þriðjudagur, október 13, 2009

Hvað er svo í gangi núna? Skyldi Mangi trúa? Það er auðvitað fullt í gangi. Nema hvað.

Margt smátt endaði farsællega - þrefalt húrra fyrir því. Mér tekst enn að sneiða framhjá svínaflensu svo og öðrum pestum. Ánægjuefni. Er að tækla einleikjanámskeið hjá Hugleik þessa dagana og það er ekkert nema gaman. Afraksturinn verður sýndur 1. nóvember. Svo ætlum við Júlía, Siggi og Tóró að skrifa heilt leikrit um rokkhljómsveitir og Hugleikur ætlar að setja það upp. Það er auðvitað lang skemmtilegast. Já og New York um jólin.

Framtíðin bara býsna björt. Sem er kannski írónískt í ljósi titils þessa bloggs. Talandi um heimsendi - þótt ég viti mæta vel að 21. desember árið 2012 verið tíðindalítill (fyrir utan tilraunir mínar til að ná mér eftir epískt fyllerí fertugsafmælisins þann tuttugasta) og ber frekar dempaðar væntingar til gæða stórslysamynda yfirleitt (og Roland Emmerich mynda sérstaklega) er ég nokkuð spennt fyrir 2012:



Eyðing heimsins og Adam Lambert. Held það sé ekki til betri samsetning með poppkorninu :D

föstudagur, október 02, 2009

Ég var eitthvað að tuða yfir Kiljunni í föstudagskaffinu hér í vinnunni og þótti yfirmanninum lítið til skoðanna minna koma. Hann stakk upp á því ég væri bara með minn eigin bókmenntaþátt fyrst ég þættist vita svona mikið um málið.

Lítið mál að redda því.

Næsta sunnudag á Rás 1 ...

Ástarsögur af rithöfundum

Ástarsambönd rithöfunda hafa oft fengið á sig ævintýralegan blæ og sambönd para á borð við Mary og Percy Shelley, Sylviu Plath og Ted Hughes, Simone deBeauvoir og Jean Paul Sartre hafa ekki fengið minni athygli en bókmenntaverk þeirra. Samböndin hafa oft verið sviðsett af pörunum sjálfum þannig að svo virðist sem um óumflýjanleg örlög snillinga hafi verið að ræða og aðrir hafa tekið upp þráðinn og haldið áfram að bæta við mýtuna. Í tveimur þáttum halda Ásta Gísladóttir og Auður Aðalsteinsdóttir þeim spuna áfram og fjalla um samskipti slíkra rithöfundapara og hvort verk þeirra endurspegli mögulega samkeppnina á ritvellinum, baráttu kynjanna, togstreitu innan heimilisins og óhefðbundið hjónalíf sem einkennir stundum sambönd rithöfunda.

Auk fyrrgreindra para verður m.a. fjallað um áströlsku hjónin Vance og Netty Palmer, glæpasagnahöfundana Faye og Jonathan Kellerman, auk vísindaskáldsagnahöfundanna Judith Merril og Frederick Pohl, A.E. Jones og Homer Nearing, Kate Wilhelm og Damon Knight.

Umsjón: Auður Aðalsteinsdóttir og Ásta Gísladóttir


1. þáttur.
Flutt: sunnudagur 4. okt. 2009 kl. 10.15.
Endurflutt: 7. október 2009 kl. 20.30


2. þáttur.
Flutt: sunnudagur 11. okt. 2009 kl. 10.15.
Endurflutt: 14. október 2009 kl. 20.30