fimmtudagur, október 25, 2007

Ég dröslaði sjálfri mér í Salinn í Kópavogi í gærkvöldi og hlýddi þar á glænýja íslenska óperu. Skuggablóm eftir Helga Rafn í uppsetninu Söngskólans. Mjög flott verk sem var kannski ekki án allra hnökra (ég náði ekki mikilli tengingu við söguþráðinn og talkaflarnir sem voru stundum sungnir og stundum ekki stungu í stúf) en uppsetningin sjálf var glæsileg; mjög góð nýting á kórnum, tónlistin oft grípandi og það þarf ekki að taka það fram að allt var fantavel flutt. Og það skal alltaf gefa prik þegar farið er ótroðnar leiðir í óperugerð.

Nú fer að styttast í frumsýningu á óperunni hjá Tónó. Við förum mun hefðbundnari leið og setjum upp "Die Verschworenen" eftir Schubert. Verk sem er byggt á Lysiströtu eftir Aristófanes í kringum 19. aldar viðhorf til samskipta kynjanna. Í meðförum Schubert verður sagan frekar kjánaleg en tónlistin er margbreytileg, fjörug og skemmtileg. Og - hey! - þetta er frumsýning á verkinu á Íslandi. Sextán söngvarar - 8 konur og 8 karlar - og heil sinfóníuhljómsveit nemenda skólans ætla að flytja herlegheitin í Iðnó þarnæstu helgi (s.s. 2., 3., og 4. nóvember). Ég á örugglega eftir að auglýsa betur seinna. T.d. með myndum. En það verður lítið um þær þar til ég klára að klambra saman búningum. Ég er ekki að sauma þá alla - það væri geðveiki - og er búin að redda langflestu í búningageymslu Óperunnar - en það tekur þó sinn tíma að sauma 8 kyrtla á karlana og laga aðeins til búninga kvennanna. Ég er nokkuð stollt af því að enn sem komið er hefur útlagður búningakostnaður ekki farið yfir 5000 kr. Ég þarf bara að verða mér út um meiri tíma - sérstaklega ef ég ætla mér að vera búin að öllu fyrir næsta sunnudag. Langar einhvern til að hjálpa við að rumpa saman búningum? Þetta er svosem engin kúnst - bara klippa, lita og rumpa.

Inni á milli þarf ég svo að klára að læra fj. textann við lögin. Þetta komið svona ca. 95% en þar sem allt er á þýsku verð ég læra upp á páfagaukinn þar sem ég og þýska höfum aldrei verið miklir mátar. Læt fylgja með tvö tóndæmi úr óperunni - reyndar þau sem ég þarf að leggjast hvað mest yfir til að ná almennilega.

Fyrst höfum við kvennaskarann að samþykkja með semingi að fylgja greifynjunni út í kynlífsverkfallið:

'Ja, Wir Schworen' (No.4: Die Verschworenen)

Síðan hoppum við inn í seinni hlutann þar sem ráðagerð greifynjunnar virðist vera að fara út um þúfur:

'Kampf und Krieg' (No. 11: Finale)

Það þarf varla að taka það fram að þetta er ekki Tónó uppsetningin. Spilast ekki í browser (a.m.k. ekki mínum.)

mánudagur, október 15, 2007

Það lítur út fyrir að ég sé á leið til Danmerkur í annað skipti á árinu. Fjölskyldan er að spá í að hittast í Arhus yfir jól og áramót og hafa þar íslenskan hátíðleika í hávegum á danskri grund.

Það er hins vegar ekki fýsilegt fyrir okkur öll að leggjast inn á Halldór og Jóhönnu Ýr í tvær vikur og líklegt til að stýra öllum hlutaðeigendum í átt að geðveiki. Því ætla mamma og pabbi að finna sér gistingu. Spurningin er bara hvar. Það er fjandi dýrt að gista á hóteli á þessum tíma. Veit einhver um ódýra gistilausn á þessu svæði? Nú er yfirleitt allt morandi í Íslendingum í námi þarna - er ekki einhver sem býr í Arhus eða þar um kring sem ætlar að eyða jólum og áramótum á Íslandi og væri til í að leigja heimilið ráðsettum eldri hjónum?

þriðjudagur, október 09, 2007

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega spennt fyrir Galdrakarlinu í Oz - hef t.d. aldrei lesið bækurnar - en þessi útgáfa er soldið forvitnileg:



Tin Man Trailer - video powered by Metacafe


Zooey Deschanel er liðtæk söngkona - það væri nú í takt við annað að poppa gamla góða regnbogaslagarann soldið dugleg upp. Ég bíð spennt.
Ég elska Mastercard. Þar vinnur fjarskalega gott fólk og örugglega forkunnarfagurt sem er tilbúið að leysa úr vandræðum og koma til móts við fjármálablint fólk.

Ég fæ þá ekki magasár ofan í allt annað í dag.

mánudagur, október 08, 2007

En sú stuðhelgi. Margt smátt fór örugglega vel fram þótt ég hafi ekki tekið mikið eftir því sökum þess hversu fókuseruð ég var á minn eigin nafla. Bókstaflega. Fékk að kynnast náið þeim krankleika - sem hefur þjáð hana fangor árum saman - frá því á föstudagseftirmiðdag. Og sem sér nú (vonandi) fyrir endann á. Eða svo segja læknarnir á Lansa. Ég lá s.s. með djöfullegar magakvalir alla helgina og barðist við að harka af mér sökum anna. Hef hugsað mér að skella skuldinni af öllum leikósigrum á veikindin. Ég er hundfúl yfir því að hafa misst af Margt smátt eftirpartýinu sem var víst hin besta skemmtun og er farið að finnast eftir ófarir síðustu vikna (lús+flensa+bakbólgur+blöðrur á eggjastokk) að alheimurinn skuldi mér þó ekki nema eitt gott djamm. Ég tek líka við peningum.

Mamma vendi sínu kvæði í kross og stakk af til útlanda með Clöru Waage í dag. Ætlar að sóla sig á Spáni í 3 vikur eins og ekkert væri. Er þá tala fjölskyldumeðlima á landinu í sögulegu lágmarki - aðeins ég og pabbi eftir. Kannski ég kíki til hans á næstunni og panti pizzu. Ég verð hvort eð er mikið á sveimi í vesturbænum þar sem leikstjórnarnámskeiðið byrjar af fullu trukki á ný í kvöld. Á ég ekki von á öðru en það verði jafn gaman og það verður strembið - líkt og fyrra námskeiðið. Ég ætla að sleppa að leikstýra fyrir nóvemberdagskrá Hugleiks - taka þátt í eins og einni óperu í staðinn - og einblína frekar á jóladagskrána. Ef einhver veit um velmeðfarið jólatré á þessum árstíma má hnippa í mig.

fimmtudagur, október 04, 2007

Fjársýslan hefur tilhneigingu til að koma þeim leiðréttingum sem við óskum eftir í gegn eftir dúk og disk. Var innihald samræðna sem við samstarfskona mín áttum fyrir stundu.

Af hverju "dúk og disk"? Hvað hafa dúkar og diskar með frestunaráráttu að gera?

Af hverju hef ég aldrei spáð í þessu áður? Maður tileinkar sér alls kyns fraseringar án þess að hafa minnsta grun um hvernig eða hvers vegna þær virka.

Ég verð hins vegar alltaf að vita hvernig hlutirnir virka - svona þegar ég vakna loks til meðvitundar um tilvist þeirra.

Hvað segja málfarsráðunautin?