laugardagur, mars 29, 2008

Ég er ekki með fulle fem. Hendi bara inn posternum og læt eins og það sé nóg.



Tekið á æfingu í vikunni.



Tekið á æfingu í vikunni með ljósin kveikt (ég keyri hljóðið á sýningum og er því dæmd til að húka uppi í ljósaboxi).

Frumsýningin í gær tókst með miklum ágætum og vonandi verður önnur sýning eins góð. Ég get ekki haft fleiri orð um það því ég þarf að drífa mig niður í Möguleikhús með pöntunarlistann.


Hugleikur frumsýnir föstudaginn 28. mars leikritið 39½ viku eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Leikstjórar eru Ásta Gísladóttir, Júlía Hannam og Sigurður H. Pálsson.

39½ vika er farsakenndur gamanleikur sem snýst að verulegu leyti um barneignir og sauðfjárrækt. Sveitapilturinn Valur fær afnot af skrifstofu frænku sinnar, sem starfar sem félagsráðgjafi á kvennadeild sjúkrahúss. Valur er að leggja lokahönd á lokaritgerð sína um ættir og örlög skagfirsku sauðkindarinnar. Vera hans á skrifstofunni leiðir til hvers konar misskilnings, eins og vera ber í góðum gamanleik, auk þess sem ýmis annar ruglingur og uppákomur flækir málin enn frekar. Þá er hefðbundnum kynhlutverkum á ýmsan hátt gefið langt nef.

Sýningin er tæpar tvær klukkustundir að lengd, með hléi. Sýnt er í Möguleikhúsinu við Hlemm. Almennt miðaverð er 1.500 kr. en 1.000 kr. fyrir nemendur, elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig er boðið upp á hópafslátt fyrir 10 manna hópa og fleiri, en þá er miðaverðið 1.000 kr. Sérstök athygli er vakin á því að þungaðar konur fá ókeypis inn í fylgd með maka. Skuldlausir félagar eru auðvitað ekki rukkaðir frekar en fyrri daginn. Sýningaáætlun og miðapantanir eru á vef félagsins: www.hugleikur.is.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

skemmtu þér vel. það myndi ég örugglega gera ef ég gæti mætt!

Skotta