föstudagur, september 29, 2006
Ég klifraði upp á hitaveituhólinn hjá Sjómannaskólanum í gærkvöldi ásamt nágrönnum mínum og horfði á borgarljósin. Og komst að því að alltof margar stofnanir, skólar, kirkjur og húsfélög hafa gaman af því að flóðlýsa bílastæðin sín. Ég stóð samt þarna í hálftíma og hlustaði á ipoddinn og beið spennt eftir því að kveikt yrði aftur á götuljósunum svo ég gæti kannski séð hverjir stæðu þarna uppi á hólnum með mér en þegar til kom bættu götuljósinn engu við birtustigið. Ég var þó ekki sammála einum samferðamanni mínum þarna sem tilkynnti þegar ljósin komu á: "Ég veit ekki með ykkur en mér fannst þetta gjörsamlega misheppnað." Ef ekkert annað þá gaf þessi viðburður borgarbúum sjaldgæft tækifæri til að slökkva á sjónvarpinu um stund og njóta kvöldblíðunnar í rólegheitum. Það var líka samt skemmtilega spúkí þegar slökkt var á götuljósunum. Þá var ég ennþá á leið upp að hólnum og skyndilega varð gatan mín almyrkvuð og stundi í kór yfir áhrifunum. Sennilega voru áhrifin mest og best í návígi en týndust við yfirsýnina.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli