Aftansöngur jóla - desemberkjallaradagskrá Hugleiks - var frumsýndur á sunnudaginn og tókst bara ansi vel þótt ég segi sjálf frá. Mikið sungið, leikið og haft gaman.
Úr verkinu "Nýjar bomsur"
Svo maður plöggi nú almennilega:
Leikfélagið Hugleikur heldur árlega jólaskemmtun sína í Þjóðleikhúskjallaranum sunnudaginn 9. desember og þriðjudaginn 11. desember. Dagskráin hefur yfirskriftina "Aftansöngur jóla", enda verður sungið um aftaninn, auk þess sem aftansöngur kemur við sögu í tveimur leikþáttum sem sýndir verða.
Alls verða fluttir þrír nýir leikþættir eftir félagsmenn, sem meira eða minna tengjast jólunum. Verkin sem sýnd verða eru:
Á í messunni e. Árna Friðriksson í leikstjórn Júlíu Hannam
Nýjar bomsur e. Sigurð H. Pálsson í leikstjórn Ástu Gísladóttur
Þykist þú eiga veski? e. Fríðu Bonnie Andersen í leikstjórn Nönnu Vilhelmsdóttur
Auk leikþáttanna verða flutt ósköpin öll af jólalegri tónlist. Fram koma einsöngvarar úr röðum Hugleikara, kammerkórinn Hjárómur lætur sig ekki vanta, og á þriðjudagskvöldið stígur hljómsveitin Hraun á stokk. Hraun verður fjarri góðu gamni á sunnudagskvöldið, en það kemur til af góðu, þar sem hljómsveitin verður í London að keppa til úrslita í hljómsveitakeppni BBC World Service, The Next Big Thing.
Loks má gera ráð fyrir að gestum gefist kostur á að spreyta sig á föndri.
Húsið opnar kl. 20:30, en dagskráin hefst kl. 21:00 bæði kvöldin. Almennt miðaverð er 1000 kr.
2 ummæli:
Sýningin á Sunndagskvöldið var alveg frábær, leikarar stóðu sig vel og minnsta kosti einn leikstjóri (hlutdrægni) Svo var söngurinn svo fallegur og fagmannlegur, enda margt sönglært fólk í Hjárómi. Dr. Tóta söng líka mjög vel, ég hefi ekki heyrt í henni fyrr, en líkaði mjög vel.
mamma
Hæ leykstýra. Takk fyrir mig, þér eruð upprennandi snillingur.
Skrifa ummæli