miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Athugið: í dag er Ásta sem útspýtt hundsskinn. Sýnið aðgát. Var sífellt að vakna í nótt og þurfti þar að auki að díla við ansi ósléttar daumfarir. Smáatriðin eru dofnuð - sem er allt eins gott því fátt er jafn leiðinlegt og draumaþus í bloggum - en þó veit ég að ég var að reyna að leika í leiksýningu og gerði það illa. Þó tókst mér að dröslast í gegnum hlutverkið og fólk reyndi að segja mér að það hefði ekki verið svo slæmt. Sem er skref upp á við frá því fyrir nokkrum vikum þegar ég mig dreymdi svipaða draum nema þar gleymdi ég innkomum, lét fólk bíða eftir mér á meðan ég leitaði að handritinu baksviðs því ég var búin að gleyma textanum og stóð síðan fyrir miðju sviði og blaðaði í textanum án þess að finna rétta staðinn. Það var verra.

Nú spái ég í því hvers vegna undirmeðvitundin er markvisst að reyna að grafa undan sviðsöryggi mínu. Kannski er of langt um liðið síðan ég lék í einhverju - rúmt ár(Margt smátt telst varla með því það var framkvæmt með aðeins hálfri vitund) en líklegra er þó að þarna sé heilaófétið að beita hentugri og nærtækri táknmyndir með vísun í eitthvað allt annað. Sennilega leikstjórnina. Og bið ég það hér með pent um að hætta því hið snarasta. Leikstjórnin gengur vel - ég þarf bara að redda fullt af litlum smáatriðum og er hrædd um að gleyma einhverju mikilvægu. Líkurnar á því aukast bara ef ég þarf að muna eftir hlutum alvarlega svefnvana.

Og nú er ég farin til að brjótast inn í Þjóðleikhúskjallarann og mæla sviðið.

Engin ummæli: