
Er ekki stórhættulegt að láta bendla sig við þessa hreyfinu? Eiga ekki allir hugsandi kvenmenn að stinga höfðinu í sandinn og kalla sig "jafnréttissinna" - svona til að enginn misskilji örugglega?
Afneitar fólk kristnidómi og segir sig úr þjóðkirkjunni umvörpum í hvert skipti sem Gunnar í Krossinum segir eitthvað heimskulegt? Hættir fólk afskipum af stjórnmálum þegar ráðherrar stíga upp í kokið á sér? Mér er spurn.
Ekki að ég sé að líkja konunum í Feministafélaginu við Gunnar í Krossinum - né kalla viðhorf þeirra heimskulegt sem það er alls ekki. En ég má alveg kalla mig feminista án þess að gangast undir og taka þátt í öllu því sem Feministafélagið tekur sér fyrir hendur. Síðast þegar ég gáði var feminismi hvorki trúfélag né stjórnmálaflokkur - heldur hugmyndafræði.
Og ég er orðin afskaplega þreytt á því að í hvert skipti sem Feministafélagið vekur athygli á einhverju sem misbýður þeim snýst öll umræðan um réttmæti feminista til að segja skoðun sína og sama bitra tuggan tuggin enn á ný.