fimmtudagur, júlí 01, 2010

Fyrir réttum tveimur mánuðum síðan mætti Auður til mín og sagði "Eigum við að gefa út menningartímarit? Núna? Í sumar?" og ég sagði bara jájá og við tók ótrúlega lærdómsríkt tímabil er við reyndum að finna út hvernig í fjandanum maður fer að því að smíða heilt tímarit frá grunni án þess að hafa gert það áður og algjörlega úr eigin vasa. Útkoman er þessi:



Spássían kemur úr prentun upp úr hádegi og fer strax í dreifingu hjá Pennanum. Heimasíðan er í smíðun en einfaldasta útgáfa af vefsíðu sem sést hefur síðan 1997 er komin upp (gerð alfarið á notepad).

Ég er búin að fá ca. 12 taugaáföll bara í vikunni og sér ekki fyrir endann á.

En þetta er samt svolítið gaman :)

sunnudagur, maí 02, 2010

Gosh. Hugleikur - eða öllu heldur sýningin Rokk - vann titilinn "athyglisverðasta áhugasýningin" þetta árið.

Þannig að við förum aftur í Þjóðleikhúsi. Það losnar bara ekki við okkur :)

Í umsögn dómnefndar segir:

ROKK er kröftug sýning þar sem leikur og tónlist njóta sín sérlega vel í skemmtilegri blöndu af gamni og alvöru. Sögusviðið er æfingarými sem tvær hljómsveitir deila með sér án þess að þekkjast nokkuð fyrir. Önnur er hefðbundin karlahljómsveit, hin kvennahljómsveit, en sambýlið leiðir fljótlega af sér margháttaða togstreitu og kostuleg atvik, og auðvitað er ástin fljót að fara á kreik við þessar aðstæður. Persónur hljómsveitarmeðlimanna eru dregnar skýrum og skemmtilegum dráttum, ekki síður en dularfulli uppgjafarpopparinn og húsnæðiseigandinn, sem virðast fylgja í kaupunum. Tónlistarflutningurinn er góður og kraftmikill og í heildina ROKK leikfélagsins Hugleiks bráðskemmtileg, fjörug og hugmyndarík leiksýning.

Í nefndinni voru Tinna Gunnlaugsdóttir, Þórhallur Sigurðsson, Friðrik Friðriksson og Melkorka Tekla Ólafsdóttir.

Ég er enn í ekki svo vægu sjokki.

Ef það var ekki fyrir þá er nú augljóslega skyldumæting.

fimmtudagur, apríl 29, 2010

Ef þú ert ekki nú þegar búin(n) að sjá Rokk þá mæli ég eindregið með að þú drífir þig. Frábært skemmtun og alvöru rokk. Ég myndi mæla með þessari sýningingu þótt ég væri ekki einn af höfundum :)



Uppselt á fyrst tvær, uppselt á 4. sýningu og örfá sæti laus á 3. (í kvöld) og 5. (lokasýningu.) Sem þýðir að það er í raun uppselt en við bókum aðeins yfir það sem salurinn tekur því það vill brenna við að fólk afpanti á síðustu mínútu eða mæti bara ekki og þá er leiðinlegt að hafa vísað fólki frá. Það er alltaf hægt að bæta við nokkrum stólum.

Já og svo verða tvær aukasýningar 13. og 14. maí.

Ég hefði auðvitað átt að vera löngu búin að plögga sýninguna. Hún var frumsýnd síðastliðinn föstudag. Ég hef bara verið soldið annars hugar. Eldhúsið mitt er loksins að skríða saman; innréttingin komin upp, öll helstu tæki komin í hús og í þessum rituðu orðum á dúkari að vera á fullu að leggja dúk á gólfið. Svo er nóg að gera á Brautargengi og í Tónó.

Talandi um... getur einhver bent á laust skrifstofuhúsnæði - kannski 15-20m2 - fyrir sem minnstan pening? Það er kominn alvarlegur brett-up-ermar tími.

mánudagur, mars 15, 2010

Yfirdrottnararnir hafa talað: ekkert fésbúkk í vinnunni. Eða msn og þessháttar dót.

Olræt. Þá bloggar maður bara.

Er fortíðarrúnkið ekki ennþá í tísku?

Af sjálfri mér er það að frétta að ég er byrjuð á Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð og síðan munum við Auður stofna fyrirtæki í kringum starfsemi okkar. Þessi starfsemi hefur hingað til takmarkast við útvarpsþáttagerð en mun von bráðar fara að færa sig upp á skaptið. Við höfum s.s. ákveðið að við erum frábærar og ætlum að byggja okkar rekstur á þeirri hugmynd. Bókmenntafræðingar í sókn. Námskeiðið mun aðstoða við að slípa til viðskiptahugmyndina og byggja upp grundvöll fyrir rekstri. Og þannig er málum háttað hér á bæ.

Annars eru 2007 gleraugum að gagnast á ýmsum vettvöngum því ég er byrjuð á eldhúsyfirhalningunni loksins með aðstoð hins nýuppgötvaða Ella frænda sem sérhæfir sig í slíkri vinnu. Páskarnir munu fara í niðurrif og málningarvinnu og svo verð ég vonandi komin með almennilega eldhúsinnréttingu (uppþvottavél!) rétt eftir páska.

Talandi um páska. Þá fæ ég páskaegg. Lítið. Fram að því er ég hætt að borða sykur og allt það sem inniheldur sykur í óþarfa magni. Einnig óþarfa fitu. Sjáum svo hvað setur. Á námskeiðinu er manni kennt að líkur þess að áætlanir standist aukist um 100% ef maður skrifar þær niður.

Síðan ætla ég að verða rík og hamingjusöm.