fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Já - komin heim úr heimsreisu og loksins farin að minna á viti borna manneskju. Svaf í rúma 12 tíma í gær og í nótt og veitti ekki af. Ég veit að flesta þyrstir í fréttir og ferðalýsingar af hinum framandi landi og er ég hrædd um að þar muni ég valda vonbrigðum. Held nefnilega að flestir líti á Ástralíu sem hið endanlega Langtíburtistan - ólgandi samfélag framandi menningastrauma, hressilegs nýlenduanda afkomenda uppreisnarseggja sem lifa í sátt og samlyndi við frumbyggja með rætur djúpt ofan í rauðan sandinn. Og það má vel vera - en ekki hlaupið að því að koma auga á það. Ég rak mig miklu meira á alla þá sameiginlegu og kunnuglegu þætti sem landið hefur upp á að bjóða:

Fyrir utan kakkalakkaauglýsingarnar er sjónvarpið alveg nákvæmlega eins; Lost, Desperate housewives og raunveruleikaþættir í hrönnum.

Þótt hitinn gæti verið þrúgandi komu slæmir rigningadagar inn á milli. Þegar ég lít út um gluggann hér er auðvelt að ímynda sér að ég sé ennþá í Ástralíu. Túnin eru græn og göturnar votur. Hægri réttur umferðarinnar kemur upp um landið. Og skortur á pálmatrjám.

Gríðarleg minnimáttarkennd gagnvart umheiminum, sú tilfinning að eyjastatusinn geri það að verkum að allir gleymi manni, ámótleg þörf til að rifna úr stolti þegar samlanda tekst að láta á sér bera á erlendum vettvangi - já eða fær bara að vera með.

Fólk af asísku bergi brotið mun algengara úti á götu heldur en svart fólk.

Sundárátta.

Greiður aðgangur að ýmsum sykurlausum kóladrykkjum í öllum verslunum (mjög mikilvægt atriði og alls ekki sjálfsagt hef ég komist að.)

Á íslandi er viðkvæðið "þetta reddast" - "no worries" segja Ástralir við öll tækifæri og þannig er það bara.


Auðvitað var slatti af hlutum sem stangast á í samfélögunum tveimur:

Thongs - þau sem fara á fæturnar. Mig grunar að fólk fái ekki afgreiðslu í bönkum nema það mæti skóað á þann hátt.

Maður staulast inn í einhverja búð eða veitingastað; móður og másandi, svitinn rennur í stríðum straumum og myndar polla á gólfi:
Skraufaþurr Ástrali: "G'day mate. Beautiful day, eh?"
Fljótandi Íslendingur: *más*
Skraufaþurr Ástrali: "No worries."

Strendur - öldur - bjór - vín ... fleiri strendur - stærri öldur - meiri bjór - betra vín...

Tónlistin. Ég gæti alveg trúað að það sé margt skemmtilegt að gerast í frumbyggjatónlist - en tónlistasmekkur hins meðal skjannahvíta Ástrala er skelfilega vondur. Endlaust kántrí og meðalmennskurokk. Allt eins og einstaklega óspennandi.

Almennt fínn matur, ansi hollur og á viðráðanlegu verði. Slysaðist ekki inn á einn einasta skyndibitastað á meðan ég var þarna. Pizza telst ekki með er það nokkuð?

Kengúrukjöt á grillið. Herramannsmatur er það er ekki of steikt (þarf helst vera soldið bleikt ennþá ef það á ekki að myndast lifrarbragð.) Er líka prýðisgott kalt ofan á brauð með brie osti.

Feminíski andinn svífur ekki beint yfir vötnum. Þó er að myndast þar þverpólitísk samstaða sem konur alls staðar mættu taka sér til fyrirmyndar.

4 ummæli:

Varríus sagði...

Var að lesa viðtal við hina fornfrægu rokkdrottningu Suzy Quattro. Hún hyggur víst á endurkomu, nema hvað það er rangnefni þar sem hún hefur víst aldrei hætt - heldur 70-100 tónleika á ári, FLESTA Í ÁSTRALÍU!

Klárlega smekkmenn Ástralir, enda Suzy eins og allir vita næst kynþokkafyllsti bassaleikari heims á eftir Lofti.

Velkomin heim.

Ásta sagði...

Takk :)

Þeir virðast reyndar vera opnir fyrir velflestu þó frumleikinn sé ekki mikill á meðal ástralskra tónlistarmanna. Það ku a.m.k. vera mjög auðvelt að rekast á íslenska tónlist þarna.

Þórunn Gréta sagði...

Velkomin heim. Sjáumst í hljómfræði. Mundu krómatísku þríundatengslin :þ

Ásta sagði...

Ah! Ég veit ekkert um krómatísk þríundartengsl! Verð að fá glósur og/eða heimaverkefni hjá þér. Eða þarf ég kannski að láta Hróðmar útskýra þetta?