þriðjudagur, apríl 22, 2008

Vorið er komið og beljuhamurinn sprettur á. Hér á árum áður - kannski 10 árum - fylgi þessu tímabili þrá eftir útlöndum og seiðingur í útlimum. Lausnin var að skella sér á húrrandi fyllerí - hérlendis eða erlendis. Eins og belja að vori lýsti ástandinu ansi vel.

Í dag vaknar maður með þrá eftir uppþvottavél og flengist um bæinn þveran og endilangan að leita að einni nógu ódýrri. Ég finn líka fyrir löngun til að finna öllum slæðum og treflum almennilegan stað í íbúðinni. Þessar tuskur eru eins og æxli út um allt og vonlaust að finna þá einu réttu þegar mikið liggur við og maður er orðinn of seinn í vinnuna.

Þegar fylleríistækifærin lenda í fanginu á manni hristir maður hausinn þreytulega og hugsar til þess með unaðshrolli hversu gott það verði nú að vakna óþunn á sunnudagsmorgni með alla orku til reiðu tilbúin að tækla garðinn eða þvottinn.

En hvað það er gaman að verða miðaldra.

Engin ummæli: