mánudagur, mars 31, 2008

Mig langar mjög skyndilega í hundasúrur. Helst þær sem er að finna í Þjórsárdalnum. Grunar að um persónulegan vorboða sé að ræða.

Ætla að vona að ég hafi ekki verið að hrína á mig sex tonnum af snjó. 7-9-13.

Sýningar um helgina gengu vel. Leikhópurinn stendur sig eins og þrettán höfða hetja og þeir áhorfendur sem mættu virtust skemmta sér konunglega. Næstu sýningar eru á fimmtudag, föstudag og sunnudag. Ég mun þreyta frumraun mína sem ljósamaður á föstudagssýningunni. Held að þá sé lítið eftir sem ég hef ekki gert í leikhúsi. Jú! Ég hef aldrei séð um leikskrá. Hlaut að vera eitthvað.

Ég má samt ekki einblína um of á sýninguna. Er víst að syngja á tónleikum annað kvöld og er sífellt að gleyma því. Mun þar kyrja tvo dúetta ásamt því að endurflytja Heimskringluna frá því um daginn. Merkilegt hvað áhyggjur yfir slíku minnka eftir því sem reynslan eykst. Ég segi nú kannski ekki að ég sé orðin einhver stjörnusöngkona en verð að viðurkenna að ég er mun öruggar heldur en bara fyrir ári síðan. Áhugasamir geta kíkt inn í Norræna húsið á þriðjudag kl. 20.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef ekki finnast hundasúrur á þessum verstu tímum, þá er hægt að fara í næstu búð og kaupa svokallaðar skrautsúrur í salatsölunni. Það er fallegra en hundasúra og næstum eins gott. Bara ekki alveg eins súrt.

Skotta

Ásta sagði...

Ég er ekki alveg viss um að hundasúrur bragðist eins vel þegar lóusönginn vantar.

Nafnlaus sagði...

hlustar bara á hann af ipod!

Spunkhildur sagði...

Til hamingju með sýninguna, ég skemmti mér vel. Þú ert bara að rokka þessa dagana...

Sigga Lára sagði...

Hundasúrukreifíng? Já menn verða auðvitað kolóléttir af að koma nálægt svona sýningu.