bein áhrif á mitt líf. Ég er nenni a.m.k. ekki að púkka upp á lið sem stráir um sig jöfnum skrefum óraunhæfum gylliboðum og skít yfir aðra flokka - og alveg sérstaklega ekki þá sem finnst þeir hafa heimtingu á mínu atkvæði til þess eins að tryggja að þeirra óvinaflokkur komist ekki til valda.

Mikið ofboðslega á ég eftir að komast í betra skap að þessum kosningum afstöðnum.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Allir svo taugaveiklaðir út af Eurovision. Hvernig er það, gefum við ekki frat í þessa keppni á hverjum ári þegar við komumst ekkert áfram? Man ekki betur en Gísli Marteinn hafi riðið á vaðið með blammeringar og fýluskap um leið og úrslitin voru lesin upp í undankeppninni í fyrra. Nágrannaklíkur og leiðindapakk o.s.frv.

Ég stóð því fastlega í þeirri meiningu að þegar íslenska þjóðin kaus gervipersónuna Silvíu Nótt með gervilagið sitt að hún vissi að þar fengi hún gervikeppanda. Að við værum þreytt á að senda litlaus og falleg lög sem væru hunsuð út í eitt og vildum að einhver tæki eftir okkur - sama hvað það kostaði. Jæja, þeir tóku eftir okkur - við megum klappa okkur á bakið með það.

Hvað ætli hefði gerst ef Silvía hefði haldið að sér höndunum - ekki verið með neina stæla og flutt lagið án nokkurs umtals? Hefði fólk ekki gagnrýnt hana umvörpum fyrir að sýna ekki sína réttu liti og ganga alla leið með brandarann? Og hver man ekki hver fyrstu viðbrögðin við þátttöku hennar hérna heima voru: þ.e. mun Evrópa fatta brandarann? Allir búnir að gleyma því? Við kusum hana samt - og við berum því ábyrgðina.

Allt þetta út af sjálfhverfu og sakleysislegu grínlagi með ágætis hrynjandi. Þegar öll kurl eru komin til grafar þá er allt betra en "Birta."

Hvað mig varðar þá er ekkert sem íslenska framlagið getur gert til að skemma stemninguna. Það er jú gaman að bíða eftir "sínu" lagi með hjartað hálfa leið niður í buxur en það er svo mikið að gerast þarna og okkar framlag aðeins hluti af risastórum pakka. T.d. að setjast niður í góðra vina hóp og upphefja og úthrópa keppendur af mikli kappi. Þannig hefur það verið síðustu ár og aldrei klikkað hingað til. Og sem er það sem ég ætla að gera heima hjá Siggu Lára seinna í dag - með glöðu geði.

mánudagur, maí 15, 2006

Svei mér ef það er ekki komið sumar. Það er a.m.k. komið sumar í mínu lífi; Hugleikur slúttaði vetrarstarfinu á föstudaginn og ég tók síðasta prófið mitt (Hljómfræði II) í morgun. Lítur líka út fyrir að ég hafi náð ef marka má kennarann sem renndi augum yfir prófið. Ég fæ betur úr því skorið í kvöld eða á morgun.

Þannig að: skyldur allar á bak og burt og mér ekkert að vanbúnaði að klára að taka til á heimili mínu (stend í umbótum og breytingum.) Tók endanlegt geðvonskukast síðasta laugardag á ljósakrónuna í stofunni sem ég hef hatað frá því hún var keypt, fór og verslaði nýja og henti upp. Sjaldan spandera eins litlum tíma og orku í eins þarft verk. Má bjóða einhverjum notaða ljósakrónu í góðu ásigkomulagi? Næst á dagskrá: bókahillur í svefnherbergið. Er að spá í að smíða þær sjálf. Er hugsanlega sturlast af óvenju miklum tíma milli handanna.

Já og tónleikarnir í gær gengu bara ágætlega. Mamma og pabbi mættu með Gísla Hrafn sem hélt fyrir eyrun á meðan frænka hans söng. Kann hún honum mikla þökk fyrir.

sunnudagur, maí 14, 2006

Þeir sem hafa ekkert betra að gera á sunnudagseftirmiðdegi en að rýna í bloggsíður eru hvattir til að mæta í Salinn í Tónlistarskóla Reykjavíkur í Skipholti kl. 16 og veita mér andlegan stuðning þar sem ég syng fjögur stutt lög. Ég lærði það á sams konar tónleikum í fyrra að það hjálpar gífurlega að hafa vinsamleg andlit í áhorfendahópnum. Þessi ókunnug gætu allt eins verið óvinveitt og líkleg til að éta þig. Eða púa...

Annars ætti mér nú að hafa aukist eitthvað kjarkur og áræðni á síðasta ári. Maður skyldi vona.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Ég er farin að vakna kl. hálf sjö á hverjum morgni - algjörlega óháð því hvenær ég fór að sofa.

Vill einhver segja líkama mínum að hann sé Íslendingur, hafi alltaf verið og ég taki það ekki í mál að hann fari að standa í þessari vitleysi á 34. aldursári þótt það sé orðið albjart á morgnana?

miðvikudagur, maí 10, 2006Þetta gekk nú bara furðuvel hjá okkur í gær. Svona í ljósi þess að Þjóðleikhúsið vildi ógjarnan gera ráð fyrir okkur. Verður örugglega ennþá betra annað kvöld. Þá er síðasti séns til að sjá hugleikskar afurðir á þessu leikári. Sjá nánari útlistun á dagskrá hér.

Mynd miskunnarlaust rænt frá kynni kvöldsins, honum Birni M, og vondandi sér hann í gegnum fingur sér með það.

mánudagur, maí 08, 2006

Ég rak nefið inn á mitt fyrsta bandalagsþing um helgin og það var forvitnileg reynsla. Reyndar var ég nú þarna aðeins til að hlýða á umræður um einþáttungana (eða stuttverk) á "Margt smátt" sem fór fram kvöldið áður svo og val gagnrýnenda á bestu þáttunum. Lét ég mig hverfa að því loknu. Síðan var hátíðarkvöldverður um kvöldið þar sem tilkynnt var um athyglisverðustu áhugasýningu ársins. Hugleikur reið feitum hesti frá fyrra vali (Nanna/Júlía og Gummi/Siggi unnu fyrir þættina sem þau leikstýrðu/skrifuðu og þrefalt húrra fyrir þeim!) en ekki því síðara. Sem var sjálfsagt allt hið sanngjarnasta. Ég hef ekki séð Þuríður og Kambsránið en sú sýning hljómar mjög spennandi og ég hef enga ástæðu til að halda að hún sé nokkuð annað en framúrskarandi og vel að sigrinum komin.

En þótt valið væri búið hélt fólk áfram að viðra sínar skoðanir og hlustaði ég á marga og misjafna dóma um þetta allt fram eftir nóttu. Ég ætla ekki hafa eftir það sem mis-biturt fólk lét frá sér fara undir áhrifum enda sjálfsagt að hver og einn hafi sína lituðu og ólituðu skoðun.

Það vöknuðu hjá mér hins vegar spurning um hvað "atvinnumönnum" þættu athyglisvert. Þ.e. hvernig þeim fannst að áhugaleikhús ætti að vera. Því það fór ekki framhjá mér að þeir virtust vera með einhverjar kröfur - um það sem á og má. Og þótt allir hömruðu á mikilvægi áhugaleikhúsanna í menningarflórunni var ekki laust við að talsverðan yfirlætisblæ væri að finna á viðhorfunum. Það er samt ekki við þessa einstaklinga að sakast - þau eru skipuð í þetta hlutverk og þeirra viðhorf hljóta að mótast af atvinnumennskustatus þeirra. Gagnrýnin á einþáttungana var t.d. bæði sanngjörn og uppbyggilega þótt auðvitað væri ég ekki alltaf sammála henni. Því það er alltaf þessi gjá á milli áhuga- og atvinnuleikhúsa - hvort sem fólk vill bekena hana eða ekki - og einhver staðar í ferlinu virðist hafa fæðst sú skoðun að atvinnuleikhúsin viti betur heldur en áhugaleikhúsin sjálf hvernig ber að skilgreina þau. Og þar set ég stórt spurningarmerki. Viljum við í alvöru sífellt leitast eftir náð í augum atvinnuleikhúsanna? Erum við börnin sem þau eru að ala upp? Þurfum við eitthvað á þeim að halda? Hvernig væri að við héldum einhverja seremóníu og veldum athyglisverðustu atvinnuleiksýningu ársins og kvörtuðum síðan undan einþáttungaskorti? Bara hugmynd.

Úff - nú hljóma ég bitur sem ég er alls ekki. Hin hliðin á málinu eru auðvitað sú að það getur virkað hvetjandi á áhugaleikfélögin að hafa að einhverju að keppa. Svo lengi sem reynum ekki að eltast við einhverja pro-stimplaða gæðastaðla.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Nornaspá mín fyrir daginn í dag:

Diskurinn
Gott er að borða gulrótina, grófa brauðið, steinseljuna.
-þetta er ábending örlaganna til þín um að taka upp hollara fæði

Ég dreg mörkin við steinseljuna. Við höfum öll okkar stolt.

Heilsutilburðir mínir hafa annars skapað stríðsástand á mínu heimili. Heyrði undarlega dynki í eldhúsinu í gærkvöld og koma að Gabríel þar sem hann hafði hent poka af eplum niður á gólf (ég geymi allt grænmeti og ávexti uppi á borði nálægt glugga því þetta vill frjósa í ísskápnum mínum og skemmast þ.a.l. mun hraðar en uppi á borði.) Ekki skildi ég mikið í þessari eplaárás og setti þau á sinn stað og köttinn niður á gólf.

Fór aftur inn í stofu að glápa á sjónvarp. Aftur dynkir. Ég rýk inn í eldhús sé þá að Gabríel hefur misst áhugann á eplunum um leið og þau rúlluðu yfir borðbrúnina og er nú í óðaönn að grafa sig í gegnum plastið sem skilur hann frá harðfiskstykkinu ég hafði daginn áður stungið undir eplin til að varna kattarárás. Ég sting harðfiskinum í snatri inn í ísskáp og hrasa næstum um Lísu sem hafði vomt skammt undan - augljóslega sett í starf skimara* en er ekki að standa sig í stykkinu sökum eigin hraðfisksgræðgi. Yrði ekki góð í bankaránum. S.s. samvinna af lævísustu gerð og hvert tækifæri nýtt til að ná fengnum af réttum eiganda. Daginn áður höfðu þau bæði sótt hart að diskinum mínum með örvæntingarglampa í augum sem olli þessum eplafeluleik til að byrja með.

Nei ég er ekki að tapa mér í misáhugaverðum sögum af köttunum. Er að nálgast punkt hérna. Ég hafði nefnilega keypt þennan blessaða harðfisk og hugsað sem heilsusamlegt snakk. Og þótt mér þyki hann góður er ég ekki viss um að það sé erfiðisins virði að reyna að snæða og bægja frjá ágengum dýrum um leið. Þau hafi komið og hnusað af matnum áður en ekkert í líkingu við þetta. Þannig að - þegar kemur að heilsusamlegra fæði og breytingu á neysluvenjum þarf að huga að ýmsu. T.d. að æsa ekki upp hungur í saklausum dýrum sem eigandinn hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að svala.


________________
* Sá/sú sem er á "lookout" ala bandarískar hasarmyndir. Má vera að til sé almennilegt íslenskt orð en ég get ómögulega munað það og þá býr maður bara til nýtt. Það er íslenska aðferðin.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Nornaspáin mín fyrir daginn í dag segir:

Þú stendur frammi fyrir prófraun sem er erfiðari en þú heldur. Leggðu áherslu á góðan undirbúning.

Eins gott að kunna textann sinn. Nema þarna sé verið að vísa í síðasta hljómfræðitímann sem er eftir klukkutíma...

Já ef þú hefur viðurværi þitt undir steinum er Hugleikur s.s. að frumsýna leikrit í kvöld. Lán í óláni eftir Hrefu Friðriksdóttur. Ég hef rætt um það áður. Er sjálf í litlu en veigamiklu hlutverki. Þannig að: notaleg kvöldstund í Þjóðleikhúskjallranum, kostar kr. 1000 og byrjar kl. 9 (hús opnar hálf 9.) Önnur sýning á sunnudag á sama tíma. Aðeins þessar tvær sýningar. Þrælskemmtilegt allt saman - því get ég lofað.

Þeir sem mæta ekki detta af jólakortalistanum.
Klukkuð af Skottu

1. Which book has made the greatest impact on you? Either as a good read or as a "aha" experience?

Uss - það getur enginn nefnt aðeins eina.

The Murder of Roger Ackroyd eftir Agöthu Christie. Hef aldrei verið jafn sjokkeruð þegar ég las endi og bara vissi ekki að þetta mætti. Var reyndar 12 ára.

1984 eftir George Orwell. Ég var 13 ára þegar ég las hana. Þarf sennilega ekki ferkari útskýringar.

The Beginning Place eftir Ursulu K. Le Guin. Þessi gleypti ég í mig á engri stundu. Man ég kláraði hana á strætóstoppistöð. Ég veit ekki almennilega hvað það var - held að eitthvað í sögunni hafi talað til mín á þeim tíma í lífi mínu (1993.) Í minningunni er hún a.m.k. mjög samofin atburðum frá þeim tíma. Það var reyndar önnur bók hennar sem hafði mikil áhrif á mig í æsku, The Wizard of Earthsea, en vildi nú minnast á einhverjar bækur sem ég las eftir 1986.

Never let me go eftir Kazuo Ishiguro. Hún situr í mér.


2. Which genre do you read most? Novels, crime-stories, biographies, poetry or something else?

Vísindaskáldsögur. Er annars opin fyrir öllu.


3. What was the last book you read?

Sem ég kláraði? Sorcery eftir Terry Pratchett. Er annars að lesa Lovestar eftir Andra Snæ og The Penguin Island eftir Anatole French.


4. Which sex are you?

Gettu þrisvar.


Klukka... Jóhönnu Ýr, Svandísi (ég veit þú ert á lífi), Togga og ... Auði! Ef ske kynni að hún finndi vettvang til að skrifa eitthvað ;)

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Allt morandi í menningu.

Dr. Tóta og Hrefna Friðriks eru ofvirkar konur tvær. Tvö verk eftir Tótu voru frumsýnd í apríl - hvort öðru skemmtilegra. Því miður voru aðeins tvær sýningar af Mærþöll en Systur er ennþá verið að sýna í Möguleikhúsinu og svíkur engan. Hrefna, ásamt því að leikstýra Mærþöll, skrifaði, ja, tvíþáttung nokkurn sem heitir Lán í óláni og verður sýndur í Þjóðleikhúskjallaranum næstkomandi fimmtudag og sunnudag. Ég á í stökustu vandræðum með að skilgreina hann - þetta er farsi en þó ekki, gamanleikur með broddi, heilt leikrit í hálfri lengd. Lýsingin á leiklist.is segir það best.


Talandi um menningu... ég dundaði mér við það í morgun að heimsækja heimasíður hinna ýmsu stjórnmálaflokka og reyna að komst til botns í því hvaða skoðun þeir hefðu á (vanda)málum tónlistarskólanna.

D listinni: Það er þrautinni þyngra að finna einfaldan lista yfir helstu stefnumál þeirra. Þó gróf ég upp þessa grein þar sem segir m.a.:

Þegar ákvörðun var tekin að loka á greiðslur til nemenda utan borgarmarkanna þá spöruðust umtalsverðar upphæðir sem nota átti til þess að stytta biðlista nemenda í Reykjavík. Það var ekki gert heldur var sparnaðurinn sem var um 80 milljónir króna tekinn út úr málaflokknum og færður annað.
...
Það er eins og borgaryfirvöld telji að binda þurfi allt í reglugerð og skín þar í gegn tortryggni um að stjórnendum tónlistarskólanna sé yfirhöfuð treystandi. Hins vegar hefur þessi reglugerðarsmíð tekið langan tíma og ljóst að senn er komið að því að einhverjar reglur verði að líta dagsins ljós og gef ég ekkert út hér hver afstaða okkar Sjálfstæðismanna kann að verða í þeim málum


S.s. nóg um blemmeringar á R listann - og á hann það eflaust skilið - en enginn lausn í sjónmáli.


S listinn: Tjáir sig um tónlistarskólana í þessari grein á eftirfarandi hátt:

Borgin hefur haft forgöngu um það þarfa mál að kalla eftir nýjum lögum um tónlistarnám, að ríkið axli ábyrgð á framhaldsnámi í þessari grein eins og öðrum og allt landið verði eitt skólahverfi fyrir tónlistarnema.
...
Sveitarfélögin hafa sameinast um þá kröfu á hendur ríkinu að það taki ábyrgð á framhaldsnámi í tónlist. ... Málið er enn óleyst.
...
Með því að setja aldurshámark er borgin ekki að fækka nemendum sem eiga kost á að stunda tónlistarskólanám, heldur að forgangsraða fjármunum og gefa fleira ungu fólki tækifæri til að læra í tónlistarskólum. Þessi regla sparar því enga peninga. Hún kann að hvetja nemendur til hraðari námsframvindu þegar vitað er að námið verði mun dýrara fyrir einstaklinginn eftir að ákveðnum aldri er náð. Ljóst er að allflestir þeir sem hefja tónlistarskólanám á unga aldri eiga að hafa möguleika á að ljúka framhaldsnámi í tónlist á þessum tíma. Menntaráð borgarinnar getur veitt undanþágu frá þessum aldursmörkum vegna einstakra nemenda að undangengnu áliti fagnefndar.


S.s. skellir allri ábyrgð yfir á ríkið og ætlar greinilega ekki að gera nokkuð fyrr en ríkið breytir sínum lögum. Ég er reyndar sammála því að ríkið eigi að hafa umsjón með tónlistarskólunum frekar en sveitafélögin. Aldurshámarkið er hins vegar jafn afkárlegt og það hefur alltaf verið.


B listinn: býður upp á einfaldan og skipulagðan lista yfir helstu stefnumál þar sem ekki er minnst einu orði á tónlistarskóla. Sennilega finnst þeim það ekki koma þeim við:

B-listinn leggur áherslu á að Reykjavík eflist sem höfuðborg mennta og menningar í landinu; alþjóðleg borg með frjóu, metnaðarfullu listalífi og fjölbreyttu mannlífi.

Gott og blessað og gjörsamlega gagnslaust.


V listinn: Ég fann enga almenna stefnuyfirlýsingu fyrir Reykjavíkurborg. Því síður upplýsingar um skoðun flokksins á tónlistarnámi. Hins vegar er hægt að finna lista yfir almenn baráttumál V listans og hefur hann eftirfarandi að segja um menntamál:

Jafngild tækifæri – Skóli án aðgreiningar - Tryggja ber að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem hæfileikar þeirra njóta sín best. Skólar þurfa að geta mætt þörfum hvers og eins og aflað þekkingar og kunnáttu á ólíkum sviðum. Slíkt verður einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi frá leikskóla og upp í háskóla.

Hvað sem það þýðir. Er til of mikils mælst að stjórnmála flokkar segi á einfaldan hátt hvað þeir í raun meina?

Ekki svara mér.


F listinn: Vill frítt í strætó. Ok - kannski ekki sanngjarnt. Ég leitaði betur og fann þetta. Þarna er samt hvergi minnst á eldri nemendur og greinilegt gert ráð fyrir að allir í tónlistarnámi séu á unglingsaldri. Málefnahandbók F listans.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Ég hef sagt það áður - ég ætti augljóslega að leggja fyrir mig kvikmyndagerð:

Bombay TV

Er farin að finna lykt af vori sem hlýtur að vera ástæðan fyrir þessum kjánaskap. Finn einnig fyrir óvæntri löngun eftir Bailey's sem ég veit ekki alveg hvernig ég á að svala.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Hugleikur situr ekki auðum höndum lengi og því síður hún Dr. Tóta sem er að frumsýna tvö leikrit - eða öllu heldur eitt leikrit og eina óperu - í apríl. Það fyrra heitir "Systur" og verður frumsýnt í Möguleikhúsinu í kvöld og sýnr eitthvað fram í maíl. Áhugasamir geta pantað sér miða hér. Ég kem ekkert nálægt þessari sýningu en efast ekki um að hún verði hin allra besta skemmtun eins og endranær. Þrátt fyrir það ;)

laugardagur, apríl 08, 2006

Glæsilegasta heimasíða sem reist hefur verið í manna minnum depúteraði í dag. Sjá:


Heimasíða Nornabúðarinnar


Ég hef aldrei aðhyllst sérlega flóknar heimasíðuaðgerðir. Dreamweaver smeamweaver :)

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Ég sendi söludeild Terranova póst áðan:

Ég fékk frá ykkur póst sem sendur var á póstlistann ykkar sem hófst svona...

Ágæti Ásta

Súpersól til Salou 18. maí
frá 34.995- 5 daga ferð

o.s.frv.

Ég er ekki líkleg til að vera móttækileg fyrir tilboðum frá fyrirtæki sem gerir ráð fyrir að ég sé karlmaður. Ég er örugglega ekki sú eina. Bara vinsamleg ábending.

Takk fyrir
Ásta


Grrrr...

Stundum framkvæmir maður fullkomlega án þess að hugsa. Stundum er það bara allt í lagi. Ég var að koma úr stigsprófi þar sem æðri heilastarfsemi er bara til trafala og því hefur ekki orðið vart við hana síðan á þriðjudag. Er að velta fyrir mér möguleikunum sem líf sem heimsk ljóska hefur upp á að bjóða.

Hmm... nei - heimskri ljósku hefði þótt sætt að vera kölluð "ágæti."

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Aaaaaaaaaaaaaaaaaahvernig í fjandanum fer ég að því að æfa mig í hrynritun?!

Grrr....

Til hamingju með afmælið Siggalára. Taktu myndina ekkert til þín.

mánudagur, apríl 03, 2006

Mötuneytið bauð upp á soðnar kjötbollur með uppstúf í hádeginu. Uppstúf! Því átti ég aldrei að venjast og sagðist kokkurinn hafa lært þetta í sveinsnámi sínu þótt það hafi aldrei verið á boðstólnum í hans æsku frekar en minni. Það er auðvitað ekkert mál að slafra í sig nokkrum kjötbollum með uppstúfi - það verður aldrei verra en soðið kál. Þannig að niðustaða máls er sú að ég södd og sátt og uppfull vangaveltna um hversdagsmat heimilanna. Ætli það sé til það heimili á Íslandi sem hefur ekki boðið upp á kjöt og kál a.m.k einu sinni í mánuði - sérstaklega á áttunda og níunda áratugnum? Nú er þetta sérlega óspennandi matur - en einhver sá heimilislegi sem fyrir finnst. Er það kannski ástæðan fyrir því að fólk heldur áfram að slafra þessu í sig?*

Mér finnst stórmerkilegt hvernig þegnar heilu þjóðanna taka það upp hjá sér að borða allir sömu 6-10 réttina tiltölulega reglulega og með litlum frávikum í uppskriftum. Eins og mamma gerði það - og hún fékk sennilega uppskriftina frá nágrannanum - ef ekki tengdó eða sinni mömmu (við erum hér að sækja aftur til fortíðar því í dag elda að sjálfsögðu 50% karla graut ofan í krakkana.)

Sjáiði sætu sofandi svínin.  Tilbúin til átu. Svo vill þetta ekki borða smá hross!?Ég varð vitni að nákvæmlega sömu tilhneigingu í Bandaríkjunum. Lítið um kjötbollur en þeim mun meira af "svínum í teppi." Ah - Pigs in a blanket - ég sá einhvern sjónvarpsþýðanda koxa á þeim frasa um daginn og kalla sárasaklaust stúlkugrey svínslega fyrir vikið. Þetta eru s.s. litlar pulsur sem er vafið í deig og steiktar í ofni. Ég var, held ég, búin að vera í au pair starfinu í 2 daga þegar ég var skikkuð á "pigs in a blanket" námskeið. Gerði nú samt lítið af því að elda þennan annars ágæta og einfalda rétt. Ég mundi nefnilega aldrei eftir honum. Ég gat ekki tileinkað mér hið bandaríska matlega þjóðarminni. Minn hugur var fullur af steiktum fiski, kótilettum, fiskbúðingi og soðnum kjötbollum. Þannig að krakkaormarnir mínir fengu oftast spagettí.


______________________
*Það er ekki hægt að snæða soðnar kjötbollur - aðeins slafra

miðvikudagur, mars 29, 2006

þriðjudagur, mars 28, 2006

Af því bara...

Lordi mun stíga á stokk í Aþenu í maí næstkomandi sem framlag Finna í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva:

Smellið að myndina til að sjá stærri

Ég var búin að sjá myndbandið en það var ekki fyrr en ég sá þessa mynd að ég fattaði að það er kona í hljómsveitinni.

Nú er bara spurningin - hvor verður meiri senuþjófur: Lordi eða Silvía Nótt?

Kannski ekki svo flókin spurning...

mánudagur, mars 27, 2006

Auður sökkti blogginu sínu með manni og mús og því lítill tilgangur í að kíkja þangað. Við það vaknaði í brjósti sú gamla tilvistarlega spurning:

Að blogga eða blogga ekki...

Þegar grannt er skoðað virðast nefnilega flestir vera komnir á nokkuð gott ról sem sín einstöku blogg. Fólk hefur komið sér upp kerfi og hrynjandi og ókvæðisorðið bloggleti hefur ekki heyrst svo mánuðum skiptir. Það er s.s. enginn að pína sig til að skrifa og fæstir að velta sér upp úr því hver gæti mögulega verið að lesa.

Sjálf veit ég ekki alveg af hverju ég er að þessu. Það virðist ekki vera neinn beinn tilgangur með þessu bloggi og það gæti allt eins ekki verið til. Þetta er soldið eins og að vera með GSM síma. Maður fær sér einn til að aðrir geti náð í mann - þ.e. forðað sér frá félagslegu sjálfsmorði - og svo venst maður því að hafa hann innan seilingar. Aðrir fara svo að treysta á að komast að upplýsingum á greiðan hátt.

Já, blogg blogg blogg... Mér liggur ekkert á að finna réttlætingu á tilvist þess. Ég held því áfram þar til ég hætti að nenna því. Mér er slétt saman hver les og finn mig ekki knúna til að standast neinar væntingar.

Ef ég væri ekki með blogg væri miklu erfiðara að gera þetta:

Öll Eurovision myndbönd sem komin eru fyrir keppnina í ár

Er það bara ég eða er þýska lagið soldið sætt? Og það pólska svo skelfilegt að það fer næstum heilan hring yfir í súblemíska Eurovision vímu...

fimmtudagur, mars 23, 2006

Þetta átti að koma í gær en frestaðist vegna tæknilegra örðugleika:


Plöggedí plögg plögg...

Allir sem vettlingi og veski geta valdið skulu nú mæta í Þjóðleikhúskjallarann í kvöld eða á sunnudagskvöldið til að merja augun á 6 meistaraeinþáttungum í boði Hugleiks. Ó já. Þetta Mánaðarlega er brostið á enn á ný. Að þessu sinni tekur gífurlega stór og föngulegur hópur Hugleikara þátt í dagskránni - þ.á.m. ég sjálf - sem mér sýnist af því litla sem ég hef séð ætla að verða ein sú besta hingað til. Enda valin kona (og maður) í hverju rúmi.

Stundum bókstaflega...

mánudagur, mars 20, 2006

Þetta er það sem ég veit:

Ég veit að fuglaflensan hefur fundist í svönum í Svíþjóð og dúfum í Danmörkum og finkum í Finnlandi.
Hún fetar sig hægt og örugglega nær Íslandi.
Taugaveiklað bændur skjóta hænur og ketti.
Fjölmiðlar og landlæknir eru gáttaðir á því hversu lítið fjaðrafok er um mestalla heimsbyggðina.


Þetta er það sem ég veit ekki:

Hvernig smitast fuglaflensan?
Hver eru einkenni hennar?
Hversu bráðsmitandi/drepandi er hún?
Hvað tekur það langan tíma?
Eru til bóluefni?
Eru einhverjir líklegri en aðrir til að fá hana?
Hversu margir í heiminum eru smitaðir?
Hvernig er ástandið í þeim löndum þar sem hún kom fyrst upp?


og síðast en ekki síst:

Er eitthvað sem ég á að vera gera?

Ef enginn getur - eða er vill - veita svör við ofangreindum spurningum er ósköp tilgangslaust að vera eitthvað að stressa sig. Á ekki eitthvert geimgrjótið að lenda á jörðinni eftir 15 ár? Maður veit þó a.m.k. hvernig það gæti gerst og getur mótað taugaveiklunina í samræmi við það. Þ.e. maður verður að hafa eitthvað í höndunum til að gera sér mat/veður út af. Annars er hætt við að maður mæti örlögum kjúklingsins vænissjúka.

sunnudagur, mars 19, 2006

Skrattans - ætlaði virkilega að taka til höndum í heimsíðu Nornabúðarinnar í dag eftir leikæfingu og þá þurftu allar innan- og utanhúss tengingar í vinnunni að vera með stæla - og ég ekki með nothæft html forrit heima. Þannig að þarna er mín afsökun fagurlega afgreidd og innpökkuð.

Í staðinn lærði ég fyrir hljómfræði og glápti úr mér augun á ringlaðar fyrirsætur bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi reyna að hljóta náð fyrir augum dómnefndar áður en taugalömun gerði út af við þær. Köllum það rannsóknarvinnu fyrir tilvonandi MA rigerð. Jájá.

Helgin hefur að öðru leiti verið ansi róleg. Fyrir utan Ampop tónleikana á NASA á föstudagskvöldið. Ég var nú bara að selja diska og boli ásamt Nönnu og Stebba bróður hennar og heyrði því meira en ég sá en það reyndist vera heljarinnar mannfræðistúdía út af fyrir sig. Í alla staði áhugvert og böndin mjög góð. Ég hélt ég hefði fengið að heyra mikil fangaðarlæti í Þjóðleikhúskjallaranum þegar Jón Geir tók sína trommutakta en þetta var nú eiginlega bara soldið ógnvekjandi. Hrein og klár öskur sem yfirgnæfðu alla tónlist - og ég sem hef alltaf staðið í þeirri meiningu að íslenskir tónleikagestir væri alla jafnan frekar kuldalegir og til baka. Þeir eru greinlega allir að koma til. Svona líka.

Sötraði einn bjór allt kvöldið til að sýna réttan lit og var launað með mígreni ættað úr dýpstu fylgsnum helvítis frá kl. 8 á laugardagsmorgun og frameftir degi. Bjór er því aftur kominn á bannlistinn. Annað hvort það eða ég þarf að þróa með mér meira þol. Auglýsi hérmeð eftir úthaldsgóðum drykkjufélögum. Langbest að taka á þessu eins og hverju öðru átaki.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Amma Ásta hefði orðið 95 ára í dag. Hún dó fyrir 6 árum. Ég kemst ekki að leiði hennar í dag en geri þetta í staðinn:Heima hjá ömmu á góðri stundu. Glöggir lesendur kannast kannski við rennihurðina.Og gardínurnar! Ég var bara að taka eftir þeim sjálf!

Þegar hún dó reyndi ég að finna orðin til að koma í minningagrein en ég fann þau ekki. Ég finn þau ekki enn til að gera þessari góðlegu, kláru, sjálfstæðu, hugrökku, þrjósku, líflegu, sjálfshæðnu, gamansömu, ósérhlífnu og hjartahlýju konu sanngjörn skil.

Til hamingju með afmælið.

mánudagur, mars 13, 2006

Ég datt ofan í nostalgíupoll.

Stuðmenn - Ég vild ég væri

Ég var búin að gleyma að þetta lag væri til. Og einhvern tímann á lífsleiðinni hef ég lagt það á mig að læra það utanbókar - hvort það var í Verzló uppsetningunni á Stuðmannalögum árið 1992 eða við eitthvað annað tækifæri er mér ómögulegt að muna. Það er greinilega allt of langt um liðið því aðeins slitrur af textanum sitja eftir í minninu (en merkilega miklar þó.) Það er aðeins á tveimur stöðum þar sem ekki er nokkur leið að heyra hvað hann Egill er að tauta - og ég verð að sjálfsögðu ekki í rónni fyrr en ég fæ þessa textabúta á hreint (í öðru erindi þar sem punktarnir eru):


Ég vildi ég væri öðruvísi en ég er
Þegar ég er nakinn vil ég vera ber
Ég vild' að hárið á mér væri öðruvísi litt
Þegar ég fæ þetta vil ég heldur hitt
Aha

Mér líður alltaf best í breytilegri átt
einkum þegar barómetrið stígur nógu hátt
Í sólbaði með úrkomu í grenndinni
veðrið þyrfti að breytast eftir hendinni*


:Á kvöldin lifnar okkar maður við
bregður sér í betri buxurnar og fær sér sviðakjamma
því ekkert liggur á
jólaserían er ennþá uppi frá þv'í hitteð fyrra:

Ég vildi að allt og allir væru hinn seginn
Að gatan sem ég bý við væri á hinn veginn
:Þegar ég er saddur vil ég veitingar
Breytingarnar kalla á meiri breytingar
Svo er það:

Á kvöldin lifnar okkar maður við
bregður sér í betri buxurnar og fær sér sviðakjamma
því ekkert liggur á
jólaserían er ennþá uppi frá þv'í hitteð fyrra

Lalalala...Öll aðstoð vel þegin.

__________________________
* Með þökkum til Sævars fyrir að björgun geðheilsu