þriðjudagur, mars 30, 2004

Ég var að uppgötva nýja tímaþjóf - aldrei góðs viti. Á þessari síðu getur maður dundað sér við það búa til stuttmyndir á mjög einfaldan hátt. Ég hef þegar gert þrjú ódauðlega listaverk:

Formsatriði - unnið upp úr skáldverki
Vinátta - Soldið svæsin - bönnuð innan 12 ára
The humanity - sálræn áföll - bönnuð innan 14,75 ára

Kvikmyndaskóli smikmyndaskóli

mánudagur, mars 29, 2004

Í gær átti að vera sýning á Sirkus en hún féll niður og skyndilega hafði ég allan daginn til að dinglast heima hjá mér. Aldrei þessu vant nýtti ég tímann. Ég byrjaði á því að raða öllum bókunum í bókaskápnum inni í herbergi í stafrófsröð - ekki lítið og létt verk þar sem eingöngu er um pocketbækur að ræða og tvíhlaðið í hillurnar. Síðan gerði ég nokkuð sem ég hef ætlað mér að gera í 1-2 ár - sneri herberginu við. Færði rúmið, tók til, fann alls konar skrýtna og skemmtilega hluti sem ég mundi ekki eftir að ég ætti, tæmdi gömlu kistuna og lét inn til Siggu, henti 4 troðfullum pokum af rusli - aðallega Fréttablaðinu. Á yfirborðinu virkaði verkið létt en tók glettilega mikið á og því nauðsynlegt að taka góðar pásur inni á milli. Ég byrjaði að horfa á The Simple Life: Reunion Show en heilinn mátti ekki við fjöldasjálfsmorði heilafrumanna og því skipti ég yfir á Ríkissjónvarpið og horfði "And Björk of course" - eiginlega alveg óvart - ég er vön að missa af íslensku sjónvarpsefni. Æ ég veit ekki. Hugmyndin nokkuð góð en leikritið virkaði sennilega mun betur á leiksviði (þar sem ég hef ekki séð það.) Þessi "raunveruleika" tilraun var ekki að ganga upp. Fólk var gera og segja hluti fyrir myndavélar sem það mundi aldrei gera annars. Stíliseraðar persónur í leikritum geta komist upp með að gera og segja ýmislegt sem varpar ljósi á persónurnar en þegar formatið er orðið annað - sérstaklega raunveruleikasjónvarp - verða kröfurnar aðrar. Þetta átti sérstaklega við veruleikafirrtu hjónin; Huldu og Indriða. Þau voru alltof ýkt - of miklar skrípamyndir til að geta talist "raunveruleg" sem átti þátt í að eyðileggja blekkinguna. Alltof blind á eigin galla. En það kom meira til - ég var sífellt að hugsa um hvers vegna enginn væri að kippa sér upp við það að það væri myndavél á klósettinu (mundi maður ekki velja þann kostinn að hverfa á bakvið nærliggjandi hól við slíkar aðstæður?) Sjónarhornin voru oftar en ekki óraunveruleg - þegar klippt var frá einu sjónarhorni til annars hurfu myndatökumenn sem annar hefðu átt að vera til staðar. Og svo var það hópsex/nauðgunarsenan - eru Íslendingar tilbúnir að gera hvað sem er fyrir framan myndavélar (þótt þeir séu ekki djamminu)? Endirinn virkaði líka snubbóttur og frekar ódýr. Það var eitt og annað gott við þessa mynd (leikarar voru t.d. almennt að standa sig mjög vel) en mér er eiginlega ómögulegt á þessari stundu að einblína á neitt annað en hið neikvæða.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Tileinkað þátttakendum Paradise Hotel og Joe Millionaire:


miðvikudagur, mars 24, 2004

Mikið ofboðsleg léttist á manni brúnin þegar sólin er farin að skína. Þetta er skuggalegt. Nú er ég öll fyr og flamme og ætla í sund í hádeginu. Er búin að koma mér upp sundtösku sem ég mun bara geyma í vinnunni og þarf því ekki að fara heim og ná í dótið ef ég gleymi því sem er það sem hefur yfirleitt latt mig frá hádegis sundferðum. Ég reyndi að toga fangor með mér en hún nennti ekki með sem er sjálfsagt eins gott því þá er ekkert sem tefur mig frá því að taka einn kílómeter eða svo (it could happen!)

Önnur afleiðing útfjólubláu geislanna er skyndileg þörf fyrir að komast í sumarbústað. Helst með potti. Nú get ég sótt um sumarbústaði út um allt land hjá stéttarfélaginu en þarf að borga pening og óvíst hvort ég nenni að hanga ein í bústað viku í senn. Því verður sennilega fókusað á minni ferðir og er ég með þrjár í huga eins og er:

1. Veiðihús við Laxá í Hrútafirði
- get fengið hann frítt í maí og júní. Enginn pottur en hægt að busla í ánni ef svo ber undir.

2. Þórsmörk
- alltof langt síðan ég hef farið í Þórsmörk - væri alveg til í að taka eina rólega helgi í Langadal

4. Þjórsárdalur
- æskuslóðir. Einnig of langt síðan ég hef komið þangað. Þrái að eyða sólríkum degi við sundlaugarbakka dásamlegustu sundlaugar í heimi. Lítið mál að tjalda og tiltölulega stutt í siðmenninguna.

Þá er bara spurning hvort ég get togað einhvern með mér. Ef svo er væri best að byrja að plana sem fyrst. Ég þori a.m.k. ekki öðru. Fólk er svo agalega bissí þessa dagana, hver einasta klukkustund skipulög með margra mánaða fyrirvara. Enívei - þetta eru hugmyndirnar - hver er geim?

föstudagur, mars 19, 2004

Sigga Lára er fjarska dugleg stúlka og er komin inn í hálfa þriðju seríuna af Angel. Nú þarf ég að fara að setjast almennilega niður og horfa með henni á þetta því nú fer að koma að þeim þáttum sem ég hef séð hvað sjaldnast - eiginlega bara einu sinni. Undanfarið þegar ég hef komið heim úr vinnunni er hún búin að horfa á nokkra þætti og svo sest ég niður og glápi með henni á smá í viðbót - a.m.k. fram að Dr. Phil. Nú vil ég hins vegar fara að sjá þetta í samhengi og verður svo hér eftir. Hún getur svo dundað sér við ritgerðasmíð í staðinn þegar ég er upptekin. Ég á móti er búin að verða mér út um bunka af Philip K. Dick bókum (þökk sé Dick-aðdáanda nr. 1) og sé fram stífan lestur þegar vampírur og fégráðugir Bandaríkjamenn í ævintýraleit eru ekki að fanga athyglina.

Eins og stanslaust Angelgláp sé ekki nóg menning fyrir einn lítinn heila þá er ég að fara í leikhús í kvöld. Ætla að sjá Smúrstinn hjá Leikfélagi Kópavogs og ku vera skylduáhorf. Fer meira að segja alein þótt ég hafi ágætar heimildir fyrir því að ég muni þekkja nokkra á meðal áhorfenda. Ég fer alltof sjaldan í leikhús - held sveimér að síðasta sýningin sem ég sá hafi líka verið hjá Leikfélagi Kópavogs - Grimmsævintýri síðasta haust. Atvinnuleikhúsunum hefur ekki tekist að lokka mig til sín í svo háa herrans tíð að mér er fyrirmunað að muna hvað ég sá síðast. Getur verið að ég sé ennþá að reyna að jafna mig á Halta-Billa [Oj!] eða hvað hann nú hét?

fimmtudagur, mars 18, 2004

Var víst slæmt karma eftir allt saman því það er ekkert að mér í dag. Blah!

miðvikudagur, mars 17, 2004

Bjart er yfir dölum, sól skín á heiði, snjórinn bráðnar á Esjunni og ég er að fá kvef og kverkaskít. Týpískt.

Krufði heimsmálin til mergjar ásamt Auði (og smá víni) í gærkvöldi. Niðurstaðan er sú að a) fólk er heimskt b) heimurinn er að fara fjandans til c) það borgar sig miklu frekar að búa í heimi sem mótaður er af hugsunum, tilfinningum og skoðunum Auðar heldur en mínum.

Eins og gefur að skilja taka svona rökræðu dágóðan tíma og lauk samdrykkjunni ekki fyrr en um eittleytið. Tókst mér síðan ekki að dröslast í rúmið fyrr en um hálfþrjú og kom það mér virkilega á óvart hvað ég var hress í morgun. Þakka ég hressilegum skammti af hvítvíni fyrir.

Það hlýtur því að teljast kaldhæðni örlaganna að eftir svona óábyrga þriðjudagskvöldstund með engum eftirköstum skuli ég vera að fá einhverja pest.

Já, nei! Ég harðneita að trúa á karma!

föstudagur, mars 12, 2004

Fólk er að halda því fram að í dag sé föstudagur. Ég lít út um gluggann og sé aðeins holdvotan eilífðar þriðjudag. Þessi vika hefur liðið furðufljótt í tilbreytinarleysi og svefndrunga. Allt um kring sé ég þunglynda uppvakninga dröslast með erfiðismunum á milli vinnu, sjónvarpssófa og rúms. Sumir vilja kenna öfgalágum loftþrýstingi um og ég hef hvorki tæki, visku né nennu til að afsanna þá kenningu. Tókst þó að koma mér út úr húsi í gærkvöld. Skotta bauð mér heim til sín í dýrindis kvöldmat og dró mig svo á Dillon í smá backgammon törn og kann ég henni margar þakkir fyrir. Stóra spurningin er, hins vegar, hvort einhver - og er ég þarmeð talin - finni hjá sér einhverja hvöt í kvöld til að rífa sig frá American Idol og gera eitthvað.

Eða á maður bara að safna orku fyrir sýninguna annað kvöld?

miðvikudagur, mars 10, 2004

Sést ekki langar leiðir hver þessi litli pjakkur er?Skannarnir mínir á skrifstofunni eru loksins komnir í lag og ég byrjuð að skanna af miklum móð. Er byrjuð að setja inn gömlu myndinar frá ömmu - aðallega barnamyndir af mér enn sem komið er en úrvalið verður fjölbreytilegra þegar á líður. Kannski ég reyni að koma upp einhvers konar albúmi fyrir allar vanræktu myndirnar sem eru látnar grotna ofan í skúffu í dag. Það gæti jafnvel hvatt mig til að byrja að taka myndir aftur *hóst*

mánudagur, mars 08, 2004

Smellið til að lesa fréttinaNú er ég fúl. Ég hélt virkilega að þegar ruslahaugurinn fyrir framan húsið mitt var fjarlægður síðasta fimmtudag að þá væri ég loksins laus við hausverkinn. En nei nei - það væri alltof gott. Í Fréttablaðinu í dag getur að líta - mér til ómældrar ánægju - frétt um ruslahauginn - um óánægju nágrannanna og skeytingaleysi íbúa gagnvart skipunum yfirvalda. Nú hef ég ekki verið hin kátasta yfir ruslinu sjálf síðustu mánuði en það hefði verið ágætt ef að sá sem skrifaði pistilinn hefði reynt að hafa samband og komast til botns í málinu. Ekki bara birta mynd af ruslahaugnum - og stofuglugganum mínum - og láta eins og við dömpum öllum okkar afgöngum beint út um gluggann og gefum síðan heilbrigðiseftirlitinu svo og öllum íbúum Háteigsvegs langt nef!

fimmtudagur, mars 04, 2004

Þá munu ruslahaugar Reykjavíkur flytja sig um set á næstu dögum. Það sem ég mun sakna þeirra lítið. Þetta er komið í hátt á fimmta mánuð! Eins og áður var skýrt frá þá var heilbrigðiseftirlitið komið í málið og hræddi m.a. líftóruna úr Siggu í einu heimsókninni sinni. Hefði það betur ráðist á hinn rétta sökudólg en samkvæmt konunni sem ég ræddi við í gær þykir fulltrúum heilbrigðiseftirlitsins víst nóg að dúkka upp um miðjan dag þegar enginn er örugglega heima og tala við fyrstu manneskjuna sem þeir rekast á. Senda síðan bréf á húsfélag og hefja skriffinnskuna. Eftir að hafa fullvissað mig um að sú góða stofnun mundi ekkert aðhafast að svo stöddu nema setja málið í nefnd og fá þær upplýsingar að frestur til að fjarlægja draslið hafi runnið út daginn áður bað ég um afrit af bréfinu og trítlaði með það upp til nágrannakonunnar seinna um daginn. Kom á daginn að hún kannasti við bréfið og sagði það nýkomið. Ég lagði áherslu á það - eins og svo oft áður - að það þyrfti að losa draslið úr garðinum og hún var alveg jafn sammála mér og alltaf. Móðir hennar hins vegar var ekki á þessari þægilegu línu. Hún var þarna í heimsókn og alveg brjáluð út í mig. Hún hafði sjálf talað við eitthvað fólk hjá heilsuvernd og það vildi ekkert kannast við málið og sagði að það skipti sér ekki af þessum hlutum. Ég minnti hana á að um heilbirgðiseftirlitið væri að ræða, ekki heilsuvernd. Þá sagðist hún hafa meint heilbrigðiseftirlitið og endurtók rulluna. Gat ég ekki betur séð en hún væri virkilega reið út í mig - ekki veit ég alveg fyrir hvað. Eina sem ég gerði var að koma upplýsingum áleiðis en hún hefur kannski haldið að allt þetta vesen væri runnið utan mínum rótum. Þegar leit út fyrir að stefndi í slagsmál þaggaði nágrannakona mín niður í móður sinni og sagði að hún skyldi redda þessu á næstu dögum.

Það sem mig langar til að vit er af hverju fólk er alltaf að garga á okkur Siggu? Við erum góðar, siðprúðar stúlkur, borgum okkar afnotagjöld (báðar), þiggjum ekki nammi frá ókunnugum og dreifum aðeins drasli í kringum okkur inni í íbúðinni þar sem enginn sér til. Sé ekki betur en að við eigum miklu frekar skilið klapp á kollinn heldur en þessi eilífu leiðindi.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Það er draugur að vinna hjá Fasteignum ríkissjóðs. Sem er afskaplega hentugt þar sem að það fer lítið fyrir honum og hann þiggur ekki laun. Á hinn bóginn er hann ekki iðnasti starfskraftur sem um getur, hellir aldrei upp á kaffi og enn sem komið er hefur hans aðeins orðið vart tvisvar og í bæði skiptin hefur hann kosið að aðstoða Orkuveituna við að fá reikningana sína borgaða. Baksagan er sú að undanfarinn mánuð hefur kona frá Orkuveitunni hringt í okkur nokkuð reglulega og kvartað undan ógreiddum reikninum - sem er nú bara eins og gengur og gerist. Hún hefur hins vegar ekki getað gefið upp sömu ógreiddu upphæðina tvisvar og einu sinni tók hún sig til og ákvað að við værum í plús og lét okkur hafa pening. Þeirri örlátu gjöf fylgdi hins vegar fjótt önnur krafa. Það merkilega er að hún er alltaf að kvarta undan einhverjum júlíreikningum sem við erum víst voða vondar manneskjur fyrir að hafa ekki borgað. Málið er bara að við viljum ekki kannast við það að hafa fengið þá. Það er þarna sem draugurinn kemur til skjalanna. Tvisvar hefur það gerst undanfarnar vikur að ég hef fundið - á borði mínu - í reikningahrúgunni minni - sléttan og nýútprentaðan en með öllu óstimplaðann júlíreikning (ég stimpla alla reikninga sem koma inn með móttökudagsetningu). Einmitt þann reikning sem hún var síðan nýbúin að ræða við okkur um. Þetta á ekki að geta gerst og sé ég bara þrjá möguleika í stöðunni;

a) ég er orðin alvarlega geðveik með minnisglöp og ofsóknarbrjálæði (sjá b)
b) þessi Orkuveitukona kemur reglulega inn á skrifstofuna og laumar reikningum í bunkann minn máli sínu til stuðning
c) draugur

Dæmi nú hver fyrir sig (Sé! Sé!)
Þá er afskaplega strembið tímabil í mínu lífi yfirstaðið og ljúfar sýningar taka við. Frumsýning gekk alveg þokkalega fyrir sig. Ég heyrði fólk hlæja fyrir hlé og heyrðu jafnframt sögur af ýmsum smá klikkum og fyrir utan það veit ég satt að segja ekkert hvernig gekk því ég var allan tímann upptekin við smink og vesen. Hef samt enga ástæðu til að ætla annað en að í heild hafi þetta gengið glimmrandi vel. Eftir hlé veit ég hins vegar að gekk ágætlega þrátt fyrir nokkrar undarlegar tímasetningar en það var nú ekki við öðru að búast. Leikmynd tókst að snúa alltaf rétt og eina skiptingin sem ég tók þátt í heppnaðist þannig ég var ánægð. Frumsýningarpartýið kom síðan verulega á óvert með því að vera hin besta skemmtun (ekki ein ræða svo ég heyrði) og hunskaðist ég ekki heim í bólið fyrr en upp úr 5. Síðustu tveir daga hafa síðan verið teknir í alvarlega afslöppun (og Óskarsgláp svo viðburðarsnautt að það tekur því ekki að tíunda það hér). Þetta er eiginlega bara stórfurðulegt og ég kann ekki lengur að hafa ekki neitt að gera! Hugleikur hefur rænt mig hæfileikanum! Og ég sem var svo efnileg. Heilir 5 dagar í næstu sýningu!