mánudagur, mars 31, 2008

Mig langar mjög skyndilega í hundasúrur. Helst þær sem er að finna í Þjórsárdalnum. Grunar að um persónulegan vorboða sé að ræða.

Ætla að vona að ég hafi ekki verið að hrína á mig sex tonnum af snjó. 7-9-13.

Sýningar um helgina gengu vel. Leikhópurinn stendur sig eins og þrettán höfða hetja og þeir áhorfendur sem mættu virtust skemmta sér konunglega. Næstu sýningar eru á fimmtudag, föstudag og sunnudag. Ég mun þreyta frumraun mína sem ljósamaður á föstudagssýningunni. Held að þá sé lítið eftir sem ég hef ekki gert í leikhúsi. Jú! Ég hef aldrei séð um leikskrá. Hlaut að vera eitthvað.

Ég má samt ekki einblína um of á sýninguna. Er víst að syngja á tónleikum annað kvöld og er sífellt að gleyma því. Mun þar kyrja tvo dúetta ásamt því að endurflytja Heimskringluna frá því um daginn. Merkilegt hvað áhyggjur yfir slíku minnka eftir því sem reynslan eykst. Ég segi nú kannski ekki að ég sé orðin einhver stjörnusöngkona en verð að viðurkenna að ég er mun öruggar heldur en bara fyrir ári síðan. Áhugasamir geta kíkt inn í Norræna húsið á þriðjudag kl. 20.

laugardagur, mars 29, 2008

Ég er ekki með fulle fem. Hendi bara inn posternum og læt eins og það sé nóg.



Tekið á æfingu í vikunni.



Tekið á æfingu í vikunni með ljósin kveikt (ég keyri hljóðið á sýningum og er því dæmd til að húka uppi í ljósaboxi).

Frumsýningin í gær tókst með miklum ágætum og vonandi verður önnur sýning eins góð. Ég get ekki haft fleiri orð um það því ég þarf að drífa mig niður í Möguleikhús með pöntunarlistann.


Hugleikur frumsýnir föstudaginn 28. mars leikritið 39½ viku eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Leikstjórar eru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam og Sigurður H. Pálsson.

39½ vika er farsakenndur gamanleikur sem snýst að verulegu leyti um barneignir og sauðfjárrækt. Sveitapilturinn Valur fær afnot af skrifstofu frænku sinnar, sem starfar sem félagsráðgjafi á kvennadeild sjúkrahúss. Valur er að leggja lokahönd á lokaritgerð sína um ættir og örlög skagfirsku sauðkindarinnar. Vera hans á skrifstofunni leiðir til hvers konar misskilnings, eins og vera ber í góðum gamanleik, auk þess sem ýmis annar ruglingur og uppákomur flækir málin enn frekar. Þá er hefðbundnum kynhlutverkum á ýmsan hátt gefið langt nef.

Sýningin er tæpar tvær klukkustundir að lengd, með hléi. Sýnt er í Möguleikhúsinu við Hlemm. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig er boðið upp á hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sérstök athygli er vakin á því að þungaðar konur fá ókeypis inn í fylgd með maka. Skuldlausir félagar eru auðvitað ekki rukkaðir frekar en fyrri daginn. Sýningaáætlun og miðapantanir eru á vef félagsins: www.hugleikur.is.

sunnudagur, mars 23, 2008

Bara allt að gerast...



Smellið til að sjá stærri útgáfu.

Er þetta ekki dásamlega fagurt?

þriðjudagur, mars 11, 2008

Þetta er einfaldlega ekki sanngjarnt. Alltaf þarf allt skemmtilegt að gerast á nákvæmilega sama tíma. Nú þarf ég að ákveða mig - í þessari viku, helst í dag - hvernig mig langar að verja fyrri hluta júnímánaðar. Á ég að:

1. Fara á fræðilegt námskeið í mismunandi leikstílum hjá Rúnari Guðbrandssyni - ótrúlega spennandi
2. Fara á grunnnámskeið í leikritun hjá Bjarna Jónssyni - ótrúlega gagnlegt
3. Slá þessu upp í kæruleysi og skella mér með kór foreldranna í ævintýraför til New York að syngja Carmina Burana í Carnegie Hall? Það ku ekki vera óalgengt að kórum sé boðið að halda tónleika í húsinu en ætti að verða ótrúlega skemmtilegt engu að síður.

Ég er manneskja sem er haldin svakalegum valkvíða á góðum degi. Þessu sé ég ekki fram á að geta ráðið úr upp á eigin spýtur.

Einhvers staðar á ég Magic 8 ball...